Hoppa yfir valmynd
14. desember 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

50 ára afmæli nóbelsverðlauna Halldórs Laxness

Kæru gestir.

Það er mér mikill heiður að opna þessa sýningu og dagskrá sem helguð er nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness en hálf öld er nú liðin frá því að þessi merku tímamót í íslensku bókmennta- og menningarlífi urðu. Flestir Íslendingar þekkja þessa sögu vel, vita að í umsögn nóbelsverðlaunanefndarinnar sagði að hann fengi þessi merku verðlaun í bókmenntum meðal annars fyrir „litríkan skáldskap sem endurnýjaði íslenska frásagnarlist.“ Þessi viðurkenning er án efa mesta viðurkenning sem Íslendingi hefur hlotnast. Hún vakti ómælda athygli umheimsins á Íslandi og bókmenntaarfinum sem er sterkasta stoðin í sjálfstæði landsins, stoltið og vonin gegnum aldir fátæktar og mótlætis.

Þúsundir landsmanna biðu á hafnarbakkanum eftir nóbelsskáldinu og almenningur fékk sínar þakkir fyrir að hafa verið honum innblástur og efniviður í svo margar sögur. Mest segja þó kannski orð skáldsins við afhendingu verðlaunanna sjálfra:

“Það er skáldi mikið hamingjulán að vera borinn og barnfæddur í landi, þar sem þjóðin hefur verið gegnsýrð af anda skáldskapar um aldaraðir og ræður fyrir miklum bókmenntaauði frá fornu fari.”

Það er okkar hamingjulán að Halldór var borinn og barnfæddur Íslendingur og skildi eftir sig arf sem ávallt mun lifa með þjóðinni.

Ég sá Halldór aðeins tilsýnar meðan hann var á lífi, en það er með mig eins og margra aðra Íslendinga að mér finnst ég hafi kynnst honum því bækur hans hafa ávallt blasað við augum mér á heimilum mínum síðan ég fyrst man eftir. Fyrst man ég eftir að hafa heyrt talað um hann þegar nokkrir bændur í Vopnafirði voru að ræða útkomu Gerplu í kaupfélagsbúðinni þar af mikilli aðdáun. Þar í forinni fyrir framan er sagt að Guðmundur frá Sænautarseli sem oftast er talinn fyrirmyndin af Bjarti í Sumarhúsum hafi hnoðað niður einn af fylgdarmönnum Halldórs vegna sárinda sinna.

Margir hafa skrifað um skáldið og gefið okkur mikla innsýn í líf hans og störf en best hefur hann lýst sjálfum sér eða eins og hann segir um Ólaf Kárason í Heimsljósi, Fegurð himinsins.

“Skáldið var ríkasti maður á Íslandi, að eiga sjón fegurðarinnar, þess vegna kveið hann ekki í heiminum, fannst hann ekki hræðast neitt. Sumir eiga mikla peninga og stórar jarðir, en aungva fegurð. Hann átti fegurð als Íslands og als mannlífsins.”

Á þeirri sýningu sem nú verður opnuð má sjá merka muni sem tengjast þessum tímamótum í sögu okkar; sjálf nóbelsverðlaunin, handrit skáldsins og myndir frá fyrri tíð, en jafnframt verður hér á dagskrá málþing, upplestur og söngur.

Saga nóbelskáldsins er samofin sögu þjóðarinnar, sýning á borð við þessa er sýning fyrir þjóðina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum