Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2005 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

42. þing Farmanna- og fiskimannasamband Íslands

Góðir skipstjórnarmenn,

Í íslenskum sjávarplássum hefur það alltaf legið fyrir hverjir nytu mestrar virðingar ungra og uppvaxandi stráka. Það var vitaskuld poppstjarnan og íþróttahetjan. Allir alvöru strákar tóku sér stöðu með knattspyrnuhetju eða poppgoði. En fremstur í röðinni var samt skipstjórinn. Hann var hin raunverulega fyrirmynd. Þeir eru sennilega ekki margir íslensku strákarnir sem upp hafa vaxið í nágrenni við sjóinn sem ekki hafa látið sig dreyma um að vera aflasæll skipstjóri á góðum báti. Umræður í skólafrímínútum snerust því ekki síður um aflabrögðin en mörkin í enska boltanum og í mánaðarlok voru aflatölurnar lagðar saman. Og þá var gaman að vera í vinningsliðinu.

Þetta er eðlilegt og hollt kapp sem byggir undir mjög verðskuldaða ímynd heilbrigðs æskulýðs á sjómönnum og starfi þeirra. Álit fólks í sjávarplássum á gildi sjómannsstarfsins er ekki innantómt skrum, eða rómantísk fortíðarþrá. Þvert á móti, Þetta er sönn og einlæg upplifun, mörkuð reynslu og upplifun íbúanna. Þetta er sú mynd sem ég upplifði í æsku minni, þetta er sú mynd sem ég vil að Íslendingar samtímans og framtíðarinnar hafi af ykkur og starfsbræðrum ykkar, því hún er sönn.

Það hafa ekki allir komist í brúna, þó hugurinn hafi stefnt til þess. Leiðin til stýrimanns og skipstjórnarstarfs er nefnilega grýtt og ekki hent heiglum. Starf sjómanna er vandasamt.

Vissulega hefur starf sjómanna breyst. Skipin hafa batnað, tæknin aukist, þekkingunni fleygt fram. Sú áskorun sem mætti skipstjórnarmönnum á síðustu öld er ekki að öllu leyti til staðar nú, sem betur fer. Framfarirnar hafa séð um það.

En starf skipstjórnarmanna hefur ekki endilega orðið auðveldara, heldur bara öðruvísi. Það hafa komið til ný úrlausnarefni og nýjar kröfur. Nýr tími hefur heimtað það. Starf sjómanna útheimtir ýmislegt sem ekki þekktist forðum. Um það má nefna ótal dæmi.

Sjómennskan er í rauninni fyrsti hlekkurinn í mikilvægustu keðju íslensks efnahagslífs. Þar á ég við að breyta okkar mikilvægustu auðlind, fiskinum, í beinhörð verðmæti. Slíkt gerist bara með hörku, útsjónarsemi og þekkingu. Við útgerð eru fáanlegar upplýsingar notaðar á æ markvissari hátt, til þess að tryggja að hráefnið sem berst að landi uppfylli ýtrustu kröfur um stærðarflokkun, holdgæði og svo framvegis. Krafan er ekki bara um að skipstjórinn fiski heldur skili að landi hráefni eða fullunninni vöru sem hámarkar tekjumöguleika úr takmarkaðri og verðmætri auðlind. Þetta er engin smákrafa til einnar starfsstéttar og undir henni rís bara færasta fólk.

Þetta sem ég segi er árétting þess að sjómanns- og skipstjórnarstarfið er ögrandi verkefni fyrir unga fólkið okkar sem sælist eftir erfiðum og gefandi störfum. Sjómennskan er þess vegna starf ungs fólks – framtíðarstarf. Það er ástæða til þess að þetta sé dregið fram. Við eigum að vekja athygli á því hvert starf og ábyrgð sjómanna er. Þjóðfélag okkar hefur breyst mikið. Nálægð mjög margra við sjóinn og sjávarútveginn hefur minnkað. Það er ekki jafn sjálfgefið og áður að unglingar sæki sér sumarvinnu í sjávarútveginn, til sjós og lands. Menn eiga ekki þennan aðgang eins og áður. Fjölbreytni atvinnulífsins og vaxandi vægi annarra atvinnugreina gerir það að verkum að fyrir ungt fólk er oft auðveldara og rökréttara að sækja sér vinnu annað en í sjávarútveginn. Það leggur því meiri skyldur á herðar okkar að kynna störfin í sjávarútveginum. Starfræksla skólaskips er einn liður í því. En almenn upplýsing um fjölbreytni starfa við sjávarútveg og árétting þess að þau krefjast í mörgum tilvikum sérhæfðrar þekkingar og mikillar ábyrgðar á mikið erindi við unga fólkið okkar. Störf í sjávarútvegi eru mikilvæg og eiga þess vegna að vera eftirsótt.

Þess vegna er það áhyggjuefni að nú um stundir hefur það allt í einu gerst að erfitt er að manna fiskiskipin okkar. Þetta er nýtt á síðustu árum en þó ekki alveg óþekkt. Stundum hafa verið erfiðleikar við að ráða menn á skip í tilteknum útgerðarflokkum. Við munum það fyrrmeir að ekki var óalgengt að Færeyingar væru hér við sjómannsstörf, meðal annars vegna þess að illa gekk að manna flotann Lengst af hefur það hins vegar verið þannig að sjómennska í góðu plássi hefur verið eftirsótt starf og gefið góð laun. Við sjáum það líka í hreinræktuðum sjávarplássum að meðaltekjur hafa verið háar, með því hæsta í landinu. Sömuleiðis hafa það verið útgerðarfyrirtæki sem hafa raðað sér í efstu sætin yfir þau fyrirtæki sem borgað hafa bestu launin. En hvað veldur vandanum núna?

Við þekkjum svarið. Ofurgengið hefur rýrt tekjumöguleika í sjávarútvegi. Á sama tíma borga þenslugreinarnar hærri laun en áður. Þetta veldur vandanum við mönnun flotans. Laun sjómanna hafa verið að lækka, í takt við minnkandi tekjur útvegsins. Tekjur sumra sjómanna ráðast algjörlega af útflutningsverðmæti. Til lengri tíma ræðst fiskverð af afurðaverði. Núna er gengið að kvelja okkur og hirða af okkur tekjurnar og þá bitnar það á sjómönnum með beinum og skjótum hætti. Á sama tíma fitna atvinnugreinarnar sem njóta þenslunnar, þær borga hærri laun og draga til sín starfsmenn, meðal annars sjómenn. Við vitum hins vegar að þetta er tímabundið ástand. Gengið á eftir að gefa eftir, tekjur sjávarútvegsins munu þá aukast og útgerð og sjómenn ná vopnum sínum. Með sama hætti lykur þensluveislunni. Þá munu aftur vera sóst eftir góðum plássum, eins og vera ber.

Þess vegna skiptir okkur miklu að störf í sjávarútvegi njóti áframhaldandi virðingar svo að þangað leiti okkar besta fólk. Við eigum þess vegna að leggja okkur mjög fram um að útskýra þetta samhengi og kynna sjómannsstarfið. Ég deili áhyggjum með ykkur og öðrum þeim sem hafa gert þessi mál að umræðuefni. Ég er hins vegar ekki svartsýnn og tel að hér sé um að ræða skammtímaástand, en ekki viðvarandi og áfram verði því barist sem fyrr um bestu plássin.

Ég var í gærkvöldi að koma af ráðstefnu FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þarna er safnað saman mikilli þekkingu um sjávarútveg alls staðar að úr heiminum. Það vakti athygli mína hvílíkrar virðingar sjávarútvegur okkar nýtur þar og á alþjóða vettvangi. Menn bera saman tölur þessu til staðfestingar og þekkja það af kynnum við íslenskt sjávarútvegsfólk að það er í fremstu röð. Hún er bersýnilega öðruvísi myndin af íslenskum sjávarútvegi sem blasir við þeim alþjóðlegu sérfræðingum sem kynna sér málin í fjölþjóðlegu samhengi, en þeim sem stunda stöðuga neikvæðni hér heima fyrir í garð sjávarútvegsins. Þetta er hollt fyrir okkur að vita og sjá og gera okkur grein fyrir. Við höfum mikið fram að færa. Íslenskur sjávarútvegur er aflvaki einhverra bestu lífskjara í heimi. Víða er sjávarútvegur stundaður án arðsemismarkmiða og er láglaunaatvinnugrein. Til okkar er þess vegna litið sem fyrirmyndar.

Góðir fundarmenn,

Í byrjun september síðastliðnum var skilað til sjávarútvegsráðherra tillögum um friðun viðkvæmra hafsvæða við Ísland. Tillögurnar voru unnar í nefnd sem forveri minn skipaði til að kanna forsendur fyrir friðun viðkvæmra hafsvæða og áttu aðild að henni sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar og fulltrúar sjávarútvegs og umhverfisráðuneyta. Tillögur nefndarinnar eru viðamiklar, þær fjalla m.a. forsendur friðunar og hvernig að henni skuli staðið, um frekari rannsóknir á hafsbotninum og nauðsyn þess að ljúka kortlagningu Íslandsmiða, ennfremur að skýra þurfi lagaákvæði um þetta efni.

Það er vissulega mikilvægt að halda áfram kortlagningu og rannsóknum á hafsbotninum. Við þurfum að hafa eins fast undir fótum og mögulegt er, þegar nýting og verndun er ákveðin.

Til grundvallar tillögunum um friðun tiltekinna svæða nú voru rannsóknir á kórallasvæðum sem gerðar voru á hafrannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni sumarið 2004. Við val á svæðum var byggt á niðurstöðum fyrirspurna til sjómanna um það hvar slík svæði væri að finna. Í þetta sinn var því skoðaður kórall á Skaftárdjúpi, á landgrunnskantinum út af Hornafjarðardjúpi og kantur út af Reynisdjúpi. Notaðar voru fjarstýrðar neðansjávarmyndavélar búnar tækjum til að sýna staðsetningu kafbátsins á sjávarbotni, staðsetja myndir eftir hnattstöðu og tengja þær nákvæmum landslagskortum af hafsbotninum.

Á Skaftárdjúpi voru skoðuð tvö svæði. Mikið var af brotnum og dauðum kóral á rannsóknarsvæðinu nær landi sem er á um 250 metra dýpi og voru þar merki eftir toghlera og hlutar úr veiðarfærum fast á botninum. Utar eða á 350 metra dýpi voru hraukar af lifandi kóral dreifðir um talsvert stórt svæði. Nefndin lagði til að þarna yrðu friðuð svæði sem eru um 27 ferkílómetrar. Afli á því svæði hefur einkum verið karfi og ufsi en lítið af öðrum tegundum. Langmest hefur verið veitt í troll.

Ástand kóralsvæðanna á kantinum út af Hornafjarðardjúpi var gott og engin ummerki um togveiðar þótt megnið af þeim fiski sem veiðist á svæðinu eða rúmlega 5 af hverjum 6 kílóum úr sjó fáist í troll. Þarna er allþéttur þriflegur kórall af ýmsum gerðum. Nefndin lagði til að þetta ósnerta svæði sem er alls um 36 ferkílómetrar yrði verndað. Á þessu svæði hefur veiðst ufsi, karfi, þorskur og ýsa í troll og á línu en netaveiði hefur ekki verið stunduð þarna.

Þriðja svæðið sem tillögur nefndarinnar tóku til er á landgrunnskantinum út af Reynisdjúpi þar sem var að finna þéttan kóral af ýmsu gerðum. Þar sáust engin merki eftir togveiðar en leifar af línu fundust við botn. Lagt var til að vernda 10 ferkílómetra svæði. Þarna hefur einkum verið veiddur karfi og ufsi undanfarin ár meira en helmingur í troll en afgangurinn skiptist jafn milli línu og neta.

Eins og ég nefndi áðan var skýrslu nefndarinnar skilað í september. Síðan þá hefur verið haft samráð við þá sem í greininni starfa og borist breytingartillögur frá skipstjórum og útgerðarmönnum.

Það er ástæða til að leggja áherslu á, að það eru ríkjandi viðhorf í íslenskum sjávarútvegi að rétt sé að friða svæði sem teljast mikilvæg í vistkerfinu og eru jafnframt viðkvæm og líkleg til að geta orðið fyrir miklum skaða af völdum veiða. Breytingartillögurnar sem komið hafa eru í þessum anda, lögð var áhersla á að afmörkun svæðanna þyrfti að vera rétt og tryggt að friðunin nái til alls kóralsvæðsins sem þarf að vernda á hverjum stað en jafnframt að hægt væri að nýta áfram þá veiðislóð þar sem ekki er kóral að finna.

Lagt er til að svæðinu í Skaftárdjúpi sé skipt í tvö svæði svo hægt verði að toga í rennu á milli þeirra þar sem enginn kóral er, jafnframt væri svæðið stækkað til austurs og vesturs.

Þá var lagt til að friðunarsvæðum yrði hnikað til þannig að draga mætti útbrún á Reynisdjúpi svæðið þar yrði um 10 ferkílómetar og um 40 ferkílómetar yrðu friðaðir á Hornafjarðardjúpi en þar lögðu hagsmunaaðilar til viðbótar friðun umfram tillögu nefndarinnar sem tekur til svæðis sem er 8 ferkílómetar að stærð við vesturhorn Hornafjarðardjúps. Ábendingar um það höfðu einnig komið fram þegar Hafrannsóknarstofnun bað sjómenn um upplýsingar um kóralsvæði árið 2003.

Hafrannsóknarstofnunin hefur nú farið yfir allar tillögurnar, og gert tillögu til mín. Við höfum skoðað þessar niðurstöður og hef ég ákveðið að friða fimm aðgreind svæði fyrir Suðurlandi sem eru alls um 80 ferkílómetra að stærð fyrir öllum veiðum nema uppsjávarveiðum í hringnót og flotvörpu. Verður reglugerð þess efnis gefin út í næstu viku.

Ég er ákaflega ánægður með að sjávarútvegurinn hefur látið sig þetta mál varða eins og raun ber vitni. Öll framvinda þess undirstrikar það sem ég sagði hér áðan um breytt og aukið hlutverk skipstjórnarmanna að vernd og nýtingu auðlindarinnar. Við Íslendingar höfum í fiskveiðistjórnuninni komið að ákvörðunum um nýtingu og vernd út frá þeim sjónarmiðum að byggja á bestu vísindalegu þekkingu hverju sinni og reyna að tryggja að nýting fiskistofna sé sjálfbær, að ekki sé gengið á rétt komandi kynslóða. Þetta eru hornsteinar sem ekki verða færðir. Á undanförnum árum hafa rannsóknir verið að sýna okkur æ betur mikilvægi umhverfisþátta fyrir nytjastofna okkar. Við horfum líka í auknu mæli til umhverfisins í sjónum á forsendum varúðar- og vistkerfisnálgunar. Það þarf að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á þætti vistkerfisins sem við hvorki vitum ekki nægilega mikið um, né hvaða áhrif þeir hafa í vöxt og viðgangi nytjastofna. Og það þarf, og við viljum, varðveita líffræðilega fjölbreytni hafsins til framtíðar. Á alþjóðavettvangi er mikið rætt um þau miklu verðmæti sem skapa mætti úr erfðaauðlindum hafdjúpanna, er þar talað m.a. um örverur og þarna gæti verið að finna efnivið í lyf framtíðarinnar sem hljómar sem fjarlægir framtíðardraumar. Íslenskur sjávarútvegur sýnir hér vilja til að taka af ábyrgð á friðun viðkvæmra hafsvæða og ég er stoltur af þeirri festu og framsýni sem sú afstaða felur í sér.

Þökk fyrir



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum