Hoppa yfir valmynd
03. júní 2018 Forsætisráðuneytið

Forseti Íslands, sjómenn og fjölskyldur - kæru Grindvíkingar.

Til hamingju með daginn ykkar! Mér finnst eðlilegt að tala um sjómannadaginn sem daginn ykkar, þar sem að ég veit hvað þessi dagur hefur mikla þýðingu í samfélaginu hér. Ég þykist vita að tímatal ykkar Grindvíkinga miðast beinlínis við hann. Hér er ekki talað um fyrir og eftir áramót eins og annars staðar á landinu, heldur fyrir og eftir sjómannadag.

Sjómannadagurinn tengist bæði sögu og menningu þjóðar okkar órjúfanlegum böndum og er fyrst og fremst hátíðardagur. Í ár eru 80 ár síðan haldið var upp á sjómannadaginn í fyrsta sinn. Það var í Reykjavík árið 1938 og þá var um fjórðungur borgarbúa, 10.000 manns, saman kominn á Skólavörðuholtinu til að minnast sjómanna og taka þátt í hátíðarhöldunum. Dagurinn þótti með allra hátíðlegasta móti, enda voru fánar dregnir við hún um allan bæinn og skrautfánablæjur blöktu á öllum skipum í höfninni.

Sama dag fóru líka fram hátíðarhöld á Ísafirði og á næstu árum festi sjómannadagurinn sig í sessi í sjávarþorpum landsins, þótt hann hafi ekki orðið lögbundinn almennur frídagur sjómanna fyrr en 1987. Svo mikil og vegleg urðu hátíðarhöldin að það voru kannski helst jólin sem þóttu meiri hátíð en dagur sjómanna. Að koma hingað til ykkar í dag og upplifa andann hér þá finnst mér þessi andi enn lifa í Grindavík.

Maður skynjar það hér að samfélagið hefur sótt svo stóran hluta af björg og auð til hafsins, að í gegnum kynslóðirnar hefur erfst einstakt baráttuþrek. Ekki aðeins kallar það á styrk og þrek að sækja sjóinn í hvaða veðri sem er heldur er það ekki síður krefjandi að sinna börnum og heimilum í landi með makann á sjó.

Á sjómannadeginum fögnum við þeim sem sækja sjóinn og fjölskyldum þeirra sem oft þurftu og þurfa enn að þola miklar fjarvistir. Við minnumst líka þeirra sem við höfum misst á sjó. Sjávarútvegur hefur sérstaka stöðu í hugum Íslendinga, flestir Íslendingar búa við sjó og mörgum finnst óþægilegt að hafa sjóinn ekki fyrir augum. Sjávarútvegur hefur lengst af verið okkar helsta tekjulind og í minni bernsku voru fréttir af sjávarútvegi oft aðalfréttirnar. Í öllum fjölskylduboðum var talað um gengi sjávarútvegsins, hvernig fiskaðist og nýjungar í sjávarútvegi. Það var reyndar svo mikið talað að ég fór sem barn að loka eyrunum í hvert sinn sem talað var um sjávarútveg en slapp þó ekki alveg enda var Útvegsspilið vinsælt á áttunda og níunda áratugnum þó að ég skildi sjálf aldrei leikreglurnar.

En sjávarútvegur Íslendinga hefur hins vegar tekið róttækum breytingum frá minni bernsku, hvað þá þegar við horfum öld aftur í tímann. Verðmætaaukningin hefur orðið gífurleg, nýsköpun mikil en um leið hefur eðli sjómennskunnar breyst. Og slysum á sjó hefur fækkað mjög en oft tók Ægir ansi stóran toll af fjölskyldum þessa lands.

Þegar kemur að björgunarstörfum er hins vegar mikilvægt að gera stöðugt betur. Þess vegna er m.a. ætlunin að kaupa nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna, enda löngu tímabært. Hér í Grindavík hefur alla tíð verið forysta í björgunarstarfi. Björgunarsveitin Þorbjörn fagnaði 70 ára afmæli sínu í fyrra en sveitin var stofnuð 1947. Löngu áður hafði þó Slysavarnardeildin Þorbjörn verið stofnuð, eða í lok árs 1930. Á þessum tíma hafði Slysavarnarfélag Íslands, nýstofnað, séð um að dreifa fluglínutækjum til slysavarnardeilda sem hófu störf víða um land.

Þó var það ekki fyrr en franski togarinn Cap Fagnet strandaði hér austan Grindavíkur í slæmu veðri eina kalda marsnótt árið 1931 að á reyndi. Það kom þá í hlut Slysavarnardeildarinnar Þorbjarnar að fara í björgunarleiðangur en þeim leiðangri lauk eins og við þekkjum með frækilegri björgun allrar áhafnarinnar alls 38 manns. Þessarar fyrstu björgunar með fluglínutækjum hefur oft verið minnst enda markaði hún tímamót í björgunar- og sjóslysasögu Íslands. Í heildina mun þessari einu björgunarsveit, Slysvarnardeildinni Þorbirni og síðar björgunarsveit, hafa tekist að bjarga 205 sjómönnum með fluglínutækjunum þegar seinast var talið og í heildina um 240 mannslífum. Það er stórkostlegt afrek.

Önnur björgun er mér ofarlega í huga, þó meira af persónulegum ástæðum, en það er björgun áhafnarinnar á Skúla fógeta í apríl 1933. Togarinn strandaði hér í kafaldsbyl og það var ótrúlegt afrek bæði þeirra sjómanna sem komust af og björgunarsveitarmanna sem stóðu að björguninni að takast skyldi að bjarga 24 mönnum. En ekki tekst þó alltaf að bjarga öllum og þennan dag fórust 12 eða 13 manns, það er mismunandi samkvæmt heimildum. Meðal þeirra sem fórust voru langafi minn Jakob Bjarnason og afabróðir minn Gunnar Jakobsson. Við afkomendur Jakobs komum aldrei hingað til Grindavíkur án þess að minnast hans og sonar hans.

Starf slysavarnardeildarinnar Þórkötlu og björgunarsveitarinnar Þorbjarnar er öflugt í dag sem aldrei fyrr. Hér er starfrækt afar fjölmenn slysavarnardeild og í henni eru að mér skilst 156 konur og í Þorbirni eru um 80 manns. Starf unglingadeildar er sérstaklega kröftugt og þátttaka unglinga allt niður í 7. bekk í starfinu er eftirtektarverð. Þáttur björgunarsveita er auðvitað samtvinnaður í alla ykkar tilveru eins og sagan ber vitni um. Og það er fyrir tilstilli sjálfboðaliða á þeirra vegum og fórnfýsi að ekki fór alltaf illa þegar sjóslys urðu.

Mig langar að lokum, kæru Grindvíkingar, að fara með ljóð í tilefni dagsins. Þegar áhöfnin á Skúla fógeta, þeir sem komust af, komst í aðhlynningu var það héraðslæknirinn og tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns sem tók á móti henni. Hann samdi lagið við þetta ljóð en skáldið Örn Arnarson samdi ljóðið úti á sjó – sagan segir að hann hafi verið með Grindvíkingi til sjós og vakið hann svona einn morguninn:

Grindvíkingur

Góðan daginn, Grindvíkingur!
Gott er veðrið, sléttur sær.
Svífa í hilling Suðurnesin.
Sólarroða á Hlíðar slær.
Fyrir handan hraun og tinda
huga kær og minnarík
bíður okkar bernskuströndin,
brimi sorfi, Grindavík.
Við skulum yfir landið líta,
liðnum árum gleyma um stund,
láta spurul unglingsaugu
aftur skoða strönd og sund.
Sjá má enn í Festarfjalli
furðuheima dyragátt,
Þorbjörn klofnu höfði hreykja
himin við í norðurátt.

Hún hefur verið falleg, innsiglingin hérna við Grindavík þótt hún hafi áður fyrr verið erfið og oft hættuleg.
Ég vil að lokum færa sjómönnum, fjölskyldum þeirra, fiskvinnslufólki og ykkur öllum sem starfið við sjávarútveg þakkir fyrir mikilvægt starf. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum