Hoppa yfir valmynd
04. janúar 2022 Forsætisráðuneytið

Réttlát umskipti eru verkefnið framundan - áramótagrein Katrínar Jakobsdóttur í Morgunblaðinu 31. desember 2021

Árið 2000 eignaðist ég farsíma í fyrsta sinn. Ég man vel sannfæringu mína um að ég myndi lítið nýta þetta tæki, líklega væri þetta gerviþörf en á mig var þrýst að fá mér slíka græju eins og aðrir. Fjórum árum áður hafði ég fengið mitt fyrsta netfang sem ég taldi sömuleiðis hálfgerðan óþarfa.

Rúmum 20 árum síðar hef ég eytt fleiri klukkustundum en ég kæri mig um að vita í að eiga samskipti í gegnum farsíma og tölvupóst. Hvers kyns samskiptaforrit hafa bæst við. Og þessi tækni hefur breytt mínu lífi og samfélaginu öllu. Við eigum nú öðruvísi samskipti, öflum upplýsinga á annan hátt og tæknin hefur breytt störfum og neysluvenjum okkar. Tæknin er aftur á móti ekki hlutlaus. Margháttuð algrím stýra því hvaða upplýsingar við fáum og fólk á fullt í fangi með að greina hvað snýr upp og niður, hvað sé satt og hvað logið.

Við erum stödd í miðri tæknibyltingu á sama tíma og loftslagsváin ógnar tilveru okkar allra. Við sem búum á Íslandi finnum þær breytingar allt í kringum okkur. Við horfum á jöklana hopa, sjáum skriður falla og verðum áþreifanlega vör við breytingar í hafinu umhverfis landið. Við heyrum fréttir af öfgum í veðurfari um allan heim, flóð og þurrka til skiptis. Við sjáum órækan vitnisburð vísindanna um magn koldíoxíðs í lofti og fylgni við hækkandi hitastig í heiminum. Þessar breytingar munu hafa áhrif á líf okkar allra. En hve mikil þau áhrif verða ræðst af því hvernig okkur mun miða í aðgerðum gegn þessum breytingum og hversu mikið við drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þessar miklu samfélagsbreytingar eru leiðarstef í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar enda mun það skipta íslenskt samfélag öllu hversu ákveðin við erum í þessum verkefnum. Í sáttmálanum eru boðaðar skýrar aðgerðir. Meðal annars sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í þeirri losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda og áfangaskipt markmið fyrir einstaka geira samfélagsins. Til að ná því markmiði mun þurfa fjölþættar aðgerðir. Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er mikilvægur grunnur undir gagngerar samfélagsbreytingar.

Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum þurfa að ná til samfélagsins alls. Við höfum sett fram þá metnaðarfullu sýn í nýjum stjórnarsáttmála að Ísland verði meðal fyrstu þjóða heims til að ná fullum orkuskiptum og verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2040. Til þess að svo geti orðið þarf orkuskipti í öllum geirum; sjávarútvegi, ferðaþjónustu, þungaflutningum, samgöngum á landi, láði og legi. Þar má líka nefna aðgerðir í landnotkun – landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis og þar þurfum við að stórefla aðgerðir okkar. Stór hluti losunar Íslands er vegna landnotkunar og þar eigum við mikil sóknarfæri til að draga úr losun og binda meira kolefni. Tæknilausnir til að fanga og farga koldíoxíð eins og þróaðar hafa verið hjá Carbfix á Hellisheiði og samstarfsaðilum þeirra eru einnig mikilvægur hluti af lausninni. Allar þessar aðgerðir þarf til að lögbundið markmið okkar um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 nái fram að ganga.

Tæknibreytingar fela í sér mikil tækifæri fyrir samfélagið en um leið áskoranir. Ef rétt er á málum haldið geta tæknibreytingar aukið velsæld og jöfnuð, stytt vinnutíma og aukið framleiðni. Það kallar hins vegar á rannsóknir og þróun, kraftmikla nýsköpun og öfluga framhaldsfræðslu sem er eitt mikilvægasta jöfnunartæki sem við eigum. Ef við höldum vel á málum getur tæknivæðingin skapað sóknarfæri í íslensku samfélagi. Til að svo geti orðið þurfum við að tryggja að tæknin taki ekki yfir líf okkar því hún er góður þjónn en afleitur húsbóndi.

Velsæld fyrir okkur öll

Fyrir réttu ári var aðalumræðan í samfélaginu um hvort Ísland hefði tryggt sér nægilegan aðgang að bóluefnum og voru ýmsir sem efuðust um að íslensk stjórnvöld hefðu staðið vaktina í þeim efnum. Þær efasemdir voru ekki á rökum reistar. Aðgengi að bólusetningum hér á landi hefur verið með því besta sem gerist í heiminum og um þessar mundir erum við í hópi þeirra þjóða sem eru lengst komnar í örvunarbólusetningu. Það vekur athygli á kortum um toll kórónuveirunnar að dauðsföll á íbúa af völdum veirunnar eru óvíða færri en einmitt hér á Íslandi og enn færri 2021 en 2020.

Það breytir því ekki að faraldrinum er hvergi nærri lokið. Ný afbrigði gera okkur nú lífið leitt en við getum hrósað happi yfir því að bólusetningin hefur veitt góða vörn gegn alvarlegum veikindum og innlögnum. Álagið á samfélagið allt hefur hins vegar verið mikið; á heilbrigðiskerfið okkar, skólana, atvinnulífið og okkur öll. Við höfum öll borið okkur vel en vitum að svona álag segir að lokum til sín. Við þurfum því að vera viðbúin að halda áfram og gera enn betur í því verkefni að styðja vel hvert við annað. Það er margt sem bendir til þess að árangur okkar Íslendinga í baráttunni við faraldurinn sé góður. Það á við hvort sem litið er til fjölda andláta, hlutfalls bólusettra og árangurs af stuðningsaðgerðum við almenning og atvinnulíf. Og það er áhugavert að sjá að samkvæmt könnun Gallups frá í vor bera 77% landsmanna mikið traust til heilbrigðiskerfisins og hefur það ekki mælst hærra í þau 20 ár sem mælingarnar taka til.

Andleg heilsa hefur verið forgangsmál stjórnvalda, ein af velsældaráherslum okkar í fjármálaáætlun og hafa fjárveitingar til málaflokksins verið auknar mjög á undanförnum árum. En andleg heilsa snýst ekki einungis um viðbrögð við vanda heldur ekki síður að skapa samfélag þar sem fólki líður vel. Þar er margt undir. Stjórnvöld hafa einbeitt sér að því að bæta stöðu hinna tekjulægstu á undanförnum árum, meðal annars með því að lækka skatta og hækka barnabætur fyrir þennan hóp, auka stuðning við félagslegar lausnir á húsnæðismarkaði og draga úr kostnaði við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Stór verkefni eru fram undan til að gera enn betur í þessum efnum, meðal annars endurskoðun á almannatryggingakerfinu með það að markmiði að bæta sérstaklega afkomu þeirra örorkulífeyrisþega sem höllustum fæti standa.

Við höfum stutt við fólk til að ná betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs meðal annars með því að lengja fæðingarorlofið og stytta vinnuvikuna. Þá höfum við endurskoðað stuðningskerfi við börn frá grunni til að tryggja betur farsæld allra barna. Velsældaráherslur stjórnvalda endurspegla markmið sem snúast um umhverfi, samfélag og efnahag og sérstakir velsældarmælikvarðar mæla árangur okkar í þessum efnum. Ísland hefur verið í samstarfi við nokkur önnur ríki um svokölluð velsældarhagkerfi en þar hafa Nýja-Sjáland og Skotland verið í forystu ásamt okkur Íslendingum.

Velsældarsamstarfið endurspeglar áherslur Íslands í alþjóðasamfélaginu sem hafa undanfarið snúist um lýðræði og mannréttindi, velsæld og jöfnuð, kynjajafnrétti og umhverfismál. Þetta þykir okkur hugsanlega sjálfsögð sjónarmið en í samfélagi þjóðanna eru slíkir málsvarar ekki endilega algengir. Það hefur orðið bakslag í jafnréttismálum víða um heim og vegið er að rétti til kvenna til þungunarrofs í löndum sem kenna sig við lýðræði og mannréttindi. Ísland mun taka við formennsku í Evrópuráðinu á komandi ári og þar munu þessar áherslur okkar endurspeglast. Þá verður það sérstök áskorun að takast á við að bæta aðgengi fátækari þjóða heims að bóluefni gegn kórónuveirunni.

Árið 2022 færir okkur þessar stóru áskoranir og margar fleiri. Miklu skiptir að vel takist til við að byggja efnahaginn upp að nýju, ná stöðugleika í verðlagi og vöxtum og koma ríkissjóði smám saman á réttan kjöl á ný. Þar mun reyna á stjórnvöld að skapa þær aðstæður að Ísland geti vaxið til aukinnar velsældar út úr kreppunni; við getum staðið vörð um þá uppbyggingu sem orðið hefur í almannaþjónustu á undanförnum árum og forsendur til að efla hana enn frekar. Þá mun reyna á stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins með vönduðum undirbúningi í aðdraganda kjaraviðræðna ef tryggja á áframhaldandi bætt lífskjör alls almennings.

Við lifum á tímum hraðra samfélagsbreytinga. Tuttugu ár eru skammur tími í heimssögunni. Samt er samfélagið gerbreytt frá því að við fengum okkar fyrstu farsíma sem þóttu töfratæki á þeim tíma þó að þeir gætu lítið miðað við tæki nútímans. Breytingarnar gerast æ hraðar og okkar verkefni er að tryggja réttlát umskipti þannig að umskiptin nýtist öllum og auki velsæld og jöfnuð. Þannig getum við horft björtum augum til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum