Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

15. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Dagur íslenska táknmálsins - 11. febrúar 2013 í Háskóla Íslands

Ágætu gestir, gleðilega hátíð!

Í dag fögnum við í fyrsta sinn degi íslenska táknmálsins. Fyrir valinu varð afmælisdagur Félags heyrnarlausra en það var stofnað í Reykjavík þann 11. febrúar árið 1960.
Það að tileinka þennan dag íslenska táknmálinu á sér samsvörun í degi íslenskrar tungu sem haldinn hefur verið hátíðlegur þann 16. nóvember, á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, frá árinu 1996. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur síðan þá beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þann dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.
Í dag beinum við sjónum okkar að íslenska táknmálinu. Viðurkenning íslenska táknmálsins hefur um árabil verið eitt helsta baráttumál Félags heyrnarlausra fyrir hönd döff fólks en það eru þeir einstaklingar sem nota táknmál í daglegum samræðum og tilheyra döff menningu.
Þann 12. mars 2009 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um íslenska málstefnu en þar segir m.a. að brýnt sé að tryggja lagalega stöðu íslenska táknmálsins og þar með rétt þeirra sem hafa það að fyrsta máli. Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði nefnd um lagalega stöðu íslenskrar tungu og táknmálsins í maí það sama ár. Verkefni nefndarinnar var að setja fram tillögur um að tryggja lagalega stöðu íslenskrar tungu og íslenska táknmálsins í íslensku samfélagi. Nefndin skilaði tillögum í skýrslu sem gefin var út í maí 2010. Frumvarp byggt á tillögum nefndarinnar var lagt fram á Alþingi um haustið og ári seinna eða þann 27. maí 2011 voru samþykkt lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Þar er íslenskt táknmál skilgreint sem fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Lögin voru samþykkt einróma og er ógleymanleg sú stund þegar viðstaddir á þingpöllum fögnuðu með lófataki á táknmáli. Þetta var söguleg stund og nú tæpum tveimur árum seinna fögnum við þessum degi sem áfangasigri í áframhaldandi baráttu um að standa vörð um tvö jafnrétthá tungumál á Íslandi.
Í lögunum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er kveðið á um stofnun sérstakrar málnefndar um íslenskt táknmál, en málnefnd um íslenska tungu hefur verið starfrækt árum saman. Málnefnd um íslenskt táknmál var stofnuð í október 2011 og hefur þegar látið til sín taka á ýmsum sviðum. Hefur málnefndin haft veg og vanda af undirbúningi þessa dags og vil ég þakka henni kærlega fyrir það.
Auk setningar laganna um íslenska tungu og íslenskt táknmál hefur í lögum og reglugerðum um menntun á öllum skólastigum verið fjallað um réttindi heyrnarlausra og heyrnarskertra og staða táknmálsins styrkt.
Í rannsókn Valgerðar Stefánsdóttur forstöðukonu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra frá árinu 2005 sem fjallar um reynslu og samfélagsþátttöku heyrnarlausra einstaklinga og skilning þeirra á eigin lífi og stöðu innan íslensks samfélags eru markverðustu niðurstöðurnar þær að táknmál og heyrnarleysi er samofið persónu og sjálfsskilningi fólks sem talar táknmál. Tungumálið er einnig forsenda heilbrigðs sjálfsskilnings og gerir okkur kleift að sýna hver við erum og skilja hvernig aðrir sjá okkur. Hverjum einstaklingi er nauðsynlegt að mynda félagstengsl og eiga menningarsamfélag við annað fólk. Það gerist í gegnum tungumálið og því er það forsenda fyrir velferð einstaklingsins að eiga sér rætur í málsamfélagi þeirra sem tala sama tungumál.
Um þetta málefni er fjallað í nýrri aðalnámskrá fyrir grunnskóla en í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á ritun allra greinanámskráa, þar með talið í íslensku. Sú námskrá tekur í senn til íslensku, íslensku sem annars tungumáls og íslensk táknmáls, en í stórum dráttum er um að ræða endurskoðun á aðalnámskrám frá 1999 þar sem í fyrsta sinn voru sett ákvæði um kennslu í íslensku táknmáli. Þar segir m.a. að traust kunnátta í móðurmáli sé meginundirstaða staðgóðrar menntunar. Jafnframt að lestur sé öflugt tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti sé ein af nauðsynlegum forsendum þátttöku í samfélaginu. Börn hefja skólagöngu talandi á móðurmáli sínu, hvort sem um er að ræða á íslensku, íslensku táknmáli eða öðru tungumáli. Skólinn verður í upphafi virkur þátttakandi í máluppeldi barnsins ásamt heimili þess. Þetta veldur því að námsgreinin íslenska, ásamt íslensku táknmáli fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta, hefur ákveðna sérstöðu meðal annarra námsgreina skólans. Í aðalnámskránni segir einnig að hlutverk íslenskukennslu, kennslu í íslensku táknmáli og máluppeldis sé víðtækt og margbrotið. Mál og bókmenntir eru menningararfur þjóðarinnar sem ber að rækta, virða, njóta og þróa. Sá arfur á eflaust drjúgan þátt í stöðu læsis þjóðarinnar og hve sjálfsagt það þykir að læra að lesa, skrifa og beita máli svo skiljist. Kennslan hefur einnig það hlutverk að efla tjáningu og sköpun í töluðu máli og rituðu, nota málið og kynnast mætti þess. Gott og ríkulegt talmál er ein meginforsenda samskipta og miðlunar og svo á einnig við um ritmálið sem er miðill sköpunar og birtir nýja þekkingu. Með þeim hætti meðal annars gegnir íslenskukennsla og kennsla í íslensku táknmáli því hlutverki að vera miðill hugsunar og eintal skrifara við sjálfan sig ef þörf er á því. Það er réttur hvers manns að öðlast þekkingu og færni í máli. Það skiptir einnig miklu að barn með annað mál en íslensku eigi þess kost að læra íslensku svo vel að það geti tekið fullan þátt í samfélaginu, notið menningar og átt þátt í því að móta hana. Hið sama gildir um þann sem er heyrnarskertur eða heyrnarlaus. Íslenskt táknmál er ekki síður en íslenska lykill að samfélaginu og virkri þátttöku í því.
Margþætt hlutverk náms í íslensku kallar á samstöðu og samstarf innan skóla um máluppeldi. Mikilvægt er að grunnskólar marki sér málstefnu á grundvelli aðalnámskrár og íslenskrar málstefnu sem Alþingi hefur samþykkt og að henni sé fylgt á öllum námssviðum.
Í morgun var ég í heimsókn í leikskólanum Sólborg og grunnskólanum Hlíðaskóla. Þar fékk ég að kynnast, sjá og heyra hvernig íslenska og íslenskt táknmál eru samofin öllu starfi skólanna á sérstaklega faglegan og ánægjulegan hátt. Vegna smæðar sinnar er íslenskt táknmál sérstaklega viðkvæmt og því ber að vanda til verka þegar unnið er með bæði tungumálin í skólum. Börnin þurfa á því að halda að eiga sér málsamfélag innan skólanna sem utan og því verður að standa vörð um að þau alist upp við tvítyngi beggja mála. Ábyrgð skólanna er mikil en ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis og sveitarfélaga er einnig mikil í að standa vörð um að mörkuð sé skýr stefna um að komið sé til móts við þá sjálfsögðu kröfu um ríkt máluppeldi allra barna, einnig þeirra sem reiða sig á táknmál og íslensku og þeirra barna sem eru af erlendu bergi brotin.
Ein af stofnunum mennta- og menningarmálaráðuneytis er Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra en hlutverk hennar er að sinna táknmálstúlkaþjónustu, kennslu í táknmáli, rannsóknum á táknmáli og ráðgjöf þar að lútandi. Á dögunum hlaut miðstöðin nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu fyrir verkefnið SignWiki. Vefurinn byggir á opnum hugbúnaði þar sem nýttar eru tæknilegar lausnir sem orðið hafa til víðs vegar um heiminn og á miðstöðinni. Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að tákna orðin menntun og menning í orðabók SignWiki. Mér er sagt að það hafi tekist nokkurn veginn skammlaust, en þar er annars að finna ótalmargt fróðlegt og spennandi fyrir táknmálstalandi fólk en ekki síður fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér táknmál. Það er mikið ánægjuefni að hugmyndaríkt og skapandi fólk hefur tekið höndum saman við starfsfólk Samskiptamiðstöðvar um að þróa og vinna áfram með táknmálið.
Þetta málþing er haldið á vegum Rannsóknarstofu í táknmálsfræðum sem gegnir mikilvægu hlutverki í heildarmenginu. Rannsóknastofan var stofnuð árið 2011 og er hún fyrst og fremst samstarfsvettangur allra þeirra sem starfa að rannsóknum á íslenska táknmálinu. Fræðimenn á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Málvísindastofnun Háskóla Íslands eru aðilar að stofnunni. Tilkoma rannsóknastofunnar hefur bæði auðveldað og styrkt samstarf þeirra sem vinna að rannsóknum á íslenska táknmálinu. Styrkurinn felst ekki síst í því að samnýta krafta þeirra fáu sem við þetta vinna og hefur það skilað miklum árangri. Verkefni undir hatti rannsóknastofunnar eru nokkur, bæði á innlendum og erlendum vettvangi og er mikilvægt að starfsemi hennar vaxi og blómstri.
Kæru gestir. Ég fagna innilega þessum degi og þeim áfanga sem náðst hefur með viðurkenningu íslenska táknmálsins sem móðurmáls döff einstaklinga. Það er von mín að framtíðin sé björt og að allir taki höndum saman um að varðveita tungumálið og menningu þess um ókomna tíð og að menntakerfið geti stutt sem best við kennslu íslenska táknmálsins.
Því óska ég okkur öllum til hamingju með daginn og segi vitanlega að lokum:
DÖFF ER TÖFF!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum