Hoppa yfir valmynd

Upplýsingastefna

Upplýsingastefna fjármála- og efnahagsráðuneytisins 

Markmið fjármála- og efnahagsráðuneytisins er að eiga frumkvæði að því að traustar, skýrar og viðeigandi upplýsingar um málefnasvið sem undir það falla séu ávallt aðgengilegar í því skyni að greiða fyrir þekkingaröflun og stuðla að upplýstri umræðu. Upplýsingastefnunni er ætlað að stuðla að góðum skilningi á forsendum stefnumörkunar og ákvarðanatöku á vegum ráðuneytisins. Jafnframt að tryggja öllum aðilum góðan og jafnan aðgang að upplýsingum um þau málefni, hvort sem er almenningi, fyrirtækjum, stofnunum, hagsmunasamtökum, alþingismönnum, fjölmiðlum eða alþjóðaaðilum.

Upplýsingamiðlun ráðuneytisins fer fram með virkri miðlun reglubundinnar og atviksbundinnar útgáfu á vefmiðlum í fréttum, greiningum og sérstökum greinargerðum um einstök málefni og skýrslum nefnda á vegum þess. Einnig er lögð áhersla á að birta upplýsingar sem snerta ráðuneytið sem vinnustað.

Ráðuneytið á frumkvæði að því að birta jafnharðan tiltækar upplýsingar sem erindi geta átt við hagsmunaaðila og almenning. Stefnumörkun varðandi frumkvæðisbirtingu er uppfærð reglulega. Áhersla er lögð á að vanda til undirbúnings og birta ávallt réttar upplýsingar sem eru skýrar og auðskiljanlegar. Framsetning útgefins efnis skal vera aðgengileg og ráðuneytið leggur áherslu á rafræna útgáfu efnis.

Einnig er það stefna ráðuneytisins að stuðla að birtingu opinna gagna ráðuneytisins sem hver sem er getur notað, umbreytt og deilt.

Ráðuneytið leggur áherslu á að auðvelda fólki og fjölmiðlum að koma á framfæri spurningum um málefni ráðuneytisins, og að þeim verði svarað jafnóðum þegar umbeðnar upplýsingar eru fyrirliggjandi en annars eins fljótt og kostur er.

Það nýtir þá miðla sem best henta hverju sinni til að koma upplýsingum á framfæri og tileinkar sér notkun nýrra miðla.

Við meðferð upplýsinga skal gæta að ákvæðum í stjórnsýslulögum, löggjöf um persónuvernd og í upplýsingalögum.

Upplýsingastefnan styður við aðra stefnumörkun ráðuneytisins og Stjórnarráðsins, svo sem um aukna notkun á upplýsingatækni, opna og gagnsæja stjórnsýslu með bættu aðgengi og virkari miðlun opinberra upplýsinga og um að stefnumótun og ráðstöfun opinberra fjármuna sé öllum aðgengileg.

Fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á upplýsingastefnu ráðuneytisins. Upplýsingafulltrúi ber ábyrgð á því að stefnunni sé fylgt eftir í framkvæmd og hefur umsjón með samskiptum við fjölmiðla fyrir hönd ráðuneytisins. Starfsfólk ráðuneytisins skal senda allar fyrirspurnir fjölmiðla til upplýsingafulltrúa eða þeirra sem hafa umboð til að svara eða veita upplýsingar.

Samþykkt í febrúar 2019

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira