Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ársþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 24. ágúst 2007

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á 15. ársfundi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, haldinn að Húnavöllum 24. - 25. ágúst.

Ágætu fundarmenn

Ég vil í upphafi þakka kærlega fyrir það tækifæri að fá að flytja hér fáein orð um þá málaflokka sem ég hef nú með höndum í þeim tveimur ráðuneytum sem ég stjórna, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytum.

Ég neita því ekki að það urðu talsverðar breytingar á mínum högum þegar það var ákveðið við nýja stjórnarmyndun að breyta í umtalsverðu mæli skipulagningu þessara tveggja ráðuneyta. Þau verða sameinuð og munu starfa sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Þó er það ekki þannig, að um sé að ræða algjöra sameiningu á þeirri starfsemi sem áður fór fram í ráðuneytunum tveimur, því jafnframt þessu er ætlunin að að stokka nokkuð upp skipulag þeirra. Auðvitað má segja sem svo að allt orki tvímælis þá gjört er og vissulega kunna að vera skiptar skoðanir um það fyrirkomulag sem tekið verður upp. Ég vil í því sambandi þó fyrst og fremst segja að við höfum séð gríðarlegar breytingar verða á flestum sviðum þjóðlífsins og á það við jafnt um opinber fyrirtæki sem einkafyrirtæki. Flest það sem við þekkjum í kringum okkur, í skipulagi sveitarstjórna svo dæmi sé tekið, hefur sömuleiðis breyst. Það má segja að tiltölulega litlar breytingar hafi orðið á sjálfu stjórnarráðinu og því er ekki óeðlilegt að þau mál séu tekin til endurskoðunar nú sem endranær.

Hvað varðar landbúnaðarráðuneytið þá hefur sú ákvörðun verið tekin að flytja landbúnaðarskólana undir menntamálaráðuneytið. Það er skynsamlegt að mínu mati því auðvitað er eðlilegast að menntamálunum sé skipað í sameiginlegan sess innan stjórnarráðsins. Þetta er þó ekki einfalt mál. Það þarf til að mynda að ganga þannig frá rannsóknaþættinum að aðgengi atvinnugreinarinnar sjálfrar að rannsóknastarfseminni sé fyrir hendi og tryggt. Eins og menn vita var Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri stofnaður fyrir skömmu og þar er jafnframt staðsett sú rannsóknastarfsemi sem áður fór fram innan RALA.

Þá er gert ráð fyrir því að skógrækt og landgræðsla færist til umhverfisráðuneytis en með veigamikilli undantekningu þó. Það er gengið út frá því að sú landshlutabundna skógræktarstarfsemi sem fer fram á vettvangi bændanna sjálfra vítt og breitt um landið verði áfram innan vébanda landbúnaðarráðuneytisins. Það er eðlilegt enda er þetta landbúnaðartengd starfsemi að öllu leyti. Sú tilfærsla sem verður hins vegar með færslu skógræktar og landgræðslu felur eingöngu í sér flutning þessara tilteknu stofnana en sá hluti þessarar starfsemi sem lítur beint að umsvifum bændanna verður innan vébænda landbúnaðarráðuneytisins. Þessi mál hafa þó ekki verið útfærð að öllu leyti en sú útfærsla mun líta dagsins ljós á haustdögum.

Matvælaeftirlit fer nú fram í þremur stofnunum sem heyra undir jafn mörg ráðuneyti. Þessi starfsemi verður sameinuð, færð undir einn hatt og mun heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Þetta á að geta aukið skilvirkni og lækkað kostnað þegar fram í sækir.

Landbúnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið verða eitt ráðuneyti og það hefur auðvitað i för með sér ýmiskonar breytingar. Hér er ekki um að ræða að þessi ráðuneyti starfi hvort í sínu lagi heldur sem ein heild þar sem ætlunin er að samnýta kraftana. Markmiðið er auðvitað að reyna að ná betur utan um þá málaflokka sem ráðuneytunum er ætlað að þjóna. Ég tel að í þessu geti falist margs konar tækifæri sem er tilhlökkunarefni að takast á við.

Stundum er reynt að halda því fram að þessar tvær atvinnugreinar séu á vissan hátt atvinnugreinar gærdagsins. Það er að öllu leyti rangt. Að mínu mati verða þessar atvinnugreinar áfram um ókomin ár burðarásar í íslensku atvinnulífi, ekki síst á landsbyggðinni. Sannarlega eru margskonar breytingar að eiga sér stað í efnahagsumhverfi okkar. Við þekkjum ævintýralegan vöxt nýrra atvinnugreina sem hafa ekki síst sótt tekjur sínar og styrk til erlendrar starfsemi sem hefur flutt hingað mikinn auð og efnahagsleg áhrif. Það breytir því þó ekki að enn sem fyrr verður hlutur sjávarútvegs og landbúnaðar mikill.

Á hinn bóginn er alveg ljóst mál að þessar atvinnugreinar standa núna frammi fyrir mjög miklum breytingum. Einkanlega vegna þess að sú þróun sem hefur orðið í okkar efnahagslega umhverfi kallar á þessar breytingar. Sjávarútvegur jafnt og landbúnaður þarf á öllu sínu að halda til að standast samkeppni við aðrar atvinnugreinar í landinu. Engu að síður verða þessar atvinnugreinar lykilþáttur í byggðaþróuninni okkar af þeirri einföldu ástæðu að sú starfsemi sem þar fer fram er að mestu leyti á landsbyggðinni.

Ég held þess vegna að það sé ákaflega mikilvægt fyrir okkur sem hér erum stödd, að gera okkur grein fyrir breytingunum sem nú eru að verða í þessu umhverfi. Tökum landbúnaðinn fyrst sem dæmi. Íslenskur landbúnaður hefur breyst ótrúlega mikið á mjög skömmum tíma. Það er enginn vafi á því að í umræðunni í þjóðfélaginu er þeirri mynd ekki brugðið upp. Þó eru þar miklar breytingar, við sjáum t.d. gríðarlega stækkun búa, sérstaklega á sviði mjólkurframleiðslu í landinu. Mjólkurbúunum hefur fækkað mjög mikið. Þetta er að mínu mati algerlega óumflýjanleg þróun. Það eru miklar kröfur af hálfu neytenda um lækkandi vöruverð og það eru miklar kröfur um heilbrigði í framleiðslunni og sömuleiðis þarf atvinnugreinin að standast þá miklu samkeppni sem aðrar atvinnugreinar veita henni.

Stærðarhagkvæmni er augljóslega mikil í mjólkurframleiðslu og þess vegna er það þannig að við þurfum að gera ráð fyrir því að þessi þróun haldi áfram með einhverjum hætti á komandi árum. Það á sér líka svo mikil tækniþróun stað innan mjólkurframleiðslunnar. Það kallar á mikla fjárfestingu og sú fjárfesting verður einungis borin uppi af stórum búum.

Sömu sögu er í raun að segja af sauðfjárræktinni. Hún er líka undir mikilli pressu um lækkun vöruverðs. Jafnframt hefur átt sér stað gríðarlega mikil tækniþróun. Um síðustu helgi var ég á landbúnaðarsýningu á Sauðárkróki þar sem þetta kom mjög vel fram. Tæknilegir þróunarmöguleikar í sauðfjárræktinni eru miklu meiri heldur en margur hyggur og afkastaaukningin verður þar mikil. Það kallar líka á stærri bú. Við sjáum ennfremur að það hefur orðið gríðarleg breyting að ýmsu leyti í landbúnaðinum, það er vaxandi sókn æ fleiri til þess að eignast jarðir til margvíslegra nota.

Í raun og veru er að mínu mati að verða úrelt að tala um skil milli þess sem kallað hefur verið hefðbundinn landbúnaður og annars landbúnaðar. Íslenskur landbúnaður er núna fjölþættari heldur en nokkru sinni fyrr. Það gerir það að verkum að jarðir verða stöðugt verðmætari. Það er ekki langt síðan bændur stóðu oft á tíðum frammi fyrir því að loknu ævistarfi sínu að eignir þeirra voru lítils sem einskis metnar. Nú er þetta breytt. Eignamyndunin í landbúnaðinum er gríðarlega mikil. Það er ekki síst að þakka þeirri breytingu sem ég hef þegar rakið og því að notin og nýting landsins eru orðin fjölþættari en áður.

Þetta er ánægjulegt. Aukin eignamyndun í sveitum skapar nýja möguleika, en býr vitaskuld til ný úrlausnarefni. Það er til dæmis ljóst að þetta þrýstir búgreinum eins og mjólkurframleiðslu ? en einkum þó sauðfjárframleiðslu ? fjær mesta þéttbýlinu og út á jaðrana. Því er líklegt að áhrifa þessa muni mjög gæta á komandi árum.

Hestamennska, ferðaþjónusta og veiðihlunnindi eru allt í dag orðin hluti af almennum íslenskum landbúnaði, og í sumum héruðum er það svo að til að mynda veiðihlunnindi bera uppi tekjumyndun íslensks landbúnaðar. Hér í Húnavatnssýslu er það m.a. þannig að veiðihlunnindi eru veigamikill þáttur í atvinnusköpun innan landbúnaðarins og tekjumyndun innan greinarinnar. Sama er að segja um ferðaþjónustu og ekki þarf að fjölyrða um þátt hestamennskunnar í þeirri miklu breytingu sem hefur átt sér stað í íslenskum landbúnaði.

Það er líka athyglisvert að sjá hvernig þróunin hefur orðið hér á landi, við sjáum þessa þróun varðandi stækkun framleiðslueininganna, mjólkurbúanna og sláturhúsanna. Það er líka merkilegt að mál skulu vera þannig hér á vestanverðu landinu að einungis þrjú sláturhús starfa nú í öllu norðvesturkjördæminu, og þau eru öll staðsett innan tiltölulega lítils radíuss hér á Norðvesturlandi. Þetta er mikil breyting á undraskömmum tíma.

Frá því að sláturhúsin urðu aðeins þrjú hafa þau öll aukið hlut sinn á landsvísu í sauðfjárslátrun, mismikið þó. Sölufélag Austur-Húnvetninga eða SAH Afurðir ehf. hafa aukið sýnu mest við sig. Árið 2003 var slátrað þar tæplega 66 þúsund fjár eða sem nam 11,8% á landsvísu. Í fyrra voru það liðlega 87 þúsund fjár og 16,3% landsframleiðslunnar. Á sama tíma jókst hlutur Kaupfélags Skagfirðinga um ríflega tvö prósentustig og nam í fyrra 19,7%. Hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga er breytingin lítil á þessum fjórum árum. Þar hefur verið lógað um og yfir 12% sláturfjár á ári, eða sextíu og eitt til sextíu og sjö þúsund kindum.

Í fyrra var því tæplega helmingi alls sláturfjár á landinu lógað í þessum þremur húsum og hefur hlutur þeirra vaxið um 17% frá 2003. Þetta er sem sagt veruleikinn. Nær annar hver dilkur sem bíður örlaga sinna í sláturhúsum á haustin fer um sláturhúsin hér á Norðvesturlandi. Þetta er athyglisvert og sýnir eftirtektarverða þróun.

Ég á ekki von á því að þessi þróun breytist mikið. Við kunnum hins vegar að sjá vaxtarbrodda sem fela í sér hugmyndafræðina, framleiðsla beint frá býli. Það er þáttur sem ég hef áhuga á að styðja við eftir föngum á næstunni. En í stórum dráttum hygg ég að við munum sjá öflug stór úrvinnslufyrirtæki og tiltölulega fá smærri.

Íslenskur sjávarútvegur er sömuleiðis að ganga í gegnum gríðarlega miklar breytingar. Þessar breytingar helgast ekki síst af þeirri staðreynd sem ég nefndi, þeirri miklu samkeppni sem hann stendur í hér innanlands. Þar er gríðarleg krafa um hagræðingu, sem segja má að hafi fengið tvöfaldan byr undir vængi sína með þeim niðurskurði aflaheimilda í þorski sem allir þekkja og er að taka gildi innan fáeinna daga.

Sjávarútvegurinn á engan kost í þessari stöðu nema fylgja þeirri hagræðingu sem átt hefur sér stað. Sjávarútvegurinn á ekki annan kost en þann að taka að fullu þátt í tæknivæðingunni sem leiðir til lækkunar á kostnaði. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því sem fram kemur m.a. í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kynnt var í tengslum við aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að framleiðniaukning í fiskvinnslu á Íslandi nemur 5,5% á ári að jafnaði frá 1998. Í fiskveiðum var framleiðniaukningin 3,1% á sama tíma. Þetta er talsvert meira en á tímabilinu 1991 ? 1997 þegar tölurnar voru 4% í vinnslu og 1,3 % í veiðum. Þetta er vísbending um það sem koma skal.

Á síðasta Alþingi komu fram tölur um þróun ársverka í sjávarútvegi sem að ríma mjög við þessar tölur Hagfræðistofnunar. Þær sýna að mannafli í fiskvinnslu hefur dregist saman um ríflega 50% á einum áratug. Ekkert bendir til annars en að þessi þróun haldi áfram. Það hefur ekkert að gera með fiskveiðistjórnun í landinu heldur lýtur eingöngu þeim lögmálum hagræðingar og kröfunnar sem uppi er í þjóðfélaginu að atvinnugreinar skapi stöðugt meiri verðmæti til að standa undir þeim lífskjörum sem almenningur gerir réttmæta kröfu til. Og ef að við ætlum að eiga möguleika til þess að takast á við samkeppnina í okkar þjóðfélagi þá verður það auðvitað að vera svo að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn geti lagt af mörkum sambærileg lífskjör.

Við vitum að ýmislegt hefur gengið okkur mót undanfarin ár. Á Norðvesturlandi er það þannig að umtalsverður hluti af sjávarútvegi í ýmsum byggðum á hinu gamla Norðvesturlandi byggðist á rækjuiðnaði, veiðum innfjarða og rækjuvinnslu. Fyrir einungis tíu árum voru veidd rúm fjögurþúsund tonn af innfjarðarækju hér í Húnaflóa og Skagafirði. Frá þessum tíma hefur leiðin legið niður á við og undanfarin ár hefur ekki veiðst eitt einasta gramm á þessum slóðum.

Við þekkjum líka að rækjuiðnaðurinn hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika af ýmsum og fjölþættum ástæðum. Þetta hefur auðvitað haft gríðarlega mikil og neikvæð áhrif á stöðu byggðanna og sjávarútvegsins í þessum byggðarlögum. Stjórnvöld hafa reynt að bregðast við með því að úthluta sérstökum aflabótum til þessara útgerða og á margan hátt hefur það skilað árangri. Frá fiskveiðiárinu 2001/2002 hafa bæturnar numið samtals 2.615 þorskígildistonnum í byggðarlögum á Norðvesturlandi. Sé Húnaflóinn allur tekinn með í dæmið nema bæturnar 4.256 þorskígildistonnum.

Gallinn er hins vegar sá að ýmsir þeir bátar sem njóta þessara aflabóta eru ekki lengur til staðar í okkar byggðum og því er það svo að aflabæturnar gagnast ekki byggðarlögunum sjálfum. Því hef ég ákveðið að halda áfram að lækka þessar aflabætur á næsta fiskveiðiári gagnstætt því sem gert var á síðasta fiskveiðiári, þar sem mér er ljóst að þær koma ekki að því gagni í byggðarlegu tilliti sem ég hafði ætlað. Í þessu sambandi verðum við að nýta önnur úrræði innan fiskveiðistjórnunarkerfisins sem eru markvissari og sértækari.

Sömu sögu er í reynd að segja um fiskvinnsluna. Hún hefur ekki skotið rótum eins víða hér og sums staðar annarsstaðar og samþjöppunin því ef til vill verið meiri. Mjög öflug fiskvinnsla er í Skagafirði, það er fiskvinnsla á Skagaströnd og auðvitað víðar og útgerð er sömuleiðis auðvitað víðar hér við Húnaflóann. Fiskgengd út af Norðurlandinu hefur verið mikil og það sjáum við af lönduðum afla sem hefur aukist umtalsvert í höfnunum hér í Húnaflóa og Skagafirði. Í kílóum talið hefur aflinn aukist um 55% á svæðinu frá árinu 2001 til 2006, og töluvert meira en tvöfaldast sem hlutfall landaðs afla á landsvísu.

Þessi mikla aukning á lönduðum afla er auðvitað jákvæð í sjálfu sér, því að hún skapar tækifæri. Við vitum að útgerð felur í sér umsvif. Það höfum við séð í þeim höfnum sem mest hafa notið aukningar í lönduðum afla og eru Skagaströnd og Sauðárkrókur að sjálfsögðu gleggstu dæmin um það. Landaður afli á Skagaströnd hefur aukist um 50% og tvöfaldast á Sauðárkróki á áratug.

Það er áhugavert að víða hefur hlutur landvinnslu verið að aukast. Þetta helgast ekki síst af bættum samgöngum, bættri geymslumeðferð og bættri meðhöndlun á fiski sem gefur möguleika á aukinni fiskvinnslu. Hér hljóta því að liggja tækifæri. Þetta er afskaplega mikilvægt að hafa í huga, ekki síst vegna þess að bent hefur verið á að þáttur fiskvinnslu sé kannski meiri í byggðaþróuninni en hlutur fiskveiðanna. Þetta er mikið umhugsunarefni fyrir okkur öll.

Fiskvinnslan felur einnig í sér mikil tækifæri til nýsköpunar. Fyrirtæki sem vilja skara fram úr leggja verulega fjármuni til þess arna. Þá skiptir máli að geta notið jákvæðs umhverfis háskóla og þróunarstarfs. Uppbygging Versins á Sauðárkróki er einmitt gott dæmi um þetta. Þar sameina krafta sína; Háskólinn á Hólum, Matís sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið, öflugt fyrirtæki - FISK Seafood og fleiri. Án samstarfs atvinnulífs, háskóla og vísindastarfs væri þessi starfsemi óhugsandi.

Það fer auðvitað ekki á milli mála að framundan er erfiður tími í sjávarútvegi, sérstaklega þeim byggðum sem háðastar eru vinnslu á þorski. Það er ljóst mál að sjávarbyggðir eru fjarri því að vera eins settar í þessum efnum og gríðarlegur munur er á vægi þorsksins í framleiðsluverðmæti sjávarafurða í einstökum sjávarbyggðum. Þess vegna er ljóst að það högg sem verður vegna minnkandi þorskafla kemur mjög misjafnlega niður. Þetta er líka mjög misjafnt eftir fyrirtækjum eins og allir vita. Þannig getur sú staða verið uppi í byggðarlagi sem ekki er mjög háð þorskafla í heild sinni að þar séu einstök fyrirtæki sem eingöngu byggja eða nær eingöngu byggja afkomu sína á þorskveiðum eða þorskvinnslu.

Staðan er því fjarri því að vera einföld. Hins vegar er það ásetningur stjórnvalda að reyna að bregðast við. Bæði með skammtímaaðgerðum eins og kunngerðar hafa verið og unnið er að því að hrinda í framkvæmd þessar vikurnar og lengri tíma aðgerðum sem sumar hafa litið dagsins ljós og hafa það markmið að styrkja forsendur byggðanna til lengri tíma og skjóta fleiri stoðum undir þær.

Þetta er ekki auðvelt verk og það er fjarri mér að gera lítið úr þeim vanda sem framundan er, eða að halda því fram að þær aðgerðir sem gerðar verða komi að öllu leyti í staðinn fyrir þá tekjuminnkun sem verður víða í byggðunum. Hins vegar eru að mínu mati forsendur til þess að efla sjávarbyggðirnar til lengri tíma, Ekki hvað síst vegna þess að í framtíð sjávarútvegsins eru miklir möguleikar faldir, einkum og sér í lagi á landsbyggðinni.

Ég hygg t.d. að dæmið af HB-Granda nú nýverið, verði til þess að fleiri komist að svipaðri niðurstöðu. Að hið háa húsnæðis- og lóðaverð á höfuðborgarsvæðinu sé ekki aðlaðandi fyrir starfsemi á borð við sjávarútveg og raunar fleiri atvinnugreinar. Við sjáum þessa þróun í landbúnaði, hátt lóðaverð og jarðaverð hefur áhrif á samsetningu hans og af hverju ætti ekki hið sama að gerast í öðrum atvinnugreinum? Ég held að það blasi við og reynslan frá öðrum löndum sýnir okkur einmitt þetta.

Frá sjónarhóli landsbyggðarinnar, hljóta þess vegna að felast í slíku spennandi tækifæri sem við vitum ekki nákvæmlega hvar muni liggja. En það er okkar hlutverk að koma auga á þau reyna að nýta.

Góðir fundarmenn

Í raun og veru er það óhjákvæmilegt að sjávarútvegur og landbúnaður verði burðarásar í atvinnulífi á landsbyggðinni. Hins vegar er það jafnnauðsynlegt að við breikkum þann grundvöll sem við störfum á jafnframt því sem við verðum að tryggja að þessar atvinnugreinar, okkar hefðbundnu atvinnugreinar á landsbyggðinni, fái tækifæri til þess að þróast með þeim hætti sem aðstæðurnar krefja. Við megum heldur ekki gleyma því að það verður ekkert sem var. Íslenskur landbúnaður hefur tekið stakkaskiptum rétt eins og sjávarútvegurinn. Í því felast auðvitað ógnanir en líka tækifæri. Stjórnvöld hafa sum þessara ráða í hendi sér en leiðarljósið verður hins vegar alltaf að vera það að þessar atvinnugreinar fái sömu tækifæri til að eflast eins og aðrar atvinnugreinar, ella verða þær atvinnugreinar fátæktar og það viljum við ekki bjóða íbúum okkar svæða.

ppt - kynning 820 Kb

EKG SSNV 24 ágúst 2007



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum