Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

25. þingi Sjómannasambands Íslands, 23. nóvember 2006

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra á

25. þingi Sjómannasambands Íslands, 23. nóvember 2006

Góðir fundarmenn.

Orðtakið sitt sýnist hverjum á svo sannarlega við þegar sjávarútvegur er annars vegar. Þetta er í sjálfu sér alls ekkert óeðlilegt. Hér eru miklir hagsmunir í húfi, sjávarútvegurinn skiptir þjóðarbúið gríðarlega miklu máli. Grundvöllur sjávarútvegsins er nýting takmarkaðrar auðlindar og ótal álitamál hljóta að koma upp í því sambandi. Hvernig á að nýta, hverjir eiga að nýta. Sambúð skipa með mismunandi veiðarfæri. Kjaramál sjómanna og samskiptin við útvegsmenn og lengi má svo áfram telja

 

Veiðiráðgjöfin  virðist til dæmis vera sumum endalaust þrætuepli. Þetta er hreint ekki sérstaklega bundið við Ísland. Öðru nær. Í rauninni má segja að meiri og betri skilningur sé á þessum þætti málsins hér á landi en víða annars staðar. Samskipti sjómanna, útvegsmanna og vísindamanna eru meiri hér  - og ég vil því segja árangursríkari – en almennt í þeim löndum þar sem ég hef kynnt mér þessi mál. Ég held að nálægðin skipti hér máli. Menn eiga betri aðgang hver að öðrum, sem vitaskuld er jákvætt og fagnaðarefni. Þannig viljum við hafa það í okkar litla þjóðfélagi.

 

Hvað fiskveiðiráðgjöfina varðar sérstaklega hygg ég þó að í stórum dráttum  séu líklega flestir sammála um hvert skuli stefna, þ.e. að hámarksafrakstri. En menn eru síður en svo einhuga um hvaða leið skuli fara að þessu takmarki. Og þótt á stundum sé deilt hart um hvernig byggja eigi upp þorskstofninn þá dregur enginn í efa mikilvægi hafrannsóknanna. Aukin þekking reist á grundvelli rannsókna er vísasti vegur framfara. Á undanförnum árum hefur sjávarútvegsráðuneytið beitt sér fyrir stórauknum fjárveitingum til þeirra mála.

 

Eins og sjá má á töflunni hafa fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunarinnar hækkað úr 816 milljónum króna á árinu 1999 í um 1.420 milljónir króna á yfirstandandi ári – eða um 74%.  Fjárhæðirnar eru á verðlagi hvers árs.

Því er þó ekki að leyna að við þurfum að gera enn betur. Vitaskuld er það ekki viðunandi að við séum í þeirri stöðu að hafrannsóknaskipin nýtist ekki betur til hafrannsókna en þau gera. Þetta er einfaldlega kostnaðarsöm útgerð, en þessi starfsemi er þó ómetanleg. Og þrátt fyrir ýmis orð sem falla í umræðu dagsins held ég að almennt sé sátt um að við þurfum að efla þennan þátt. Hafrannsóknir eru nefnilega grundvallarþáttur í þjóðfélagi okkar.

 

Það sama er uppi á teningnum hvað snertir fjárveitingar til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Þar hefur framlagið aukist úr 132 milljónum króna á árinu 1999 í um 225 milljónir á þessu ári, eða um liðlega 70%. Þetta endurspeglar líka þörf. Forsenda framfara í sjávarútvegi okkar er að okkur takist að þróa vinnsluaðferðir sem tryggja okkur meiri verðmæti.

 

Á árinu 2003 var ákveðið að gera átak í hagnýtum rannsóknum og þróunarverkefnum sem auka verðmæti sjávarfangs, með stofnun AVS-rannsóknasjóðsins. Hann hefur styrkt mörg áhugaverð verkefni til framfara fyrir sjávarútveginn. Á þessu ári hafði sjóðurinn 210 m.kr. til ráðstöfunar, auk 19 milljóna króna sem eru ætlaðar til rannsókna á eldi sjávardýra. Ég vil ítreka það sjónarmið mitt að við eigum að halda áfram á þessari braut. Við þurfum að festa starfsemi AVS sjóðsins í sessi. Sjávarútvegurinn þarf á slíkum rannsóknasjóði að halda. Ella nær hann ekki að halda í við aðrar atvinnugreinar og vera sá burðarás áframhaldandi lífskjarasóknar sem hann hefur verið og á að vera.

 

Þá vil ég vekja sérstaka athygli á nýjum möguleikum sem vísindamönnum bjóðast nú í sjávarrannsóknum á samkeppnissviði. Næstu þrjú árin verður 25 milljónum króna varið árlega til að styrkja verkefni einstaklinga, fyrirtækja, rannsókna-,  og háskólastofnana sem miða að því að efla rannsóknar- og þróunarverkefni á lífríki sjávar umhverfis Ísland. Auglýst var eftir umsóknum um þessa styrki í fjölmiðlum í október s.l. og bárust 33 umsóknir sem stjórn sjóðsins vinnur nú úr. Ég vænti mikils af þessari nýbreytni og geri ráð fyrir að hún verði til að styrkja enn frekar grundvöll þess öfluga rannsóknastarfs sem fram fer hér á landi.  Þarna er verið að feta nýja slóð. Skrefið er að sönnu ekki stórt, en það er þó mikilvægt. Við erum að opna fleirum leið inn til hafrannsókna og teljum einfaldlega skynsamlegt að svo sé gert og að það stuðli að auknum og bættum hafrannsóknum í landinu. Það er aðalatriðið.

 

Ef ég dreg þetta saman má segja að framlög sjávarútvegsráðuneytisins til rannsókna – á verðlagi hvers árs – hafi liðlega tvöfaldast frá árinu 1999. Þá var framlagið 967 m.kr. en verður á þessu ári væntanlega 1.938 m.kr. Á þessu tímabili hefur framlag ráðuneytisins til Hafrannsóknastofnunarinnar hækkað um tæp 74% en til samanburðar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 37,1%.  Eins og tölurnar gefa til kynna er hér um að ræða mikla og  mikilvæga hækkun á fjárveitingum til þessa málaflokks.  Þetta nefni ég vegna þess að ég tel þetta jákvætt.

 

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar eru í fremstu röð. Verkefni þeirra er þýðingarmikið. Og við getum ekki skapað þeim gott starfsumhverfi nema með því að búa vel að stofnuninni. Forsenda árangurs er þekking og að við stjórnmálamenn nýtum hana til góðs. Okkur er það  áhyggjuefni hve illa hefur gengið að byggja upp þorskstofninn. Þar er úr vöndu að ráða. Þetta er verkefni sem við verðum að sinna og getum ekki skotið okkur undan. Það er því ástæða til að hvetja til umræðu um fiskveiðiráðgjöfina og ég held að það sé mikilvæg forsenda þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Sú umræða þarf að fara fram undir þeim formerkjum að glæða almennan skilning á viðfangsefninu. Vísindamenn innan og utan Hafrannsóknastofnunarinnar, hagsmunaaðilar í greininni og fleiri eiga að leggja þar til málanna. Og einmitt þar komið þið til skjalanna. Í þessu samhengi – og til þess að efla forsendur umræðunnar - hef ég, eins og greint var frá í sumar, fengið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands undir forystu Tryggva Þórs Herbertssonar til að gera sérstaka úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu og skoða áhrif af mismunandi veiðihlutfalli á þorski. Þetta er mikilvæg vinna sem ég bind vonir við og er forsenda framtíðarstefnumótunar okkar.

 

Ágætu sjómenn

Fram hafa komið hugmyndir um að styrkja beri grundvöll Verðlagsstofu skiptaverðs. Eins og ykkur er kunnugt var Kvótaþing aflagt með lögum vorið 2001. Jafnframt var sú breyting gerð að áður en Fiskistofa staðfesti flutning aflamarks skyldi hún fá staðfestingu frá Verðlagsstofu skiptaverðs á að fyrir lægi samningur milli útgerðar og og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Hugsanlegar aðgerðir til að festa starfsemi Verðlagsstofu skiptaverðs betur í sessi eru til skoðunar, t.d. hvort unnt sé að gera eftirlit hennar virkara en nú er. Ekki er ólíklegt að kvótaverð hafi hækkað jafn mikið og raun ber vitni, vegna þess að sjómenn séu með einhverjum hætti látnir taka þátt í kaupunum. Slíkt er óþolandi og þarf að stemma stigu við.  Hið háa leiguverð á kvóta er áhyggjuefni og afleiðingar þess geta verið neikvæðar; svo sem fyrir nýtingu auðlindarinnar. Við höfum komið okkur saman um tilteknar leikreglur þar sem Verðlagsstofan á að leika stóra rullu. Mikilvægt er að þessum leikreglum sé hlýtt. Ella verður leikurinn ójafn hjá þeim sem taka þátt í honum og á ég þar við sjómenn og útvegsmenn. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að okkur beri að fara vel yfir þessi mál til þess að skerpa bitið og gera reglurnar þannig úr garði að þær nái markmiðum sínum. Slíkt verður þó aðeins gert í nánu samstarfi við sjómenn og útvegsmenn og í góðri sátt.

Innflytjendur og staða þeirra hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarnar vikur og sýnist sitt hverjum. Umræða um stöðu fólks af erlendum uppruna sem býr hér er eðlileg, þótt ekki væri nema vegna þess að þeim fjölgar ár frá ári sem hingað flytja. Án þess að kafað verði djúpt í þessi mál hér og nú, þá er ljóst að full þörf hefur verið fyrir þessar vinnufúsu hendur. Fiskvinnslan er gott dæmi um það.  Sjávarútvegurinn hefur notið góðs af starfskröftum útlendinga og má fullyrða að án þeirra væri greininn ekki jafn kröftug og hún er, eða vinnslur jafn víða og þær eru. Erlent starfsfólk hefur hjálpað okkur að stækka hagkerfið og við getum að nokkru þakkað því bætt lífskjör þjóðarinnar. Störf þeirra eru þess vegna ekki ógn við lífskjörin heldur góð viðbót. Breytingar á samfélagi okkar með tilkomu erlendra starfsmanna kalla þó á viðbrögð stjórnvalda. Eitt meginatriðið er að stórauka kennslu í íslensku. Það er sannarlega í þágu hinna nýju íbúa sem hér hyggjast dvelja til langframa og samfélagsins alls, að gera afdráttarlausa kröfu um íslenskukunnáttu. Þetta hefur verið afstaða stjórnvalda og henni eigum við að fylgja fast eftir.  Þá þarf að styrkja eftirlitsstofnanir og aðlaga þær og aðrar stofnanir samfélagsins að nýjum veruleika. Þarna er heilmikið verk að vinna. Þá er augljóst að þessi mál snerta hlutverk aðila vinnumarkaðarins. Hluti af því nauðsynlega samráði launþega og vinnuveitenda hlýtur því að snúa að þessum nýja málaflokki. Veit ég enda að svo er og að víða á þeim vettvangi ríkir góður og sameiginlegur skilningur á þessum málum.

 

Mér finnst vel koma til greina að bæta starfstengdri íslenskukennslu fyrir erlenda starfsmenn fiskvinnslunnar við námskeið Starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar í sjávarútvegsráðuneytinu. Um það bil helmingur fiskvinnslufólks sem sækir námskeið nefndarinnar í dag eru erlendir starfsmenn. Kennt er með túlkum sem oft koma úr viðkomandi byggðarlagi, jafnvel úr röðum starfsmanna en einnig í gegnum samstarf við Fjölmenningarsetrið á Ísafirði, sem ég tel að eigi að fá þarna aukið hlutverk í samræmi við upphaflegan tilgang þess. Ég er sannfærður um að starfstengd íslenskukennsla fyrir erlenda starfsmenn fiskvinnslunnar yrði til aukinna hagsbóta fyrir fiskvinnsluna, byggðarlögin og ekki síst starfsmennina sjálfa, bæði þá íslensku og erlendu.

 

En aftur út á sjó. Til mín streyma óskir og ábendingar um hvaða hólf eigi að opna eða loka fyrir hinum og þessum veiðarfærum og hvers vegna grípa eigi til aðgerða. Sitt sýnist hverjum og iðulega koma fram gjörólíkar ábendingar um hvað sé réttast að gera á tilteknu svæði. Leitað er ráðgjafar sérfræðinga eftir því sem þörf er á og hvert mál vegið og metið. Það er hins vegar af og frá að ætla að hlaupið sé eftir öllum óskum, ábendingum eða kröfum enda er það ógjörningur. Ég fagna þessum áhuga og tel umræðuna til marks um lifandi atvinnugrein. Þetta er sjávarútvegsumræða í hnotskurn og umræða sem ég fagna í sjálfu sér. Hér eru þátttakendur fólkið í sjávarútveginum sem veit hvað það syngur í þessum efnum. Þarna eru hins vegar uppi margslungin álitamál og þau ekki öll mælanleg. Átök trillukarla og snurvoðarmanna, eða línusjómanna og togaramanna eru ekki ný af  nálinni. Umræðan skiptir hins vegar máli og hana eigum við að efla og freista þess að hún verði sem málefnalegust.

 

 Menn  verða  að sýna hvorir öðrum virðingu og umburðarlyndi þótt þeir séu ekki sömu skoðunar á gildi og gagnsemi tiltekinna veiðarfæra. Allt hefur sína kosti og galla og um þá er deilt. Um þessar mundir eru efst á baugi hugmyndir um bann við botnvörpuveiðum í úthöfunum. Við leggjumst gegn slíku, því yrði svona bann að veruleika er líklegast að fylgjendur þess færðust í aukana og beindu spjótum sínum að botntrollsveiðum í lögsögu ríkja. Eitt leiðir af öðru og enginn sæi fyrir endann á hvert þetta leiddi. Við kærum okkur ekkert um að komast að raun um það.  Ég hef þá bjargföstu skoðun að veiðarfæri eigi ekki að banna, heldur tryggja að þeim sé beitt við þær aðstæður og á þeim stöðum þar sem skaðsemi þeirra á lífríkinu er lágmörkuð. Það er verkefnið, en ekki að tala um bann við einstökum veiðarfærum hér og þar í eins konar trúarbragðastíl.

 

Við þurfum þó auðvitað að leggja eyrun við alþjóðaumræðunni því þar eins og hér hafa menn skoðanir á virkni einstakra veiðarfæra og áhrifum þeirra. Þetta er ekki bara spurning um hversu mikið er veitt heldur líka hvernig það er gert. Til að gera okkur gildandi í umræðunni þurfum við að hafa svör við ýmsum spurningum á reiðum höndum. Þau fást ekki nema með því að beita vísindalegum aðferðum við að afla þeirra. Íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð og ekki er ástæða til að gera minni kröfur hvað veiðarfærarannsóknir snertir. Starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar hefur líka verið efld á þessu sviði, ekki hvað síst á Ísafirði þar sem miðstöð veiðarfærarannsókna er. Nokkur verkefni eru í gangi og önnur fyrirhuguð. Þarna verður unnið gott og mikið starf sem skiptir miklu máli.

Sjómennskan er einn mikilvægasti hlekkurinn í keðju íslensks efnahagslífs. Þar á sér stað feiknaleg verðmætasköpun sem þjóðarbúið allt nýtur góðs af. Til þessa starfa þarf færasta fólk – útsjónarsama dugnaðarforka. Því miður hafa bönd mjög margra Íslendinga við sjóinn trosnað verulega. Það er hvorki jafn sjálfgefið að ungmenni sæki sumarvinnu í sjávarútveginn né að þau hafi yfir höfuð kost á því eins og áður var. Þetta leggur okkur þar af leiðandi auknar skyldur á herðar að kynna störfin í greininni, t.d. með skólaskipinu. Störfin eru mjög mikilvæg og eiga að vera eftirsótt. Þeim sem fara til sjós líkar vel samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallup sem ég kynnti í ræðu síðasta Sjómannadag.

Þar kom fram – og ástæða er til að halda því á lofti – að um áttatíu og fimm af hundraði sjómanna kváðust bæði ánægðir og stoltir af starfi sínu. Þetta er með því besta sem gerist í viðlíka könnunum meðal starfsstétta. Tveir þriðju hugðust vera til sjós næstu tvö til fimm ár eða þaðan af lengur og þrír af hverjum fjórum höfðu verið á sjó í áratug eða meira. Af þessu er augljóst að þeir sem gjörst þekkja til, telja sjómennsku vera gott starf. Þetta er vert að hafa í huga og koma á framfæri. Höfum það einnig ávallt í huga að sjávarútvegurinn færði okkur frá örbirgð til allsnægta. Það gerist ekki af tilviljun. Við þurfum því ætíð að hafa það í huga þegar við ræðum um stefnumótun sem snertir sjávarútveginn að hann þarf svigrúm til athafna til þess að standast öðrum atvinnugreinum snúning í baráttunni um fjármagn og fólk. Hann þarf að sýna þá arðsemi sem tryggir honum aðgang að ódýru og hagkvæmu lánsfé og hann þarf að vera samkeppnisfær á komandi árum um besta fólkið til að vera sem fyrr starfsvettvangur þess afreksfólks sem staðið hefur í stafni sjávarútvegsins – og þar með þjóðarskútunnar.

 

Góðir fundarmenn.

Ég legg mikið upp úr góðu sambandi við hagsmunaaðila í greininni. Því er vert að þakka fyrir samstarfið við ykkar ágætu samtök undanfarið ár og ekki síður við sjómenn sem milliliðalaust hafa haft samband við mig með ábendingar og athugasemdir. Þótt við séum ekki alltaf sammála þá eru hreinskilin skoðanaskipti af hinu góða og fyrir bestu. Farsælt samstarf þeirra sem í sjávarútvegi hrærast er greininni til mestra heilla. Að því skulum við stefna hér eftir sem hingað til.

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum