Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2018 Forsætisráðuneytið

Ræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í Gleðigöngunni 11. ágúst 2018

Ágætu hátíðargestir, gleðilega hátíð.

Þeir eru ekki margir dagarnir sem samtvinna með jafn mögnuðum hætti gleði og kraft, þakklæti, stolt og baráttuþrek. Saga réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi vitnar eins og aðrar baráttusögur um mótlæti, sigra - og stundum tap, þrjósku, framfarir en umfram allt einstaka staðfestu þeirra sem vita að þau berjast fyrir betri og réttlátari heimi.

Í dag fögnum við fjölbreytni, mannréttindum, hinseginleikanum. Við fögnum saman.
Um leið sýnum við vilja okkar til þess að láta ekki staðar numið, heldur halda áfram að berjast fyrir réttindum allra í raun, jafnrétti allra í raun.

Það er alltaf gagnlegt að rifja upp hvar við byrjum og hvert við höfum komist á hátíðardögum sem þessum. Þegar ég fór að velta fyrir mér hvað ég ætti að tala um hér í dag rifjaði ég upp áfanga í baráttunni sem ég man sérstaklega vel eftir. Lögum um staðfesta samvist 1996 og seinna einum hjúskaparlögum árið 2010 sem ég fékk að styðja í þingsal.

Fyrsta gleðigangan var gengin hér í Reykjavík árið 1999 í þeirri mynd sem hún er núna og þá var sleginn sá mikilvægi tónn sem alltaf hefur einkennt þessa göngu; hún snýst bæði um baráttu fyrir réttindum en líka gleðina yfir fjölbreytileikanum og þeim sigrum sem hafa unnist.

En frelsisstríðum lýkur aldrei. Hér heima vitum við að við höfum dregist aftur úr öðrum löndum í Evrópu hvað varðar lagaleg réttindi hinsegin fólks. Við vitum að við verðum að tryggja mannréttindi trans og intersex fólks.

Í vetur verður lagt fram frumvarp á Alþingi um framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfræði. Þegar frumvarpið verður að lögum mun það koma okkur í fremstu röð - þar sem við eigum að vera, af því að við getum það og af því að það er rétt.

Réttindabarátta hinsegin fólks er ofarlega á forgangslista núverandi ríkisstjórnar og við höfum þegar náð góðum áföngum á þessu fyrsta hálfa ári. Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu var samþykkt í vor og er mikilvægt skref til að tryggja mannréttindi allra.

Ríkisstjórnin hefur tvöfaldað fjárframlög til Samtakanna 78 þannig að þau geti betur sinnt sínu mikilvæga starfi.

Það hefur líklega sjaldan verið mikilvægara en nú að standa fast í fætur og taka áfram þátt í að ryðja brautina. Réttindi hafa aldrei fengist án baráttu.
Réttindi hafa aldrei fengist gefins.
Og á síðustu misserum höfum við séð stjórnvöld í ýmsum ríkjum afnema réttindi sem lengi hefur verið barist fyrir. Víða hefur orðið bakslag og við þurfum að berjast gegn því og tala skýrt fyrir réttindum hinsegin fólks hvar sem við komum og á hvaða vettvangi sem er.

Við megum ekki gera ráð fyrir því að framfarir í réttindamálum hinsegin fólks séu sjálfsagðar. Með því að viðhalda og efla fræðslu, vera vakandi og vinna gegn fordómum, tryggjum við réttindi hinsegin fólks. Og það þurfa allir að standa saman og taka þátt, rétt eins og við gerum saman hér í dag.

Mig langar að lokum að koma aftur að því sem við finnum öll í hjartanu, við sem stöndum hér í Hljómskálagarðinum í dag; gleðinni.

Ég fagna því að tilheyra samfélagi sem hefur breyst mikið til hins betra á skömmum tíma. Samfélagi, þar sem ein stærsta og fjölmennasta hátíð landsins snýst um samstöðu með mannréttindabaráttu.

Ég fagna mannréttindum sem kostaði blóð, svita og tár að koma í lög og einnig því að við getum í vetur tekið enn stærri skref í að tryggja öllum þau mannréttindi.

Ég fagna fjölskyldulífinu fyrir þau sem það velja, hugrekkinu sem enn þarf samt stundum að sýna, margbreytileikanum og fræðslunni.

Og ég fagna félagasamtökunum, stuðningsnetunum og öfluga grasrótarstarfinu sem sannarlega hefur fleytt okkur áfram þangað sem við erum komin.

Ég fagna hamingjunni og ég fagna frelsinu.

Til hamingju við öll með árangurinn, og fulla ferð áfram.

Gleðilega hátíð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum