Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2006 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins

                                                                                                                                                English version

 

Atburðir síðustu vikna og sá órói sem einkennt hefur íslenskan fjármagnsmarkað sýnir okkur að það er liðin tíð að Ísland standi eitt og einangrað norður í höfum með takmarkað samband við umheiminn. Nú er það jafnvel svo að órói á gjaldeyrismarkaði hér á landi rekur sig um heim allan á örskotsstund. Þetta sýnir í raun hve landið er orðið samþætt hinu alþjóðlega hagkerfi. Því fylgja bæði kostir og gallar. Verkefni okkar er að leita leiða til að draga úr ókostunum.

Góð þekking á hagkerfinu nauðsynleg

Við höfum undanfarnar vikur séð það svart á hvítu hversu mikilvægar réttar og góðar upplýsingar eru á fjármálamarkaði. Jafnframt höfum við orðið illilega vör við það hve mikil vanþekking er á hagkerfi okkar erlendis og hve slæmar afleiðingar þetta getur haft.
Við þessum breyttu aðstæðum þurfa íslenskar fjármálastofnanir að bregðast með stórlega aukinni og bættri upplýsingagjöf. Sama á við um aðra þá aðila sem starfa á þessum markaði svo sem Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Ég tel að stjórnvöld þurfi að taka þátt í slíkri kynningu. Ég tel að við höfum góðan málstað að kynna, íslenskt hagkerfi er sterkt og getur staðið af sér utanaðkomandi áföll. Þetta má ekki hvað síst rekja til þeirra umfangsmiklu skipulagsbreytinga sem hér hafa orðið á nánast öllum sviðum hagkerfisins á undanförnum árum. Það er óþarfi að fara nánar út í þá sálma hér, þetta þekkja allir.
Við þurfum hins vegar að koma þessum staðreyndum betur á framfæri erlendis til að eiga það ekki sífellt á hættu að óvandaðar og oft á tíðum illa grundaðar skýrslur erlendra aðila sem lítið þekkja til íslenskra efnahagsmála skapi hér óþarfa usla vegna smæðar okkar hagkerfis. Það er staðreynd sem við getum ekki umflúið að íslenskt hagkerfi verður alltaf peð í alþjóðlegum samanburði og þar af leiðandi berskjaldað fyrir utanaðkomandi áreiti, hversu illa rökstutt sem það kann nú annars að vera.

 

Gengið of lágt

Það er eðli fjármálamarkaða að þar þrífst spákaupmennska þar sem menn leitast við að verða sér úti um skjótfenginn hagnað. Þar ríkir líka ákveðin hjarðhegðun. Um leið og órói skapast og hlutirnir fara að hreyfast er tilhneiging til að allir aðilar á markaði fari af stað. Þessi þróun getur ýkt allar breytingar og stuðlað að yfirskoti, t.d. á gengismarkaði. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi verið að gerast hvað varðar íslensku krónuna upp á síðkastið enda eru flestir sammála um að gengi hennar hafi verið orðið of lágt miðað við raunstærðir efnahagslífsins. Á einhverjum tímapunkti tekur þetta enda og þróunin snýst við. Mikil styrking krónunnar síðustu daga er vísbending um viðsnúning á gjaldeyrismarkaði hvort sem hann er nú varanlegur eða ekki.
Það kemur engum sem þekkir til íslenskra efnahagsmála á óvart að gengi krónunnar skuli hafa lækkað. Það hefur blasað við um langan tíma að hið háa gengi sem hér hefur ríkt fengi engan veginn staðist til lengri tíma. Lægra gengi mun stuðla að auknu jafnvægi í efnahagslífinu með því að draga úr þenslu og minnka viðskiptahallann. Það er jákvæð þróun.
Hið neikvæða er að á meðan þessi snarpa aðlögun gengur yfir verður verðbólgan óhjákvæmilega meiri en æskilegt er. Ég hef hins vegar trú á að slíkt verðbólguskot verði skammvinnt og að við munum strax á næsta ári sjá verðbólgutölur sem verða farnar að nálgast verðbólgumarkmið Seðlabankans. Í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að verðbólgan á næsta ári verði að meðaltali um 3,5% og að verðbólgan verði á síðari hluta ársins komin nálægt 2,5% sem er verðbólgumarkmið Seðlabankans. Nýlegar spár frá Glitni og Landsbanka gefa svipaða niðurstöðu.

 

Engin kreppa framundan

Því fer fjarri að íslenskt hagkerfi sé á leið inn í samdráttar- eða kreppuástand. Þeir aðilar sem þannig tala leggja ekki rétt mat á raunstærðir hagkerfisins eins og þær birtast í hagtölum. Þannig spáir fjármálaráðuneytið tæplega 2% hagvexti á næsta ári og rúmlega 2½% hagvexti á árunum 2008-2010. Þótt þetta sé minni hagvöxtur en verið hefur hér á landi undanfarin ár er vöxturinn meiri en verið hefur í flestum ríkjum Evrópu undanfarin ár.
Enn og aftur virðast menn því gera sig seka um að vanmeta innri styrk íslenska hagkerfisins, ekki síst sveigjanleika þess og getu til að mæta utanaðkomandi sveiflum og bregðast við þeim á skjótan og árangursríkan hátt. Þetta er kannski skiljanlegt þar sem slíkur sveigjanleiki er óvíða fyrir hendi í okkar nágrannaríkjum og menn falla því gjarnan í þá gryfju að halda að staðan hér á landi sé svipuð og í þeirra eigin ríkjum hvað þetta varðar. Staðreyndin er hins vegar sú að Ísland er talið í hópi þeirra ríkja sem eru hvað samkeppnishæfust í heiminum.
Mig langar til að nefna hér eitt dæmi sem sýnir vel sérstöðu okkar gagnvart velflestum öðrum ríkjum og sem um leið undirstrikar styrk okkar hagkerfis. Í nýlegri umfjöllum breska tímaritsins Economist er fjallað um atvinnuþátttöku kvenna og réttilega bent á mikilvægi hennar fyrir efnahagslífið og hagvöxtinn almennt. Greinarhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að hér liggi eins konar falinn fjársjóður fyrir ríki heims þar sem aukin atvinnuþátttaka kvenna geti verið aflvaki aukins hagvaxtar og aukinnar velmegunar.
Ég er algjörlega sammála þessari niðurstöðu enda tel ég að þróunin í okkar efnahagslífi staðfesti hana rækilega. Við höfum verið svo lánsöm að atvinnuþátttaka kvenna hér á landi hefur verið með því allra hæsta sem þekkist í heiminum. Samkvæmt nýjustu tölum mælist atvinnuþátttakan 79,4% hér á landi sem skipar Íslandi í langefsta sæti meðal OECD ríkjanna. Næst koma Noregur, Danmörk og Svíþjóð með 72-73% en meðaltal OECD ríkjanna er tæplega 56%.
Þetta atriði hefur ekki verið mikið í umræðunni um hagvöxt hér á landi. Ég tel hins vegar óumdeilt og fyllsta ástæða til að halda því á lofti að hér er að finna mikilvæga skýringu á því að hagvöxtur hér á landi hefur verið jafnmikill og raun ber vitni og mun meiri en í okkar helstu nágrannaríkjum. Þetta endurspeglar sterka stöðu kvenna á vinnumarkaðnum og hún á eftir að styrkjast enn frekar. Raunar gildir það sama um atvinnuþátttöku eldra fólks sem er miklu meiri hér á landi en í öðrum löndum. Það er því ekki að furða að bæði þessi atriði skuli vera ofarlega í umræðunni erlendis um leiðir til þess að auka hagvöxtinn.

 

Stefnufesta í stað stefnubreytingar

Því er haldið fram að þörf sé á verulegri stefnubreytingu í efnahagsmálum. Ég er ekki sammála því. Miklum breytingum og framförum fylgir jafnan nokkur órói. Þegar hann kemur upp eiga menn ekki að rjúka upp til handa og fóta og reyna að snúa skútunni við. Við þurfum á stefnufestu að halda en ekki stefnubreytingu. En hvaða breytingar eru það sem umræðan er aðallega að kalla á ?

Í fyrsta lagi hefur einkavæðing ríkisfyrirtækja og formbreyting ríkisrekstrar til samræmis við breytta tíma verið gagnrýnd. Ég spyr: Voru það mistök að einkavæða fyrirtæki í samkeppnisrekstri? Nei. Þvert á móti hafa þessi fyrirtæki mörg hver verið drifkrafturinn í efnahagslífinu.

Í öðru lagi hefur lækkun skatthlutfalls á fyrirtæki og einstaklinga sætt ámæli og kallað eftir að hætt verði við frekari lækkun skatthlutfalls á einstaklinga og þar með að hætt verði við frekari samræmingu skattlagningar einstaklinga og fyrirtækja. Breytingar á skatthlutföllum hafa verið helsti drifkrafturinn í efnahagslífinu. Þær hafa stóraukið umsvif fyrirtækja og haldið þeim í landinu. Atvinnuþátttaka hefur aukist með lægri skatthlutföllum sem nálgast nú það sem lagt var af stað með þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp sem þá var almenn samstaða um. Skattbreytingar á næsta ári auka kaupmátt og draga þannig úr þörf fyrir launabreytingar. Með því skapast meira svigrúm til að hækka lægstu laun eins og nú er unnið að án þess að þær breytingar hafi víðtækari áhrif. Það er því ekki skynsamlegt að snúa af þessari leið.

Í þriðja lagi er aðhald í ríkisrekstri talið of lítið og útgjöld ríkissjóðs talin of mikil við núverandi aðstæður. Það er alltaf þörf á miklu aðhaldi í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga. Sjaldan er of varlega farið. Samfélagslegar breytingar kalla á aukið svigrúm, ekki síst á sviði menntunar, heilbrigðis- og  nýsköpunarmála. Þessir málaflokkar hafa notið forgangs. Ég tel að við höfum ekki farið of geyst á þessum sviðum og miklar þarfir eru óleystar. Á sama tíma og ríkisstjórnin er sökuð um aðhaldsleysi er nær daglega kallað eftir ákvörðunum um ný útgjöld. Við höfum gætt aðhalds í fjárfestingum ríkisins og oft frestað mikilvægum framkvæmdum. Það getur hæglega komið til slíkra aðgerða á næstunni ef efnahagsástandið kallar á það. Framvinda ríkisfjármála það sem af er þessu ári bendir hins vegar til þess að afkoman verði mun betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum og að aðhaldið sé því í reynd meira en áður var talið.

Í fjórða lagi hefur mikil aukning íbúðalána verið gagnrýnd. Ég tel að þær breytingar á íbúðalánakerfinu sem stjórnvöld beittu sér fyrir hafi verið tímabærar og hafi komið heimilunum vel. Hins vegar fóru bankarnir að mínu mati of geyst í hlutina sem varð til þess halda mikilli einkaneyslu uppi með lánum. Hér þurfa bæði einstaklingar og lánastofnanir að sýna meiri varkárni og fyrirhyggju.

Í fimmta lagi er fjárfesting í orkuframleiðslu og stóriðju gagnrýnd. Ég tel ótvírætt að með þeim fjárfestingum hafi tækifærin verið nýtt til að auka hagvöxt og breikka grundvöll efnahagslífsins. Var það óskynsamlegt? Nei, þvert á móti. Með þessum fjárfestingum hefur tekist að skapa mikinn fjölda fjölbreyttra og vel launaðra starfa og bæta efnahagslega afkomu fólks, fyrirtækja og hins opinbera. Nýting endurnýtanlegrar orku verður sífellt mikilvægari og það væri fráleitt að nýta ekki þau tækifæri sem bjóðast á þessu sviði. Spá um fremur lítinn hagvöxt á næstu árum er nægjanleg vísbending um að áframhald á þessari uppbyggingu er nauðsynleg til að tryggja jafnar og stöðugar framfarir. Okkur fjölgar örar en mörgum öðrum þjóðum og því þurfum við hlutfallslega meiri hagvöxt. Án áframhaldandi verðmætasköpunar leysum við ekki þau brýnu viðfangsefni sem blasa við og við þurfum, eins og aðrar þjóðir, erlendar fjárfestingar hér á landi.

Í sjötta lagi er gagnrýnt hvað fjárfesting Íslendinga er mikil erlendis og þar sé tekin of mikil áhætta. Rétt er að allri fjárfestingu fylgir áhætta en án áhættu verða engin tækifæri nýtt. Þrátt fyrir ört vaxandi fjárfestingu Íslendinga erlendis á síðustu árum eigum við enn langt í land með að ná öðrum þjóðum. Þannig nam fjárfesting Íslendinga erlendis í fyrra rétt um þriðjungi af landsframleiðslu á sama tíma og fjárfestingar Dana voru nálægt 50% af landsframleiðslu og fjárfestingar Svía um og yfir 60%. Það sem okkar fyrirtæki eru að gera er því fremur merki um eðlilega þátttöku í alþjóðaviðskiptum fremur en óeðlilega áhættu.

Ég tel þess vegna mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut og villumst ekki af leið vegna tímabundins mótlætis. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur skilað miklum árangri sem meðal annars birtist í rúmlega 25.000 nýjum störfum hér á landi frá árinu 1995. Þessi árangur hefur náðst með stefnufestu. Með hringlandahætti og vanstillingu er hins vegar auðvelt að missa tækifærin út úr höndunum.

 

Fjölskylduvænt þjóðfélag

Yfirskrift þessa fundar er Meiri árangur – Mögnuð áskorun. Það er óumdeilt að við höfum náð miklum árangri í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum. Eins og vera ber er þó mikilvægara að horfa til framtíðar og huga að því hvernig við getum haldið áfram á þeirri braut að bæta árangurinn.
Ég lít á það sem áskorun til okkar stjórnmálamanna að leita allra leiða til að búa til hagfellt umhverfi fyrir atvinnulífið til að þróast og þroskast í. Jafnframt og ekki síður mikilvægt er að skapa fjölskylduvænt samfélag þar sem fólk vill búa og þar sem því líður vel. Ég tel að við séum að upplifa hægfara og hljóðláta byltingu í okkar samfélagi sem gengur ekki bara út á að skapa atvinnulífinu hagstætt rekstrarumhverfi heldur ekki síður að horfa til þarfa einstaklinganna, starfsmannanna og þeirra fjölskyldna.
Þetta er verðugt verkefni og ég tel að okkur hafi miðað verulega áleiðis á undanförnum árum. Við þurfum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að slíkar aðgerðir af hálfu ríkisins kalla á aukið fjármagn nema hægt sé að spara á öðrum sviðum.
Frá árinu 1998 hafa heildarútgjöld ríkisins vaxið að raungildi um 20%. Hvert hafa þessir peningar farið? Þeir hafa farið til menntamála, til heilbrigðismála og til almannatrygginga og velferðarmála. Ég nefni sem dæmi að framlög ríkisins til almannatrygginga og velferðarmála hafa á þessum tíma aukist um 45% að raungildi eða ríflega tvöfalt meira en nemur aukningu heildarútgjaldanna. Framlögin til heilbrigðismála hafa aukist enn meira, eða um tæplega 50% að raungildi. Framlög ríkisins til fræðslumála hafa aukist um tæplega 60% og þar af hafa framlög til háskólastigsins aukist um heil 80% að raungildi. Þrátt fyrir þessa miklu útgjaldaaukningu hefur dregið úr ríkisumsvifum og hlutfall heildarútgjalda af landsframleiðslu lækkað um 2,5%.
Þetta er mikilsverður árangur og með honum er lagður grunnur að framtíðaruppbyggingu okkar samfélags í breiðum skilningi þess orðs. En við þurfum sífellt að halda vöku okkar og huga að áframhaldandi uppbyggingu efnahagslífsins og aukinni verðmætasköpun. Þótt sjávarútvegur verði áfram ein af okkar mikilvægustu atvinnugreinum er ljóst að hann stendur ekki undir stöðugt auknum hagvexti. Þess vegna þurfum við að horfa til fleiri átta og það tel ég reyndar að hafi verið gert hér með myndarlegum hætti á undanförnum árum.

 

Nýsköpun í öndvegi

Hér hefur byggst upp mjög kraftmikil fjármálaþjónusta sem hefur verið í lykilhlutverki í uppbyggingu atvinnulífsins á síðustu árum. Ferðaþjónustan er einnig orðin mjög öflug atvinnugrein og skapar sífellt aukin verðmæti. Ennfremur má nefna mörg hátæknifyrirtæki í lyfjaiðnaði, líftækni, tölvu- og hugbúnaðargerð og þannig mætti lengi telja. Með þessari uppbyggingu er rennt sífellt fleiri stoðum undir okkar efnahagslíf sem gerir það öflugra og samkeppnishæfara um leið og það getur betur tekist á við tímabundnar sveiflur eða áföll án þess að hér fari allt á hliðina eins og gjarnan var hér á árum áður.
Ég vil í þessu samhengi vekja sérstaka athygli á því mikilvæga starfi sem fram fer á vegum Vísinda- og tækniráðs. Í ráðinu sitja ráðherrar, vísindamenn og fulltrúar atvinnulífsins sem hefur það að meginmarkmiði að treysta stöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Þetta starf hefur skilað miklum árangri. Frá stofnun ráðsins árið 2003 hafa framlög til opinberra samkeppnissjóða meira en tvöfaldast og háskólar undirbúa nú fleiri nemendur en nokkru sinni áður til starfa sem krefjast vísindalegra vinnubragða, þekkingar og færni.
Þá mælti ég á dögunum fyrir lagafrumvarpi þar sem gert er ráð fyrir að starfsemi ráðsins verði útvíkkuð til samræmis við fyrirætlanir um sameiningu þriggja stofnana í eina stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og breytingar á Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Nafni ráðsins verður jafnframt breytt í Vísinda- og nýsköpunarráð og það mun taka til umfjöllunar málefni atvinnuþróunar og nýsköpunar, auk málefna vísinda og tækni.
Þá verður fulltrúum í ráðinu fjölgað um tvo og koma báðir úr atvinnulífinu. Er það von mín að aðkoma atvinnulífsins að vísindastarfi, rannsóknum og nýsköpun eflist við þessar breytingar, enda nauðsynlegt að atvinnulífið taki höndum saman með háskólum og rannsóknastofnunum í samræmdri sókn ríkis og einkaaðila á þessum mikilvægu og ört vaxandi sviðum íslensks atvinnulífs.
En það er margt fleira á döfinni sem ég tel mikilvægt fyrir uppbyggingu okkar samfélags og sem ég vonast til að geti komið til framkvæmda sem fyrst. Þessi mál snúa fremur að kjörum og aðstöðu heimilanna en beinni atvinnuuppbyggingu en allt hangir þetta saman og myndar eina samfélagslega heild þegar upp er staðið.

 

Lægra matvælaverð

Verðmælingar Hagstofunnar og útreikningar hagstofu ESB og OECD hafa sýnt að matvælaverð í Evrópu er hvergi hærra en hér á landi. Mikið hefur verið fjallað um þetta mál síðustu misserin og margvíslegar athuganir verið gerðar til að finna orsakirnar. Ég tel brýnt að fá niðurstöðu í þetta mál. Þess vegna skipaði ég í janúar sl. nefnd með fulltrúum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og samtaka bænda til að gera tillögur sem miða að því að færa matvælaverð nær því sem er í nágrannaríkjunum.
Nefndin hefur rætt fjölmarga þætti þessa máls og haft samráð við fulltrúa ýmissa stofnana og hagsmunaaðila sem tengjast verkefni hennar. Skattlagning matvæla er talsvert flókin og regluverk fremur ógagnsætt. Þá hefur hún leitt af sér flókið kerfi undanþága og sérákvæða sem hefur í för með sér töluverðan kostnað. Loks þykir álagning vörugjalds ómarkviss og samspil vörugjalds og tolla handahófskennt.
Ég tel mikilvægt að einfalda sem mest skattlagningu matvæla, fella niður þá skatta sem hafa óæskileg uppsöfnunaráhrif og útrýma gildandi undanþágukerfi. Jafnframt þarf að huga að álagningu tolla á innfluttar landbúnaðarvörur meðal annars vegna alþjóðasamninga sem eru í burðarliðnum. Lækkun matvælaverðs hér á landi yrði mikil kjarabót fyrir heimilin í landinu auk þess sem hún yrði mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna.

 

Málefni aldraðra og öryrkja

Bætt kjör aldraðra er annað mikilvægt mál. Ríkisstjórnin hefur þegar beitt sér fyrir miklum umbótum á þessu sviði og bætt kjör þeirra verulega á undanförnum árum. Ég tel brýnt að halda áfram á þessari braut og gera enn betur. Öldruðum fjölgar ört og þörfin fyrir aukna þjónustu og aðbúnað fer stöðugt vaxandi.
Af þessu tilefni og í samráði við samtök eldri borgara skipaði ég fyrr á þessu ári nefnd sem ætlað er að fjalla um úrbætur í málefnum aldraðra. Nefndin á annars vegar að fjalla um búsetu- og þjónustumál þeirra og hins vegar að skoða fyrirkomulag tekjutengingar bóta með hliðsjón af skerðingu vegna tekjuöflunar þar sem jafnframt verði þó horft til tekjujöfnunarhlutverks tekjutengingar bóta. Ég vænti þess að tillögur nefndarinnar geti legið fyrir í haust þannig að unnt verði að taka tillit til þeirra við fjárlagagerð ársins 2007.
Málefni öryrkja eru líka til ítarlegrar skoðunar í nefnd sem ég skipaði fyrr á þessu ári með fulltrúum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, lífeyrissjóða og Öryrkjabandalagsins. Einn mikilvægasti þátturinn sem nefndin á að fjalla um er starfsendurhæfing öryrkja og leiðir til að þeir geti fengið vinnu við sitt hæfi. Það er löngu tímabært að breyta hér áherslum og horfa frekar til starfsgetu hvers og eins en læknisfræðilegrar örorku. Slík breyting kallar jafnframt á endurskoðun tekjuskerðingar örorkubóta vegna öflunar tekna til að auka atvinnuþátttöku.
Þessi nefnd er jafnframt að fara yfir ýmsa þætti sem lúta að tilhögun örorkumats, meðal annars samræmingu á viðmiðunum til örorkumats í almannatryggingakerfinu annars vegar og í lífeyrissjóðakerfinu hins vegar. Auk þess má nefna margvíslegar breytingar sem miða að því að styrkja framkvæmd örorkumats, eftirlit o.fl. Ég bind miklar vonir við starf nefndarinnar og vonast til að við getum tekið mið af tillögum hennar við næstu fjárlagagerð.

 

Mögnuð áskorun

Ég tel að þau verkefni sem ég hef hér tæpt stuttlega á feli svo sannarlega í sér “Magnaða áskorun”. Þetta er verðug áskorun sem við eigum og þurfum að bregðast við, jafnt atvinnulífið sem stjórnvöld. Ég hef alltaf litið á það sem hlutverk okkar stjórnmálamanna að vinna að því að bæta okkar samfélag, bæta kjör heimilanna, skapa heilbrigt og gott rekstrarumhverfi fyrir íslensk fyrirtæki um leið og við viljum tryggja öflugt heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi.
Mér finnst árangurinn vel ásættanlegur þegar ég horfi til baka síðustu tíu ár eða svo. Auðvitað má alltaf gera betur og það verður seint hægt að gera svo öllum líki. Meginatriðið er að setja sér skýr markmið og gera sér grein fyrir því hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi til að þessum markmiðum verði náð.
Og hvaða forsendur eru það? Jú, grunnurinn að öllum efnahags- og samfélagslegum framförum er að við sköpum verðmæti í landinu. Ef verðmætasköpun er ekki fyrir hendi eru heldur engar forsendur fyrir því að bæta lífskjörin. Svo einfalt er það. Við verðum því fyrst og síðast að leita allra leiða og nýta alla þá kosti sem gefast til að auka verðmætasköpun í landinu.
Ég tel að við sem þjóð höfum alla burði til að þetta gangi eftir. Sú kröftuga uppbygging sem hér hefur orðið á undanförnum árum sýnir að viljinn og getan eru fyrir hendi, jafnt hjá einstaklingum sem fyrirtækjum. Það er stjórnvalda að tryggja að þessir kraftar finni sér þann farveg sem skilar okkur fram á veginn.
Núverandi stefna í efnahagsmálum hefur skilað miklum árangri og við þurfum að halda áfram á sömu braut. Það krefst stefnufestu ekki stefnubreytingar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum