Hoppa yfir valmynd
07. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið

Nýir miðlar og lýðræðið - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur sem birtist í Kjarnanum 7. nóvember 2018

Nýir miðlar og lýðræðið

Nú á dögum nýrra samskiptamiðla er mikilvægt að hafa í huga að allir miðlar móta skilaboðin og laga að sér. Þetta eru gömul sannindi, Kanadamaðurinn Marshall McLuhan, orðaði það einfaldlega svona: „Miðillinn er skilaboðin.“ Þetta þurfum við að hafa í huga núna sem lifum óvenjulega tíma þar sem sannkölluð bylting hefur orðið í upplýsingatækni, þar sem aðgengi að upplýsingum hefur aldrei verið greiðara og meira en um leið hefur sjaldan verið flóknara að greina kjarnann frá hisminu í öllu upplýsingastreyminu, þar sem jafn auðvelt er að dreifa röngum staðreyndum og réttum.

Nýir miðlar hafa breytt skilaboðunum. Umræða á vettvangi alþjóðastjórnmála verður núna að rúmast innan 280 bókstafa á Tístinu og nánast daglega eru fluttar fréttir af því sem valdamesta fólk heims segir á þeim miðli. Sjálfsagt hefði Sesar blómstrað því að „Teningnum er kastað“ passar í formið en hann skrifaði raunar líka langar bækur um pólitík sína.

Það blasir auðvitað við að hætta er á að röngum upplýsingum sé dreift vísvitandi til þess eins að skapa glundroða og grafa undan lýðræðinu. Á fundi Norðurlandaráðs í síðustu viku kom fram að ekki væri óalgengt að röngum upplýsingum væri til dæmis dreift um málefni innflytjenda til að auka spennu og ósætti milli ólíkra hópa í samfélaginu. Ný tækni gerði þetta mun auðveldara en áður þar sem samfélagsmiðlar sköpuðu jarðveg fyrir samfélag þar sem ólíkir hópar halda til í afar ólíkum kimum netsins og byggja lífsýn sína á mjög ólíkum upplýsingagrunni. Norðurlöndin væru sérlega viðkvæm fyrir þessari þróun einmitt vegna þess að almennt ríkti mikið traust milli fólks og fólk væri því tilbúnara til að treysta því sem það læsi á netinu.

Upplýsingabyltingin sem nú stendur yfir er hvorki sú fyrsta né sú síðasta. Við höfum séð slík umskipti í miðlun upplýsinga áður. Þegar ritmálið leysti munnlega geymd af hólmi og nýir menn tóku völdin á Íslandi í upphafi Sturlungaaldar. Þegar prentsmiðjur leystu af hólmi handritaskrifara og mestu völdin söfnuðust til þeirra sem réðu yfir prentsmiðjunum. Það er því mikilvægt að við séum meðvituð um að slík umskipti í miðlun upplýsinga getur líka haft í för með sér breytingar á samfélagi og stjórnmálum.

Tilkoma samfélagsmiðla hefur gerbreytt skynjun allra á veruleikanum. Á sama tíma og allt virðist geymt í minni alnetsins virðist minni mannfólksins geyma æ minna. Umræðan snýst iðulega einkum um líðandi stund, áreitið er stöðugt og hvert umræðuefni lifir skammt.

Við höfum dæmi um leyniþjónustur sem söfnuðu ótrúlegu magni upplýsinga um náungann á tuttugustu öldinni en hvernig er þetta nú? Því hefur verið haldið fram að 21. öldin sé draumaheimur leyniþjónustunnar, sannkölluð veisla, vegna þess að einstaklingurinn hefur lagt fram svo ótrúlegt magn upplýsinga á samfélagsmiðlum sem virka nánast eins og stafræn alsjá.

Allir þekkja frægt slagorð Nokia, „Tengir fólk“, og vissulega er það svo að við erum nánast öll tengd alnetinu. En erum við tengd hvert öðru? Eða hafa tengslin milli fólks í sama herbergi ef til vill aldrei verið minni á meðan hver er í sínum netheimi? Og eru tengsl á netinu persónuleg þannig að þau veiti fólki nauðsynlega nánd? Áttu vini ef besti vinur þinn er bara alias á netinu sem þú hefur aldrei séð? Það vekur eftirtekt að samhliða þessari þróun á samfélagsmiðlum má greina aukna andlega vanlíðan, ekki síst hjá ungu fólki. Ég get ekki lagt mat á það hvort hún tengist þessum breyttu samskiptaháttum og tækniþróun en mitt í þessu öllu hafa bresk stjórnvöld til dæmis stofnað ráðuneyti einmanaleikans sem svar við því að æ fleiri Bretar eru einmana og líður illa í einmanaleikanum.

Það líður ekki sá dagur að fjölmiðlar beri ekki á borð endursögn á því hvað hafi verið sagt á ýmsum samfélagsmiðlum þann daginn, ekki þó eftir hverjum sem er heldur útvöldum skoðanaleiðtogum sem blaðamaðurinn telur mikilvæga. Í breytingum af þessu tagi græða einhverjir en aðrir eru jaðarsettir.

Við þurfum að huga að ýmsu til að bregðast við þessum breytingum sem hafa orðið og munu verða. Það er mikilvægt að tryggja faglegum fjölmiðlum gott rekstrarumhverfi og kannski hefur það aldrei verið mikilvægara en einmitt nú.

Viðbrögð skólakerfisins við tæknibyltingunni eru líka mikilvæg og þau eiga meðal annars að snúast um aukna tæknimenntun eins og forritun en þau mega ekki einungis snúast um hana. Það er ekki síður mikilvægt að rækta enn frekar þá þætti sem fjallað er um í aðalnámskrá og snúast um lýðræðismenntun, menningarlæsi, sálfræðiþekkingu og gagnrýna hugsun.

Stjórnmálin þurfa að vera meðvituð um þessar breytingar. Við sem þar störfum verðum að taka til umræðu mikilvægi lýðræðislegra stjórnmálahreyfinga og þingræðisins. Við megum ekki leyfa breytingunum að grafa undan lýðræðislegum stofnunum og aðferðum og leiða til fáræðis og fábreytni heldur verðum við að gæta þess að samfélag okkar glati ekki þeim mikla ávinningi sem náðst hefur á sviði mannréttinda og lýðræðis, fjölræðis og fjölbreytni í þeim miklu breytingum sem nú eiga sér stað.

Tækifærin sem felast í tæknibreytingum okkar tíma þarf að nýta með ábyrgð og tryggja að þær verði til þess að styrkja lýðræðið og gefi sannanlega fleirum rödd og tækifæri til áhrifa en áður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum