Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

13. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Lífsbókin - barna- og unglingabókaráðstefna 9. mars

Góðir gestir

Ljóðið ratar til sinna, segja ljóðskáldin stundum full hógværðar og eru síðan nokkuð ánægð þegar þessi spádómsorð uppfyllast og ljóðin þeirra rata til góðra lesenda. Í þessu viðhorfi ljóðskáldanna endurspeglast eins konar áhyggjuleysi yfir því að bókmenntaformið sem um ræðir eigi kannski ekki fjöldahylli að fagna, en það muni samt lifa af. Listin er jú eilíf, lífið er stutt.

Það sama má e.t.v. yfirfæra á bókina sjálfa. Hún ratar til sinna og þegar best lætur skiptir hún viðkomandi líka miklu máli. Bækur geta breytt lífi manns, eða að minnsta kosti haft þannig áhrif á sýnina á lífið að lesandinn er aldrei samur aftur.

Áhugi á bókum og því sem þær hafa að geyma kemur ýmist til skyndilega (við uppgötvun) eða þróast og þroskast á löngum tíma. Þetta er þá persónubundið og tengist þá hrifnæmi eða þekkingarleit viðkomandi. Vissulega höfum við dæmi um bóklestur í æsku sem verður þess valdandi að lesandinn verður bókaormur alla ævi. Þannig er víst að bækur sem fangað hafa athygli ungmenna um heim allan á undanförnum árum, t.d. bækurnar um Harry Potter eða Hungurleikanna, hafa kveikt rækilega á áhuganum hjá fjölmörgum ungmennum. En síðan er vitanlega mikilvægt að halda áfram og fá hvatningu til að leita að lesefni við hæfi uppi.

Sjálf get ég ekki hugsað mér heiminn án bóka og jafnvel þó að ég lifi og hrærist alla daga í heimi sem er stútfullur af texta, myrkranna á milli, þá er bókin samt algjört aðalatriði. Tilfinningin að setjast niður með góða bók í hendi, eða liggja með hana í lok dags og leyfa sér kannski fyrir rest að detta út, er alveg einstök. Á hverjum degi hef ég það fyrir reglu að lesa eitthvað sem mig virkilega langar til að lesa. Góður texti er næring fyrir sálina um leið og hann getur fætt af sér aðra góða texta. Textar af ýmsu tagi eru lykilatriði í þeim margfeldisáhrifum sem einkenna menningarlífið, að þátttaka elur af sér frekari þátttöku. Sköpun kveikir sköpun.

En hvaðan kemur þessi þörf fyrir að njóta góðra texta, góðra bóka? Ekki úr engu er ég viss um. Sjálf kem ég úr verulega bókhneigðri fjölskyldu þar sem fyrirmyndir mínar í lífinu voru og eru svo sannarlega „grúskgefnar“ eins og Halldór Laxness lýsti sjálfum sér í barnæsku í bókinni Í túninu heima. Það er nefnilega mikilvægt að læra það í umhverfi sínu hvaða gildi bóklestur hefur á þroska og viðsýni manns og sá lærdómur hefst heima við. Barn sem elst upp innan um fullorðna einstaklinga sem virða bækur og kunna að meta þær lærir þessa umgengni og verður þegar best lætur bókavinur fyrir lífstíð.

Eins og við vitum öll sem hér erum saman komin í dag þá er læsi einkar mikilvægur eiginleiki, en læsi í samtímanum er fjölbreytt og snertir fleira en aðeins stafi á bók. Þennan fjölbreytta skilning á læsi er verið að reyna að leiða fram og leggja áherslu á í nýjum námskrám á leik-, grunn og framhaldsskólastigum þar sem læsi er einn af grunnþáttunum sem ætlað er að hafi áhrif á allt starf skólanna. Nýlega hefur síðan verið gefið út á vegum ráðuneytisins og Námsgagnastofnunar sérrit um læsi í ritröð um þessa grunnþætti menntunar. Þar er margt forvitnilegt að finna, í einkar læsilegu hefti, meðal annars hugleiðingar um þetta flókna ferli að gefa heiminum merkingu í gegnum texta. Eins og með aðra grunnþætti menntastefnunar (sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð, og sköpun) þá er það skólakerfisins að taka við keflinu og útfæra áherslurnar með hliðsjón að þeim hæfniviðmiðum sem sett eru fram. Á endanum stefnt að því að efla nemendur í íslenska skólakerfinu til að verða læs á veröldina og áskoranir hennar.

Meginmarkmið læsis eins og það er sett fram í menntastefnunni er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. Áfram er mikilvægt að börn nái tökum á tiltekinni lestrar- og ritunartækni en athyglin beinist nú jafnframt að allri þeirri tækni sem nemendur geta notað í samskiptum, námi og merkingarsköpun – í þágu sjálfra sín og samfélagsins.

Hér vilja kannski einhverjir staldra við og spyrja: Hvað segir þetta okkur um bókina? Er hér verið að gengisfella hana með slíkum áherslum? Svo er alls ekki og bókin er magnaðari en svo að það takist. Bókaútgáfa stendur með miklum blóma hér á landi og miðlunarleiðunum á texta úr heimi bókmenntanna er líka að fjölga. Ekki þýðir að loka augunum fyrir hröðum breytingum heldur ber að fagna þeim, kanna, rannsaka og nýta.

Í tengslum við lagabreytingar á stuðningsumhverfi um bókmenntir sem nýlega var til umræðu á Alþingi var ákveðið að frumkvæði þingsins að fela embætti mínu að stofna samráðsnefnd um bókaútgáfu sem skila skal ráðherra skýrslu um stöðu og horfur í þeim efnum. Þar stendur til að fjalla um framtíðarsýn og starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu, miðlun og bókmenningu, kennsluefni og fagefni fyrir skóla og fyrirtæki, svo og almenna bókaútgáfu. Nefndinni, sem hefur hafið störf og í eiga sæti fulltrúar bókaútgefanda, rithöfunda, Námsgagnastofnunar og Hagþenkis, verður ætlað að fjalla um rafbókavæðingu, innkaup og útlán bókasafna (m.a. á stafrænum miðlum) eflingu námsgagnaútgáfu og fleira. Forvitnilegt verður að fylgjast með vinnu nefndarinnar og niðurstöðu hennar.

En framtíðarbókin er hér til umræðu í dag og ég ætla að leyfa mér hæfilega bjartsýni og um leið hæfilega íhaldssemi þegar ég spái því að framtíðarbókin verði ekkert sérstaklega mikið öðruvísi en við þekkjum hana núna. Vitanlega verða rafbækur meira áberandi, en það er vitanlega sami hluturinn, dreifing á texta, þó svo að mörgum þyki eignarhald á textanum nokkuð annað. Þetta mun aukast jafnt og þétt en það segja mér fróðir menn að hérlendis sé umræðan um rafbókaútgáfu enn nokkuð á undan eiginlegri útbreiðslu rafbókanna. En þróunin er til staðar og þetta mun vissulega breytast.

Ef horft er til innihaldsins þá mun bókin áfram færa okkur heim sögur af heiminum í kringum okkur og öllum þeim sem hann byggja. Hún mun áfram flytja okkur ókunna heima (hér verður nú talað um fantasíuna á eftir) eða flytja okkur til í tíma. Hún mun líka áfram ná að færa okkur saman og tengja milli kynslóða, einkum og sér í lagi ef við lesum hvort fyrir annað og venjumst því snemma að umgangast bækur og leyfa þeim að opna fyrir okkur leyndardóma sína. Við munum áfram í öllum þessu óteljandi bókum segja sömu sögurnar í sínum óendanlegu tilbrigðum og skiptir þá engu hvort við aðhyllumst kenningar um að grunnsögurnar í bókmenntum heimsins séu 36, 20, 7, 3 eða jafnvel 1 (sagan sem snýst um átök) svo ég nefni hér nokkrar tölur sem komið hafa upp í kenningum við það að einfalda sagnaþörf mannkyns niður í kerfi.* - Er þetta annars ekki allt í Shakespeare eða Íslendingasögunum, allt þetta sem okkur er boðið upp á í öllum hinum fjölbreyttu miðlum samtímans?

Og alveg eins og við höfum alltaf gert munum við verða á varðbergi yfir tækninýjungum, áhugaleysi ungu kynslóðarinnar við að taka við keflinu og upptekin af heimur versnandi fer áherslunni. Þetta þýðir hins vegar ekki að það sé ekki rétt að velta fyrir sér þróuninni, stuðningnum við bókina á litlu málsvæði og framtíðarlíf hennar í íslensku samfélagi. Við þurfum einnig að vera áfram á varðbergi um að opna heim bókarinnar fyrir sem flestum í samfélaginu. Þar skipta almenningsbókasöfnin miklu máli, ekki síst þegar hugað er að tækninýjungum og þjónustu við þá sem af ýmsum ástæðum eiga erfitt með inngöngu í heim bókarinnar.

Til þess að vera vakandi yfir öllu þessu getur verið gott að gera eins og við erum að gera í dag og velta fyrir okkur framtíð bókarinnar.

Ég vona að umræðan hér verði áhugaverð og spennandi og jú ég held að bókin lifi á meðan land byggist og líklega lengur en það.

http://www.ipl.org/div/farq/plotFARQ.html

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum