Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

20. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Í takt við tímann - Ráðstefna Samtaka sjálfstæðra skóla

Ágætu skólastjórnendur, kennarar og aðrir starfsmenn sjálfstætt starfandi skóla.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir tækifærið til að koma hingað til ykkar þar sem þið eruð samankomin til að fjalla um skóla dagsins í dag og líta til framtíðar bæði frá innlendu og erlendu sjónarhorni.

Megináhersla í þróun menntalöggjafar og skólahalds gegnum 20. öldina og einnig nú í upphafi 21. aldar, hefur verið á almenna menntun sem álitin er undirstaða og forsenda samfélagsþátttöku og þátttöku fólks í menningarlífi og atvinnulífi. Skóli á að vera hreyfiafl í samfélaginu. Forsendur skólahalds eins og þær birtast nú í stefnumótun, löggjöf, námskrám og skýrslum eru enn þær sömu: Lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og jafnrétti allra. Framsetning þessara grunnþátta menntunar og skólahalds hefur þó breyst og þróast í takt við samfélagsbreytingar og nýja þekkingu. Hugmyndir um lýðræði og jafnrétti hafa breyst, einnig hugmyndir um menntun, þekkingu og hæfni. Dæmi um þetta eru kröfur um sífellda útvíkkun jafnréttishugtaksins í menntakerfinu á fleiri svið samfélagsins, t.d. jafnrétti óháð búsetu, kyni, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Nýjar aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla eru nú komnar á sitt annað ár og orðnar mikilvægur þróunar- og framfaraþáttur í öllu skólastarfi. Við gerð námskránna var horft til þess hvað nemendur þurfa að læra í dag til að standast kröfur samfélagsins í framtíðinni. Þar vega grunnþættir menntunar þungt. Grunnþættirnir eru í anda gildandi laga, reglugerða og alþjóðasamninga og mynda kjarna menntastefnunnar. Framtíðin þarfnast einstaklinga sem eru sterkir á mörgum sviðum; einstaklinga sem meðal annars eru læsir á allt það sem samfélagið býður upp á svo sem fjölmiðla, fjármál, myndefni, umhverfi sitt og tilfinningar annarra.

Við viljum einnig stuðla að því að börnin verði meðvituð um nánasta umhverfi sitt og umhverfi annarra og hvernig þau vilja skila því til næstu kynslóða. Þessi sjálfbærni, sem er svo mikilvæg, snýst ekki einungis um umhverfið heldur einnig um ábyrgð, virðingu og lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti gagnvart komandi kynslóðum.

Til að þetta megi ganga eftir þurfa framtíðar þegnar þessa lands að vera skapandi og leyfa sér að nálgast viðfangsefni daglegs lífs á nýjan og ögrandi hátt. Þeir þurfa að huga vel að eigin heilbrigði og vellíðan á sama tíma og þeir huga að heilbrigði og vellíðan annarra í samfélaginu. Skapandi skólastarf er ekki einungis bundið við kennslu í listgreinum heldur á það við sem skapandi þáttur almennt í allri menntun.

Mikilvægt er að hafa í huga að forsenda góðrar menntunar og velferðar nemenda er sameiginlegt verkefni margra aðila og þarf samstarfið að byggjast á virðingu, trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Ef við leggjum okkur fram um að allt nám sé byggt á lýðræði, mannréttindum og jafnrétti hjálpum við börnum okkar að öðlast þá þekkingu sem til þarf til að vera virkir þegnar í framtíðar samfélagi.

Ég er þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að hafa áhrif á mótun skólastarfs og á komandi kynslóðir.

Mikil vinna hefur farið í það undanfarin misseri að setja reglugerðir sem byggja á lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla og eru þær langflestar komnar út. Eins og ég nefndi áðan þá er almennur hluti aðalnámskránna kominn út og gaman að segja frá því hér að greinanámskrá grunnskóla er komin út og er aðgengileg á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Fyrri hluti námskrárinnar, almenni hlutinn, er hinn sami og var gefinn út 2011 en seinni hlutinn er umfjöllun um greinasvið grunnskólans. Lögformleg útgáfa verður birt í Stjórnartíðindum fljótlega.

Miðað er við að námskrárnar taki að fullu gildi vorið 2015 og þá er gert ráð fyrir að nýtt námsmat við lok grunnskóla verði fyrst notað. Samhliða útgáfu greinanámskránna mun ráðuneytið gefa út veggspjöld sem skýra lykilhæfniviðmið grunnskóla fyrir nemendum, kennurum og foreldrum.

Ráðuneytið hefur mótað innleiðingaráætlun til að fylgja nýju aðalnámskránum eftir. M.a. er gert ráð fyrir sérstökum leiðtoganámskeiðum á þessu ári sem haldin verða víða um land. Námskeiðin eru til að styðja skóla við skólanámskrárgerð og stutt verður við innleiðingu grunnþáttanna. Þá mun ráðuneytið gefa út kynningarblað til að kynna fyrir foreldrum og almenningi hvað felst í innleiðingu nýrrar menntastefnu fyrir öll skólastigin. Kynningarblaðinu verður dreift til allra heimila í landinu.

Tilbúinn er vinnuvefur á namskra.is fyrir kennara á öllum skólastigum þar sem birt verða ýmis gögn sem nýtast skólasamfélaginu við gerð skólanámskráa og skipulag náms og kennslu. Þá er unnið að gerð kynningarvefsíðu fyrir almenning um hæfni og grunnþætti og er stefnt að opnun hennar samhliða útgáfu kynningarblaðsins sem ég nefndi.

Einnig vil ég nefna málþing um námsmat sem ráðuneytið ætlar að standa fyrir í ágúst á þessu ári. Málþingið verður byggt upp á sambærilegan hátt og málþingið sem ráðuneytið hélt um grunnþætti haustið 2012 í Flensborg og mörg ykkar hafa eflaust sótt.

Ráðuneytið hefur samið við Heimili og skóla um landshlutakynningarfundi á nýjum áherslum í aðalnámskrám leik- grunn og framhaldsskóla, svo sem á grunnþáttunum, hæfniviðmiðum og námsmati í grunnskólum. Í tengslum við kynningarfundina verða tekin upp „youtube“ myndbönd og sett inn á vef samtakanna. Gert er ráð fyrir að þessir fundir fari fram á þessu ári og hefjast í þessum mánuði.

Um innleiðinguna þá langar mig að síðustu að nefna útgáfu ritraðar um grunnþætti menntunar, svokölluð þemahefti sem ráðuneytið hefur falið Námsgagnastofnun umsjón með. Þemaheftin eru hugsuð til þess að auðvelda kennurum, skólastjórnendum og öðru starfsfólki skóla að átta sig á inntaki grunnþáttanna og með hvaða hætti flétta megi þá inn í skólastarf. Nú þegar eru komin út hefti um læsi, sköpun og lýðræði og mannréttindi. Seinni þrjú heftin eru í burðarliðnum, þ.e. um heilbrigði og velferð, jafnrétti og sjálfbærni. Samhliða útgáfu greinanámskránna verður gefið út þemahefti um námsmat.

Áður en ég lýk máli mínu hér langar mig að nefna málþing sem ráðuneytið stóð fyrir í síðustu viku. Málþingið var um skóla margbreytileikans og var stofnað til þess m.a. vegna óska frá skólasamfélaginu um að setja umræðu um þessi mál á dagskrá á öllum skólastigum, en ekki síst á grunnskólastiginu sem jafnframt er eina skólastigið þar sem er skólaskylda. Á málþinginu var beint sjónum að skólagöngu nemenda með sérþarfir og rætt um stefnu um skóla án aðgreiningar sem fylgt hefur verið hér á landi mörg undanfarin ár. Stefnan er m.a. lögfest í lögum um leik- og grunnskóla og útfærð í reglugerðum og aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Á málþinginu var farið yfir framkvæmd stefnunnar, innleiðingu reglugerða og rætt um helstu álitamál, áskoranir og tækifæri, m.a. um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi skóla. Mikilvægt er að hafa í huga að skóli án aðgreiningar stendur frammi fyrir því meginviðfangsefni allra góðra skóla að þróa skipulag stjórnunar- og kennsluhætti sem miðast að því að veita öllum nemendum góða kennslu óháð fjölbreyttum þörfum þeirra. Skóli án aðgreiningar á einnig að vinna gegn hugarfari mismununar, að láta öll börn finna að þau séu velkomin í umhverfi sínu og stuðla þannig að þjóðfélagi án aðgreiningar og á þetta við um alla skóla óháð hvaða rekstrarform skóla foreldrar velja fyrir börn sín.

Eins og þið heyrið þá er margt í gangi við innleiðingu nýrrar menntastefnu og línur allar að verða skýrari. Samfella í námi komandi kynslóða frá leikskóla til háskóla er það sem ný menntastefna felur í sér. Ég vona að þessi vinna skili sér út í skólana, inn á deildir leikskólanna, inn í kennslustofur grunn- og framhaldsskóla og inn á heimili almennings. Það er, eins og ég þreytist aldrei á að draga fram, þið kennarar, skólastjórnendur og annað starfsfólk skóla, sem er í lykilstöðu við að koma þessari nýju menntastefnu í framkvæmd í þágu nemenda.

Þið eruð hér samankomin til að vera í takt við tímann og hugsa til framtíðar. Ég óska ykkur góðs gengis í þeirri vinnu sem og framtíðar vinnu ykkar við innleiðingu nýrra námskráa og nýrrar menntastefnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum