Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2021 Forsætisráðuneytið

Saman til framtíðar - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 14. ágúst 2021

Ríkisstjórnin sem nú situr er fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin á Íslandi sem situr heilt kjörtímabil og sú fyrsta til að klára kjörtímabil sitt frá árinu 2013. Stjórnin var mynduð þvert á hið pólitíska litróf með skýra sýn á uppbyggingu og umbætur á fjölmörgum sviðum almannaþjónustunnar. Þar má nefna þessi tíu stóru mál:

1) nýtt og réttlátara skattkerfi sem tryggir aukinn jöfnuð og eykur ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu,

2) vinnuvikan var stytt til að auka lífsgæði vinnandi fólks,

3) kostnaður sjúklinga var  lækkaður kerfisbundið til að tryggja aðgang allra að heilbrigðisþjónustu,

4) lengra fæðingarorlof sem eykur jafnrétti kynjanna og samveru barna og foreldra,

5) félagslega húsnæðiskerfið eflt sem tryggir fleirum þak yfir höfuðið,

6) fyrsta raunhæfa aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum leit dagsins ljós,

7) framlög til baráttunnar gegn loftslagsvánni voru áttfölduð,

8) mikilvægar umbætur í mannréttindamálum gerðar með lögum um kynrænt sjálfræði og réttarstöðu trans og intersexbarna og nútímalegri löggjöf um þungunarrof,

9) forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni sem er risastórt skref til að útrýma þeirri meinsemd sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er í samfélaginu,

10) átaksverkefni í uppbyggingu innviða sem sést í stórfelldum framkvæmdum í samgöngumálum og orkumálum um land allt sem margar hverjar voru löngu tímabærar.

Þessi mál eru næg ástæða fyrir stuðningsfólk stjórnarflokkanna til að fagna líðandi kjörtímabili en margt fleira er þó ótalið. Samstarf stjórnarflokkanna hefur gengið vel og orðið þéttara eftir því sem meira blés á móti. Þegar heimsfaraldur skellur á er ekki annað í boði en að leggja sig öll fram um að finna bestu lausnirnar fyrir samfélagið allt. Það er það sem þessi ríkisstjórn hefur gert undanfarna 18 mánuði. Hún hefur forgangsraðað lífi og heilsu fólksins í landinu og ráðist í markvissar efnahagslegar og félagslegar aðgerðir til að lágmarka samfélagsleg áhrif. Það hefur borið góðan árangur þannig að faraldurinn hefur óvíða haft vægari áhrif á líf flestra en hér, bæði þegar litið er til árangurs af sóttvarnaráðstöfunum og þess að tekist hefur að tryggja kaupmátt launafólks og efnahagslegan stöðugleika á þessum erfiðu tímum. Það skiptir nefnilega máli að hafa félagslega sýn við völd þegar áföll dynja á.

Í kosningunum framundan verður þó ekki aðeins kosið um góðan árangur fortíðarinnar heldur einnig um Ísland framtíðarinnar og hvernig tryggja megi samfélagslegar framfarir, velsæld og jöfnuð fyrir fólkið í landinu, árangur í loftslagsmálum og blómlegt efnahags- og atvinnulíf.

Efnahagslíf framtíðar þarf að vera undirstaða jöfnuðar. Við eigum að skapa fjölbreytt störf og græn störf. Við eigum að styðja áfram við nýsköpun og lítil og meðalstór fyrirtæki. Fjölbreyttur vinnumarkaður er um leið öruggur vinnumarkaður því áföll í einstökum atvinnugreinum hafa þá hlutfallslega minni áhrif. Við höfum stigið stór skref á þessu kjörtímabili til að styðja betur við grunnrannsóknir, nýsköpun og þekkingargeirann. Efling Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar og stofnun vísisjóða eru allt stórir áfangar á réttri braut sem gerir fleirum kleift að þróa hugmyndir sínar og skapa úr þeim verðmæti. Við eigum að halda áfram á þeirri braut, efla sjóðina enn betur, styrkja stöðu háskólanna í þessu umhverfi og gera tímabundin framlög vegna heimsfaraldurs varanleg. Við eigum að tryggja matvælaöryggi, styðja betur við innlenda matvælaframleiðslu, auka framlög í matvælasjóði og setja fram tímasetta áætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu enda eigum við ómæld tækifæri í framúrskarandi íslenskum matvælum.

Á þessu kjörtímabili höfum við unnið markvisst samkvæmt því leiðarljósi að hlutverk stjórnmálanna sé að auka velsæld og hamingju fólks. Í því skyni þróuðum við nýja velsældarmælikvarða í breiðu samráði og settum í fyrsta sinn fram sérstakar velsældaráherslur í fjármálaáætlun. Ástæðan er einföld. Velsæld fæst ekki eingöngu með efnahagslegum árangri. Hún snýst líka um gott samfélag og heilnæmt umhverfi. Meðal annars þess vegna lagði núverandi ríkisstjórn áherslu á að stytta vinnuviku, lengja fæðingarorlof, tryggja sjálfsákvörðunarrétt kvenna með nýrri þungunarrofslöggjöf, efla geðheilbrigðisþjónustu, vinna gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, friðlýsa náttúruperlur og að tryggja afkomu almennings –  allt snýst þetta um raunveruleg lífsgæði og hamingju fólks.

Velsældarhugmyndafræðin byggist á rótgrónum hugmyndum um jöfnuð og sjálfbærni og á næsta kjörtímabili eigum við mikil tækifæri til að gera enn betur og auka þannig raunveruleg lífsgæði fólksins í landinu. Stór verkefni eru framundan, einkum þegar kemur að tryggu húsnæði fyrir okkur öll og mikilvægur þáttur í því verður að stíga fleiri skref til að efla félagslega húsnæðiskerfið. Þannig tryggjum við líka stöðugleika á hinum almenna húsnæðismarkaði. Gera þarf breytingar á framfærslu öryrkja til að tryggja betur stöðu hinna tekjulægstu í þeim hópi. Halda þarf áfram að styrkja barnabótakerfið en þar höfum við á kjörtímabilinu hækkað verulega barnabætur tekjulægri hópa. Jöfnuður og jafnrétti eru lykillinn að velsæld og tryggja öllum jöfn tækifæri.

Loftslagsváin verður stærsta viðfangsefnið framundan en ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir að núverandi markmið þjóða heims í loftslagsmálum duga ekki til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Núverandi ríkisstjórn hefur sett þessi mál á dagskrá með afgerandi hætti en við Íslendingar þurfum að gera enn betur í okkar áætlunum, bæði í markmiðum og aðgerðum. Við eigum sóknarfæri í orkuskiptum í þungaflutningum, sjávarútvegi og aðgerðum í landbúnaði og landnýtingu sem við þurfum að fullnýta. Við þurfum að flýta öllum okkar aðgerðum, hvort sem þær varða samdrátt í losun eða kolefnisbindingu. Við þurfum líka að tala hátt og skýrt á alþjóðavettvangi um loftslagsvána því stórlosendur, hvort sem um er að ræða stórþjóðir eða stórfyrirtæki, þurfa að gera miklu betur. Við þurfum að vera reiðubúin að taka á móti fleira fólki sem flýr afleiðingar loftslagsbreytinga. Og við þurfum að tryggja að græna umbreytingin verði réttlát og að markmið okkar um samdrátt í losun fari saman við aukna velsæld fólksins í landinu.

Ísland er sannarlega land tækifæranna. Við höfum öll sem eitt staðið okkur frábærlega og komist saman í gegnum eitt mesta áfall lýðveldissögunnar, heimsfaraldur og afleiðingar hans. Það skiptir máli hvernig við byggjum upp til framtíðar og um það er kosið í haust.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum