Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2018 Forsætisráðuneytið

Sóknarfæri í innlendum landbúnaði - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur sem birtist í Bændablaðinu

Sóknarfæri í innlendum landbúnaði

Á dögunum varð ég þess heiðurs aðnjótandi að opna landbúnaðarsýninguna Sveitasælu í Skagafirði. Þar mátti sjá margvísleg dæmi um nýsköpun í innlendum landbúnaði sem sýna svo ekki verður um villst að innlendur landbúnaður býr yfir gríðarlegum sóknarfærum.

Það hefur lengi verið hluti af stefnu Vinstri-grænna að líta á landbúnað sem umhverfismál. Matvælaframleiðsla í nærumhverfi er hluti af sjálfbæru samfélagi og í mínum huga er ekki spurning að mikilvægur þáttur þess að hafa betur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum verður að tryggja matvælaframleiðslu í heimabyggð þannig að ekki þurfi að flytja mat yfir hálfan hnöttinn með tilheyrandi kolefnisfótspori. Æ fleiri eru að verða meðvitaðir um það vistspor sem fylgir miklum flutningum og æ fleiri gera kröfu um framleiðsluhætti sem eru samfélagslega og umhverfislega ábyrgir.

Í raun getur ekkert samfélag verið sjálfbært án innlends landbúnaðar. Þess vegna er mikilvægt að stuðningur við innlendan landbúnað styðji við það að gera innlendan landbúnað enn grænni. Þar hafa sauðfjárbændur stigið stór skref og sett sér metnaðarfulla stefnu um kolefnishlutleysi sauðfjárræktar, sem ríkisstjórnin telur til fyrirmyndar. Til þess að ná þeim markmiðum sem Ísland hefur sett sér til að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum verða allir geirar samfélagsins að taka höndum saman, stjórnvöld, atvinnulífið og almenningur. Ég fagna frumkvæðinu sem sauðfjárbændur hafa sýnt og hlakka til að fylgjast með því verkefni og þeim sem svo munu fylgja í kjölfarið.

Innlendur landbúnaður er líka grunnforsenda þess að tryggja matvælaöryggi landsmanna allra. Til þess að hægt verði að fæða heiminn næstu áratugi þarf bændur úti um allan heim, líka á harðbýlum eyjum eins og Íslandi. Um þetta höfum við séð dæmi á síðustu vikum, þegar sögulegir þurrkar hjá nágrönnum okkar í Skandinavíu hefur gert Dani og Svía að korn-innflytjendum í fyrsta skipti í marga áratugi. Norðmenn ætla að kaupa tugþúsundir tonna af heyi frá Íslandi til þess að geta framleitt nægt kjöt og næga mjólk, meðal annars vegna þess að hér er sjúkdómastaða álíka góð og hjá þeim.

Að lokum er innlendur landbúnaður ein af forsendum þess að unnt sé að tryggja ákveðna byggðafestu. Þar er hins vegar mikilvægt að stuðningskerfið þróist í takt við breytta tíma þar sem framleiðslugeta hefur aukist. Þar er nýsköpun grundvallarþáttur enda margir bændur að sinna fjölþættum verkefnum sem geta af sér fjölbreyttar afurðir. Menntun, rannsóknir og nýsköpun er það sem mun gera okkur kleift að hafa hér til framtíðar landbúnað í fremstu röð og auka enn verðmæti innlendra landbúnaðarafurða. Þar eru ýmis sóknarfæri sem meðal annars tengjast því að tengja betur saman matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu, nýta afgangsafurðir til margs konar nýsköpunar og markaðssetja þær gæðaafurðir sem hér eru búnar til. Við búum við góðar aðstæður; við eigum öfluga háskóla og rannsóknarstofnanir og framsýna bændastétt sem lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að starfsaðstæður hafi um margt verið verulega þungar um tíma.

Þar hlýt ég að nefna þá erfiðleika sem sauðfjárbændur glíma við þessi misserin en framleiðsla á lambakjöti hefur ekki verið í takt við innanlandsneyslu og ytri aðstæður hafa haft áhrif á útflutning á lambakjöti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú ákveðið að flýta endurskoðun á búvörusamningi við sauðfjárbændur til að unnt verði að móta langtímasýn fyrir sauðfjárbúskap þar sem tekið verður á þessum þáttum. Er það von mín að íslensk sauðfjárrækt fái þar ný sóknarfæri og geti jafnvel orðið fyrsta kolefnishlutlausa sauðfjárrækt í heimi.

Kúabændur eru svo að stíga fyrstu skrefin í að innleiða tæknibyltingu í ræktun íslensku mjólkurkýrinnar. Það lýsir hugrekki og trausti kúabænda á framtíð íslensks landbúnaðar að ráðast í það verkefni að nýta tækni, sem hingað til hefur einungis verið nýtt í risavöxnum erlendum kúastofnum, á hinn litla íslenska stofn. Það er nefnilega svo að öruggusta leiðin til að vernda okkar fornu bústofna er að sjá til þess að þeir séu nýttir til að framleiða landbúnaðarvörur.

Stundum er talað um stuðning ríkisins við innlendan landbúnað eins og sértækan stuðning við Framsóknarflokkinn. Með fullri virðingu fyrir mínum ágæta samstarfsflokki er það fjarri lagi. Staðreyndin er sú að flest lönd heimsins niðurgreiða landbúnað til þess einmitt að mæta hagsmunum neytenda, tryggja matvælaöryggi og sjálfbærni. Við eigum að styðja við íslenskan landbúnað – landbúnað sem er í takt við 21. öldina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira