Hoppa yfir valmynd
07. apríl 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Fiskiþing 2006

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra

á 65. Fiskiþingi

Góðir fundarmenn.

Það er vel til fundið að yfirskrift þessa Fiskiþings sé: Sjávarútvegur og umhverfið. Þessi tvö hugtök hafa verið samofin í íslenskri umræðu um sjávarútveg en undanfarin misseri hef ég orðið þess áskynja, og þið vafalaust líka, hve umræða um sjávarútveg í þessu samhengi hefur aukist á alþjóðavettvangi. Það er í sjálfu sér vel. Íslendingar hafa engu að kvíða í þeim efnum. Við stöndum vel að vígi.

Eitt sem hefur ef til vill öðru fremur staðið upp úr í umræðunni, ekki hvað síst undanfarnar mánuði, eru umhverfismerkingar sjávarafurða. MSC-merkið hefur þar borið hvað hæst og virðist hafa náð talsverðri siglingu erlendis, a.m.k. ef marka má umfjöllun fjölmiðla. MSC, sem stendur fyrir Marine Stewardship Council, var komið á fót fyrir áratug af fyrirtækinu Unilever og umhverfisverndarsamtökunum WWF (World Wide Fund for Nature). Í fyrstu varð þeim lítt ágengt en MSC virðist hafa sótt í sig veðrið upp á síðkastið. Það hefur verið markaðssett þannig að þeir sem af því státa, bjóði upp á löglega veiddan og vottaðan fisk úr sjálfbærum stofnum.

Ég varð þess áþreifanlega var í ferð minni um Bretland fyrir skemmstu að þetta brennur á mönnum í greininni. Fiskkaupendum á mörkuðunum bæði í Hull og Grimsby varð tíðrætt um umhverfismerkingar. Þeir hvöttu til kröftugrar umræðu og bentu á að allt sem sérkenndi íslenskan fisk væri til bóta. Íslensk framleiðsla hefði getið sér góðs orðstírs fyrir gæði og vitneskju um að hún kæmi úr sjálfbærum fiskistofnum. Ég tel að Fiskifélag Íslands eigi að vera í forystu fyrir þessari umræðu hér á landi og að móta framtíðarstefnu okkar á þessu sviði. Sjávarútvegsráðuneytið er tilbúið til að taka þátt í þessari umræðu og vinnu en ég tel að stefnumótunin eigi að vera á vettvangi greinarinnar og þar sé eðlilegast að Fiskifélagið sé í lykilhlutverki.

Þessa dagana er ár liðið frá því að fiskinefnd FAO samþykkti leiðbeinandi reglur um umhverfismerkingar, en þar vorum við Íslendingar í fararbroddi og náðum þeim árangri sem stefnt var að: Að setja umhverfismerkingum sjávarafurða alþjóðlegan ramma. Hann tryggir að það sé raunverulegt inntak í merkingum sjávarafurða, jafnframt er gætt hagsmuna framleiðenda. Í FAO-reglunum er kveðið á um hvað verið sé að tala um, þegar rætt er um umhverfismerki, sagt á hvaða meginreglum eigi að byggja. Hvað eigi hið minnsta að gera kröfur um, og það formlega ferli og stofnanalega skipulag sem þeir sem bjóða merki eiga að uppfylla.

Þetta er ramminn, en til þess að úr verði umhverfismerki þarf að vinna mikið viðbótarstarf. Það þarf að afmarka frekari viðmið og staðla fyrir það sem merkja skal, og gæta þess að þeir sem það gera og þeir sem votta séu sitt hvor aðilinn. Ennfremur að þeir sem staðfesta að votttunaraðilinn sé hæfur til að vinna eftir stöðlum sé ótengdur bæði merkiseiganda og vottunarfyrirtæki. Það er því ekki að ástæðulausu að menn hafa spurt sig, hvort ekki sé til styttri leið til að verða við kröfum um umhverfismerktar sjávarafurðir. Þess vegna hafa menn rýnt í um hvað sé verið að biðja ?, hvaðan kemur krafan ?, á hvaða vandamáli er verið að taka ?.

Í stuttu máli er niðurstaðan úr þeim athugunum, að verið sé að bregðast við meintum áhyggjum hins almenna borgara um ástand hafanna og fiskistofna og hvernig staðið er að veiðum. Kannanir hafa þó leitt í ljós að hinn almenni borgari er nú ekki mikið að velta því fyrir sér í sínu daglega amstri. Krafan kemur frá innkaupastjórum sem vilja tryggja sig og fyrirtækin sem þeir vinna fyrir, gegn hugsanlegum viðbrögðum kaupenda ef og þegar þeir taka afstöðu til þessara mála. Við vitum að þekking þeirra á vörunni sem þeir kaupa er mikil.

Við höfum lengi, eða allt frá því að upplýsingaveita ráðuneytisins var sett á stofn, unnið út frá því að svara mætti þeim áhyggjum sem koma fram í kröfum um umhverfismerki, með því að hafa aðgengilegar upplýsingar um fiskveiðistjórnun okkar. Þar gætu innkaupstjórar og aðrir sem láta sig slíkt varða skoðað hvernig staðið er að málum hér. Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í margs konar tölvutækni sem kemur m.a. fram í auknum rekjanleika afurða.

Nú er unnið að viðamiklu verkefni í samvinnu ráðuneytisins og stofnana þess við að búa til enn öflugri gagnaveitu, sem m.a. mun nýtast þeim sem vilja fullvissa sig um að sá fiskur sem þeir kaupa sé af stofni sem nýttur er með sjálfbærum hætti.

Mikilvægast í allri þessari umræðu er hins vegar umgengni okkar við lifandi auðlindir hafsins. Sjálfbær nýting nytjastofna okkar er grundvöllurinn hvort sem við segjum neytendum það beint eða í gegnum merki. Það sem var nýlunda í umhverfismerkjaumræðunni fyrir okkur var þessi þáttur; að svo gæti farið að erlendir kaupendur afurða beindu að okkur sömu kröfum og við verðum að gera til okkar sjálfra, til að standa undir traustri atvinnu og byggð í landinu eins og segir í fyrstu grein laganna um stjórn fiskveiða.

Í umhverfismerkingaumræðunni hafa sjávarútvegsfyrirtæki, samtök og stjórnvöld öll hlutverk. Fyrirtæki vega og meta hvað er þeim fyrir bestu hvað varðar kaup eða ekki kaup á umhverfismerkjum fyrir sínar afurðir. Við það mat verða þau líka að líta til þess að þarna er einnig um að ræða sameiginlega hagsmuni allra í íslenskum sjávarútvegi. Samtök í sjávarútvegi láta til sín taka við mat á valkostum, og upplýsingagjöf fyrir félagsmenn sína. Stjórnvöld láta sig varða þann ramma sem unnið er eftir og gæta hagsmuna sjávarútvegsins í víðara samhengi.

Þó að alþjóðlegur rammi um umhverfismerki sé í höfn hafa stjórnvöld áfram hlutverki að gegna að mínu mati, m.a. í starfi að öflugri gagnaveitu um íslenskan sjávarútveg, með því að tryggja sem kostur er sjálfbæra nýtingu nytjastofna og með margskonar kynningu á íslenskri fiskveiðistjórnun.

Góðir fundarmenn.

Eins og ég nefndi hér að framan þá komu umhverfismerkingar og rekjanleiki vöru víða til tals í ferð minni um Bretland fyrir hálfum mánuði. Þessir þættir verða eflaust hluti af alþjóðlegum fiskviðskiptum í framtíðinni. Einokun á umhverfismerkingum og viðmiðum kann hins vegar ekki góðri lukku að stýra. Hagsmuntengslin eru stórhættulega á þessu sviði og þau bjóða hættunni heim. Það er full ástæða til að hlusta á raddir þeirra sem lýsa þeim áhyggjum sínum.

Viðmælendur mínir fóru ekki í grafgötur með að íslenskur fiskur væri sér á parti og því þyrfti að koma vel á framfæri. Það var eftirtektarvert - en kom svo sem ekki á óvart - í hve miklum metum íslenskur fiskur, sjávarafurðir og útvegur er ytra. Allt er þetta í hávegum haft og í þeirri hagsmunagæslu sem sjávarútvegsráðuneytið sinnir gagnvart öðrum þjóðum verðum við þess greinilega áskynja að horft er til Íslands sem fyrirmyndar á marga lund.

Og gáum að einu. Það er næsta einstakt að þjóð skuli hafa byggt upp samfélag sitt á einni atvinnugrein að heita má. Íslenskur sjávarútvegur hefur lagt grunninn að þeirri velmegun sem við njótum, á því er enginn vafi. Hann hefur leitt okkur frá fátækt til velsældar. Þótt dregið hafi lítillega úr vægi sjávarafurða í útflutningi landsins þá eru þær sem fyrr langmikilvægasta útflutningsvaran. Hlutfallið hefur verið um og yfir 60% en árið 2005 var það í 56,7%. Það átta sig ekki allir á þessu. Meira en helmingur útflutningsvara Íslendinga er sjávarafurðir og um 40% heildarútflutnings vöru og þjónustu. Þetta þarf stundum að minna fólk á þegar það veltir fyrir sér hvaðan peningarnir koma á Íslandi. Þeir koma sem fyrr úr undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar – sjávarútveginum. Hann er aflvaki einhverra bestu lífskjara í heimi. Þökk sé dugmiklu og hæfu fólki.

Heildarafli síðasta árs var 1 milljón 667 þúsund tonn, sem er 61 þúsund tonnum minni afli en í hitteðfyrra. Undanfarin ár hefur heildaraflinn verið frá 1,7 -2,1 milljón tonna. Þótt afli minnki milli ára þýðir það ekki að verðmætið minnki í sama hlutfalli. Aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum árið 2005, nam 67,9 milljörðum króna sem er nánast sama verðmæti afla og árið áður. Markaðsvirði íslenskra sjávarafurða er svo um 120 milljarðar króna á ársgrundvelli og getur meðal annars sveiflast með blessuðu genginu. Sífellt meiri áhersla er lögð á að skapa sem mest verðmæti úr því sem veiðist og kom það glögglega í ljós á nýafstaðinni loðnuvertíð. Hún olli vissulega vonbrigðum en menn brugðust hins vegar við eftir mætti og unnu aflann í samræmi við það.

Undanfarin misseri hefur hátt gengi krónunnar hvílt þungt á greininni og í reynd verið að sliga hana. Svona til viðmiðunar var gjarnan talað um að gengið þyrfti að gefa eftir um 10-15%, þannig að Bandaríkjadalur stæði í 70 krónum eða meira. Sú er nú raunin og reyndar lítið eitt betur þessa stundina. Með öðrum orðum: Þessi gengisveiking hefur breytt miklu fyrir útflutninginn, sjávarútveginn. Svipað segja nú talsmenn nýsköpunarfyrirtækjanna sem óttuðust stórkostlega flutning starfa á þeirra vegum úr landi.

Fyrirtæki sem eiga allt sitt undir útflutningi hafa hert sultarólina og hagrætt í einu og öllu, eftir því sem við var komið. Gengið hefur kúvent og það ívið fyrr en margur hugði. Nú uppskera menn væntanlega eftir því. Auðvitað fylgjast erlendir kaupendur með gengisþróun hér og ætlast ef til vill til þess að þeir njóti líka breytinganna. Viðmælendur mínir í Bretlandi um daginn töldu engin teikn á lofti um að slíkt gerðist. Spurn eftir íslenskum sjávarafurðum væri einfaldlega svo mikil að verð lækkaði ekki. Því er útlit fyrir að lækkun krónunnar skili sér beint í vasa sjávarútvegsfyrirtækjanna, sem njóta þá ríkulega ávaxtanna af hagræðingu undanfarinna missera. Þetta skilar sér svo til starfsfólks fyrr en síðar í bættum kjörum og eru sjómenn á frystiskipum gott dæmi um það.

Hagfræðingur LÍÚ sagði í fréttum fyrir skemmstu, að verði gengið stöðugt á því bili sem það hefur verið síðustu daga, feli það í sér 10-12 milljarða króna hærri tekjur fyrir sjávarútveginn en ella yrðu á árinu. Það þýddi 5-6 milljarðar króna í aukna framlegð og munar svo sannarlega um minna. Þetta styrkir samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Í desember síðastliðnum var einmitt kynnt skýrsla sem unnin hefur verið um samkeppnishæfni íslensks og norsks sjávarútvegs. Íslendingar fengu örlítið hærri einkunn í henni. Vart má þó á milli sjá, en það sem dró Íslendinga ekki hvað síst niður var gengið. Þær breytingar sem nú hafa orðið á því, auka samkeppnisfærni Íslendinga og færa okkur væntanlega skrefi framar.

Ágætu gestir.

Ef við snúum okkur aftur að yfirskriftinni sjávarútvegur og umhverfið þá vil ég í því samhengi nefna eitt atriði til viðbótar. Það er vöktun óæskilegra efna í sjávarafurðum sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur með höndum. Kröfur um öryggi matvæla aukast stöðugt og til að bregðast við því var þessari vöktun ýtt úr vör fyrir þremur árum. Í febrúar var skýrsla Rf með nýjustu niðurstöðunum kynnt. Flest ykkar vita sjálfsagt hvað þar kom fram. Fiskur af Íslandsmiðum er framúrskarandi og öll óæskileg efni langt innan allra viðmiðunarmarka. Í ljósi tíðra frétta um aðskotaefni í matvælum er mikilvægt að hafa upplýsingar sem þessar tiltækar og á hraðbergi þegar á reynir. Íslensk stjórnvöld og allir sem hagsmuna eiga að gæta þurfa að geta brugðist hratt og fumlaust við fréttum til að koma í veg fyrir eða lágmarka tjón, sem af slíkri umræðu getur hlotist.

Okkur er nauðsyn að kunna skil á vísindunum ekki síður en veiðum og vinnslu. Sjávarútvegur hefur verið og er í æ meira mæli að verða hátækni atvinnugrein sem krefst menntunar og þekkingar allt frá veiðum til fjarlægra markaða um heim allan. Í sjávarútvegi felst hin dæmigerða þekkingarstarfsemi. Á stundum hefur verið reynt að gera greinarmun og milli frumframleiðslugreina og þess sem kallað er þekkingariðnaður. Það er ekki hægt. Öll alvöru atvinnustarfsemi í samtímanum er þekkingarstarfsemi, byggð og sprottin af reynslu og rannsóknum. Sjávarútvegurinn er gott dæmi um það. Hann er flókinn og margslunginn. Fólk með margvíslega menntun og bakgrunn hefur fundið sér farveg á þessu sviði. Enda gerir það greinina einmitt svo heillandi; að takast á við margbreytileikann, dynti náttúrunnar og breytileika umhverfisins. Þar reynir á vísindamenn ekki síður en vaska sjómenn. Sjávarútvegurinn á í samkeppni við aðrar atvinnugreinar um fólk og fjármagn. Því leita menn gjarnan leiða til að lækka kostnað, auka afköst og bæta nýtingu, það er að segja; búa til aukin verðmæti úr auðlindinni. Þetta krefst atgervis okkar færasta fólks. Ungt fólk á að geta fundið sér verðug viðfangsefni á þessu sviði og sjávarútvegurinn þarf að geta sótt aukið atgervi á breyttum og spennandi tímum. Tækifærin eru í framtíðinni enda er íslenskur sjávarútvegur nú sem endranær atvinnugrein framtíðarinnar, fjölbreyttur vettvangur sem ungt fólk á mikið erindi á.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum