Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2018 Forsætisráðuneytið

Ræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi 2018

Ágætu gestir á Viðskiptaþingi 2018.

Þegar ég var krakki var Liverpool uppáhalds búðin mín. Hún var á Laugaveginum og þar var í glugganum risastórt Lundby-dúkkuhús með rafmagni sem ég hafði mikinn hug á að eignast. Ekki skemmdi fyrir að búðin hét Liverpool sem var einnig uppáhalds fótboltaliðið mitt. Nú er öldin önnur. Verslun á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum og Liverpool því miður líka. Ég tel það reyndar vera til marks um íhaldssemi að skipta ekki um lið í enska boltanum þó að einhverjir kalli það masókisma að halda ennþá með Liverpool árið 2018. Og ég er að sama skapi íhaldssöm í verslunarháttum. Er enn að jafna mig á tilraun sem ég gerði í hitteðfyrra þegar ég keypti mér buxur á veraldarvefnum eftir að hafa fylgst með saumaklúbbnum fara hamförum í magnkaupum á netinu um nokkurt skeið.
Breytingar á verslun endurspegla ótrúlega hraðar tæknibreytingar sem svo sannarlega má kalla straumhvörf. Tæknin gerir það að verkum að Íslendingar, sem voru háðir stopulum skipakomum þegar þessi virðulega samkoma var stofnuð 1917 – til hamingju með hundrað ára afmælið í fyrra – eru sítengdir umheiminum. Sonum mínum finnst jafn eðlilegt að panta dót á netinu og taka strætó upp í Nexus. Tæknibreytingar hafa gerbreytt öllum viðskiptaháttum, fyrirtæki sem ekki fylgjast með geta misst af lestinni og glatað stöðu sinni á skömmum tíma. Kodak er kannski þekktasta dæmið en þau eru miklu miklu fleiri.

En tæknibreytingar hafa mun víðtækari áhrif. Þær hafa áhrif á fyrirtækin, vinnumarkaðinn, skólana, stofnanir, allt samfélagið og okkur sjálf. Því það sem er sérstakt núna, ólíkt fyrri iðnbyltingum, er að þessar breytingar eru að ganga mun hraðar yfir en við höfum áður séð og það mun hafa áhrif á sjálfsmynd okkar og hver við erum. Börnin mín horfa furðu lostin á skífusíma og spyrja hvurs lags tæki er þetta? Ég rifjaði það upp að þegar ég fór á fyrsta menntaskólaballið mitt og gerði þar gott mót, að að sjálfsögðu var engin leið fyrir áhugasama unga menn að ná í mig daginn eftir nema í gegnum heimasímann. Þar gerðist hið hræðilega hins vegar að pabbi minn heitinn svaraði alltaf í símann ef ég var ekki nógu snögg og hristi náttúrulega vonbiðlana af mér hraðar en augað fékk numið. Þetta finnst ungu fólki í dag náttúrulega nánast óhugsandi og eins og ég sé að lýsa 19. öldinni þar sem ungt fólk sat í festum í torfbæjum heilu veturna.

Og þráin eftir samskiptum er orðin ótrúlega sterk hjá nútímamanninum sem veit að hann getur átt samskipti með hjálp tækninnar nánast allan sólarhringinn. Um daginn sat ég í flugvél hjá konu sem ég veit ekki hvaðan var en hún fór að gráta þegar vélin tókst á loft. Þegar ég spurði hana hvort ég gæti eitthvað sinnt henni í sorgum hennar sagði hún mér að hún þyldi bara ekki að geta ekki verið í samskiptum við manninn sem hún elskaði á meðan á flugferðinni stæði. (Já ég veit, ótrúlegt). Eins og áður hefur komið fram þá er ég auðvitað svo íhaldssöm að mér finnst beinlínis stórkostlegt að þurfa að setja símann á flugstillingu í vélinni og reyndi að hugga konuna með því að eftir margra ára hjónaband væri það mikill léttir að fá slíka friðarstund.

Við erum öll að breytast. Og við erum hluti af samfélagi sem er að breytast. Við þurfum saman að setja okkur markmið um það hvernig við getum nýtt þessar hröðu tæknibreytingar til góðs fyrir okkur öll. Nýtt þessar tæknibreytingar til góðs fyrir fólkið í landinu þannig að það geti lifað hér góðu lífi og tryggt aukinn jöfnuð. Til þess þurfum við hins vegar að vera undirbúin.
Við þurfum taka fullan þátt í rannsóknum og þróun þegar kemur að gervigreind og sjálfvirkni.

Við þurfum að tryggja menntun og fræðslu í takt við nýja tíma. Þar skiptir ekki minnstu að kenna það sem ekki er hægt að kenna vélum; að minnsta kosti ekki ennþá: Skapandi og gagnrýna hugsun þannig að hver og einn geti virkjað hæfileika sína og nýtt tækifærin.

Við þurfum að taka forystu í að tryggja ábyrgan og réttlátan vinnumarkað, réttindi launafólks og leita leiða til að nýta tæknibreytingarnar til að bæta kjör fólksins í landinu. Þær kynslóðir sem koma inn á vinnumarkað framtíðarinnar munu í síauknum mæli gera kröfur um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð á sínum vinnustöðum og það munu framtíðarfjárfestar einnig gera.

Við þurfum að taka forystu í að endurskoða löggjöf og regluverk samfélagsins til að mæta tæknibreytingum. Og þar höfum við þegar sýnt að við getum tekið forystu. Til dæmis var Alþingi Íslendinga fyrsta þjóðþing heimsins til að samþykkja stuðning við alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra vígvéla sem er ein af skuggahliðum hraðrar tækniþróunar. Þá hafa fyrirtæki í sjávarútvegi náð markverðum árangri í þróun á hátækni til að auka verðmæti og gæði vara og draga úr umhverfisáhrifum. Reynsla okkar af lausnum á vandamálum við nýtingu sjávarafurða skilar sér í hátæknilausnum. Þetta þurfum við að sjá víðar.

Í þessu skyni hef ég sett tæknibreytingar á dagskrá nokkurra ólíkra vettvanga. Ég hef óskað eftir því að Samráðsvettvangur um aukna hagsæld taki fjórðu iðnbyltinguna á dagskrá og vinni aðgerðaáætlun fyrir íslenskt atvinnulíf og vinnumarkað. Samráðsvettvangurinn er undir forystu Katrínar Olgu Jóhannesdóttur og Rögnu Árnadóttur og þar sitja fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum, atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni. 

Þá verður þáttur vísinda og rannsókna settur á dagskrá Vísinda- og tækniráðs en eins og kunnugt er leggur ný ríkisstjórn áherslu á nýsköpun og rannsóknir í sínum stjórnarsáttmála. Þar þarf að horfa til lengri tíma, gera áætlanir um menntun frá fyrstu skólastigum, grunnrannsóknir og hvernig við getum tryggt að nýsköpun á þessu sviði eins og raunar fleirum, geti vaxið og dafnað hér á landi.
Að lokum verður sett á laggirnar svokölluð framtíðarnefnd á Alþingi. Þessi nefnd verður að finnskri fyrirmynd en þar hefur í um 25 ár verið starfandi nefnd með þingmönnum úr öllum flokkum sem er einskonar hugveita þingsins um framtíðarmálefni. Framtíðarnefndinni í Finnlandi hefur verið ætlað að skapa umræðu við stjórnvöld um tækifæri og ógnanir til framtíðar og senda reglulega frá sér vandað efni um framtíðarmálefni. Starf finnsku nefndarinnar hefur reynst mikilvægt við að forgangsraða markmiðum sem Finnar setja á dagskrá en þeir hafa að mörgu leyti verið til fyrirmyndar með því að vinna markvisst að því að efla stöðu finnsks samfélags á mikilvægum framfarasviðum.

Ágætu gestir.

Ísland fagnar í ár hundrað ára afmæli fullveldisins. Eins og þið þekkið, sem nýlega hafið fagnað aldar afmæli þessarar samkundu og rifjað upp söguna af þeim sökum, hefur ótrúlega margt breyst á einni öld. Samt sem áður er ekki fjarri lagi að segja að það séu sömu þættirnir sem skipta máli þegar kemur að sjálfstæði þjóðarinnar. Þegar Jón Sigurðsson barðist fyrir sjálfstæði Íslands var hann að berjast fyrir sjálfstæðu íslensku menntakerfi, sjálfstæðri verslun og sjálfstæðri stjórnsýslu. Hann taldi að það væri til hagsbóta fyrir þjóðina að ákvarðanir væru teknar hér, nærri íbúunum sjálfum. En um leið taldi hann nauðsynlegt að við sem hér byggjum ættum samskipti við aðrar þjóðir – á okkar forsendum.

Á hundrað ára afmæli fullveldisins á þetta enn við. Samskipti við aðrar þjóðir eru okkar lífæð. Ekki síst vegna þess að við erum eyja og það er ekki óhugsandi að skera okkur úr tengslum við umheiminn.. Við erum öll háð því að vera sítengd við umheiminn í gegnum fjarskiptakerfið og þær tengingar knýja áfram atvinnulífið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, stjórnsýsluna; samfélagið allt. En samskiptin eru ekki einungis í gegnum netið. Ísland á ótrúleg tækifæri þegar kemur að uppbyggingu flugþjónustu þar sem við getum nýtt okkur landfræðilega legu okkar til að bjóða upp á stuttan millitíma í millilendingum milli heimsálfa sem getur orðið enn ein stoðin undir fjölbreyttara atvinnulíf til framtíðar. Þá skila þessar tengingar möguleika fyrir innlent atvinnulíf til þess að flytja út vörur á nýja markaði og einnig til að lækka flutningskostnað vara til landsins. Tíðni tenginga eru verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Og við þurfum að halda í þessar tengingar og halda þeirri forystu sem við höfum náð meðal Norðurlandaþjóða á flugi til Bandaríkjanna.

Við erum þjóð sem alltaf hefur lifað á samskiptum við aðrar þjóðir. Í menningu, vísindum, viðskiptum, stjórnmálum: Við lifum á því að tengjast öðrum.
En rétt eins og þegar kemur að tæknibreytingum þá gerast hlutirnir ekki af sjálfu sér. Það blasa mörg tækifæri við Íslandi þegar kemur að samskiptum og tengingum við umheiminn. Til þess að við getum nýtt þessi tækifæri verðum við að ráðast í uppbyggingu innviðanna. Um þetta erum við búin að tala í stjórnmálunum í nokkur misseri og um þetta hafið þið líka rætt. Það er að hægjast á hagvexti og þar með eru til staðar tækifæri til að koma með innspýtingu í uppbyggingu án þess að skapa of mikla þenslu. Til þess þurfum við þó að vera reiðubúin til að nýta þá fjármuni sem við eigum – til dæmis í bönkunum – og láta þá vinna fyrir fólkið í landinu. Um þetta hefur verið deilt á vettvangi stjórnmálanna.

Við fórum illa að ráði okkar við uppbyggingu fjármálakerfisins við upphaf þessarar aldar, það þekkir þessi samkoma líklega betur en aðrir. Okkur hefur hins vegar tekist ótrúlega vel að leysa úr þeim áskorunum sem fylgdu hruninu. Það hefur þó ekki verið án fórna, og þar hefur almenningur fært stærstu fórnirnar. Það er því mikilvægt að tryggja að endurreist fjármálakerfi kalli aldrei aftur á sömu fórnir og að almenningur fái að njóta þess árangurs sem endurreisn skilar til ríkissjóðs.

Til eru þeir stjórnmálamenn sem finnst mestu skipta að ríkið eigi hér allt fjármálakerfið. Ég segi: Ljúkum þeirri miklu vinnu sem staðið hefur yfir við endurskipulagningu fjármálakerfisins sem býr nú við allt annað regluverk en það gerði fyrir tíu árum. Tökum afstöðu til lykilspurninga um viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, gagnsæi eignarhalds og hæfi eigenda. En höldum ekki að forsenda þess að ljúka þeirri vinnu sé að ríkið eigi allt bankakerfið. Ríkisstjórnin vill draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum enda ekki skynsamlegt fyrir ríkið að bera meginábyrgð á öllum helstu fjármálastofnunum landsins. Lykilatriðið er að skapa stöðugt og traust fjármálakerfi sem getur mætt til jafns þörfum heimila landsins og ekki síður fjölbreyttum þörfum atvinnulífsins.

Endurheimtur ríkisins úr fjármálakerfinu eiga að skila sér til fólksins í landinu í uppbyggingu almannagæða og tryggja þannig að okkar innviðir séu nægjanlega sterk umgjörð til þess að fólkið geti haldið áfram að skapa sér tækifæri hér á landi og byggja sér góða framtíð. Ef við frestum uppbyggingu innviða er það ávísun á lífskjaraskerðingu á næstu árum. Við látum það ekki gerast og um það eigum við öll að vera sammála. Fjárfesting í innviðum tryggir hagvöxt en eykur líka jafnræði meðal fólks því öll treystum við á innviði.

Kæru gestir.

Kolefnishlutlaust Ísland 2040 er það stefnumál ríkisstjórnarinnar sem hvað mesta athygli hefur vakið á alþjóðavettvangi. Enda ekkert smámál og þjóðir heims nær allar orðnar sammála um að loftslagsbreytingarmál málanna. Og þar sem þjóðarleiðtogar átta sig ekki á mikilvægi þess máls er jafnvel enn meiri vitund meðal borgarstjóra, þingmanna og vísindasamfélagsins. Kolefnishlutleysi gengur lengra en Parísarmarkmiðin sem Ísland hefur undirgengist. Til þess að þessu metnaðarfulla markmiði verði náð – og við skulum átta okkur á því að öll löndin í kringum okkur eru að setja sér sambærileg markmið þó að flest ætli að gefa sér fimm til tíu árum lengri tíma – þurfum við öll að taka höndum saman. Stjórnvöld og almenningur, fyrirtæki og stofnanir, verkalýðshreyfingin, stofnanir samfélagsins og vísindasamfélagið. Þess vegna hef ég einnig farið þess á leit við Samráðsvettvang um aukna hagsæld að hann taki til sérstakrar umfjöllunar hvernig allir þessar geirar og ekki síst viðskiptalífið, vinni sameiginlega að innleiðingu stefnu um kolefnishlutlaust Ísland 2040. Hluti verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem verður krefjandi verkefni en markmiðinu verður hins vegar ekki náð nema með markvissum aðgerðum á sviði bindingar, með breyttri landnotkun, til dæmis með endurheimt votlendis. Ég tel hins vegar að í þessu felist líka gríðarstórt tækifæri fyrir Ísland. Eða hvað með að selja fisk frá kolefnishlutlausu samfélagi? Landbúnaðarafurðir? Eða hugvit? Hver vill ekki taka þátt í slíku tækifæri? Þarna höfum við tækifæri til að vera leiðandi og við eigum að nýta okkur það.

Ágæta samkoma.

Eitt stærsta verkefni mitt sem forsætisráðherra hefur verið að hefja nýtt samtal við aðila vinnumarkaðarins um þann sameiginlega grundvöll sem við þurfum að skapa; stjórnvöld, verkalýðshreyfingin og atvinnulífið, fyrir ábyrgan vinnumarkað, öflugt velferðarkerfi og hagsæld okkar allra. Þar höfum við sett ýmis verkefni af stað og sjáum nú þegar fyrir endann á einhverjum þeirra.
Við munum ráðast í breytingar á fyrirkomulagi kjararáðs og í þessari viku mun starfshópur skipaður aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum ríkisins skila okkur tillögum um hvernig við getum breytt þessu fyrirkomulagi og það í átt til þess sem tíðkast á Norðurlöndum og skapað um leið aukna sátt á vinnumarkaði.

Við munum ráðast í breytingar á útreikningum á launatölfræði sem og úrvinnslu þeirra upplýsinga þannig að tryggt verði að við séum sammála um hver launaþróun hefur orðið þegar sest er niður við samningaborðið.

Við munum breyta hlutverki Þjóðhagsráðs þannig að félagslegur stöðugleiki verði hluti af verkefnum þess, ekki eingöngu efnahagslegur stöðugleiki, enda hlýtur þetta tvennt að fara saman í velferðarsamfélagi.

Við viljum áfram rækta þetta samtal með það að markmiði að ná fram breytingum þannig að við saman getum gert vinnumarkaðinn ábyrgari og komið í veg fyrir félagsleg undirboð, mansal og svarta atvinnustarfsemi. Við viljum einnig eiga samtal um félagslegar aðgerðir og þar nefni ég sérstaklega uppbyggingu á húsnæðismarkaði, lengingu fæðingarorlofs og hækkun greiðslna og menntun fyrir alla.

Að lokum vil ég segja það: Mörgum erlendum fjölmiðlum finnst mjög merkilegt að ég sé kvenkyns og virðast þeir halda að þar með sé Ísland einhvers konar jafnréttisparadís. Þessir ágætu karlkyns fjölmiðlamenn verða alltaf mjög kúnstugir í framan þegar ég bendi þeim á að til þess að það geti orðið réttnefni þyrftum við helst að fá svona um það bil 35 konur í röð sem forsætisráðherra. Þeim finnst ég greinilega frek til fjárins. Enda kona en eins og allar konur í salnum vita er allt best þegar þær taka ekki of mikið pláss og gera bara það sem til er ætlast af þeim. Eða þannig. Auðvitað er sú bylting sem orðið hefur að undanförnu og kennd er við metoo ekki endilega þægileg. Hún getur meira að segja verið mjög sársaukafull en um leið er hún til mikils gagns því að hún afhjúpar það samfélagsmein sem er kynbundið ofbeldi og kynferðisleg áreitni. Ég tel viðbrögð vinnumarkaðarins; verkalýðshreyfingarinnar, stofnana og fyrirtækja, til mikillar fyrirmyndar og sýna að okkur er alvara með að taka á þessum vanda og búa þannig um hnútana að við verðum í fararbroddi í þessum efnum.

Kæru gestir.

Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að fá að ávarpa ykkur og eiga samtal hér á eftir. Ég hef mikla trú á góðu samstarfi okkar á næstu misserum í þessum mikilvægu verkefnum sem ég hef hér nefnt.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira