Hoppa yfir valmynd
05. maí 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Útibú Fiskistofu í Vestmannaeyjum opnað

Góðir gestir.

Í dag eru nákvæmlega þrettán mánuðir frá því Árni Matthiesen forveri minn í starfi sjávarútvegsráðherra, kynnti á fundi hér í Vestmannaeyjum að til stæði að opna fjögur ný útibú Fiskistofu utan höfuðborgarsvæðisins. Hér í Eyjum, á Höfn, í Stykkishólmi og í Grindavík. Nú er komið að því að opna formlega fyrsta útibúið og við hæfi að það sé gert í þessari miklu verstöð sem Vestmannaeyjar eru. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að færa Árna Matthiesen bestu þakkir fyrir hans sköruglega þátt í þessu verki. Að mínu mati sýndi hann mikla framsýni þegar hann tók þá ákvörðun sem nú er hrint í framkvæmd. Um er að ræða einhverja veigamestu ákvörðun um staðsetningu starfa á landsbyggðinni á seinni árum.

Starfsemin hér kemur vel heim og saman við það sem ég hef ötullega bent á undanfarin misseri; að í sjávarútvegi og öllu sem að honum lítur felst mikil þekkingarsköpun og þekkingarstarfsemi. Það er nærtækt að líta til Háskólasetursins hér og þess sem því hefur fylgt til að sjá þetta glöggt. Í útibúi Fiskistofu hér í Eyjum verður m.a. séð um alla bakreikninga afurða og að færa þá til afla. Þetta er flókið verkefni og því nauðsynlegt að koma upp sérhæfingu á þessu sviði með sérstakri deild. Í ljósi nútímasamskiptatækni þótti lag að hafa þessa starfsemi úti á landi og Vestmannaeyjar góður kostur í því tilliti. Þegar búið verður að fullmanna útibúið hér verða fimm starfsmenn, þar af einn veiðieftirlitsmaður sem annast eftirlit Fiskistofu á sjó og landi hér í Eyjum. Ég vil í þessu sambandi færa forsvarsmönnum Fiskistofu; Þórði Ásgeirssyni og hans ágæta fólki þakkir fyrir góðan og vandaðan undirbúning þessa. Við vitum að fenginni reynslu að svona lagað gengur ekki alltaf átakalaust fyrir sig. Það er því til marks um góð vinnubrögð Fiskistofustjóra og hans fólks hve vel þetta hefur gengið.

Það þarf ekki að fjölyrða um hve þýðingarmikið er að stuðla að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Fjarlægð frá höfuðborginni er orðin aukaatriði á svo mörgum sviðum, ekki hvað síst er snertir upplýsingatækni og hægt að vinna slík störf hvar sem er að heita má. Þróun í fjarskiptum og samgöngumálum færa landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið líka stöðugt nær hvort öðru.

Þetta útibú verður án efa lyftistöng fyrir Vestmannaeyjar rétt eins og þau þrjú sem síðar verða opnuð annars staðar á landinu. Fyrirhugað er að þau hafi öll tekið til starfa árið 2009. Þá hafi um 30 störf veiðieftirlitsmanna færst út á land og til verða nokkur ný störf þar líka, flest hér í Eyjum og reyndar verður megnið af þessum störfum í Suðurkjördæmi.

Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að treysta undirstöður byggðar í landinu og jafna skilyrði til atvinnu. Stundum fetta menn fingur út í aðgerðir sem þessar og finna þeim allt til foráttu. Í þessu tilfelli eiga störfin þó hvergi betur heima en einmitt á landsbyggðinni. Eftirlit Fiskistofu fer fram þar sem sjávarútvegur er stundaður og því mjög eðlilegt að starfsemi veiðieftirlitsins sé líka staðsett þar. Í rauninni vil ég snúa þessu við og segja: Það þarf ekki að réttlæta það sérstaklega að verkefni af þeim toga sem við erum hér að fjalla um, séu unnin á landsbyggðinni til jafns við höfuðborgarsvæðið. Og í rauninni hefur það oft ergt mitt annars ágæta skap þegar notað er orðalagið að flytja störf út á land rétt eins og þau eigi sjálfkrafa heimilisfesti á höfuðborgarsvæðinu. Það er einfaldlega eðlilegt að stærsti atvinnuveitandi á Íslandi líti til allra átta og þess vegna ber að efla atvinnustarfsemi hins opinbera á landsbyggðinni.

Það er við hæfi að nefna hlut Guðjóns Hjörleifssonar formanns sjávarútvegsnefndar í þessum máli, en hann beitti sér af miklum þunga í því ásamt fleiri heimamönnum. Samstarf mitt við hann hefur verið farsælt og hvergi borið skugga á, þótt annar sé frá Vestfjörðum og hinn úr Eyjum. Reyndar var það svo að Guðjón stuðlaði að því með forystumönnum útvegsbænda hér, að fyrsti fundur minn eftir að ákveðið var að ég yrði sjávarútvegsráðherra var hér í Eyjum. Samstarf mitt við Eyjamenn hefur verið með miklum ágætum síðan og fyrir það er ég þakklátur.

Fyrir tæplega fjórum mánuðum voru höfuðstöðvar Fiskistofu fluttar úr Fiskifélagshúsinu í Ingólfsstræti að Dalshrauni í Hafnarfirði. Í móttöku í tilefni opnunar á nýjum stað heyrði ég suma starfsmenn tala með svolitlum söknuðu um gömlu höfuðstöðvarnar, eins og gengur. Nokkrir hentu gaman að því að þeim þætti helst til langt seilst þegar Fiskistofa var flutt alla leið í Hafnarfjörð, í kjördæmi þáverandi sjávarútvegsráðherra. Í því samhengi heyrðist mér menn þó prísa sig sæla að ég skildi ekki vera orðinn sjávarútvegsráðherra, því hver veit hvar þeir hefðu lent þá – a.m.k. er ekki líklegt að ég hefði látið staðar numið í Hafnarfirði!

En að öllu gamni slepptu þá veit ég ekki betur en að allir séu hæstánægðir með flutninginn í Hafnarfjörð. Þar er aðstaða til fyrirmyndar svo ekki sé minnst á hve miklu rýmra er um starfsmenn en áður var. Með nýjum höfuðstöðvum og þessum nýju útibúum má segja að Fiskistofu vaxi fiskur um hrygg. Ég er ekki í vafa um að hér verður mikið og þarft starf unnið á næstu misserum og árum. Þetta er vísirinn að því sem koma skal. Til hamingju með áfangann og gangi ykkur vel.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum