Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Sprotar - Ársfundur Stofnunar Árna Magnússonar

Ágætu fundargestir.

Sprotar er ágætis yfirskrift á ársfund Stofnunar Árna Magnússonar að þessu sinni. Eins og fundargestir hafa kynnst af því að hlýða á erindin hér í morgun þá er sprettan svo sannarlega góð nú á vordögum. Verkefnin sem stofnunin tekur að sér og aðstoðar aðra við að sinna eru fjölbreytt og spennandi. Arfurinn í sínum margbreytilegu myndum, sem fræðimenn vinna með bæði heima og heiman, er gerður aðgengilegur með sífellt nýjum miðlunarleiðum og tungumálið er sprellifandi: Ungt fólk velur sér íslensku sem annað mál af því að hún er svo rækilega öðruvísi en flest allt það sem liggur í augum uppi og við leitumst við að fella sífellt ný svið veruleikans undir þetta ágæta tungumál okkar. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að í um 40 háskólum víða um heim sé fólk að læra nútíma íslensku. Íslenskar bókmenntir, bæði fornar og nýjar, njóta stöðugt meiri athygli erlendis og þær, íslensk tónlist og kvikmyndir hafa eflt áhuga á tungumálinu. Eins og oft er sannast þar að miðlun og þátttaka í menningu elur af sér ný verkefni þar sem nýtt land er numið. Íslensk menning á svo sannarlega erindi við hinn stóra heim. Við styðjum líka málvitund okkar með nýrri tækni, leiðréttum og lögum, því að tungumálið er í sífelldri þróun þó það hvíli á traustum grunni. Endurblöndun og frumsköpun kviknar af auknum kynnum að þessum grunni.

Og grunninn eigum við mönnum eins og Árna Magnússyni að þakka, þessum manni sem við höndluðum eitt sinn með á hverjum degi því hann var á græna hundrað kallinum, og við heiðrum nú á afmælisári þegar 350 ár eru liðin frá fæðingu hans. Heldur þótti mér nú Árni virðulegri en hrognkelsið, en hvað um það.

Þið sem hér sitjið þekki Árna Magnússon og sögu hans mæta vel, en manni verður vitanlega hugsað til þessa eldhuga þegar miðlun arfsins til komandi kynslóða ber á góma. Maður verður að setja sig í spor handritasafnarans Árna af og til og reyna að skilja tilfinninguna sem hlýtur að hafa fylgt því í brjósti hans að finna og bjarga úr gleymskunnar dá þeim merka arfi sem hann uppgötvaði á sinni tíð. Á þessum ágæta vordegi skulum við láta sárann missi Árna og okkar allra í brunanum mikla liggja milli hluta – sumt er bara of sárt.

Það er því einkar gleðilegt að störf yngri kynslóðar fræðimanna og jafnvel listamanna sem hafa ræktað með sér áhuga á þessum arfi, séu að skila sér inn í fjölbreytt þessarar stofnunar sem við kennum við Árna Magnússon. Það er líka einkar gleðilegt að á þessu afmælisári séum við svo sannarlega að búa þannig um hnútana að stórbæta aðgengi að þessum arfi með byggingunni sem nú mun senn rísa á melunum hér aðeins norðar og við ætlum að kenna við Íslensk fræði. Þar mun líka verða boðið upp á dýnamíska og nútímalega umgjörð um starfið og fræðasamfélagið sem án efa mun fleyta rannsóknum og miðlun á þessu sviði áfram.

Af þessu öllu má dæma er framtíðin greinlega björt, bæði þegar litið er til viljans til að rannsaka og endurmeta þennan arf og umgjörðarinnar sem við viljum móta.

Sprettan er svo sannarlega góð ágætu gestir, þetta ber sprotarnir og ársskýrslan sem fylgir þessum aðalfundi, með sér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum