Hoppa yfir valmynd
17. október 2019 Forsætisráðuneytið

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á 20 ára afmæli Samtaka atvinnulífsins

Kæru gestir

Sátt er þemað á þessum hátíðarfundi Samtaka atvinnulífsins. Og víst er það svo að sátt er fallegt hugtak. Felur í sér jafnvægi og frið. Sátt er staða þar sem allir aðilar upplifa gagnkvæman skilning og virðingu. Sátt felur í sér traust milli fólks.

Það stefndi ekki í mikla sátt á íslenskum vinnumarkaði í upphafi þessa árs. Það var því sérstaklega ánægjulegt að einhvers konar sátt skyldi nást á vormánuðum þessa árs við undirritun lífskjarasamninga. Þar með var vinnunni þó ekki lokið því sáttin er að sjálfsögðu ekki varanleg í þeim skilningi orðsins. Fyrir henni þurfti að vinna hörðum höndum og til þess að hún haldi þarf að vinna enn harðar.

Ég ætla að nota tækifæri mitt hér í dag til að ræða sáttina, sáttina sem á að vera markmið okkar allra á íslenskum vinnumarkaði. Og líka, hvað þarf til að tryggja sátt í samfélaginu öllu á tímum þar sem deilur og sundrung virðast einkenna vestræn samfélög í æ meira mæli. Og í því samhengi hlýt ég að spyrja: Hvert ætlar Ísland að stefna?

Á Íslandi höfum við lengi talað um nauðsyn þess að breyta ferlinu við kjarasamningagerð. Það má segja að við höfum verið eftirbátar hinna Norðurlandanna í þessum efnum og að kjarasamningsgerð á Íslandi hafi verið lausari í reipunum. Í litlu og sveiflukenndu hagkerfi – sem reiðir sig meðal annars á viðkvæmar útflutningsgreinar tengdar náttúruauðlindum – er sérstaklega mikilvægt að nálgast kjarasamningsgerð með heildstæðum hætti. Of oft hafa kjarabætur launafólks verið étnar upp nánast um leið og þær nást fram. Þótt ólíkir aðilar vinnumarkaðarins, sem og stjórnvöld, kunni að hafa mismunandi skýringar á þessu, þá hefur skapast samstaða um það markmið að kjarabætur skili sér með raunverulegum hætti til launafólks.

Aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi óskuðu eftir skýrslu frá Steinari Holden, prófessor við Oslóarháskóla fyrir nokkrum árum. Í skýrslu Holden var lagt til að tekið yrði upp samningalíkan að norrænni fyrirmynd. Í skýrslunni kom fram að grunnforsendur þess að þetta líkan gæti gengið upp væri sameiginlegur skilningur aðila vinnumarkaðarins á mikilvægustu úrlausnarefnunum. Launahækkanir þurfa að byggja á trausti milli aðila á vinnumarkaði um að allir aðilar haldi sinn hluta samkomulagsins og sæmileg sátt þarf að ríkja um að niðurstaðan sé skynsamleg og réttlát. Efnahagsstefna stjórnvalda og ákvarðanir stjórnenda geta haft rík áhrif á þetta. Ef efnahagsstefnan er óréttlát eða ef stjórnendur skila auknum hagnaði sífellt í vasa fárra, þá molnar hratt undan samstöðunni og sáttinni. Þá hverfur traustið.

Þegar mín ríkisstjórn tók við í lok árs 2017 lagði ég mikla áherslu á að halda reglulega fundi í Ráðherrabústaðnum með aðilum vinnumarkaðarins. Mörgum og jafnvel öllum þóttu þessir fundir lítið skemmtiefni en þeir voru eigi að síður til mikils gagns. Það sem ég lærði á þeim var að hlusta og reyna að skilja ólík sjónarmið aðilanna við borðið. Ég skildi það innra með mér að vinna við nýtt samningalíkan er langhlaup og verður ekki tekið upp á einum degi. Um leið var ég áfram sannfærð um að ábyrgðin á stöðugleikanum margnefnda yrði aldrei lögð á herðar láglaunafólks. Atvinnurekendur og forsvarsmenn stjórnvalda yrðu að leggja sitt af mörkum varðandi launaþróun og uppbyggingu félagslegs stöðugleika.

Sáttin verður nefnilega aldrei til staðar nema fólk sé reiðubúið að tala saman, hlusta og reyna að skilja. Sátt milli ólíkra aðila verður aldrei bara á forsendum annars og ekki hins.

Fyrir utan lífskjarasamningana sjálfa höfum við tekið tvö skref hvað varðar fyrirkomulag kjarasamninga sem ég vona að auki skilning og traust á milli aðila vinnumarkaðarins. Annars vegar stofnun Kjaratölfræðinefndar sem mun sjá um tölfræðilegar undirstöður launamyndunar. Hins vegar stofnun Þjóðhagsráðs, sem stýrt er af forsætisráðherra, en þar geta ríkisstjórnin og Seðlabankinn fjallað skipulega um félagslegan stöðugleika og efnahagslegar undirstöður launamyndunar í beinu samtali við forsvarsfólk verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Með þessu tvennu eigum við að geta tryggt eins og kostur er að samningaviðræður byggist á tiltölulega óumdeildum upplýsingum.

Jafnframt stendur fyrir dyrum gerð grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála og verður hún unnin í samstarfi stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Með þessu er vonast til að ná fram sem víðtækastri sátt um fyrirkomulag kjarasamningagerðar og aðkomu stjórnvalda að þeim.

Með því að tryggja sátt um þær upplýsingar sem kjaraviðræður byggjast á, sem og ferlið sjálft, er töluverðum áfanga náð. Þá þarf ekki að eyða tíma í að deila um forsendur og aðferðafræði, og þannig skapast aukið svigrúm til að vinna að hinu eiginlega úrlausnarefni, sjálfum samningunum.

Hefðbundin hagstjórn byggist á samspili þriggja þátta; ríkisfjármála, vinnumarkaðar og peningastefnu. Markmiðið er ekki einungis að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Lykilatriði er að hagstjórnin styðji við félagslegan stöðugleika, að aukin ríkisútgjöld styðji við aukna velsæld og unnið sé að samfélagslegum umbótum, samhliða umbótum á sviði efnahagsmála. Með þetta markmið munu stjórnvöld nú kynna nýja mælikvarða við gerð næstu fjármálaáætlunar sem byggjast á fjölbreyttari sjónarmiðum en áður og er ætlað að tryggja að stjórn ríkisfjármála tryggi um leið aukna velsæld, umhverfisvernd og hagsæld. Landsframleiðsla verður áfram mælikvarði en ekki sá eini – enda svo ótalmargt annað sem skiptir máli fyrir lífsgæði fólksins í landinu.

Hins vegar er það svo að við þurfum að bregðast við kólnandi hagkerfi og áföllum í flugrekstri, loðnubresti og fleiri þáttum sem hafa slíkt áhrif. Þess vegna leggur ríkisstjórnin til að auka opinbera fjárfestingu til að vinna gegn slaka í hagkerfinu. Framlög til opinberrar fjárfestingar í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár eru um 80 milljarðar kr. og þau hafa aukist að raungildi um 27 milljarða kr. á ársgrundvelli frá árinu 2017. Þetta er rétti tíminn til að ráðast í opinbera fjárfestingu þegar kemur að hagstjórninni en ekki síður vegna þess að við erum með verulega uppsafnaða þörf þegar kemur að fjárfestingum hins opinbera. Nægir þar að nefna samgöngumálin en líka mikilvæga innviði á borð við nýjan Landspítala.

Góðir fundargestir,

Í aðdraganda kjarasamninga á almennum markaði nú í vor tóku stjórnvöld sér stærra hlutverk en þau hafa alla jafna gert í íslensku samhengi. Almennt hafa stjórnvöld haldið sig til hlés þar til á lokametrunum en að þessu sinni komu stjórnvöld að borðinu á upphafsmetrunum með skýr skilaboð um að þau myndu gera sitt til að greiða fyrir að samningar næðust. Þetta var mikilvægt til að tryggja að samningarnir tækju með heildstæðum hætti á kjörum launafólks. Skilaboð stjórnvalda í samningalotunni voru að það væri enginn efnahagslegur stöðugleiki án félagslegs stöðugleika og að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins þyrftu að taka höndum saman til að ná báðum markmiðum. Meðal þess sem stjórnvöld skuldbundu sig til var:

  • að gera breytingar á skattkerfinu til að stuðla að jöfnuði og auka ráðstöfunartekjur tekjulágra;
  • aðgerðir í húsnæðismálum einkum til að halda áfram uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis, auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu kaup og til að tryggja nýbyggingar;
  • lenging fæðingarorlofs, hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og hækkun barnabóta; og
  • aðgerðir gegn kennitöluflakki, mansali og nauðungarvinnu.

Lífskjarasamningar miða sérstaklega að því að bæta hag þeirra sem höllustum fæti standa. Þeir opna á styttingu vinnuvikunnar og eiga að auðvelda fólki samræmingu vinnu og einkalífs. Allt mun þetta styðja við aukna velsæld alls almennings og aukinn jöfnuð sem er í takt við stefnumótun stjórnvalda um að ekki beri einungis að hugsa um efnahagslega þætti heldur skipti líka máli að ráðast í aðgerðir til að vernda umhverfi og styrkja félagslega innviði til að auka almennt lífsgæði fólks.

Lífskjarasamningarnir eru vissulega gott dæmi um að það er vissulega hægt að skapa aukna sátt í samfélaginu. En þar með er leiknum ekki lokið það má ekki missa augun af boltanum. Bæði ríkisvald og atvinnurekendur verða að sameinast um að hleypa ekki aftur af stað ofurlaunaþróun sem við þekkjum frá fyrri tíð. Bæði ríkisvald og atvinnurekendur verða að standa saman um að stuðla að auknum jöfnuði enda er það ekki aðeins réttlætismál heldur sýnir sig að jöfnuður eflir hagsæld og efnahagslega velgengni.

Annað gott dæmi um samstarf er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um grænar lausnir. Þar hefur atvinnulífið brugðist við áskorun stjórnvalda vegna loftslagsvárinnar – og fjárfestir í auknum mæli í grænum lausnum, orkuskiptum og kolefnisbindingu. Það er jákvætt að finna áhuga atvinnulífsins og ég veit að hann á eftir að reynast lykilatriði í þeim árangri sem við eigum eftir að ná í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Þar þurfum við öll að leggja okkar af mörkum, stór og smá.

En þó að um margt stefnum við í rétta átt í samtali stjórnvalda og atvinnulífs eru sumir hlutir sem mjakast ótrúlega hægt. Ég spurði á ársþingi Viðskiptaráðs fyrr á þessu ári hvar allir innflytjendurnir væru. Þeir voru nefnilega ekki margir í salnum. Við erum sem samfélag ekki að veita þeim sem hingað flytjast sömu tækifæri og þeim sem eiga hér rætur í margar kynslóðir. Í skólunum okkar eykst bilið á milli innflytjenda og innfæddra og atvinnulífið, bæði einkageirinn og hið opinbera, veitir innflytjendum ekki sömu tækifæri ef marka má hlut þeirra í hópi stjórnenda eða millistjórnenda. Á sama tíma og þau missa af tækifærinu til að láta drauma sína rætast missir íslenskt samfélag af sköpunargáfu og styrkleikum þeirra, tækifærinu sem felst í því að allir fái að blómstra, auka þekkingu sína og auka þannig verðmætasköpun í landinu, okkur öllum til hagsbóta. Ekki er hægt að skapa sátt þar sem tækifærum er misskipt.

Þá er ekki hægt annað en að taka eftir því hve margar myndir í nýrri bók um sögu Samtaka atvinnulífsins eru af körlum. Þó er einungis um sögu síðustu tuttugu ára að ræða – eða frá árinu 1999 þegar ég var 23 ára. Í lokin er yfirlit yfir alla karlana sem hafa verið formenn og framkvæmdastjórar SA. Ég segi ykkur það, sem móðir þriggja drengja og umkringd körlum alla daga, að karlmenn eru frábærir. En þeir eru samt ekki svona miklu frábærari en konur. Samkvæmt nýjustu fréttum eru heilar átta konur eru meðal hundrað launahæstu forstjóra íslenskra fyrirtækja. Engin viðurlög eru við því að brjóta lög um jafnt kynjahlutfall í stjórnum. Við erum enn með óskýrðan kynbundinn launamun. Samt erum við búin að breyta kerfinu okkar. Breyta fæðingarorlofinu, tryggja leikskóla fyrir okkur öll, vinna að þeim nauðsynlegu kerfisbreytingum sem þarf til að tryggja jöfn tækifæri fyrir karla og konur. Ég er ekki í þeirri stöðu sem ég er núna vegna þess að ég sé eitthvað einstök. Ég er þar vegna þess að ég gat deilt fæðingarorlofi með manni mínum og sett drengina á frábæra leikskóla. Og einhvern veginn tekst okkur að hafa ríkisstjórn með tiltölulega jöfnum kynjahlutföllum. En það tekst ekki í einkageiranum. Sátt næst aldrei nema með öll kyn við borðið. Sátt næst ekki nema við höfum öll í raun og veru jöfn tækifæri til að elta drauma okkar.

Ágætu fundargestir.

Ég hef tröllatrú á leikreglum lýðræðisins. Ég hef trú á samtali, stjórnmálaflokkum og fólki sem í gegnum sitt lýðræðislega umboð vinnur að aukinni sátt, er reiðubúið að gera málamiðlanir og mjaka þannig samfélaginu áfram í framfaraátt. Ég sé líka að víða í kringum okkur er þessum leikreglum ógnað. Það er vaxandi áhugi á sterkum leiðtogum sem ekki endilega fylgja reglunum og þrífast best í upplausnarástandi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá Bretlandi. Og þegar stjórnmálin loga í deilum og niðurrifi gleymast stóru og mikilvægu áskoranirnar, eins og loftslagsváin og tæknibreytingarnar sem smám saman eru að breyta allri tilveru okkar; vinnumarkaði, samfélagi og okkur sjálfum. Hér á landi höfum við átt því láni að fagna að undanförnu að við höfum verið að taka framfaraskref, hvort sem er í samskiptum á vinnumarkaði, samstarfi um loftslagsmál eða samstarfi innan stjórnmálanna. Við eigum hins vegar mörg verk eftir óunnin. Gleymum því aldrei að sáttin byggist alltaf á því að við veitum öllum jöfn tækifæri, tryggjum félagslegt réttlæti samhliða blómlegu efnahagslífi og að við göngum ekki á umhverfisleg gæði heldur tryggjum jafnvægi í sambúð manns og náttúru.

Kæru fundargestir. Til hamingju með afmælið. Stefnum saman að aukinni sátt.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum