Hoppa yfir valmynd
09. desember 2005 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Samkeppnishæfni sjávarútvegs

Samkeppnishæfni sjávarútvegs

Góðir gestir, verið velkomnir til þessarar kynningar á nýrri og um margt einstakri skýrslu um samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðavettvangi. Það er kunnara en frá þarf að segja hve miklu máli okkur skiptir að íslenskur sjávarútvegur sé ávallt í fremstu röð og þá helst í fyrsta sæti á alþjóðlega vísu. Þessi skýrsla er mikið fagnaðarefni því með henni geta menn áttað sig á hvar þeir standa í alþjóðlegum samanburði. Ekki hvað síst hvar þeir standa illa og þurfa að gera betur. Í þessari fyrstu lotu má sjá samanburð á Íslandi og Noregi, einni helstu samkeppnisþjóð okkar á þessu sviði. Þar má ekki á milli sjá. Þótt Ísland fái örlítið hærri einkunn yfir heildina er munurinn ekki marktækur. Áður en vikið verður nánar að innihaldinu er rétt að tíunda hvernig þessi skýrsla er til komin.

Fyrir rúmu ári fól ráðuneytið Verðlagsstofu skiptaverðs á Akureyri að búa til líkan sem leiddi í ljós samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs í samanburði við aðrar þjóðir. Verðlagsstofa hefur síðan, í samstarfi við vísindamenn Háskólans á Akureyri og Háskólans í Tromsö í Noregi, unnið að verkinu og er afrakstur þess skýrslan Samkeppnishæfni sjávarútvegs. Fjölmargir aðrir hafa vitaskuld lagt hönd á plóg og kann ráðuneytið þeim sínar bestu þakkir.

Í skýrslunni er í fyrsta skipti gerður víðtækur samanburður á ýmsum þátttum í sjávarútvegi tveggja þjóða, þ.e. Íslands og Noregs. Þekkt er að slíkir almennir samkeppnismælikvarðar eru til á milli þjóða, en ekki varðandi einstakar atvinnugreinar á milli landa. Hér hefur því verið unnið frumkvöðulsverk, sem ástæða er til að þakka fyrir. Verkið er viðamikið og til að byrja með var ákveðið að bera einungis þessi tvö lönd saman og nýta niðurstöðurnar til frekari þróunar á líkaninu. Á næsta ári bætast fleiri þjóðir í hópinn enda er markmiðið að gefa árlega út alþjóðlega skýrslu um samkeppnishæfni þjóða á sviði sjávarútvegs og fá þannig jafnt og þétt fyllri mynd af stöðunni hverju sinni. Í fyrstu bætast fiskveiðiþjóðir við Norður-Atlantshaf í hópinn og vonandi fleiri stórar fiskveiðiþjóðir síðar. Þannig að smám saman verði til heilmikil vitneskja um samkeppnishæfni sjávarútvegs með hliðsjón af ýmsum þáttum. Þar sem sækja má margvíslegan fróðleik íslenskum sjávarútvegi til hagsbóta og styrks í harðri samkeppni.

Gerð verður grein fyrir styrkleikum og veikleikum þjóðanna tveggja á einstökum sviðum atvinnugreinarinnar, t.d. í fiskveiðistjórn, hagstjórn og markaðsmálum og svo vitaskuld í heild. Markmiðið er að varpa ljósi á veigamestu atriðin er snerta framgang sjávarútvegs og greina þá þætti sem betur mega fara til að öðlast viðunandi samkeppnishæfni, eða því sem stefnt skal að – samkeppnisforskoti á aðrar þjóðir.

Ætlunin er sem sagt að varpa ljósi á hvað mestu skiptir til að sjávarútvegur hér á landi fái ekki aðeins staðist samkeppni - heldur gott betur. Hvað má betur fara við veiðar, vinnslu, markaðssetningu og fleira til að skapa greininni sem best skilyrði.

Fulltrúar Verðlagsstofu gera grein fyrir aðferðafræðinni á eftir og fara ítarlega yfir einstaka liði skýrslunnar. Líkanið sem gert hefur verið byggir á sex meginstoðum sem sundurliða má sérstaklega til að auka enn við notagildið. Þannig er til að mynda hægt að sjá hvað gerir eina þjóð samkeppnishæfari en aðra á tilteknu sviði. Það kemur sér einstaklega vel til að átta sig nákvæmlega á hvar þarf að taka til hendinni. Liðirnir sex eru; fiskveiðistjórnun, hagstjórn og almenn starfsskilyrði fyrirtækja, umhverfi og innviðir, fiskveiðar, fiskvinnsla og markaðssetning.

Eins og áður sagði tekur þessi skýrsla til sjávarútvegs á Íslandi og í Noregi. Löndin eru áþekk um margt og því þarf ekki að koma á óvart að vart má á milli sjá í ýmsum liðum sem bornir eru saman í skýrslunni. Þegar upp er staðið er ekki marktækur munur á löndunum. Ísland fær 4,6 í heildareinkunn en Noregur 4,5 á skalanum frá einum til sjö. Þar sem því hærri tala gefur til kynna meiri samkeppnishæfni. Og þótt margt sé líkt með skyldum þá getur líka að líta sláandi mun á þjóðunum tveimur, eftir því hvar borið er niður í líkaninu.

Ef stiklað er á stóru þá skara Íslendingar fram úr Norðmönnum á þremur sviðum. Í fiskveiðistjórnun, vinnslu og markaðssetningu. Norðmenn hafa vinninginn á tveimur stöðum. Í hagstjórn og aðbúnaði fyrirtækja. En hvað fiskveiðar snertir er jafnt á komið með þjóðunum.

Fiskveiðistjórnun Íslendinga skilar þeim töluvert hærri samkeppniseinkunn en Norðmenn fá fyrir sína stjórn. Ísland er með 4,5 en Noregur 4,0. Þetta helgast fyrst og fremst af því að hér er framsal aflaheimilda mun frjálsara en í Noregi. Þá er meiri ánægja með fiskveiðikerfið hér, en í Noregi. Þ.e.a.s. stöðugleikinn er meiri. Norðmenn eru svo aftur á móti mun sáttari við hafrannsóknir sínar og veiðiráðgjöf og munar þar töluvert miklu. Íslendingar standa sig hins vegar miklu betur við eftirlit hvers konar. Reyndar vekur það síðastnefnda nokkra athygli því útgerðarmenn hafa á stundum kvartað undan óhóflegu eftirliti að þeirra mati. Þegar á reynir virðast þeir bara býsna ánægðir. Í það minnsta umtalsvert sáttari en Norðmenn.

Íslensk fiskvinnslufyrirtæki eru feti framar en þau norsku. Forskot Íslendinga er einkum að þakka háu tæknistigi og góðu samstarfi við íslenska framleiðendur fiskvinnslubúnaðar. Afli berst að landi mun jafnar hér en þar. Ástæðan er líklega meira samspil veiða og vinnslu, en hér á landi eru eignatengsl þessara þátta ríkari en í Noregi. En ástæða er til að staldra við einn þátt í þessum lið sem greinilega má betur fara hér á landi. Mannauður í fiskvinnslu er meiri í Noregi og meira framboð af hæfu fiskvinnslufólki og hæfum millistjórnendum Þetta er nokkuð sem við Íslendingar getum lagt okkur fram um að bæta, til að auka enn frekar samkeppnishæfnina á alþjóða vísu. Tilgangur þessarar skýrslu er jú að ekki hvað síst að finna út hvar veikleikarnir eru og hvernig gera má bragarbót á þeim.

Markaðsmálin eru í góðum farvegi á Íslandi. Íslensk fyrirtæki þykja einfaldlega hafa töluvert betri vöru fram að færa en þau norsku. Norðmenn flytja mikið út af óunnum eða lítt unnum fiski meðan Íslendingar vinna aflann meira. Þetta skilar sér í áberandi hærra verði sem íslensk fyrirtæki fá fyrir sínar afurðir. Til að mynda fæst nær fimmtungi hærra verð fyrir hvert kíló þorsks og fjörtíu prósentum meira fyrir ýsu. Það má því ef til vill segja að okkar fólk geri viðskiptavinum sínum og neytendum mun betur til hæfis en Norðmenn. Það er vel og verður vonandi um ókomna tíð.

Norðmenn fá hærri heildareinkunn en Íslendingar fyrir hagstjórn og almenn skilyrði fyrirtækja. Þar vegur gengið þungt og mikill styrkur íslensku krónunnar. Aftur á móti þykja lög og reglugerðir á þessu sviði mun betri hér en þar og ýta undir samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Íslenska skattkerfið stuðlar sömuleiðis að betri hag fyrirtækja en það norska.

Hvað innviði samfélagsins og umhverfi fyrirtækja snertir standa Norðmenn aðeins betur að vígi en Íslendingar. Skýringin er fyrst og fremst hár flutningskostnaður afurða hér, bæði innanlands og til útflutnings. Vissulega er Ísland þannig í sveit sett að erfitt getur verið að sækja að Noregi á þessu sviði. En sé þess nokkur kostur þarf að taka til hendinni, hvað svo sem landfræðilegri staðsetningu líður. Enda er það svo að kæli og flutningatækni hefur fleygt fram á síðustu árum, að ég best veit.

Þegar fiskveiðar þjóðanna eru bornar saman kemur í ljós að þar er ekki marktækur munur. Báðar þjóðir fá reyndar 1 fyrir að hindra að erlend félög geti keypt sig í inn í útgerðir. Að öðru leyti þykja aðgerðir stjórnvalda verðskulda háa einkunn.

Íslendingar standa sem sagt betur að vígi í þremur þáttum af sex en Norðmenn tveimur og má ekki á milli sjá þegar á heildina er litið. Íslenskur sjávarútvegur á að vera í fremstu röð. Þessi skýrsla verður vonandi til þess að menn átti sig betur á hvar skórinn kreppir. Hvar helst þarf að taka til hendinni að bæta samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með að Norðmenn eiga líka eftir að líta til niðurstaðna skýrslunnar og leggja út af þeim með það í huga að gera betur að ári. Þá bætast og við í heildarmyndina aðrar fiskveiðiþjóðir við Norður-Atlantshaf og verður fróðlegt að sjá í víðara samhengi hvernig íslenskur sjávarútvegur stendur að vígi. Ég efast ekki um að það verður góð útkoma en vonandi um leið vegvísir hvar má gera enn betur. Íslensk fyrirtæki þurfa að leggja hart að sér hér eftir sem hingað til. Því eins og áður sagði þá á þetta nýja líkan ekki aðeins að leiða í ljós hvernig þjóðir standa hverju sinni heldur, og ekki síður, eiga Íslendingar að nýta það til hins ítrasta við að skapa sér samkeppnisforskot, sé þess nokkur kostur.

Líkanið sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Tromsö er góður mælikvarði á samkeppnishæfni sjávarútvegsins. Með því greinum við þá veikleika sem fyrir hendi eru og auðvitað líka styrkleika. Veikleikunum þarf svo að ráða bót á. Allt ber að sama brunni. Frjáls samkeppni og virkur markaður leiðir til þess að fyrirtækjum gengur betur á þessu sviði eins og flest öllum öðrum.

Samkeppnishæfni fyrirtækja getur skipt sköpum hvort heldur er innanlands eða utan. Með vaxandi alþjóðavæðingu og samkeppni á heimsvísu kjósa alþjóðleg stórfyrirtæki sér starfsvettvang þar sem hagstæðust skilyrði bjóðast, óháð staðsetningu. Okkur er mikið í mun að íslenskur sjávaútvegur haldi sínum sessi. Verði hér eftir sem hingað til í allra fremstu röð.

Að lokum er vert að þakka þeim sem utan um verkefnið héldu. Vilhjálmi Egilssyni ráðuneytisstjóra í Sjávarútvegsráðuneytinu. Eyjólfi Guðmundssyni deildarforseta við Háskólann á Akureyri, Norðmönnunum Terje Vassdal prófessor og Øystein Hermansen hjá Háskólanum í Tromsö. Og síðast en alls ekki síst verkefnisstjóranum Ottó Biering Ottóssyni hjá Verðlagsstofu skiptaverðs og Valtý Þór Hreiðarssyni forstöðumanni hennar. En þeir taka nú við og kynna verkið nánar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum