Hoppa yfir valmynd
03. febrúar 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Heimsókn sjávarútvegsráðherra á Hvammstanga

Góðir gestir.

Það er afar ánæjulegt að vera kominn hingað á Hvammstanga í tilefni undirritunar samninga milli Sjávarútvegsráðuneytisins og Forsvars. Undiritun þessarra tveggja samninga á sér nokkurn aðdraganda einsog mörg ykkar vita. Fyrir réttu ári tók Forsvar að sér að gera; þarfagreiningu og –lýsingu samræmdrar gagnaveitu um hafið umhverfis Ísland. Það var fyrsti áfangi viðamikils verkefnis, þ.e. að uppfæra upplýsingasíðu ráðuneytisins, fisheries.is, og efla þannig og auðvelda enn aðgengi að margháttuðum upplýsingum er varða málefni hafsins við Ísland og sjálfbæra nýtingu þess. Ljóst er að viðfangsefnið er umfangsmikið en ætlast er til, að loknum þessum áfanga, að kominn verði myndarleg gagna- og upplýsingaveita íslenskum sjávarútvegi til framdráttar og stuðnings.

Markmiðið með Gagnaveitu hafsins er að gera aðgengilegar á vefnum upplýsingar um vistkerfi og náttúru hafsins við Ísland, sjálfbæra nýtingu auðlinda, efnainnihald og heilnæmi sjávarafurða. Einnig hagrænar upplýsingar um sjávarútveginn og mikilvægi nýtingar auðlinda hafsins fyrir efnahag Íslands. Texti vefsíðunnar verður á ensku, sem og á íslensku eins og efni standa til. Ekki hvað síst er horft til þess að kaupendur og seljendur íslenskra sjávarafurða, fagfólk í greininni og sérfræðingar hvers konar, umhverfisverndarsinnar, námsmenn og í reynd hver sem er geti sótt sér þann fróðleik og upplýsingar sem viðkomandi þyrstir í um íslenskan sjávarútveg. Þetta er háleitt markmið og eins og gefur að skilja ekkert áhlaupsverk. Með vönduðum vinnubrögðum við þarfagreininguna hafa fulltrúar Forsvars sýnt að þeir og fyrirtækið eru vandanum vaxnir. Vel tókst til við gerð skýrslunnar og nú er komið að því að fylgja því starfi eftir.

Hér verða tveir samningar undirritaðir. Sá fyrri tekur til smíði grunnkerfis veitunnar og á að ljúka 1. júní næsta sumar. Í beinu framhaldinu verður hafist við að færa inn gögn og tengja við fleiri gagnagrunna og tekur síðari samningurinn til þess verks. Samningarnir hljóða hvor upp á umtíu milljónir króna. Þetta er töluvert fé. Þá er gott til þess að vita að um leið og því er varið þennan í veglegan gagnagrunn, eflir það jafnframt atvinnulífið á landsbyggðinni og stuðlar að frekar uppbyggingu þekkingarstarfsemi hér á svæðinu. Verkefni sem þetta er sérlega vel til þess arna fallið. Í Þjóðarpúlsi Gallup sem kynntur var í byrjun árs kom fram að liðlega fjórðungur þeirra sem svöruðu taldi Norðvesturkjördæmi afskipt í byggðamálum. Ekki er ólíklegt að þessi skoðun eigi rætur að rekja til þeirra umfangsmiklu framkvæmda sem nú standa yfir annars staðar, frekar en að slælega hafi verið staðið að málum hér. Það er rétt að hafa í huga að stórframkvæmdir eru ekki það eina sem blífur - margt smátt gerir eitt stórt.

Hér í þessu verkefni sjáum við líka svart á hvítu hvernig sjávarútvegurinn verður uppspretta þekkingaröflunar á öðrum sviðum. Þetta undirstrikar enn það sem ég hef verið óþreytandi að segja; sjávarútvegurinn í nútímaþjóðfélagi er þekkingariðnaður og þar með framtíðaratvinnugrein. Það er svo sérlega ánægjulegt að þessi vinna skuli fara fram hér hjá Forsvari á Hvammstanga. Mér er vel kunnugt um að hjá fyrirtækinu hefur byggst upp mikil og verðmæt þekking og að baki liggur mikill metnaður. Þess vegna fer sérlega vel á því að þetta verkefni sé unnið hér. Hið dæmigerða er að slíkt verkefni hefði verið unnið “fyrir sunnan”. En við vitum það öll að það er í góðum höndum einmitt hér – “fyrir norðan”. Ég vænti þess að þetta samstarf verði til þess að efla fyrirtækið, skapa því fleiri tækifæri á sambærilegum sviðum og þar með auka menntunarlega breidd og bæta búsetuskilyrði hér á Hvammstanga og í Húnaþingi.

Í þeirri grimmu samkeppni sem sjávarútvegurinn þarf að heyja á erlendum mörkuðum blasir það oft við okkur, við hversu stóra er að eiga í slíkri baráttu. Matvælaframleiðsla nýtur mikils opinbers stuðnings í heiminum á ýmsum sviðum, þó ekki eigi það við um afurðir íslensks sjávarútvegs. Neysla matvara, svo sem landbúnaðarafurða, er miklu meiri en neysla fiskmetis. Afl slíkra framleiðenda til markaðssetningar er þess vegna gríðarlega mikið. Gagnagrunnur um hafið verður lóð - og það vonandi þungt - á vogarskálarnar að koma okkar málstað og sjávarútvegi á framfæri með skýrum og skilmerkilegum hætti. Greiður aðgangur að hvers kyns upplýsingum er snerta greinina er ekki bara af hinu góða heldur líka sérlega þýðingarmikill í viðskiptaumhverfi samtímans.

Það er gulls í gildi að geta bent á nákvæmar upplýsingar á einum og sama staðnum um svo fjöldamargt sem fólki getur dottið í hug að spyrja um eða langar til að vita um sjávarútveg okkar. Þar gegnir gagnaveitan lykilhlutverki. Mikill áhugi og umræða á sér stað um forsendur verndunar og nýtingar auðlinda hafsins, auk þess sem áhugi fjölmargra fer vaxandi á lífríki og náttúru hafsins, m.a. í ljósi aukinnar þekkingar og rannsókna. Þá fara umræða og kröfur um matvælaöryggi og rekjanleika matvæla sívaxandi. Með margþættri gagnaveitu er aðgengi að upplýsingum stórelft. Fyllri og betri upplýsingar veita bæði aðhald og styðja málflutning um mikilvægi sjálfbærrar nýtingar og forsendur hennar. Ennfremur geta neytendur auðveldlega nálgast margs konar upplýsingar um efnainnihald, heilnæmi og hollustu sjávarfangs.

Forsvar, og við aðstandendur verksins, tekumst því á hendur ákaflega þýðingarmikið verk. Það er mjög mikilvægt að vel takist til og vefurinn verði sú upplýsingaveita sem hugur stendur til. Afla þarf gagna og yfirfæra í veituna og beintengja hana við gagnagrunna Hagstofu Íslands, Matra, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu. Sjávarútvegsráðuneytið lætur sitt ekki eftir liggja til að samskipti við þessa aðila verði sem skilvirkust. Allir eiga og þurfa að leggjast á eitt að gera Gagnaveitu um hafið að eins miklum upplýsingabanka og frekast er unnt. Væntir ráðuneytið mikils af samstarfinu við Forsvar og treystir því að verkið sé í góðum og öruggum höndum. Verðlagsstofu skiptaverðs á Akureyri hefur verið falið að halda utan um verkefnið. Fulltrúar hennar eiga þar af leiðandi eftir að hafa náið og gott samstarf við heimamenn hér á Hvammstanga og sömuleiðis við ráðuneytið hér eftir sem hingað til. Á engan mann er hallað þó sagt sé að Vilhjálmur Egilsson ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytisins hafi keyrt þetta mál áfram af miklum og einlægum áhuga. Fyrir það ber að þakka sérstaklega. Þarna nutum við þekkingar hans á verkefninu og staðarþekkingar hans hér fyrir norðan og munaði vissulega um minna.

Reiknað er með að verkinu öllu ljúki í byrjun desember á þessu ári. Það er tilhlökkunarefni að sjá hvernig til tekst og ég efast ekki um að árangurinn verður góður. Ég óska öllum til hamingju með áfangann og góðs gengis næstu mánuði.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum