Hoppa yfir valmynd
26. október 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 26. október 2006

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra á aðalfundi

Landssambands smábátaeigenda 26. október 2006

Hversu oft höfum við ekki heyrt sagt; við lifum á breytingatímum. Líklega hefur þetta alltaf verið rétt en þó er augljóst að aldrei hefur þetta átt betur við en einmitt nú. Það er af sem áður var og við þurfum að búa okkur undir breytingar af öllu tagi. Þeim fylgir einhver röskun og líka yfirleitt átök, því það er fátt í þessu þjóðfélagi sem ekki kallar á umræðu og skoðanaskipti. Það er eðlilegt í nútíma lýðræðissamfélagi og þannig viljum við að það sé.

 

Það urðu breytingar á íslensku þjóðfélagi 17. október s.l. Þann dag undirritaði ég reglugerð sem heimilaði hvalveiðar að nýju í atvinnuskyni. Þó að heimildirnar væru takmarkaðar var ákvörðunin stór í þeim skilningi að hún var breyting á því sem áður hafði verið. Það er þó algerlega rangt að tala um stefnubreytingu í þessum efnum. Það hefði á hinn bóginn verið stefnubreyting af minni hálfu sem sjávarútvegsráðherra ef ég hefði tekið þá ákvörðun að heimila ekki hvalveiðar í atvinnuskyni. Og hvernig rökstyð ég þetta?

 

Þann 10. mars 1999 að aflokinni mikilli umræðu á Alþingi og í þjóðfélaginu í heild, skoðanaskiptum og ítarlegri umfjöllun í viðkomandi fagnefnd, sem var sjávarútvegsnefnd Alþingis, komst þingið að þeirri niðurstöðu að hvetja til þess að atvinnuhvalveiðar yrðu leyfðar hið fyrsta. Æ síðan hefur verið unnið í þessum anda. Með vísindaveiðunum sem hófust árið 2003, inngöngu okkar í Alþjóðahvalveiðiráðið 2002, aðild okkar að CITES sáttmálanum, kynningu á málstað okkar á erlendri grundu og margfaldar yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda og íslenskra stjórnmálamanna um stuðning við sjálfbærar veiðar. Allt þetta var í anda stefnumótunarinnar frá Alþingi. Markmiðið var skýrt og frá því var aldrei ætlunin að hvika.

 

Ég sá í fjölmiðli í vikunni að maður einn hélt því fram að hvalveiðarnar væru hluti af fortíð í atvinnulegu tilliti. Ekkert er fjær sanni. Hvalveiðar eru einungis hluti af þeirri auðlindanýtingu sem hver sjálfstæð þjóð hlýtur að hafa heimild til að taka ákvörðun um. Við Íslendingar byggjum auðlindanýtingu okkar á afar skýrri, strangri en einfaldri reglu. Hún er svona: Við viljum nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti, þannig að við skilum auðlindinni í jafngóðu ástandi og við tókum við henni, að minnsta kosti. Er eitthvað gamaldags eða úrelt við þetta? Nei, hreint ekki. Þetta er nútímalegt og viðurkennt viðhorf.

 

Við stundum fiskveiðar okkar undir þessum formerkjum, og enginn segir neitt við því. Hvers vegna skyldum við ekki nýta aðrar auðlindir með sama hætti? Þegar þessu skilyrði um sjálfbærni auðlindanýtingar er fullnægt og við höfum komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hamli auðlindanýtingunni þá á það einfaldlega ekki að vera hlutverk stjórnmálamanna að deila og drottna frekar. Stjórnmálamenn eiga ekki, eftir hugmyndum sínum eða duttlungum, að ákvarða frekar um veiðar á einstökum tegundum. Það er ekki eðlilegt í nútímaþjóðfélagi, þar sem við viljum að almennar leikreglur gildi, að það sé undirorpið pólitískum stundarhagsmunum hvernig við stöndum að auðlindanýtingu okkar, umfram það sem settar hafa verið meginreglur um. Eða hvernig litist mönnum á ef ég segði; þessa tegund má veiða, en ekki þessa. Þetta vil ég friða – og af því bara. Það sjá allir fáránleikann í slíku; -  nema auðvitað nokkrir íslenskir kaffihúsaspekingar. Þeir sem nú ganga harðast fram og krefjast þess að við bönnum með lögum atvinnugrein á borð við hvalveiðar og vinnslu fara í raun inn á algjörlega nýjar brautir. Þeirra krafa er um ríkisafskipti af nýrri gerð þar sem til er ætlast að stjórnmálamenn geri tiltekinn atvinnurekstur útlægan eða ólöglegan. Þannig eigi stjórnmálamenn að hafa vit fyrir almenningi og atvinnulífinu.

 

Þetta er vitaskuld athyglisverð skoðun, en vissulega kemur það á óvart að hún rísi við upphaf 21. aldarinnar. Verði henni fylgt út í æsar getum við seint ímyndað okkur hvert hún leiðir. Í dag eru það hvalveiðarnar, en enginn veit hvert gæti orðið næsta fórnarlambið. Kannski hvalaskoðun, sú ágæta og vaxandi atvinnugrein, en við vitum að til eru þeir hópar erlendir sem álíta hvalaskoðun truflandi fyrir hvalina og að hún standi jafnvel fjölgun þeirra fyrir þrifum.

 

Ef þeir sem nú andmæla hvalveiðum hvað harðast, vilja vera sjálfum sér samkvæmir er eðlilegt að þeir krefjist þess að Alþingi banni hvalveiðar með lögum. Að þessi tiltekna atvinnustarfsemi verði þannig gerð ólögleg.  Það hefur satt að segja undrað mig að þessi skoðun hafi ekki komið fram í umræðum hvalveiðiandstæðinga hér á landi. Málið er þó afskaplega einfalt. Annað hvort er þessi atvinnurekstur leyfður, eins og stjórnvöld hafa gert, ellegar bannaður og þeir sem andmæla hvalveiðum nú hljóta að vera þeirrar skoðunar að slíkt skuli gert.

 

Sú stefna var mörkuð þegar Íslendingar gengu aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið árið 2002 að hefja ekki veiðar í atvinnuskyni fyrr en að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Annars vegar að enginn framgangur væri í endurskoðun veiðistjórnunaraðferða og hins vegar að atvinnuveiðar hæfust ekki fyrr en eftir 2005. Það var ljóst á þessu ári að bæði skilyrðin voru uppfyllt, þannig að hefði ég tekið ákvörðun um eitthvað annað en atvinnuveiðar á hval þá hefði það verið stefnubreyting.

 

Ríkisstjórnin hefði orðið að skýra þá stefnubreytingu. Ekki bara fyrir íslenskum hagsmunaaðilum, ekki bara á Alþingi, heldur líka á alþjóðlegum vettvangi. Það hlyti líka að kalla á umræðu um stöðu Íslands almennt en ekki skal ég segja til um hvort sú umræða hefði orðið jafn hávær og sú sem nú er um hvalveiðarnar. En óneitanlega yrði það snúið fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á sjálfbærri auðlindanýtingu að útskýra sinnaskiptin.

 

Það er mjög bágt að hugsa til þess að fulltrúar virðulegra ríkja sem vilja láta taka sig alvarlega á alþjóðlegum vettvangi, vinaþjóðir okkar á borð við Breta og Svía svo dæmi séu tekin, skuli fara með fleipur. Bera upp á okkur Íslendinga hluti sem fá ekki staðist og öllum á að vera ljóst að eru staðlausir stafir. Það er óhrekjanleg staðreynd að hvorug þeirra hvalategunda sem veiðar hafa verið leyfðar á, hrefna eða langreyður,  er í útrýmingarhættu hér við land, langt því frá.

 

Það hefur vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins staðfest, það hefur vísindanefnd NAMMCO staðfest og jafnvel Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn sem oft er vitnað til í þessu sambandi, hefur ekki kveðið upp úr með það að langreyður á Íslandsmiðum sé ofveidd, öðru nær. Það verður þess vegna ekki séð hvað veldur þessu einkennilega útspili svo virðulegra stjórnvalda sem um ræðir.

 

Er þetta vanþekking hjá þessum herramönnum? Það er illt til þess að vita ef svo er og að menn vaði uppi í alheimspressunni og geri sig seka um þekkingarleysi á grundvallaratriðum þess sem þeir eru að tjá sig um. Ég vil þó ekki trúa því að þeir tali gegn betri vitund. Því verður ekki annað séð en að þetta ágæta fólk sem talar með þessum hætti sé orðið uppvíst að fullkomnu þekkingarleysi og skeytingarleysi um staðreyndir,  sem gengisfellir það sjálft í allri umræðunni á komandi tímum. Svo ekki sé nú talað um umhverfisráðherra Ástralíu, en þar í landi stunda menn skytterí á úlföldum og kengúrum úr þyrlum og skipa sér í hóp þjóða sem ekki hafa viljað staðfesta Kyoto-sáttmálann, sem er ætlað að hamla gegn mengun. Enginn þessara þremenninga hefur látið svo lítið að leiðrétta rangfærslur sínar. Þeir hefðu þó orðið menn að meiri við það. Ætli þeir séu að skjóta sér á bak við vissu um að almenningur í löndum þeirra viti ekki betur um stöðu hvalastofna hér við land?

 

Ekkert af þessu hrekur okkur þó af leið. Við vitum að ákvörðunin var rétt, við vitum að hún var rökrétt og nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar og við vitum að þetta er samgróið þeirri stefnumótun sem íslensk stjórnvöld og íslenskir stjórmálamenn, raunar hvar í flokki sem þeir eru, hafa staðið fyrir.

 

Góðir smábátamenn.

Ég talaði um breytingartíma í upphafi máls míns og það ekki að ósekju. Hafa mætti mörg orð um þær breytingar sem snerta sjávarútveginn. Fiskveiðistjórnunarkerfi smábátanna hefur til dæmis tekið miklum breytingum og afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Mjög margt hefur breyst, bátarnir hafa stækkað og orðið öflugri, línuveiðar hafa aukist og færaveiðar dregist saman, bátunum hefur fækkað en aflinn aukist. Aflahlutdeildin hefur vaxið og afli sem krókaaflamarksbátar drógu á land var meiri á síðasta fiskveiðiári en árið þar á undan, 75 þúsund tonn á móti 62 þúsundum tonna. Þessar tölur  um heildarafla krókaflamarksbáta segja í rauninni allt sem segja þarf.

 

Þetta undirstrikar að mínu mati kraftinn í þessu kerfi og að möguleikar þessa útgerðarhóps eru gríðarlega miklir. Hinir öflugu bátar sækja sjóinn fast og draga að landi ævintýralegt magn. Ég hef oft á erlendri grundu stært mig af þessum ótrúlegu afköstum, og ég skal segja ykkur það í fúlustu alvöru; þeir verða oft hissa erlendir starfsbræður mínir þegar ég segi þeim sögurnar af aflabrögðunum og aflanum sem bátarnir færa að landi.

 

Það er líka gott að vita að þessi fiskur er eftirsóttur af fiskkaupendum og við verðum áþreifanlega vör við það að mikil spurn er eftir þessu hráefni til sölu á erlenda markaði. Þið hafið líka gert rétt í því að reyna að undirstrika ykkar sérstöðu og búa til meira verðmæti úr þeim kvótakílóum sem smábátarnir hafa úr að spila. Þá skiptir máli að íslenskur fiskur nýtur álits og menn vita að það er hagsmunum okkar til framdráttar að leggja áherslu á íslenskan uppruna hans. Það er mikilvægt að svo verði áfram.

 

Á sínum tíma þegar krókaaflamarkskerfinu var komið á, var meginréttlæting þess mikla fiskveiðiréttar sem það bar úr bítum, þau tengsl sem þetta kerfi hafði við byggðirnar í landinu. Það er enginn vafi á því að einmitt vegna þessa og þeirrar staðreyndar að þessir bátar voru oft helsta bjargræðið þegar illa fór í byggðunum, tókst okkur sem þá komum að þessum málum að auka fiskveiðirétt smábátakerfisins með þeim hætti sem raun ber vitni. Það er rétt sem menn segja í stóra kerfinu;  fiskveiðiréttur smábátanna hefur verið aukinn hlutfallslega og í tonnum talið. Það var gert meðvitað vegna þess að við vorum að reyna að búa til skjól fyrir byggðirnar í landinu.

 

Þetta hefur líka tekist, smábátakerfið er sannkallað landsbyggðarkerfi. Ekki þar fyrir;  sjávarútvegurinn er í raun og veru landsbyggðardrifin atvinnugrein. Þegar við lítum á  tölurnar um aflamarkið og skoðum þau tíu byggðarlög þar sem aflamarkið er mest,  þá blasir það við að þetta eru allt saman byggðarlög utan höfuðborgarsvæðisins að Reykjavík undanskilinni.  Það breytir því þó ekki að miklar tilfærslur hafa orðið á milli byggðarlaga og víða hefur sársaukinn í byggðunum orðið mikill við missi á fiskveiðirétti. Þau mál þarf ekki að útskýra fyrir mér.  En engu að síður er ljóst að þessar tilfærslur hafa einkanlega orðið á milli byggðarlaga utan hins skilgreinda höfuðborgarsvæðis. Og eftir stendur sú staðreynd að aflamarkið er að langmestu á landsbyggðinni.

 

Ef  við skoðum krókaaflamarkið sérstaklega þá sjáum við þessa mynd ennþá skýrar. Af höfnunum tíu þar sem þorskígildin í krókaaflamarki er mest eru þær allar utan höfuðborgarsvæðisins eins og það er skilgreint á byggðakorti hins evrópska efnahagssvæðis.

 

Grindavík ber þarna höfuð og herðar yfir aðra, en önnur byggðarlög koma svo á eftir með gríðarlega mikið krókaaflamark. Þarna sjáum við hvernig þetta veiðifyrirkomulag myndar skjöld utan um byggðirnar í landinu.  Það er líka eftirtektarvert að sjá hvernig þessu er landfræðilega dreift. Það segir að mínu mati heilmikið um þetta fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarinnar sem svo mikið var deilt um hér á árum áður. Þetta er klárlega landsbyggðarfiskveiðistjórnun, alveg eins og til var ætlast.

 

Ég hef oft sagt það og m.a. á síðasta aðalfundi Landssambands smábátaeigenda, að ég væri mikill talsmaður línuívilnunarinnar. Ég á nú ekki von á því að sú yfirlýsing hafi komið á óvart, hvorki ykkur né öðrum.  Ég er enn þeirrar skoðunar að línuívilnunin hafi verið rétt skref þó sannarlega hafi hún verið umdeild og sé það enn. Hún styrkti byggðirnar og grundvöll smábátakerfisins með sinni byggðalegu tengingu. Ennfremur fól línuívilnunin í sér að ekki þurfti að deila fiskveiðiréttinum út sérstaklega. Þarna mátti segja að vel ætti við orðtakið að þeir fiski sem rói. Þeir sem fiska fá auknar heimildir og tryggt er að þetta komi þeim til góða sem sækja sinn fiskveiðirétt sjálfir.

 

Ég sýndi fram á það hér í fyrra með töflu hvernig þessi dreifing á sér stað um land allt. Það var nefnilega reynt að blekkja landsmenn með því að hér væri um að ræða ómerkilegt hagsmunapot eins landshluta. Ef við skoðum síðasta fiskveiðiár þá sjáum við glögglega að dreifing línuívilnunarinnar er býsna mikil um landið. Hér er yfirlit yfir þær heimahafnir skipa fiskveiðiárið 2005 til 2006 sem nutu línuívilnunar upp á 100 tonn eða meira. Alls nam línuívilnunin hins vegar um 5400 tonnum og jókst um 400 tonn á milli ára. Aukningin var í öllum tegundum en þó ívið minnst í þorskinum. Það sjá allir að um þetta munar. Línuívilnunin skapar forskot, sem sumir hafa deilt á,  en er raunverulegt byggðalegt vopn sem gagnast víða um land.

 

Ég hef verið spurður að því og gerði það raunar að umtalsefni á síðasta aðalfundi ykkar, hvort ekki væri ástæða til þess að breyta grundvelli línuívilnunarinnar. Þið þekkið þessa umræðu. Ég svaraði þessu með skýrum hætti þá og get ítrekað það nú: Ég hef ekki uppi áform um að breyta þessu fyrirkomulagi, þótt ekkert eigi í sjálfu sér að útiloka fyrirfram. Á sínum tíma þegar við gengum til þess verks að búa til línuívilnun voru ákveðnar forsendur lagðar til grundvallar, eins og um afla þeirra báta sem stunduðu línuveiðar og beittu í landi. Sá afli sem við tókum frá áður en aflamarki var úthlutað tók mið af þessu. Það er alveg ljóst að ef við ykjum á sóknarhvata þessara báta þá gengi það ekki upp nema við værum að ræða um aukningu á þeim afla sem kæmi til línuívilnunar. Það eru þó engar forsendur til þess að auka heildaraflamagnið sem fer til línuívilnunar. Ég vil því  vera alveg hreinskilinn í þeim efnum.

 

Núverandi útfærsla er ekki óumdeild. En ég er viss um að ef gerðar væru þær breytingar sem nefndar hafa verið þá yllu þær einnig úlfúð um fyrirkomulag sem að mínu mati er hægt að búa til sátt um ef vel er að verki staðið. Tíminn er að lægja öldurnar. Æ fleiri sjá kosti þess að vera laus við handahófskennt fyrirkomulag við úthlutun þessa sérstaka veiðiréttar í þágu byggðanna. Allar hugmyndir um að auka fjölda þeirra báta sem fara inn í línuívilnun fela einungis í sér að minnka þá ívilnun sem þeir bátar njóta nú,  sem þegar eru þar fyrir.

 

Menn verða að átta sig á því að sóknartengt kerfi, eins og t.d. línuívilnun, verður að hafa til að bera einhverja stýringu sem felur í sér möguleika stjórnvalda til þess að hafa áhrif á heildaraflamagnið. Þetta þekktum við úr gamla dagakerfinu, þetta þekkja Færeyingar úr sínu sóknartengda kerfi og slíkt fyrirkomulag yrðum við að taka upp ef bátum í línuívilnuninni yrði fjölgað. Það er nefnilega enginn ókeypis hádegisverður í þessu kerfi frekar en nokkru öðru.

 

Talsvert er rætt um að fátt sé gert í núverandi fiskveiðistjórnun til þess að koma til móts við þær byggðir sem höllum fæti standa og hafa misst frá sér fiskveiðirétt. Ég er ekki sammála þessu. Það er ekki þannig. Í því fiskveiðistjórnunarkerfi sem við höfum verið að þróa,  hafa hagsmunir minni byggða einnig verið hafðir til hliðsjónar. Ég er ekki að segja að hvers manns vandi hafi verið leystur, langt því frá. Margar byggðir eiga um sárt að binda vegna missis á fiskveiðirétti. En það er hins vegar algerlega rangt að tala með þeim hætti að fátt eða ekkert hafi verið gert í þessum efnum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Hér getur að líta yfirlit yfir þær aflabætur sem framkvæmdar hafa verið með einum eða öðrum hætti frá árinu 1999 þegar Byggðastofnun úthlutaði byggðakvótum í fyrsta skipti. Jafnframt tókum við með í reikninginn krókaaflamarksbætur sem að úthlutað var árin 2001 til 2006 og úthlutun sjávarútvegsráðuneytisins á árunum 2003 til 2006. Ég vek þó athygli á að hvorki línuívilnun né aflabætur til skel og rækjubáta eru inni í þessum útreikningum.

 

Hér er um að ræða verulega úthlutun á aflamarki, svokölluðum byggðakvóta, á þessu tímabili. Vitaskuld er þetta misjafnt eftir árum, en alls nemur þessi úthlutun ríflega 23.000 tonnum. Það er ljóst mál að sumar byggðir hafa notið verulegra heimilda út úr þessu kerfi. En það er líka jafn ljóst og blasir við hverjum þeim sem þekkir til í ýmsum þessara byggða að þessar aflaheimildir hafa alls ekki nýst alls staðar til þeirrar atvinnuuppbyggingar sem til var ætlast og vonir voru bundnar við.

 

Þetta er mjög misjafnt og árangurinn er alls ekki eins einhlítur og við hefðum kosið og vonað. Að mínu mati segir þetta okkur aðeins eina sögu og hún er þessi: Það fyrirkomulag sem við höfum haft hefur ekki tryggt nægilega eða gert nægilega ríkar kröfur til þeirra sem hafa notið þessarar úthlutunar. Hér ræðst auðna byggðanna sem sé ekki  bara af magni eða stærð fiskveiðiréttarins. Nýting hans hefur ekki verið nógu markviss alls staðar. Þess vegna er það til  athugunar í sjávarútvegsráðuneytinu hvernig sé hægt að úthluta þessum aflaheimildum með markvissari hætti, þannig að þær nái tilætluðum árangri og skili því hlutverki sem til er ætlast.

 

Í þessu sambandi þarf að huga að ýmsu. Ég kallaði eftir ábendingum á síðasta aðalfundi Landssambands smábátaeigenda og ítreka þær óskir mínar nú til ykkar. Sjálfur tel ég augljóst að meðal þess sem kemur til álita er að gera ríkari kröfur um að afla sé landað til vinnslu í heimabyggðinni. Byggðakvóti er ekki sárabót til útgerða, heldur útrétt hjálparhönd til byggðanna. Þess vegna er eðlilegt að gera sérstakar kröfur og skilyrði um nýtingu þessa fiskveiðiréttar í þágu byggðanna. Slíkt gerist bara með aukinni fiskvinnslu samfara útgerð. Ég tel ennfremur koma til álita að skoða hvort úthluta eigi þessum byggðakvótum til lengri tíma í senn, að minnsta kosti að hluta til, í því skyni að draga úr óvissu. Við vitum að óvissa er óvinur sjávarútvegsins, og eftir því sem óvissa eykst um starfsaðstæður greinarinnar þeim mun minni áhugi verður á því að fjárfesta til frambúðar. Ég er ekki frá því að þessi staðreynd, óvissan í kringum úthlutun aflaheimilda í byggðakvótum, hafi dregið úr áhuga ýmissa sem ella hefðu kosið að taka þátt í atvinnuuppbyggingu á þessum veiku stöðum.

 

Ég ítreka að við höfum ekki komist að niðurstöðu ennþá. Það er hins vegar ljóst að mjög víða hefur pottur verið brotinn og árangurinn er  ekki í samræmi við þær aflaheimildir sem sum byggðarlög hafa fengið úthlutað á undanförnum árum. Það er ekki viðunandi og það er ekki eins og til var ætlast. Þetta verða menn að horfast í augu við og reyna að leggja sig fram um að gera betur á komandi árum.

 

Síðast liðin fiskveiðiár   fóru um 4,5 til 4,6% þorskkvótans í byggðakvóta, línuívilnun, skel og rækjubætur. Þetta svarar til tæpra 9 þúsund tonna af heildarkvótanum sem var 193 þúsund tonn, eins og kunnugt er. Í þessum tölum er 3 þúsund tonna jöfnunarpotturinn ekki meðtalinn.  Hvað ýsu varðar síðustu þrjú fiskveiðiár þá hefur hlutfallið að mestu staðið í stað og um 4,4% árlega notað til byggðakvóta, línuívilnunar og annarra bótaúthlutana. Það fer væntanlega eftir áliti manna á byggðatengdum úthlutunum almennt, hvort þeir telja þetta mikið eða lítið. En það breytir því ekki að gríðarlega mikilvægt er að vel sé staðið að úthlutun þessa fiskveiðiréttar, sem sérstök lögmál gilda um, svo að hann komi að notum fyrir veikar byggðir landsins.

 

Vegna þess að krókaaflamarksútgerðir og félagsmenn ykkar eru stórir þátttakendur í atvinnulífi á þessum svæðum, þá heiti ég á ykkur og skírskota til reynslu ykkar og þekkingar á þessu sviði, að koma með góðar ábendingar sem gætu nýst okkur í þeirri vinnu sem við viljum vinna á næstu dögum, vikum og jafnvel mánuðum við undirbúning þessara reglna.

 

Þær breytingar sem hafa orðið á starfsumhverfi smábátanna hafa m.a. leitt til þess sem menn hafa kallað samþjöppun aflaheimilda. Það er ljóst mál að bátunum hefur fækkað og þeir hafa stækkað í samræmi við heimild til þess og þá hafa öflugustu bátarnir aukið aflaheimildir sínar. Það er sannarlega jákvætt í sjálfu sér enda eru þessir bátar margir hverjir mjög mikilvægir sínum byggðarlögum. Hvað sem þessu líður viljum við þó leggja höfuðáherslu á að þetta fiskveiðistjórnarkerfi verði  áfram sjálfstætt og sameinist ekki hinu stóra aflamarkskerfi. Meðan ég fæ einhverju um ráðið þá verður það að minnsta kosti ekki gert.

 

Í annan stað þá er afar mikilvægt að útgerðarmenn í krókaaflamarki verði áfram fjölmargir. Það er styrkur krókaflamarkskerfisins að það er í höndum mjög margra dugmikilla útgerðarmanna um land allt. Þær telja nærri 500 útgerðirnar sem gera út í þessu kerfi, vitaskuld misjafnar að stærð, en allar skipta þær máli.

 

Það var af þessum ástæðum sem ég flutti frumvarp á síðastliðnu hausti sem fól í sér skorður við heildarhlutdeild krókaaflamarks einstakra útgerða. Þetta var samskonar hugmynd og liggur að baki hinu svokallaða kvótaþaki sem hefur verið við lýði undanfarin ár.

 

Fullt tilefni var til þessarar lagasetningar. Samþjöppunin var heilmikil, við sáum að hún var að aukast hratt og stefndi í að verða óhæfilega mikil. Ég nefni það svo vegna þess að óheft áframhaldandi þróun  hefði smám saman dregið máttinn úr ýmsum byggðarlögum og sú landfræðilega dreifing sem var meginforsenda krókaaflamarksins í upphafi, hefði brátt orðið úr sögunni. Hætt er við að ný átök hefðu hafist í kringum þetta fyrirkomulag - öllum til ills. Útgerðum, smáum sem stórum, og byggðunum ekki síst. Þess vegna var nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Það er athyglisvert að viðbrögð manna við frumvarpinu voru í langflestum tilfellum þau að lækka bæri þau viðmið sem menn hefðu til að safna til sín auknum aflaheimildum. Það var hinn rauði þráður í gegnum umsagnirnar og þau viðbrögð sem við fengum, með undantekningum þó.

 

Við brugðumst við þessum lýðræðislegu ábendingum sem komu fram við vinnslu málsins á Alþingi með því að lækka þakið í heildarkrókaaflamarkinu frá því sem frumvarpið kvað á um. Þannig var komið til móts við yfirgnæfandi sjónarmið um að svo yrði gert, en jafnframt lengdur sá umþóttunartími sem menn hefðu til að laga sig að þessu þaki.

 

Ég skil út af fyrir sig gagnrýni þeirra sem voru óánægðir, töldu að sér vegið og að sér þrengt með þessu þaki. En ég segi einfaldlega á móti, að hér réðu heildarhagsmunir og sá vilji okkar sem komum að mótun þessarar þróunar til að auka veiðirétt smábáta. Við vildum viðhalda sérstöðu þessa kerfis og þeim forsendum sem voru lagðar til grundvallar í upphafi. Þess vegna var þetta algerlega óhjákvæmilegt að mínu mati og ég er ekki í nokkrum vafa um að hefur jákvæð áhrif þegar á heildina er litið.

 

Góðir fundarmenn

Það skal játað að þegar ég huga að ræðu fyrir Landssamband smábátaeigenda verð ég að hafa mig allan við að takmarka umræðuefnið, svo margt liggur mér á hjarta.

 

Ég hef kosið að tæpa á nokkrum þeim atriðum sem mér finnst skipta máli í hinni almennu umræðu sjávarútvegsins og snerta sérstaklega ykkar hagsmuni. Auk þess vitaskuld að ræða um það mál sem efst er á baugi í pólitískri umræðu í kringum sjávarútveginn, auðlindanýtinguna sjálfa og hvalveiðarnar sérstaklega.

 

Ég hef verið svo heppinn á þeim tíma sem liðinn er frá því að ég varð sjávarútvegsráðherra að eiga afar gott samstarf við forystumenn ykkar og félagsmenn, auk annarra þeirra sem starfað hafa í sjávarútvegi. Ég er afskaplega þakklátur fyrir það og kann vel að meta þetta samstarf.

 

Ég óska eftir áframhaldandi samstarfi af þessu tagi, ég óska eftir gagnrýni, ábendingum og ef ég verðskulda það þá þykir mér líka lofið gott. En umfram allt óska ég þess að saman megi okkur auðnast að byggja upp öflugan íslenskan sjávarútveg, sem hér eftir sem hingað til verður burðarás íslensks efnahags- og atvinnulífs.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum