Hoppa yfir valmynd
31. desember 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Áramótagrein í Fréttablaðið 2005

Eftir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins.

I

Góðir Íslendingar,

Af nógu er að taka þegar litið er um öxl og það ár sem nú er að líða er metið. Árið hefur verið okkur Íslendingum hagstætt, og má með sanni segja að árið 2005 hefur verið ár vaxtar og velsældar. Undanfarin ár hefur íslensk þjóð upplifað einhverjar mestu breytingar sem orðið hafa í íslensku efnahags- og viðskiptalífi. Skipar sala á ríkiseignum og sú stefna stjórnvalda að draga sig út úr samkeppnisrekstri þar ríkan sess. Hæst ber að sjálfsögðu stærsta einkavæðing Íslandssögunnar þegar Landssími Íslands hf. var seldur fyrir tæpa 67 milljarða króna. Á nýliðnu haustþingi samþykkti Alþingi lög um ráðstöfun fjárins og gera þau ráð fyrir að 43 milljörðum verði varið til framkvæmda fram til ársins 2012. Framkvæmdirnar miða að því að styrkja innviði íslensks samfélags og með tímasetningu þeirra er þess gætt að stöðugleika í efnahagsmálum verði ekki raskað. Á árinu seldi ríkið einnig eignir og skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins, og þótti salan heppnast vel.

Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um frekari sölu ríkiseigna. Af hálfu framkvæmdanefndar um einkavæðingu er nú unnið að samantekt á eignarhlutum ríkisins í einstökum fyrirtækjum, félögum og stofnunum. Mun sú skoðun leiða í ljós hvort skynsamlegt sé út frá samkeppnissjónarmiðum og hagsmunum almennings að losa frekar um eignarhluti ríkisins. Ennfremur hef ég, á grundvelli samþykktar í ríkisstjórn, skipað starfshóp til að athuga hvort verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja frá 1996 þarfnist endurskoðunar við, og hvort ástæða sé til að lögfesta meginatriði um framkvæmd einkavæðingar.

II

Hátt matvælaverð á Íslandi hefur verið til umræðu hér á landi síðustu daga. Slíkt getur verið þungur baggi á fjölskyldunum í landinu. Við eigum ekki að sætta okkur við að slíkur munur sé á matarverði hér og í næstu nágrannalöndum okkur, en við verðum jafnframt að komast að því hvers vegna svo miklu munar í verðlagi. Ég hef því ákveðið að skipa nefnd sem á að komast að ástæðum þessa og jafnframt að koma með tillögur um hvernig megi bæta úr því ástandi sem hér ríkir. Góður hagur fjölskyldunnar er grundvallaratriði í sterku efnahagslífi. Sterkt efnahagslíf er að sama skapi grunnurinn að öflugu atvinnulífi. Hagstæð umgjörð atvinnulífsins, góð menntun, áræðni, rannsóknir og þróunarstarfsemi hefur orðið fyrirtækjum hvatning til útrásar. Samkeppnisstaða Íslands er sterkari nú en nokkru sinni fyrr. Um það vitna alþjóðlegar skýrslur. Styrkurinn felst m.a. í góðu lánshæfismati ríkissjóðs og fjármálastofnana, meiri útflutningstekjum af vörum og þjónustu, auknum útflutningi á hátæknivöru, fjölgun einkaleyfa, mikilli þátttöku í endurmenntun og fjölgun nema í rannsóknatengdu framhaldsnámi. Fjölgað hefur hæfu og vel menntuðu fólki í atvinnulífinu. Rannsókna- og þróunarstarfi hefur vaxið ásmegin og skilar það góðum árangri á mörgum sviðum. Menntun, rannsóknir og öflugt frumkvöðlastarf skipta miklu fyrir áframhaldandi hagsæld í landinu.

Þrátt fyrir að staðan sé góð er hún að vissu leyti viðkvæm. Halda þarf hátæknifyrirtækjum í landinu og því skiptir farsæl hagstjórn miklu um framhaldið. Hagnýting hátækniþekkingar getur haft mikil áhrif á efnahagsþróun hér á landi á næstu árum. Brýnt er í vaxandi alþjóðlegri samkeppni að atvinnulífið, háskólarnir og stjórnvöld taki höndum saman um eflingu rannsóknatengds framhaldsnáms sem stenst alþjóðlegar kröfur.

III

Í því góðæri sem nú ríkir er lag til að gera betur við þá sem eru, af ýmsum ástæðum, ekki virkir þátttakendur í atvinnulífinu. Þannig hafa málefni aldraðra hafa verið ofarlega á baugi síðustu misseri. Ríkisstjórnin hefur lagt sitt af mörkum til að búa öldruðum áhyggjulaust ævilvöld. Hefur m.a. verið gert sérstakt átak í því að byggja upp hjúkrunarheimili fyrir þá sem nauðsynlega þurfa á hjúkrunarþjónustu að halda jafnframt því að auka og efla bæði heimaþjónustu og heimahjúkrun. En betur má ef duga skal. Því hef ég skipað sérstaka nefnd um málefni aldraðra sem á að fara yfir stöðu aldraða og vona ég að sú vinna eigi eftir að skila góðum niðurstöðum og jafnvel nýjum hugmyndum sem nýtast megi til að bæta stöðu aldraðra enn frekar á Íslandi á komandi árum.

Þá hefur staða öryrkja ekki síður verið til umræðu og hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera sérstakt átak í málefnum þessa hóps. Lögð verður megináhersla á starfsendurhæfingu og gerðar ráðstafanir sem auðvelda öryrkjum að fara aftur inn á vinnumarkaðinn, m.a. með því að draga úr tekjutengingu. Öryrkjar eru, eins og aldraðir, ekki einsleitur hópur og sömu úrræði henta ekki öllum.

IV

Gagnger endurskoðun á réttindum samkynhneigðra var gerð á árinu. Vonir standa nú til að það frumvarp sem er til meðferðar á Alþingi marki þáttaskil og tryggi þessum þjóðfélagshópi jafnan rétt til fjölskylduþátttöku á við gagnkynhneigða. Líta má á það sem framlag stjórnvalda til að eyða fordómum í garð samkynhneigðra í samfélaginu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að samkynhneigð pör öðlist sama rétt til að ættleiða börn og til að leita sér aðstoðar við tæknifrjóvgun og gagnkynhneigð pör. Þá verður samkynhneigðum pörum heimilað að fá sambúð skráða í þjóðskrá. Þess má geta að við óvígða sambúð eru bundin ýmis réttaráhrif eins og varðandi makalífeyri og er því um mikilsverða réttarbót að ræða. Verði frumvarpið að lögum verður nánast enginn munur lengur á réttaráhrifum hjúskapar og staðfestrar samvistar. Eftir stendur að hvetja kirkjuna til að vinna að því að ná samstöðu um að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör.

Af umræðunni að undanförnu má hins vegar ráða að farsælast sé að gefa kirkjunni þann tíma sem hún þarf til að komast að niðurstöðu í þessu máli og varast að gera nokkuð sem leitt getur til ósættis innan þjóðkirkjunnar.

V

Von mín er sú að sátt náist sem fyrst um um skynsamlegar og eðlilegar grundvallarreglur um fjölmiðla og fyrirkomulag á rekstri þeirra á nýju ári. Í því skyni hefur verið ákveðið að skipuð verði ný þverpólitísk nefnd til að fjalla um eignarhald á fjölmiðlum og semja frumvarp til laga um það efni. Eins og málum er nú háttað eru í löggjöf engar skorður reistar við samþjöppun eignarhalds í fjölmiðlun aðrar en þær sem felast í almennri samkeppnislöggjöf. Það er eigi að síður almennt viðurkennt á alþjóðavettvangi að sérstök sjónarmið eigi við um fjölmiðla vegna mikilvægis þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Ríkisvaldinu beri að tryggja að almenningur hafi aðgang að áreiðanlegum upplýsingum og fjölbreyttum viðhorfum og skoðunum. Nýja nefndin mun byggja á starfi fyrri nefnda á þessu sviði en einnig að sjálfsögðu taka mið af því hvernig þróun hefur orðið á markaði. Hinar öru breytingar í fjölmiðlun sýna kannski best hversu mikilvægt er að löggjöf um fjölmiðla sé hæfilega sveigjanleg.

VI

Nokkur óvissa hefur á undanförnum árum ríkt um áform Bandaríkjanna um skipan mála varnarliðsins í framtíðinni og hafa samningar íslenskra og bandarískra stjórnvalda um þau málefni því ekki hafist fyrir alvöru. Þessi óvissa er vissulega óþægileg og hefur hún ekki síst valdið því að varnar- og öryggismál landsins hafa verið meira í deiglunni að undanförnu en oft áður. Því miður hefur treglega gengið að ná samkomulagi við Bandaríkjastjórn um hvert skuli stefna í þeim samningum sem standa fyrir dyrum um aukna þátttöku íslenskra stjórnvalda í rekstri og viðhaldi á Keflavíkurflugvelli. Þrátt fyrir allt tel ég víst að samkomulag náist að lokum sem bæði Íslendingum og Bandaríkjamönnum verði að skapi. Hér er einfaldlega um of mikla hagsmuni að tefla, þ.m.t. samskipti ríkjanna. Það er alveg ljóst í mínum huga að Ísland, eins og öll önnur ríki, þarfnast trúverðugra varna og skiptir þá engu þótt ýmsir kunni að telja ógnir í okkar nánasta umhverfi séu fáar um þessar mundir. Þá er og eðlilegt að Íslendingar greiði stærri hlut reksturs Keflavíkurflugvallar en áður, þar sem borgaraleg flugumferð um völlinn hefur stóraukist á undanförnum árum og líkur á að hún haldi áfram að aukast.

VII

Kæru landsmenn. Ég er sannfærður um að árið 2006 verði okkur til heilla. Óska ég landsmönnum öllum gleðilegs nýs ár og farsældar á komandi ári.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum