Hoppa yfir valmynd
29. desember 2017 Forsætisráðuneytið

Hvað mun valda straumhvörfum í lífi okkar?

Hvað mun valda straumhvörfum í lífi okkar?

Hvenær verða straumhvörf í tilverunni? Þau geta orðið í lífi þjóða þegar náttúruhamfarir verða, efnahagshrun eða heilbrigðisvá. En straumhvörfin geta líka komið hægt og hljótt og án þess að við áttum okkur á því. Þegar lögin um fæðingarorlof voru samþykkt þar sem gert var ráð fyrir jafnri þátttöku mæðra og feðra við uppeldi barna sinna á fyrstu mánuðum urðu ákveðin straumhvörf í jafnréttisbaráttunni. Sama má segja þegar stórátak var gert í leikskólamálum Reykjavíkurborgar í tíð Reykjavíkurlistans sem hafði stórkostleg áhrif á aukningu atvinnuþátttöku kvenna.

Svona straumhvörf geta látið lítið yfir sér í fyrstu en hafa þó oft varanlegri áhrif en hin stóru utanaðkomandi áföll. En hvaða hljóðlátu byltingar gætu átt sér stað á næstu misserum og árum sem gætu valdið straumhvörfum í lífi okkar? Nærtækast er kannski að nefna tæknibyltinguna sem nú gengur yfir og hefur þegar hefur breytt því hvernig við eigum samskipti. Sjálf fékk ég fyrsta netfangið mitt haustið 1996 eða fyrir 21 ári. Þá taldi ég litla þörf á þessum samskiptamáta, til viðbótar við fastlínusímann og sendibréfin. Fyrir þennan tíma hringdu piltar í heimasímann eftir skólaböll og lentu þá iðulega á föður mínum heitnum sem gelti í símann að þeir yrðu að tala hærra og skýrar. (Oft hringdu þeir ekki aftur eftir þessa lífsreynslu). Þeir ungu menn sem lifðu af þrekraun heimasímans sendu kannski ástarbréf þegar þeir fóru í sumarfrí til útlanda, handskrifaðar blaðsíður af fögrum ástarjátningum og fréttum frá Benidorm.

En nú er allt breytt. Ungt fólk venst því að eiga samskipti á klukkutíma fresti við sinn heittelskaða. Jafnvel brenna ástarsamböndin hraðar upp en áður sökum allra þeirra ólíku leiða sem ný tækni býður upp á til að unnt sé að eiga samskipti. Tæknin hefur því þegar valdið straumhvörfum á svo ótal mörgum sviðum og þau eiga eflaust eftir að verða meiri.

Katrín Jakobsdóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum