Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

15. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Eyrarrósin í Hofi 12. mars

Góðir gestir

Eyrarrósin er eins og menn vita harðger og falleg jurt. Á hrjóstrugum eyrum jökulfljóta skýtur hún rótum og berst við náttúruöflin. Þó vindar gnauði heldur hún velli og neitar að gefast upp.

Eyrarrósin er því tilvalin sem táknmynd þeirrar viðurkenningar sem við veitum hér á eftir fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Verðlaunin hafa skotið rótum og dafnað vel en nú eru þau veitt í níunda sinn. Aðstandendur verðlaunanna - Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík - eiga þakkir skilið fyrir að hafa hlúð að verðlaununum frá því að þau voru sett á laggirnar árið 2005.

Verðlaunum á borð við Eyrarrósina er ætlað að víkka hjá okkur sjóndeildarhringinn og hvetja almenning til þátttöku og forvitni um það sem er að gerast í íslensku menningarlífi landið um kring. Eyrarrósin beinir sjónum að nýsköpun og uppbyggingu á sviði menningar og lista. Þeir aðilar, sem til greina koma að hljóti verðlaunin, eru af ýmsum toga en allir eiga það sameiginlegt að vilja þróa starfsemi sína og þjónustu og ná til almennings með menningarleg markmið að leiðarljósi. Við fögnum í dag þeim sem vilja framkvæma, eru tilbúnir að byrja smátt og vita oft er mjór mikils vísir. Ef hugmyndin er góð þroskast ræturnar og ná að festast, rétt eins og á við um jurtina sem lifir þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Einn af megin þáttunum í nýrri menningarstefnu, sem Alþingi samþykkti í síðustu viku, er áhersla á gott aðgengi að listum og menningarlífi. Slíkt aðgengi snýr m.a. að landfræðilegum þáttum og því er jákvæð og vönduð uppbygging á menningarstarfsemi á landsbyggðinni svo mikilvæg. Helstu lista- og menningarstofnanir þjóðarinnar munu líklega seint færast út fyrir höfuðborgarsvæðið en það þarf að búa þannig um hnútana að þær geti einnig sinnt landsbyggðinni með þeim faglega hætti, sem þeim er ætlað. Leikferðir, tónleikar og sýningar í sýningarrými sem uppfyllir kröfur safnanna - sem líka þurfa að vernda eignir sínar og skila til komandi kynslóða-, þetta má nefna því að ekki flytjum við steinsteypu og gler auðveldlega milli landsvæða. Þess vegna skipta menningarhús á borð við það sem við erum í hér í dag svo miklu máli. Hof hefur svo sannarlega sannað mikilvægi sitt.

Einnig er mikilvægt að þeir sem starfa að menningarmálum - hvar sem er á landinu - þekki þann hóp sem nýtir sér starfsemina og leitist í sífellu við að breikka þann hóp. Einn þáttur í þeirri viðleitni er að stefna að nýsköpun og leita leiða til að auka samvinnu milli stofnananna og þeirra fjölmörgu aðila sem að miðla ýmsum þáttum menningar um land allt.

Með menningarsamningum ríkisins við landshlutasamtök sveitarfélaga hefur náðst að vekja áhuga almennings, heimamanna og aðkomumanna á ýmsum menningarverkefnum auk þess aðstuðla að nýsköpun og atvinnusköpun með fjölbreyttum verkefnum, sem oft hafa náð að þróast og blómstra. Í gegnum þetta starf er fræjum sáð. Nýlegir viðaukar við slíka samninga útvíkka síðan samstarfið þannig að í umsjón menningarráða bætast stofnstyrkir og rekstrarstyrkir til starfsemi á sviði lista, safna og menningararfs, sem áður voru á hendi Alþingis.

Hugmyndafræði menningarsamninganna, sem ríkið hefur gert við landshlutasamtök sveitarfélaganna um stuðning við menningarlífið á hverjum stað, grundvallast á því að heimamenn séu best til þess fallnir að hafa yfirsýn yfir þörfina, forgangsraði og móti áherslur í starfi menningarráðanna og menningarfulltrúanna. Samvinnan snýr síðan að því hvernig megi best ýta undir hugmyndaauðgi og sköpunargleði einstaklinga og hópa, til þess einmitt að til geti orðið burðug verkefni eins og þau sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar hér í dag.

Rétt er að benda á að menningarsamningarnir og hugmyndirnar að baki þeim verða til umfjöllunar á ráðstefnunni Menningarlandið 2013, sem haldin verður á Kirkjubæjarklaustri eftir réttan mánuð, 11. og 12. apríl. Megintilgangur ráðstefnunnar verður að fjalla um og ræða framkvæmd og framtíð menningarsamninga og samstarf ríkis og sveitarfélaga við menningarráðin. Það eru mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Menningarráð Suðurlands í samstarfi við önnur menningarráð landsins sem boða til ráðstefnunnar. Nauðsynlegt er að koma saman og meta reynsluna af samningunum til að geta gert áætlanir um framhaldið, m.a. með tilliti til þeirrar þróunar og vinnu sem fram fer innan Sóknaráætlunar 20/20. Allir þeir sem tengjast menningarstarfi og menningarferðaþjónustu á Íslandi eru hvattir til að gefa ráðstefnunni gaum.

Góðir gestir

Stór hluti þess menningarstarfs sem fram fer í landinu kemur til vegna elju og áhuga einstaklinga og samtaka þeirra, án íhlutunar hins opinbera um tilhögun starfseminnar. Brennandi áhugi á miðlun menningararfsins og þörfin til að finna nýjar leiðir í okkar æ fjölbreyttara menningarlífi er það sem við erum þakklát fyrir í dag.

Það er seigla Eyrarrósarinnar sem blæs mönnum anda í brjóst.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum