Hoppa yfir valmynd
05. febrúar 2021 Forsætisráðuneytið

Opnunarávarp á málþinginu Starfsval í viðjum staðalímynda sem haldið var 2. febrúar 2021

Komiði sæl. Það gleður mig að fá að vera með ykkur hér í dag og opna þetta spennandi málþing sem ber yfirskriftina: Starfsval í viðjum staðalímynda.

Staðalímyndir, hvort sem okkur líkar betur eða verr, eru þáttur í því hvernig fólk skynjar og flokkar veruleikann. Við búum við einhvers konar sameiginlega  ímynd eða norm fyrir hina og þessa hópa fólks, og þessi ímynd er ekki fasti heldur er hún breytileg og þróast eftir því sem samfélag okkar breytist og þar með okkar sameiginlega vitund.

Staðalmyndir hafa áhrif á okkur. Og það oft án þess að við áttum okkur á því hvers konar áhrif þær hafa á hugsun okkar og viðhorf. Vegna þess hversu ómeðvitað þetta ferli gjarnan er, þá er einmitt mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að ræða staðalímyndir og skoða hvernig þær hafa áhrif á líf okkar, allt frá barnæsku og þangað til kemur að því að velja okkur nám og starfssvið, og svo jafnvel áfram fram eftir öllu. Og niðurstaðan er jafnan kynskiptur vinnumarkaður sem hefur mikil áhrif á óleiðréttan kynbundinn launamun.

Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum gerir ráð fyrir fjölmörgum verkefnum til að vinna gegn kynbundum launamun og kynskiptum vinnumarkaði, bæði með einstökum aðgerðum hjá ríkisstofnunum (s.s. jafnrétti innan lögreglunnar), en einnig við náms- og starfsval og jafnrétti í skólastarfi. Og þá er einmitt mikilvægt að vinna gegn staðalmyndum í náms og starfsvali þannig að öll kyn fái notið sín til fullnustu í námi og starfi.

Í frétt Hagstofunnar frá 27. janúar um kynbundinn launamun kom fram að í þeim störfum og starfsgreinum þar sem óleiðréttur launamunur mælist mestur eru karlar í hærra launuðum störfum (stjórnendur og sérfræðingar) meðan konur raðast frekar í lægra launuð störf s.s. störf sérmenntaðs starfsfólks og í skrifstofustörf. Í hópi sérfræðinga er áberandi að konur eru fjölmennar í kennarastörfum en karlar í sérfræðistörfum í viðskiptagreinum.

Þegar ég tala um jafnréttismál á erlendri grundu hef ég oft sagt að þær fyrirmyndir sem birtast okkur í samfélaginu skipti miklu máli. Ekki síst fyrir börn, unglinga og ungt fólk. Þegar unga fólkið hugsar um framtíðina er mikilvægt að þau sjái sig í öllu mögulegu námi, störfum og hlutverkum. Þegar þau sjá fólk sem líkist þeim stunda nám sem þau hafa áhuga á eða gegna störfum, sem þau geta hugsað sér, þá sjá þau sjálf sig betur fyrir sér stunda umrætt nám eða gegna umræddu starfi.

Það á við bæði inni á vinnustöðum og í samfélaginu öllu; það skipti máli fyrir heila kynslóð að alast upp með Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta – það skipti máli fyrir mig sjálfa að fylgjast með konum í stjórnmálum. Sjálf á ég þrjá drengi og fyrir þá skiptir svo sannarlega máli að hafa fjölbreyttar fyrirmyndir.

Við getum síðan litið á staðalímyndir í víðara samhengi. Þessi dæmi sem ég nefndi og snúa að jafnrétti kynjanna má yfirfæra á fólk af ólíkum uppruna, litarhætti og fólk með fötlun af ýmsu tagi. Við viljum sjá fólk af öllum kynjum, fólk af ólíkum uppruna, fólk með allskonar fatlanir, við viljum sjá allt þetta fjölbreytta fólk gegna öllum mögulegum störfum í okkar samfélagi. Bæði er það gott fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir samfélagið allt.

Ef við öll höfum jöfn tækifæri til að leggja okkar af mörkum ber það ríkulegan ávöxt fyrir samfélagið allt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum