Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Skóli margbreytileikans og stoðkerfi skóla

Góðir gestir

Velkomin á heilsdags málþing til að ræða skóla margbreytileikans og stoðkerfi skóla. Mennta- og menningarmálaráðuneytið kallar til marga hagsmunaaðila vegna óska frá skólasamfélaginu um að setja umræðu um þessi mál á dagskrá á öllum skólastigum, en ekki síst á grunnskólastiginu sem jafnframt er eina skólastigið þar sem er skólaskylda. Ætlunin er að beina einkum sjónum að skólagöngu nemenda með sérþarfir og stefnu um skóla án aðgreiningar sem fylgt hefur verið hér á landi mörg undanfarin ár. Stefnan er m.a. lögfest í lögum um leik- og grunnskóla og útfærð í reglugerðum og aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Með málþinginu er ætlunin að fara yfir framkvæmd stefnunnar, innleiðingu reglugerða og ræða um helstu álitamál, áskoranir og tækifæri, m.a. um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi skóla.

Ég vil byrja á því að þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóginn við að gera þetta málþing mögulegt, starfsfólki ráðuneytisins og öllum þeim sem taka þátt í störfum þingsins, t.d. með því að flytja erindi, taka þátt í pallborði og málstofum. Ég vil þakka Unnari Þór Böðvarssyni fyrrverandi skólastjóra fyrir styrka verkefnisstjórn við undirbúning þingsins og Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar í Háskóla Íslands sem einnig hefur aðstoðað við undirbúninginn. Eins vil ég þakka sérfræðingum á vegum Evrópumiðstöðvar fyrir þróun í sérkennslu fyrir að taka þátt í þinginu með okkur, en 5 manna sérfræðihópur á vegum miðstöðvarinnar er staddur hér á landi á vinnufundi. – Dear foreign guests. Thank you so much for coming to this meeting, participating and sharing your expertise.

Megináhersla í þróun menntalöggjafar og skólahalds gegnum 20. öldina og einnig nú í upphafi 21. aldar, hefur verið á almenna menntun sem álitin er undirstaða og forsenda samfélagsþátttöku og þátttöku fólks í menningarlífi og atvinnulífi. Skóli á að vera hreyfiafl í samfélaginu. Helstu forsendur skólahalds eru enn þær sömu: Lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og jafnrétti. Framsetning þessara grunnþátta menntunar og skólahalds hefur þó breyst og þróast í takt við samfélagsbreytingar og nýja þekkingu. Hugmyndir um lýðræði og jafnrétti hafa breyst, einnig hugmyndir um menntun, þekkingu og hæfni. Dæmi um þetta eru kröfur um sífellda útvíkkun jafnréttishugtaksins í menntakerfinu á fleiri svið samfélagsins, t.d. jafnrétti óháð búsetu, kyni, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Rétt er að rifja upp þróun í skólamálum hér á landi undanfarna áratugi með hliðsjón af kennslu nemenda með sérþarfir og sérfræðiþjónustu skóla. Segja má að með setningu grunnskólalaganna 1974 hafi hlutverk grunnskólans verið skilgreint á þann hátt að skólanum var gert skylt að koma til móts við þarfir nemenda sinna. Þetta var grundvallarbreyting á þeim tíma þar sem fyrir setningu laganna var hlutverk skólanna gagnvart nemendum einkum að kenna tilteknar námsgreinar. Þessari skólastefnu var fylgt eftir með því að færa yfirstjórn grunnskóla heim í héruð, landinu var skipt upp í fræðsluumdæmi og stofnuð embætti fræðslustjóra sem áttu að hafa umsjón með kennslu og skólahaldi, hafa eftirlit með framkvæmd laganna og veita skólum sérfræðiþjónustu.

Árið 1990 var sett reglugerð um sérkennslu þar sem í fyrsta skipti voru sett ákvæði um að sem flestir grunnskólanemendur með sérstakar námsþarfir ættu að njóta sérkennslu í heimaskóla. Árið 1991 voru sett ný lög um grunnskóla en þar var aukin áhersla á að allir nemendur gætu sótt sinn heimaskóla og var þeim fylgt eftir með setningu reglugerða um sérkennslu. Á þessum tíma gerðu aðstandendur fatlaðra barna í vaxandi mæli kröfur um að börn þeirra gætu fengið kennslu í heimaskóla og á sama tíma efldust skólarnir sem faglegar stofnanir sem gátu tekið á móti fjölbreyttari nemendahópi. Með setningu grunnskólalaga 1995 var enn frekar skerpt á þeirri stefnu að sem flestir gætu fengið kennslu í heimaskóla. Sveitarfélög tóku jafnframt við rekstri grunnskóla og fræðsluskrifstofur á vegum ríkisins voru lagðar niður. Sveitarfélög áttu í stað þess að skipuleggja sérfræðiþjónustu við skóla og skólastjórum og kennurum átti að standa til boða ráðgjöf og stuðningur sérfræðiþjónustu vegna almenns skólastarfs. Jafnframt var talið mikilvægt að grunnskólar hefðu faglegar forsendur til að taka við flóknari viðfangsefnum á sviði sérkennslu til að bregðast við sífellt vaxandi kröfum foreldra barna með sérþarfir um að þau gætu fengið kennslu í heimaskóla.

Á svipuðum tíma eða árið 1994 var samþykkt Salamanca-yfirlýsingin og rammaáætlun um aðgerðir vegna nemenda með sérþarfir. Menntamálaráðuneytið gaf árið 1995 út yfirlýsinguna í íslenskri þýðingu og kynnti hana rækilega fyrir aðilum skólasamfélagins. Í yfirlýsingunni er skorað á stjórnvöld allra landa að leggja á það allt kapp, bæði í stefnumótun og með fjárveitingum, að koma fram umbótum á menntakerfum landanna svo að þau yrðu fær um sinna öllum börnum án sérstakrar aðgreiningar. Grundvöllur Salamanca-yfirlýsingarinnar er að skólar eigi að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska eins og segir í yfirlýsingunni. Hugtakið skóli án aðgreiningar kom fyrst fyrir í íslensku máli í Salamanca-yfirlýsingunni og er því að verða 20 ára gamalt hugtak hér á landi. Árið 1999 var síðan gefin út heildstæð aðalnámskrá fyrir grunnskóla þar sem meginstef Salamancayfirlýsingarinnar lá til grundvallar, en þar segir að grunnskólum sé skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt. Stefnan um skóla án aðgreiningar var síðan staðfest og lögfest með grunnskólalögum sem tóku gildi 2008 og útfærð í reglugerðum við lögin og aðalnámskrá. Stefnan nær einnig til leikskóla og framhaldsskóla, en umræða um þau skólastig sérstaklega bíður betri tíma. Mér finnst rétt að nota tækifærið og rifja upp þessi atriði til að sýna að stefnan um skóla án aðgreiningar hefur lengi svifið yfir vötnum hér á landi og mikilvægt er að hafa það í huga þegar framkvæmd stefnunnar er skoðuð og reynt að meta hvernig til hefur tekist.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf árið 2011 út nýja aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem byggir á lögum frá 2008 um skólastigin þrjú. Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Meginmarkmið nýrrar menntastefnu er að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er eins og kunnugt er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, sköpun og heilbrigði og velferð. Ég vil í dag sérstaklega vekja athygli á grunnþáttum um lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og heilbrigði og velferð, sem skipta miklu máli þegar rætt er um útfærslu á stefnunni um skóla án aðgreiningar. Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir ráð fyrir samábyrgð, meðvitund og virkni nemendanna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt sem ábyrgir borgarar og hafa áhrif nær og fjær. Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýni og jafnréttis með manngildi allra að leiðarljósi. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna fólki að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra. Heilbrigði tengist andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis.

Nýjum aðalnámskrám er meðal annars ætlað að gera komandi kynslóðir betur í stakk búnar til að takast á við þær miklu áskoranir sem framundan eru. Aukin áhersla á gagnrýna hugsun og lýðræði í öllu skólastarfi mun skila virkum og hæfum þátttakendum í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi, þar sem áhersla er lögð á mannréttindi og manngildi allra. Samkvæmt aðalnámskrá eiga allir nemendur á leik- og grunnskólastigi rétt á að stunda nám í almennum skólum án aðgreiningar sem öll börn eiga rétt á að sækja. Með skóla án aðgreiningar samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir hvers og eins með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Í skóla án aðgreiningar er gengið út frá því að allir fái jöfn eða jafngild tækifæri til náms og að námið sé á forsendum hvers einstaklings. Í skóla án aðgreiningar ríkir ákveðið viðhorf sem einkennist af virðingu fyrir rétti allra nemenda til virkrar þátttöku í námssamfélagi heimaskóla óháð atgervi þeirra og stöðu. Borin er virðing fyrir fjölbreytileika og mismunandi þörfum, hæfileikum og einkennum nemenda og lögð er áhersla á að útrýma öllum gerðum mismununar og aðgreiningar í skólum. Nemendur í skólum er fjölbreyttur hópur einstaklinga og þarfir þeirra mismunandi. Nemendur eiga að fá tækifæri til að þroska sérstaka hæfileika sína og nýta tímann til hins ýtrasta með því að glíma við fleiri og sífellt flóknari markmið og krefjandi nám á eigin forsendum.

Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskólum frá 2010 eru sett markmið um þjónustu fyrir nemendur sem þurfa sérstakan stuðning í námi. Markmið reglugerðarinnar er í fyrsta lagi að nemendur fái jöfn tækifæri á eigin forsendum til náms og virkrar þátttöku í grunnskólum án aðgreiningar þannig að komið sé til móts við náms-, líkams-, félags- og tilfinningalegar þarfir þeirra, í öðru lagi að nemendur fái fjölbreytt nám við hæfi í hvetjandi námsumhverfi og í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og stöðu, í þriðja lagi að nemendur geti þroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu og verið félagslega virkir þátttakendur í skólasamfélaginu þar sem byggt er á styrkleikum þeirra, og að lokum að nemendur hafi jöfn tækifæri í grunnskólum í samræmi við alþjóðlega samninga um réttindi barna og fatlaðra.

Í skóla án aðgreiningar er einnig samkvæmt grunnskólalögum og aðalámskrá möguleiki fyrir nemendur að stunda nám í sérskóla ef foreldrar og sérfræðingar skóla meta aðstæður nemandans þannig að þeim sé fyrir bestu að stunda þar nám. Foreldrar geta þá óskað eftir skólavist í sérskóla tímabundið eða að öllu leyti. Samkvæmt ákvæðum í aðalnámskrá grunnskóla skulu hagsmunir barnsins ráða niðurstöðunni. Samkvæmt gildandi grunnskólalögum geta sveitarfélög beitt sér fyrir sérúrræðum innan grunnskóla eða stofnað til reksturs sérskóla þegar almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum eða hag nemenda. Slíkum úrræðum er samkvæmt lögunum ætlað að veita nemendum sérhæft umhverfi til náms í lengri eða skemmri tíma en jafnframt lögð áhersla á að starfsfólki almennra grunnskóla sé veittur stuðningur og kennslufræðileg ráðgjöf. Í reglugerðinni segir að jafnframt að sveitarstjórn setji starfsreglur fyrir sérskóla og sérúrræði innan grunnskóla þar sem m.a. skal kveðið á um ráðgjöf og stuðning við starfsfólk og fyrirkomulag þjónustunnar. Sveitarfélögum sem reka sérskóla eða önnur sérúrræði ber samkvæmt reglugerðinni að setja reglur um innritun nemenda, svo og reglur um útskrift eða lok slíkrar aðstoðar þar sem gera skal grein fyrir aðkomu og mati fagaðila. Við síðustu endurskoðun á grunnskólalögunum voru felld út ákvæði um aðkomu menntamálaráðuneytis að útfærslu sveitarfélaga á þessu sviði og var það meðvitað gert til að auka ábyrgð sveitarfélaga á rekstri grunnskóla. T.d. var ekki lengur gert ráð fyrir staðfestingu menntamálaráðuneytis á starfsreglum sérskóla og sérúrræða. Í staðinn var sett ákvæði í reglugerð um kæruheimild til ráðuneytisins vegna ákörðunar skólastjóra. Að undanförnu hefur reynt nokkuð á túlkun þessara ákvæða og farið af stað þó nokkur umræða um núverandi lagaramma og reglugerðir og hvort ástæða sé til að endurskoða framkvæmd stefnunnar um skóla án aðgreiningar. Í því sambandi hefur m.a. komið fram það sjónarmið að auka þurfi möguleika foreldra á að velja annaðhvort almennan grunnskóla eða sérskóla því val foreldra sé í raun afar takmarkað. Einnig hefur verið nefnt að almennir grunnskólar fái ekki nægilegan stuðning sérfræðiþjónustunnar til að geta útfært stefnuna um skóla án aðgreiningar fyllilega.

Segja má að þessi umræða hafi verið kveikjan að ákvörðun ráðuneytisins að halda þetta málþing um skóla margbreytileikans og stoðkerfi skóla. Einnig hafa aðilar innan sérfræðiþjónustu skóla komið á framfæri ósk um málþing um sérfræðiþjónustu skóla. Loks má nefna að í tengslum við kjarasamninga kennara hafa mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélag Íslands og Félag grunnskólakennara nýlega ákveðið að standa sameiginlega að greiningu á framkvæmd stefnunnar um skóla án aðgreiningar og hvaða áhrif hún hefur á skólastarf. Segja má að þetta málþing sé fyrsti liðurinn í þeirri greiningu og í kjölfarið verður ákveðið með hvaða hætti áframhaldandi greining geti farið fram. Einnig er rétt að geta þess að ráðuneytið hefur í undirbúningi könnun á sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla þar sem sérstaklega verður kannað hvernig tekist hefur til með innleiðingu reglugerðar um sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla frá 2010. Í tengslum við það verkefni er fyrirhugað að skoða ýmsar útfærslur hjá sveitarfélögum á framkvæmd sérfræðiþjónustunnar.

Góðir þinggestir

Að lokum vil ég geta þess að á vegum innanríkisráðuneytis er verið að stofna samráðshóp ýmissa aðila vegna fyrirhugaðrar fullgildingar Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og munu fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis taka þátt í því samráði. Í samningnum segir í 24. grein um menntun að aðildarríkin viðurkenni rétt fatlaðs fólks til menntunar og að þau skulu koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar. Þar er að finna ríka áherslu á virðingu fyrir mannlegri fjölbreytni og mannfrelsi og skulu aðildarríkin m.a. tryggja að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning, innan hins almenna menntakerfis, til þess að stuðla að haldgóðri menntun þess og að árangursríkar, einstaklingsbundnar stuðningsaðgerðir séu boðnar fram í viðeigandi umhverfi.

Í allri umræðu um stefnumótun og framkvæmd skólastarfs verðum við að hafa að leiðarljósi alþjóðlega sáttmála og yfirlýsingar sem við höfum undirgengist og leita leiða til að ná þeim markmiðum sem þar eru sett. Á sama tíma þurfum við ávallt að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og tryggja að börn njóti bernsku sinnar í skólastarfi. Í því sambandi er mikilvægt að í skólum sé fagmenntað starfsfólk, að allir aðilar skólasamfélagsins vinni vel saman, hlustað sé eftir sjónarmiðum foreldra og að fullnægjandi sérfræðiþjónusta sé í boði til að tryggja jafnrétti til náms. Eins verðum við að hafa í huga að þótt stefnan um skóla án aðgreiningar hafi verið lögfest hér á landi þá þýðir það ekki að loka eigi öllum sérúrræðum eða sérskólum. Farsæl framkvæmd stefnunnar byggir á að heildarhagsmunir barna séu bornir fyrir brjósti og þar séu mannréttindi, lýðræði, jafnrétti og félagslegt réttlæti ávallt leiðarljós.

Ég vænti þess að við fáum hér í dag að fræðast um ýmsa þætti í framkvæmd stefnunnar hér á landi og einnig verður afar áhugavert að heyra okkar góðu erlendu gesti greina frá þróun skóla án aðgreiningar erlendis og hvaða tækifæri og áskoranir eru efst á baugi. Einnig vonast ég til að umræður í pallborði og í málstofum verði fjörugar og málefnalegar og að hægt verði að nýta niðurstöður þingsins til áframhaldandi greiningarvinnu og við stefnumótun.

Góðir gestir

Áður en ég lýk máli mínu langar mig að biðja þá Dag Jóhannsson og Þórð Jónsson að koma hingað upp og taka við nýlegu riti frá Evrópumiðstöð fyrir þróun í sérkennslu þar sem finna má sjónarmið ungs fólks í Evrópu varðandi nám án aðgreiningar. Ritið byggir á ungmennaþingi sem haldið var á Evrópuþinginu í Brussel í árslok 2011 þar sem Dagur og Þórður ásamt Ásgerði Heimisdóttur voru glæsilegir fulltrúar Íslands. Ungu fulltrúarnir ræddu á þinginu um réttindi og réttinn til góðrar menntunar fyrir alla. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með jafnöldrum í Evrópu, en mikilvægt er að hlusta á sjónarmið ungmenna í allri stefnumótun í málefnum sem snerta þau.

Dagur og Þórður – gjörið svo vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum