Hoppa yfir valmynd
04. september 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ráðstefna um þorskeldi í Ísafjarðardjúpi 30. ágúst 2006

Ávarp Einars Kristins Guðfinnssonar við setningu ráðstefnunnar Þorskeldi í Ísafjarðardjúpi

30. ágúst 2006

Ágætu ráðstefnugestir mér er það mikil ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur og setja þessa ráðstefnu um þorskeldi í Ísafjarðardjúpi.

 

Það eru ekki ýkja mörg ár síðan að fiskeldi að einhverju marki hófst að nýju hér á landi. Við hófum þann leik með drjúga reynslu í farteskinu og að sumu leyti hræddu okkur gengin spor en öll munum við eftir því sem kallað hefur verið „fiskeldisævintýrið“ og stóð yfir á níunda áratugnum. Þegar fiskeldi var aftur tekið upp að marki hérlendis var lögð á það áhersla að það væri gert undir nýjum formerkjum, aðkoma hins opinbera er ekki lengur fólgin í að vera gerandi eða megin fjármögnunaraðili heldur leggur ríkisvaldið megin áhersluna á að skapa greininni rekstraraðstöðu svo hún nái að vaxa og dafna í takt við annað atvinnulíf í landinu. Fyrirtækin sjálf standa hins vegar ábyrg fyrir fjármögnun og því hvernig þau standa að sínum málum almennt séð. Þetta er mun hægara nú en fyrir rúmum tuttugu árum síðan því bæði er það að almennur skilningur fólks á því hvað hinu opinbera ber að gera í þessum málum er gerbreyttur en að auki hefur fjárhagslegt bolmagn atvinnulífsins margfaldast að styrk, m.a. í sjávarútveginum. Þar hefur það skipulag sem við Íslendingar höfum sett fiskveiðum okkar ekki hvað síst skipt sköpum.

 

Orð mín mega þó alls ekki skiljast svo að ég líti svo á að allt sé hér á grænni grein og ríkisvaldið geti því setið með hendur í skauti. Ríkisvaldið hefur enda komið með ýmsum hætti að fiskeldinu á liðnum árum og mun gera það áfram og ætla ég hér á eftir að geta nokkurra þátta í því sambandi. Áður en ég kem að því vil ég minna á fleira sem skilur fiskeldið að í dag miðað við það sem áður var. Lax var megin eldistegundin fyrr meir en einnig bleikja en þetta eru hvoru tveggja ferskvatnstegundir sem heyra því undir landbúnaðarráðuneytið samkvæmt þeirri verkaskiptingu sem í gildi er á milli ráðuneytanna. Lúðeldi kom nokkru síðar til og er það raunverulega fyrsta tegund sjávarfisks sem tekin var í skipulegt eldi hérlendis. Bleikjueldið hélt áfram allar götur þó að laxeldið á stórum skala hyrfi nær alveg. Í báðum þessum tegundum; bleikju og lúðu, höfum við Íslendingar náð afar miklum árangri. Hvað bleikjuna varðar hefur geysimikil kynbótaframför náðst og í lúðunni erum við Íslendingar seiðaframleiðendur í heimsklassa. Þegar fiskeldið hófst á nýjan leik að marki var stórframleiðsla á laxi hafin að nýju auk mun víðfeðmara eldis sjávarfisks og annarra sjávardýra jafnframt hafa ráðuneytin tvö sem með málaflokkinn fara átt gott samstarf og þar hefur fiskeldisnefnd gengt veigamiklu hlutverki auk þess sem samstarf við umhverfisráðuneytið hefur gengið vel.

 

Í eldi sjávarfisks er þessi árin lögð mest áhersla á uppbyggingu í þorskeldi. Þorskur er enda vænleg eldistegund hér við land fyrir margra hluta sakir. Þannig er hafið umhverfis Ísland kjörsvæði fyrir þorsk frá náttúrunnar hendi, það þarf því ekki að skapa honum manngerðar umhverfisaðstæður eins og t.d. væri ef um hlýsjávarfisktegund væri að ræða. Þá á vinnsla þorsks og markaðssetning sér langa órofa sögu hér á landi, það þarf því ekki að byrja frá grunni við markaðsfærsluna þótt vitaskuld þurfi að halda eldisfiski aðgreindum frá villtum í öllu ferlinu. Síðast en ekki síst er eftirspurnin eftir fiski, ekki hvað síst hvítfiski, sífellt að aukast í heiminum og verð á fiski að hækka. Fiskimið heimsins eru hins vegar fullnytjuð og sumstaðar meira en svo, enda hefur mjög mörgum þjóðum mistekist eða látið undir höfuð leggjast að koma á fullnægjandi skipulagi fiskveiða. Hjá nágrannaþjóðum okkar hefur áhugi á þorskeldi vaxið mjög þannig að við erum síður en svo einir á báti. Frændur okkar Norðmenn hafa beitt sér mjög að þessu viðfangsefni en eins hafa Skotar og Kanadamenn byggt upp þorskeldi. Drifkraft þessa má rekja til þeirra ástæðna sem ég gat um hér áðan en veiði á þorski hefur dregist mjög saman í Norður-Atlantshafi.

 

Þorskeldinu skiptum við upp í áframeldi og svokallað aleldi. Í áframeldinu er villtur smáfiskur fangaður og hann síðan alinn í sláturstærð í kvíum en í aleldinu er fiskurinn alinn undir mannshendinni allt frá upphafi. Tilbrigði við þetta hvoru tveggja er síðan föngun á seiðum og áframeldi þeirra. Það sem skilur þó þá aðferð frá eiginlegu aleldi er að í aleldinu er unnið með kynbættan eldisstofn. Skiptir þá ekki máli upp á þær aðferðir sem beitt er hversu mikið kynbættur stofninn er, því kynbætur eiga sér engan endi eðli málsins samkvæmt og alltaf má betur gera með ræktun.

 

Allt frá fiskveiðiárinu 2001/2002 hefur sjávarútvegsráðherra haft til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 500 lestum af óslægðum þorski. Þessum aflaheimildum skal ráðstafað til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem fylgist með tilrauninni og birtir niðurstöður um gang hennar. Eins og segir í lögunum. Þetta ákvæði gilti upphaflega til og með fiskveiðiárinu 2005/2006 eða sem sagt því fiskveiðiári sem nú er að líða en hefur nú verið framlengt með lagabreytingu til og með fiskveiðiárinu 2009/2010, samanber ákvæði til bráðabirgða nr. XXX (rómverskur 30) í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Ekki leikur nokkur vafi á að téð kvótaúthlutun hefur komið að miklu gagni þó liggur fyrir að áframeldið mun ekki geta orðið af því umfangi að það nægi eitt og sér. Það er hins vegar til þess fallið að auka þekkingu og æfingu eldismanna, ekki hvað síst er sjókvíaeldi varðar. Sama tilgangi þjónar raunar föngun og áframeldi á villtum seiðum sem sjávarútvegsráðuneytið hefur t,d, heimilað hér í Ísafjarðardjúpi síðustu árin, þar er eldisferillinn lengdur um eitt stig eða svo en vel að merkja unnið með villtan efnivið eftir sem áður.

 

Reynslan úr laxeldi sýnir svo að ekki þarf um að efast að kynbætur gegna lykilhlutverki til að arðsemi náist í eldi, hið sama sýnir reynsla okkar sjálfra hvað eldi á bleikju varðar. Þetta þarf svo sem engum að koma á óvart og er enda létt að ímynda sér hvar landbúnaður heimsins stæði ef ekki hefðu verið stundaðar kynbætur en ræktunarsagan þar spannar jafnvel margar aldir. Enda var það svo að í þeim aðgerðum sem ríkisstjórn Íslands beitti sér fyrir á liðnum vetri til að treysta stöðu fiskeldisins var átak í kynbótum þorsks sett í öndvegi en í ríkisstjórnarsamþykkt frá apríl sl. segir:

 

Fyrir liggur að kynbætur á völdum eldisstofni eru forsenda uppbyggingar þorskeldis því framleiðsla matfisks úr kynbættum stofni (aleldi) hefur yfirburði yfir þá aðferð að fanga villtan smáþorsk sem síðan er alinn í kvíum (áframeldi). Hér er hins vegar um að ræða langtímaverkefni sem mikilvægt er að búi við traustan fjárhagsgrundvöll.

Árlega verður veitt 25 milljónum króna til verkefnisins. Gerður verði sérstakur samningur við framkvæmdaaðila kynbótaverkefnisins, þar sem m.a. yrðu sett skilyrði um vísindalegt framlag. Jafnframt yrði sett það skilyrði gagnvart fjárveitingu þessari að árlega skuli skilað fullnægjandi framvinduskýrslu til AVS sjóðsins.

 

Ágætu fundargestir

Það er ekki vafi í mínum huga um að sá áfangi að koma kynbótaverkefninu í þorskeldinu á föst fjárlög mun treysta framvindu þess mjög í sessi, tengslin við AVS sem styrkt hefur verkefnið hingað til munu þó haldast en svigrúm sjóðsins til að styrkja önnur þau verkefni í fiskeldi sem standast faglegar kröfur þær sem sjóðurinn setur ættu þó að aukast.

 

Eins og ég kom að hér fyrr í ávarpinu hefur verið lögð áhersla á að draga lærdóm af reynslu þeirri sem við Íslendingar öðluðumst í fiskeldi á fyrri árum. Eitt af því sem við leggjum nú mikið upp úr er að sinna stefnumótun með aðkomu allra aðila er málið varðar og eins að sinna vel þekkingaröflun. Á árinu 2002 var haldin stefnumótunarráðstefna í Reykholti en samstarfshópur atvinnulífs og stjórnvalda um þorskeldi stóð fyrir þeirri ráðstefnu. Á árinu 2003 var fiskeldishópur AVS síðan settur á laggirnar og tók hann m.a. við verkefnum samstarfshópsins auk þess að vera ráðgjafarhópur stjórnar AVS o. fl. Fiskeldishópur AVS mun standa fyrir nýrri stefnumótunarráðstefnu á næsta ári en þá verða liðin fimm ár frá þeirri síðustu. Á síðasliðnu ári stóð hópurinn fyrir alþjóðlegri ráðstefnu; Cod Farming Conference, í tengslum við sjávarútvegssýninguna sem þá fór fram. Ráðstefnan var fjölsótt og heppnaðist hið besta en á heimasíðu ráðuneytisins er hægt að nálgast allar upplýsingar um ráðstefnuna og hún mun haldin að nýju í tengslum við næstu sjávarútvegssýningu árið 2008.

 

Fundargestir.

Eins og þið heyrið er mikið um að vera í þorskeldinu hér á landi en við megum þó herða sóknina til að standa öðrum þjóðum á sporði en bæði er það metnaður okkar Íslendinga og raunar lífsspursmál að vera best á öllum sviðum sjávarútvegs. Við vitum það að við búum yfir snerpu og krafti, hin sannkallaða vertíðarstemning! Hitt vitum við að þekkingin og íhygli verður að haldast í hendur við dugnað og kraft. Þessum tilgangi þjónar ráðstefna sú sem þið nú sitjið og segi ég hana setta.

 

 

Þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum