Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

07. desember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Hátíð útskrifaðra doktora við Háskóla Íslands

Ágætu nýdoktorar, rektor og aðrir gestir:

Það er hátíðlegt að vera hér í Háskóla Íslands á fullveldisdeginum til að heiðra doktora sem hafa útskrifast frá skólanum í ár.

Það má segja að það sé undravert hvað rannsóknatengt framhaldsnám á doktorsstigi hefur aukist hér á landi á undanförnum áratug og þá einkum við Háskóla Íslands. Á tíu árum hefur fjöldi nemenda í doktorsnámi hér á landi meira en tífaldast og árlegar brautskráningar farið frá því að teljast á fingrum annarrar í að vera vel á fimmta tug.

Í raun má segja að við höfum flutt hluta af doktorsnáminu okkar heim til Íslands, því þar til fyrir skemmstu fóru nær allir til útlanda sem áhuga höfðu á að taka doktorspróf. Það er auðvitað mjög mikilvægt að ungt fólk haldi áfram að fara erlendis til náms og starfa, við erum jú bara örþjóð og það er styrkur fyrir okkur að ungt fólk sæki menntun og þjálfun á bestu stöðum vestan hafs og austan og ekki síður hitt að þau komi síðan aftur heim. Það er hins vegar einnig mikilvægt að byggja upp doktorsnám hér á landi, til að efla vísindi og nýsköpun í landinu. Uppbygging doktorsnáms hefur verið forsenda þess að rannsóknarvirkni við Háskóla Íslands hefur aukist svo sem raun ber vitni og að skólinn er nú meðal 300 fremstu háskóla í heimi. Við megum nefnilega ekki gleyma því að þurfum að standast alþjóðlegan samanburð, að við erum í alþjóðlegri samkeppni og á það líka við samkeppni um doktorsnema, bæði innlenda og erlenda.

Starfsnefndir Vísinda- og tækniráðs unnu á síðasta ári skýrslu undir heitinu „Ný sýn – Breytingar á vísinda– og nýsköpunarkerfinu“. Skýrslan er nú fullunnin og er veganesti inn í vinnu nýskipaðs ráðs við mótun nýrrar stefnu til næstu þriggja ára. Í skýrslunni er annars vegar heildstætt yfirlit yfir vísinda- og nýsköpunarkerfið á Íslandi, og hins vegar tillögur um breytingar á kerfinu. Tillögurnar lúta m.a. að háskólum, styrkingu doktorsnáms með tilliti til gæða og fjármögnunar og að auknu samstarfi innanlands um doktorsnámið.

Þó svo að enn sem komið er stundi um 95% allra doktorsnema nám við Háskóla Íslands er mikilvægt að hugsa heildstætt um gæði doktorsnámsins í öllu háskólakerfinu á Íslandi. Það er nauðsynlegt að tryggja gæði doktorsnáms hér á landi þannig að tryggt sé að námið uppfylli alþjóðlegar gæðakröfur. Miklar kröfur þurfa að vera gerðar til fræðilegra gæða verkefnisins og til væntanlegs doktorsnemanda, en kannski skiptir ekki hvað síst í þessu máli hæfni leiðbeinandans til að taka að sér doktorsnemendur. Í tillögum starfsnefnda Vísinda- og tækniráðs er lagt til að stofnað verði sérstaks „Doktorsráðs“ sem fjalli um fagleg gæði rannsóknarverkefna sem lögð eru fram sem doktorsverkefni auk hæfni nemenda og leiðbeinanda. Þar er lagt til að í boði verði ákveðinn fjöldi styrkja til doktorsnáms á hverju ári sem geri slíkt nám eftirsóknarvert og geri háskólum og rannsóknarstofnunum kleift að sinna doktorsnemum vel. Lagt er til að fjármagnaðar yrðu 200 launaðar doktorsnemastöður sem keppt yrði um á grundvelli gæða verkefnis, hæfni leiðbeinenda og getu nemanda. Doktorsnemar hafa oft tekið langan tíma í að ljúka námi, ekki að þeir séu í „doktorsnámi í tómstundum“ eins og stundum hefur verið fleygt heldur er það bara staðreynd að oft á tíðum þurfa nemar að standa í brauðstritinu til að framfleyta sér. Með þessari tilhögun ættu að útskrifast um 50-60 vel menntaðir og þjálfaðir doktorar á ári sem er hlutfallslega sambærilegt við þann fjölda sem útskrifast annars staðar á Norðurlöndunum.

Þessi tillaga er nú til skoðunar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og mun ég skipa starfshóp innan tíðar til að fjalla um tillöguna.

Ágætu doktorar !

Það er á ykkar ábyrgð að nýta menntunina sem best sjálfum ykkur og okkur hinum til framdráttar. Ég óska ykkur velfarnaðar á hvaða starfsvettvangi sem þið kjósið. Sum munu halda áfram í rannsóknum við innlenda eða erlenda háskóla, meðan aðrir leita á annan vettvang. Menntunin og þjálfunin verður aldrei frá ykkur tekin og mun ekki aðeins nýtast ykkur sem einstaklingum heldur samfélaginu öllu.

Ég óska ykkur til hamingju með þennan stóra áfanga, og Háskóla Íslands til hamingju með að hafa útskrifað svo glæsilegan hóp doktora á árinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum