Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands á Egilsstöðum 17. - 19. ágúst

Fundarstjórar - formaður Skógræktarfélags Íslands, ágætu aðalfundarfulltrúar og gestir.

Það er mér mikil ánægja að vera viðstaddur og ávarpa aðalfund Skógræktarfélags Íslands 2007 sem haldinn er hér á Fljótsdalshéraði - vöggu íslenskra skóga.  Þetta er í fyrsta skipti sem ég ávarpa fund sem þennan, þótt ég sé sannarlega einn af fjölmörgum áhugamönnum um íslenska skógrækt; -þeim hópi sem sífellt fer stækkandi.

Ég hef sem aðrir fylgst með því hvað er að gerast í skógrækt á Íslandi og virðist mér framþróunin í raun líkjast hreinu æfintýri - eins og rós sem er að springa út.  Um allt land er verið að vinna að gróðursetningu ekki aðeins inn til hlýjustu dala landsins, heldur og einnig á þeim stöðum þar sem vart var talið mögulegt að rækta skóg og er mér þá hugsað heim til Vestfjarða.  Þó voru þar og hafa verið einstaklingar sem skáru sig frá fjöldanum og trúðu á skógræktina og víða má sjá þessa dæmigerðu ungmennafélags- og skógræktarfélags reiti upp í hlíðum fjalla og heim við hús sem færðu heim sönnur á að þar sem annars staðar á landinu væri hægt að rækta skóg.  Á Vestfjörðum er nú ört vaxandi skógrækt og fjölmargir leggja fram jarðnæði og vinnu með það að markmiði að þar sem annars staðar, vaxi nytjaskógur - niðjum okkar til hagsældar. 

Við þetta tækifæri - á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, - vil ég sérstaklega minnst eins af okkar forystumönnum og velunnara skógræktar á Vestfjörðum og á landsvísu, Einars Odds Kristjánssonar, sem lést fyrir fáeinum vikum, - langt um aldur fram.  Brennandi áhugi hans á skógrækt leyndi sér hvergi og sem formaður Skjólskóga á Vestfjörðum frá upphafi þess verkefnis þekkti hann vel þau markmið sem að baki skógræktarverkefnunum standa.  Ég fullyrði að íslensk skógrækt naut atorku hans og velvilja hvort heldur var í fjárlaganefnd Alþingis, í umræðum og ákvarðanatekt Alþingis eða á öðrum vettvangi.  Hans er sárt saknað af skógræktarfóki sem öðrum. Biðjum við honum blessunar.

Já það voru þessir frumkvöðlar sem trúðu á landið og trúðu á gróðurinn sem hófu skógrækt á litlum blettum - jafnvel með einni reyniplöntu.  Sumir uppskáru hlátur almennings, - en líka aðdáun.  Smám saman stækkaði hópurinn og skógræktarfélög voru mynduð um allt land og samnefnari þeirra er  Skógræktarfélag Íslands sem starfar af miklum þrótti.

Skógrækt hefur margur maðurinn að áhugastarfi.

Ég vil leyfa mér að vitna til bóndans og skáldsins Guðmundar Böðvarssonar frá Kirkjubóli en hann yrkir svo í kvæðinu Gróðursetning:

Þitt gæfugull er máske í moldu fólgið
og máske á þessum stað,
og því er gott að sjá þig vernda og vökva
hvern víðistilk og kornungt reyniblað.
Og þó það komi mold á hné og hendur,
þá hvað um það?

Og þér er gott í gullnu skini vorsins
að gegna dýrri kvöð:
Þú gróðursetur agnarlítinn anga
með aðeins fjögur pínulítil blöð,
svo rót hans verði sæl í sinni moldu
og sál þín glöð.

Ég er ekki að segja skógræktarfólki neinn nýjan sannleik með því að benda á að í skógrækt sést árangurinn ekki að kvöldi.  Langur er ferillinn frá fræi eða lítilli plöntu í fullvaxta tré en samt sem áður má árlega sjá hvernig sentimetrunum fjölgar einum af öðrum og þú sérð árangurinn koma í ljós.  Og víst er um það að þeir eru margir sem nú í dag geta litið hávaxin tré og minnst jafnframt þess tíma er þau voru gróðursett við frumstæð skilyrði fyrir átatugum síðar. 

Guðmundur skáld endar einmitt sitt gróðursetningakvæði með því að minnast þessa:

Og seinna þegar þú ert gamall maður
og þetta vaxið tré,
í skjóli þess þú situr máske og minnist
þess morguns er þú beygðir hér þín kné.
Og blessað vorið yljar ástúð sinni
þín ellivé.

Góðir aðalfundarfulltrúar.

Skógræktarfélögin og Skógræktarfélag Íslands eru frjáls félagasamtök og heyra sem slík ekki undir nein opinber stjórnvöld.  Þannig hafa þau þrifist og þrífast best. Þannig nýtur einstaklingurinn sín og undir þeim formerkjum er hægt að virkja fjöldann í sjálfboðaliðastarfi sem er svo veigamikill þáttur í öllu félagslífi.

Þar með er ekki sagt að stjórnvöld komi hvergi að málum.  Þau hafa stutt skógræktarstarfið og oft mjög myndarlega.  Er skemmst að minnast samstarfs Skógræktarfélags Íslands við landbúnaðarráðuneytið og Landgræðslu ríkisins um Landgræðsluskóga sem nú hafa verið við lýði í 17 ár.  Á þessu ári var einmitt gengið frá þriðja samningnum milli Skógræktarfélagsins, landbúnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins um árlegt 30 milljón króna framlag næstu fjögur árin. 

Þessi myndarlegi styrkur fengist ekki ef ekki væri það trúa ríkisvaldsins að það fengi ekki eitthvað á móti.  Landgræðsluskógar eru um allt land og þegar eru þeir farnir að vinna sitt hlutverk; - græða örfoka land og binda kolefni.  Sjálfboðaliðar á vegum Skógræktarfélaganna annast plöntun og víða er uppi samstarf við sveitarfélögin sem leggja til vinnuafl - gjanan unglinga á sumrin - við að planta.  Enginn vafi er á að fyrir ungmennin er þetta góður skóli sem kennir þeim að virða landið, þekkja skóginn og gefur þeim innsýn í nytsöm og heilbrigð störf.

Þá vil ég nefna hið nýja og mikla verkefni Kolvið sem Skógræktarfélagið stendur að.  Markmið verkefnisins er að hvetja Íslendinga til þess að verða fyrsta þjóð heims til að kolefnisjafna útblástursáhrif samgögnutækja sinna með skógrækt.

Eitt af fyrstu verkum mínum í starfi landbúnaðarráðherra var að opna formlega verkefnið og veitti það mér mikla ánægju.  Kolviður er trúlega fyrsta verkefnið sinnar tegundar - alla vega hér á landi og það langstærsta.  Trúi ég því að fleiri slík verkefni komi í framtíðinni enda okkur og heiminum öllum að verða ljós sú alvara sem fylgir aukinni kolefnislosun.  Við Íslendingar erum svo lánsamir að geta brugðist til varna með bindingu hans, ekki síst í skógi, og þar gegna skógræktarfélögin miklu hlutverki.

Skógurinn gegnir miklu hlutverki í lífskeðjunni og um allan heim er rætt um skógrækt og þýðingu hans og sífellt gera þjóðir heims sér betur grein fyrir fjölþættri nýtingu hans.

Á vegum Norðurlandaráðs hafa landbúnaðar- og skógræktarráðherrar hist og rætt málefni skóganna. Á fundi þeirra 2005 samþykktu þeir m.a tvær ályktanir þar sem sérstaklega er horft til þeirra miklu verðmæta sem skógurinn hefur fyrir samfélög, atvinnulíf, útivist, ferðaþjónustu, umhverfi og landslag.

Sú fyrri er á þá leið að "efla beri samræðu um skóga á hverjum stað, meðal íbúa, yfirvalda, skógareigenda, atvinnulífs og félagasamtaka, m.a. til þess að gera staðbundin og svæðisbundin verðmæti skóga sýnilegri og með því að hvetja sveitarfélög til þess að taka ábyrgð á gildum skógarins innan þeirra marka sem lögsaga þeirra nær til."

Önnur samþykktin gengur út á að "þróa frekar möguleika sveitarfélaga til þess að færa sér í nyt skóga til útivistar og til þess að fegra  umhverfi þeirra, bæta þjónustu sveitarfélaga í þeim skógum, þróa enn frekar möguleika almennings til að njóta útiveru, m.a. með hliðsjón af þörfum ólíkra hópa í hverju samfélagi."

Á vegum Norðurlandaráðs er unnið í anda þessara samþykkta og taka Íslendingar þar virkan þátt.

Þessar ályktanir báðar falla vel að starfi skógræktarfélaganna. Sveitarfélög og stjórnvöld eru í sívaxandi mæli að gera sér grein fyrir mikilvægi skóganna, -  fyrir umhverfið, - fyrir fólkið sem þar býr og fyrir sveitarfélögin sem mjög víða standa dyggan vörð um sín skógræktarfélög og hafa við þau samstarf um gróðursetningu og umhirðu skógarreita.  Þessar ályktanir falla einnig beint að því starfi skógræktarfélaganna og Skógræktarfélags Íslands að opna útivistarskóga fyrir almenning. 

Góðir aðalfundarfulltrúar.

Áður en ég lýk þessu ávarpi mínu vil ég nefna að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að forræði einhvers hluta skógræktar flytjist frá landbúnaðarráðuneytinu yfir í umhverfisráðuneytið.  Enn er ekki frágengið í hve miklum mæli það verður né heldur hvaða starfsemi það er og því ótímabært að ræða þau mál frekar hér. 

Vissulega má færa að því gild rök að verndun skóganna og eftirlit þeirra séu umhverfismál en jafnframt má færa að því fullgild rök að skógrækt sé landbúnaður og skógræktarframkvæmdir eigi að heyra undir ráðuneyti landbúnaðarmála.  Vil ég þar sérstaklega tiltaka starf og tilgang skógræktarverkefnanna sem unnin eru bújörðum.

Hver svo sem endanlega niðurstaða þessara mála verður er það einlæg von mín að starf skógræktarfélaganna haldi áfram með sama krafti og hingað til.

Ég vona að aðalfundur ykkar megi takast sem best og óska skógræktar-félögunum og Skógræktarfélagi Íslands gæfu og gengis um ókomna tíð.

Lifið heil.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum