Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

15. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Fyrsta skóflustunga að Húsi íslenskra fræða 

Kæru gestir

Við erum komin saman hér í dag til að taka fyrstu skóflustunguna að Húsi íslenskra fræða sem mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Byggingin mun rísa hér við Arngrímsgötu 5 og afmarkast lóðin af Suðurgötu til austurs, Guðbrandsgötu til suðurs, Arngrímsgötu til vesturs og Þjóðarbókhlöðu til norðurs.

Ýmsar tölulegar stærðir má lesa af heimildum um hina nýju byggingu. Þannig er þess getið að Hús íslenskra fræða verði á þremur hæðum og er birt flatarmál um 6.500 fermetrar. Þar verða ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir nemendur á mismunandi stigum háskólanáms, fyrirlestra- og kennslusalir, almennar skrifstofur og bókasafn auk kaffistofu og tækni- og stoðrýma.

Efnt var til opinnar samkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands á vormánuðum 2008 um hönnun á húsnæðis Stofnunar Árna Magnússonar og íslenskuskorar Háskóla Íslands sem nú nefnist íslensku- og menningardeild. Hlutskarpastir urðu Hornsteinar arkitektar en tæknilegur ráðgjafi þeirra var Almenna verkfræðistofan hf. Að hönnunarsamkeppni lokinni var gengið til samninga við hönnunarteymið um heildarhönnun byggingarinnar.

Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður um 3,5 milljarður króna og skiptist hann bróðurlega á milli ríkissjóðs annars vegar og Háskóla Íslands hins vegar. Þarflaust er að rekja ástæður þess að framkvæmdir við húsið hafa tafist en eins og stendur skrifað á gamalli bók: „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum varðveitir þjóðararf okkar Íslendinga og hún fagnar 350 ára afmæli Árna Magnússonar handritasafnara og fræðimanns í ár. Það er því mikið fagnaðarefni að á dögunum hafi verið tilkynnt að framkvæmdir við nýtt Hús íslenskra fræða hefist á afmælisárinu í samræmi við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Með þessum framkvæmdum erum við að taka mikilvæg skref í íslenskri menningu og styrkja menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Í þessi samhengi langar mig að vitna í orð Árna Pálssonar prófessors er hann mælti fyrir minni Matthíasar Jochumssonar fyrir hartnær 100 árum:

Ríki íslenskunnar er að vísu ekki víðáttumikið í rúmi, hún hefur ekki lagt undir sig löndin, en hún hefur lagt undir sig aldirnar … Egill Skallagrímsson , víkingurinn, og Matthías Jochumsson, klerkurinn, gætu skipst á hendingum yfir tíu aldir og skilið hvor annan til fulls. Svo mikill er kraftur hins íslenska orðs, að tönn tímans hefur aldrei unnið á því – og skal aldrei gera.

Góðir gestir. Segja má að við séum að leggja hornstein að „ríki íslenskunnar“ sem hefur barist fyrir sjálfstæði sínu um aldir og mun auðvitað þurfa að halda áfram að verja sjálfstæði sitt um ókomna tíð.

Menningararfur okkar Íslendinga – tungan, sögurnar og kvæðin – er varðveittur í handritum sem við ætlum að byggja yfir hér við Arngrímsgötu 5. Gamlir menn muna eflaust þann tíð er William Rodgers, þá utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vildi berja þennan arf augum í Árnagarði. Þá vörnuðu hundruðir stúdentar honum inngöngu í þetta „Musteri fræðanna“ og komst ráðherrann hvergi, þrátt fyrir alvæpni eins og stóð skrifað í Þjóðviljanum. Þar stóð einnig að ráðherrann hefði „ekki fengið fullnægt fræðafýsn sinni“ en það er hins vegar von mín og okkar sem höfum haldið um stjórnartaumana í landsmálunum undanfarin ár að hin nýja bygging verði lóð á vogarskálar fræðafýsninnar og útvörður íslenskrar tungu.

Ég óska ykkur öllum til hamingju með þennan áfanga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum