Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Landbúnaðarsýning og Bændahátíð haldin á Sauðárkróki 17. - 19. ágúst 2007

Föstudaginn 17. ágúst setti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðar og bændahátíðina Sveitasælu 2007 í reiðhöllinni á Sauðárkróki. Fjöldi fólks var við opnunina. Um er að ræða viðamikla sýningu á hvers konar tækjum, búnaði og afurðum er tengjast íslenskum landbúnaði og er þetta þriðja árið sem sýning sem þessi er haldin.

Ágætu hátíðargestir.

Nóbelsskáldið okkar, Halldór Laxness segir svo í Paradísarheimt:

"Á þeim dögum var enn talið ljótt í sveitum að sinna nokkrum hlut vegna þess eins að hann væri skemmtilegur".

Margt vatnið hefur til sjávar runnið síðan þessi skoðun var ríkjandi og í langan tíma hafa bændur og búalið þessa lands sinnt mörgu því sem ekki aðeins er notadrjúgt og tilheyrir beinharðri vinnu, heldur og líka fjölmörgum þáttum og verkefnum sem eru í senn skemmtileg og styrkja auk þess og efla ímynd íslensks landbúnaðar.  Það er sannarlega af hinu góða.

Sú hátíð sem hér er verið að setja er af slíkum toga og er einmitt ætlað það hlutverk, -  eða eins og segir í kynningu, - að hún sé "skemmtilegur vettvangur bænda, afurðafyrirtækja og þjónustuaðila við landbúnaðinn". 

Mér er meira að segja nær að halda því fram að stærstur hluti íslenskra bænda sé í búskap einmitt vegna þess hve hann er skemmtilegur og hve gott er að búa í sveit.  Þetta jákvæða viðhorf til íslensks landbúnaðar og íslenskra sveita hefur haft þau áhrif að aldrei sem nú sækist fólk eftir því að eignast athvarf úti á landi, - eiga sér jörð og býli og stunda þaðan fjölþætta atvinnustarfsemi.

Ég vil einnig halda því fram að íslenskur landbúnaðar sé atvinnugrein í örri þróun og undir þá skoðun mína taka þeir sem til þekkja. 

Í sveitum landsins fer fram margháttuð atvinnustarfsemi þar sem byggt er á fjölþættum grunni sem umhverfið og framtak einstaklinganna hefur mótað.  Bændur eru tilbúnir til að aðlaga sig breyttum tímum og á það við hvort heldur litið er til tækni eða markaðar; þeir eru vel upplýstir og hafa metnað fyrir sinni atvinnugrein.  Af er það sem áður var svo víða að fólk gerði búskap af æfistarfi sínu af skyldurækni einni saman - var jafnvel eins konar kvöð.  Nú eru breyttir tímar og þeir sem hefja búskap eru langflestir menntaðir til slíkra starfa og hafa háleit markmið.  Þeir stefna að góðu og vel reknu fyrirtæki í sveit, hvort svo sem fyrirhugaður er það sem kallaður hefur verið hefðbuninn búskapur eða önnur starfsemi.

Allt þetta sjáum við þegar við skyggnumst um gáttir hér í Skagafirði. Öflugur landbúnaður setur mark sitt á héraðið. Margvíslegar búháttabreytingar hafa átt sér stað, ný atvinnustarfsemi hefur skotið þar rótum. Skil milli þess sem stundum er kallaður hefðbundinn landbúnaður og annarrar atvinnustarfsemi í sveitum, eru fyrir löngu orðin ógreinileg. Ganga má svo langt að segja að úrelt sé að tala með þeim hætti að eitt sé hefðbundinn landbúnaður og annað óhefðbundinn.

Öll þessi starfsemi, styrkir sveitir landsins, styrkir búsetuna og styrkir íslenskan landbúnað.  Ég tek eftir því er ég ek um sveitirnar hve víða er verið að byggja upp og stefnt að nýjum viðfangsefnum.  Ferðaþjónusta með ótal tilbrigðum, listsköpun og ýmsar hliðargreinar sem byggja á hugviti og nýjustu tækni.  Auðvitað styrkir slíkur fjölbreytileiki mannlífið og byggðina.

Gagnstætt því sem oft er haldið fram í almennri umræðu, er íslenskur landbúnaður atvinnugrein í örri þróun. Flest hefur breyst við hefðbundin landbúnaðarstörf, tækni leyst mannshöndina af hólmi og  hlutverk atvinnugreinarinnar hefur breyst. Landbúnaður krefst þekkingar á margvíslegum sviðum og slíku verður einvörðungu svarað með öflugri sókn í menntunarmálum landbúnaðarins og með kröftugri rannsóknar- og vísindastarfsemi.

Þessar breytingar krefjast nýrra viðhorfa. Þess vegna er svo nauðsynlegt að öflug mennta, rannsóknar og vísindastarfsemi styðji við þessar breytingar. Sú uppbygging sem átt hefur sér stað í háskólanum  hér á Hólum og í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri eru einmitt góð dæmi um þetta.

Með landbúnaðarsýningunni sem hér fer fram fáum við að kynnast fjölbreytni íslensks landbúnaðar. Þetta er vettvangur bænda og annarra þeirra sem starfa að landbúnaði. En hitt skiptir líka máli að hér fær áhugafólk um landbúnaðinn, fólk sem starfar utan hans, einnig að kynnast þessari starfsemi. Það skiptir máli.

Á miklu ríður fyrir okkur að glæða skilning á starfi því sem unnið er að á vettvangi landbúnaðarins og leggja okkar þannig að mörkum til þess að glæða þann skilning sem þarf að ríkja í landinu á mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir landið allt, þjóðinni allri til heilla.

Ágætu hátíðargestir.

Um leið og ég óska aðstandendum Landbúnaðarsýningarinnar og Bændahátíðarinnar til hamingju með daginn, læt ég þá þá von í ljós að hún megi takast vel og markmið hennar nást.

Landbúnaðarsýning og Bændahátíð á Sveitasælu 2007er sett.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum