Hoppa yfir valmynd
14. mars 2022 Forsætisráðuneytið

Mikilvæg verkefni fram undan - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu 10. mars 2022

Við stöndum á tímamótum. Árásarstríð Rússa í Úkraínu mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar á alþjóðavettvangi, fyrir utan þær skelfilegu afleiðingar sem það hefur fyrir fólkið í Úkraínu, daglegt líf þess, drauma og framtíð. Íslensk stjórnvöld hafa tekið skýra afstöðu, við fordæmum þennan hernað og krefjumst þess að Rússar stöðvi hann nú þegar. En ekki aðeins eru stríðsátökin skelfileg heldur geta þau haft efnahagsleg og samfélagsleg áhrif um allan heim og þar er Ísland ekki undanskilið. Við höfum einnig opnað dyr okkar og bjóðum flóttafólk frá Úkraínu velkomið. Við munum öll taka höndum saman til að það geti tekist sem best.

Á sama tíma og það eru miklir óvissutímar í heimsmálum sjáum við loks út úr kófinu. Sóttvarnaráðstöfunum hefur verið aflétt. Við höfum borið gæfu til að hafa tekið góðar ákvarðanir í faraldrinum; treyst á vísindin og stutt við almenning og atvinnulíf með markvissum aðgerðum. Allt hefur þetta skilað því að Ísland hefur staðið framarlega í baráttunni við veiruna þegar kemur að sóttvörnum. Samstarf stjórnvalda og þess öfluga fagfólks sem hefur verið í brúnni þegar kemur að sóttvarnaráðstöfunum hefur verið með miklum ágætum.

Mótvægisaðgerðir sem ráðist hefur verið í, efnahags- og samfélagslegar, hafa reynst vel, efnahagslífið hefur nú tekið við sér og nú er svo komið að við höfum endurheimt þann fjölda starfa sem töpuðust í faraldrinum, þótt það séu ekki endilega sömu störf.

Nú blasa önnur verkefni við. Meðal þeirra er félagsleg uppbygging að loknum faraldrinum. Undanfarin tvö ár höfum við beitt ríkissjóði af fullum þunga til að viðhalda atvinnustigi í landinu og tryggja afkomu fólksins í landinu. Núna þurfum við að nýta okkar sameiginlegu sjóði til að tryggja hina félagslegu uppbyggingu.

Stærsta forgangsmálið er að taka utan um samfélagið, börnin okkar, fólkið sem hefur staðið í ströngu undanfarin tvö ár og viðkvæma hópa. Við þurfum að hlúa að andlegri heilsu og tryggja félagslega velferð. Við þurfum að hugsa um skólana og styðja við kennara, annað starfsfólk og nemendur á öllum skólastigum. Mörg hafa gengið í gegnum erfiða tíma í þessum heimsfaraldri og jafnvel lokað sig af sjálfviljug – nú, þegar við opnum samfélagið, þurfum við að styðja hvert annað í gegnum þá opnun.

Enn eru um 10.500 manns án atvinnu og þar af hafa tæplega 3.600 verið atvinnulaus lengur en heilt ár. Það þarf að styðja þennan hóp, gefa fólki tækifæri til að byggja sig upp til nýrra starfa og taka þátt á breyttum vinnumarkaði.

Fleiri verkefni bíða

Uppbygging eftir covid er ekki eina stóra verkefnið fram undan. Ég vil nefna hið mikilvæga verkefni að endurskoða örorkukerfið. Endurskoðunin á að skila gagnsærra og réttlátara kerfi sem tryggir bætt lífskjör og lífsgæði einstaklinga með skerta starfsgetu með sérstakri áherslu á að bæta kjör þeirra sem lakast standa.

Geðheilbrigðismálin eru annað verkefni sem bíður okkar, bæði að tryggja nauðsynlega þjónusta fyrir þau sem glíma við andleg veikindi en einnig að skapa samfélag sem stuðlar að andlegri heilsu allra og jafnvægi. Ótal þættir skipta þar máli, til dæmis að tryggja afkomu fólks, húsnæðisöryggi, halda áfram að draga úr kostnaði fólks við læknisþjónustu, tryggja ungum fjölskyldum leikskólavist strax að loknu fæðingarorlofi, aðgang að heilnæmu umhverfi og tækifæri til fjölbreyttrar menntunar og félagslífs. Velsældarmarkmiðin sem við höfum innleitt í áætlanagerð ríkisins snúast um þetta – að efla velsæld fólks og efla þannig andlega heilsu.

Átak í húsnæðismálum

Áhersla okkar í efnahagsaðgerðum sem gripið var til í faraldrinum var að verja atvinnu og afkomu fólks. Viðfangsefnin sem nú eru framundan í efnahagsmálum eru annars eðlis. Vextir hafa hækkað aftur eftir lækkun þeirra sem viðbragð við minni umsvifum í hagkerfinu og eru nú svipaðir og þeir voru áður en faraldurinn kom til sögunnar. Framundan eru kjaraviðræður flestra hópa og ríkisstjórnin hefur þegar hafið undirbúning að samtali við aðila vinnumarkaðararins um ýmis efnahags- og félagsmál í aðdraganda þeirra á vettvangi þjóðhagsráðs.

Við unnum markvisst að því að bæta húsnæðismálin á síðasta kjörtímabili með stórauknum félagslegum áherslum eins og stofnframlögum til byggingar félagslegra leiguíbúða og hlutdeildarlánum til fyrstu kaupenda. Þó að sjaldan hafi verið byggðar fleiri íbúðir en á undanförnum tveimur árum er ljóst að enn vantar talsvert upp á til að mæta uppsafnaðri og fyrirséðri húsnæðisþörf næstu ára.

Þess vegna höfum við endurnýjað samstarf sem leiddi til 40 mikilvægra aðgerða í húsnæðismálum á síðasta kjörtímabili. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu enda hefur samstarf þessara aðila skilað okkur miklum árangri. Stóra markmiðið er að tryggja öllum öruggt þak yfir höfuðið og viðráðanlegan húsnæðiskostnað og bæta þannig lífskjör fólksins í landinu. Við þurfum að tryggja stöðugleika og hugsa til langs tíma í þessum málum.

Orka í þágu íslensks almennings

Áfram verður eitt stærsta verkefnið okkar að ráðast í aðgerðir til að ná metnaðarfullum markmiðum Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi. Orkuskipti í öllum geirum á Íslandi standa fyrir dyrum og undanfarið hefur umræða verið hávær um hvaðan orkan eigi að koma. Þegar kemur að frekari öflun orku er ljóst að það er okkar frumskylda að ljúka orkuskiptum hér á Íslandi í öllum geirum íslensks samfélags. Næsta skref í vegferð okkar í átt að orkuskiptum er kortlagning á raunverulegri orkuþörf og orkuframleiðslu hér á landi sem þegar er hafin á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Ísland er auðlindaríkt land og líkt og gildir um aðrar auðlindir er orkuauðlindin og yfirráð yfir henni hluti af fullveldi Íslands. Því skulum við aldrei gleyma. Þegar við tökum ákvörðun um forgangsröðun þá hlýtur okkar forgangsmál að vera innlend orkuskipti, sem eru lykilatriði til að bæta lífsgæði allra landsmanna. Slík forgangsröðun endurspeglar skýra stefnu í þágu almannahagsmuna.

Verkefnin framundan eru sannarlega mikil og krefjandi. Þar getur þróun á alþjóðavettvangi haft mikil áhrif. Við munum takast á við þau með jöfnuð og hag almennings að leiðarljósi.

Höfundur er forsætisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum