Hoppa yfir valmynd
25. október 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna, 25. október 2007

Ræða Einars Kristins Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna

á Hilton Reykjavík Nordica hóteli 25. okt. 2007

Ágætu útvegsmenn.

Það er eftirtektarvert hve íslensk tunga geymir mörg orð og orðtök sem snerta sjómennsku og veðurfar og nota má til að lýsa þeim erfiðleikum sem nú er við að etja. Ef til vill er það þó ekki svo sérkennilegt. Við vitum að sjórinn hefur oft verið erfiður til sóknar, það er aldrei á vísan að róa, svipull getur sjávaraflinn verið og sjaldan er ein báran stök. Svo getum við bætt við að skjótt geta skipast veður í lofti.

 

Hvert  og eitt þessara orðtaka eða þau öll saman má hæglega nota bæði til að lýsa þeim aðstæðum sem við stöndum nú frammi fyrir í sjávarútveginum og til að bregða upp mynd af því sem gerst hefur frá því við hittumst fyrir um ári síðan á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hér er ég auðvitað sérstaklega að vísa til þeirra erfiðleika sem við glímum við vegna minnkandi aflaheimilda í þorskinum - okkar lang mikilvægustu nytjategund.

 

En jafnframt er ég að vísa til þess óviðunandi ástands sem skapast af geysisterkri og óþolandi stöðu íslensku krónunnar sem hefur valdið íslenskum sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum búsifjum á þessu ári. Er mér nær að halda að erfiðleikar vegna hinnar sterku stöðu gjaldmiðilsins séu síst minni og ef til vill meiri en þeir sem stafa af niðurskurði aflaheimilda í þorski og er ég þá ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr því. Hvað þetta snertir stendur sjávarútvegurinn því núna frammi fyrir því að takast á við óvenjulegan og mikinn vanda.

 

En fyrst vil ég víkja að aflaákvörðuninni sem kom til framkvæmda við síðustu fiskveiðiáramót. Ég hygg að okkur öllum hafi verið svipað farið síðasta sjómannadag þegar við höfðum meðtekið þær tillögur sem fyrir lágu frá Hafrannsóknastofnuninni um minnkun þorskafla fyrir næsta fiskveiðiár. Óneitanlega brá öllum við. Tillögurnar kváðu á um þriðjungs niðurskurð aflaheimilda í þorski frá því sem áður hafði verið. Sannarlega gátu menn þó sagt sér sjálfir að ráðleggingar Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir núverandi fiskveiðiár myndu fela í sér einhverjar tillögur um niðurskurð frá því sem verið hafði.

 

Það er nauðsynlegt að setja þessa hluti í tiltekið samhengi. Í fyrra kom fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar mjög ákeðin viðvörun sem þó var ekki sett fram í eiginlegu tillöguformi. Þar var hins vegar dregin upp sú mynd að nauðsynlegt væri að setja sér skýr markmið við endurreisn þorskstofnsins og draga umtalsvert úr afla næstu ára til að hrygningarstofninn yxi í þá stærð sem gefur langtíma hámarksafrakstur, sem er 350 til 400 þúsund tonn. Í skýrslu stofnunarinnar var bent á mismunandi leiðir til að ná þessu markmiði. Til dæmis var nefnt að veiðihlutfall í þorski yrði 16% af veiðistofni fram til ársins 2010 í stað þeirra 25% sem þá var beitt. Það hefði þýtt að aflamark nýliðins fiskveiðiárs hefði verið 160 þúsund tonn en 130 til 150 þúsund tonn næstu fjögur fiskveiðiár þar á eftir.

 

Að mati Hafrannsóknarstofnunarinnar hefði einnig verið mögulegt að ná sama markmiði með því að festa aflamarkið við 150 þúsund tonna hámark allt til ársins 2010. Það er því ljóst að Hafrannsóknastofnunin var með þessu að senda út mjög ákveðin viðvörunarmerki og hvetja stjórnvöld til að taka afstöðu til róttækrar tillögu. Ég leit svo á að við hefðum ekki fullnægjandi forsendur til að taka afstöðu til þess á þessum tíma. Niðurstaðan var því sú, eins og kunnugt er, að aflareglunni var breytt til samræmis við það sem tillögur höfðu verið uppi um og allgóð samstaða um að mínu mati en þó með þeirri veigamiklu undantekningu að veiðihlutfallið var ekki lækkað. Það var sem sagt sem fyrr 25%.

 

Við skulum hafa það í huga að aflareglunefndir hafa gengið út frá því að skynsamlegasta veiðihlutfallið væri á bilinu 18 til 23% en ekki föst 25% eins og verið hefur undanfarin ár. Þegar þorskstofninn væri lítill væri eðlilegt að fara niður með veiðihlutfallið en þegar hann stækkaði væri hægt að hækka veiðihlutfallið.

 

Ástæða þess að ég ákvað að hlíta ekki tillögum og ábendingum Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir rúmu ári var sú að ég taldi vanta mjög miklar upplýsingar sem nauðsynlegar væru áður en ákvörðun væri tekin. Hér var ég fyrst og fremst með í huga áhrifin sem breytingar á veiðireglu hefðu á byggðir, útgerðir, útgerðarflokka og þjóðarbúið í heild. Því fól ég Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, eins og kunnugt er, að gera úttekt á þessu máli. Skýrsla Hagfræðistofnunar lá fyrir skömmu á eftir ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar nú í júní sl. og voru þessi tvö plögg grundvöllur þeirra samræðna og samráðs sem ég átti við hagsmunaaðila og vísindamenn víða að nú á síðast liðnu sumri.

 

130 þúsund tonna heildarafli eins og tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar fól í sér, jafngilti rúmlega 30% niðurskurði þorskveiðiheimilda. Gleymum því ekki að þorskurinn er okkar helsti nytjastofn, sumar útgerðir hafa einbeitt sér að þorskveiðum og vinnslu og heilu byggðarlögin standa og falla með slíkri iðju.

 

Forsendur tillagnanna fyrir yfirstandandi  fiskveiðiár, voru þær að stærð veiðistofns þorsksins væri nú metin nálægt sögulegu lágmarki og hrygningarstofninn aðeins um helmingur þess sem talið er að gæfi hámarksafrakstur. Nýliðun sex síðustu ára hefði sömuleiðis verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa í sögulegu lágmarki. Auk þessa væri ljóst að á næstunni kæmu almennt lélegir árgangar inn í veiðina. Þess vegna væri nauðsynlegt að hverfa frá þeirri sveiflujöfnun sem hefði verið í aflareglu okkar og færa aflahlutfallið þegar í stað úr 25% af viðmiðunarstofni og í nú 20%. Jafnframt þessu hefur verið bent á að 10 ára þorskur og eldri er einungis 2% eða ríflega það af fjölda í afla. Það er vitaskuld áhyggjuefni.

 

Þess er skemmst að minnast að ég ákvað að fara að þessu sinni með heildarþorskkvótann ofan í 130 þúsund tonn. Um það eru mjög skiptar skoðanir eins og við vitum. Ég vil leggja á það áherslu að í reynd hafði ég þar val. Það var ekki að mínu mati óhjákvæmilegt að fara þá leið sem ég kaus. Í því sambandi voru uppi allnokkrir kostir sem ég hugleiddi mjög á þeim vikum sem ég tók mér til þess að komast að niðurstöðu varðandi heildaraflann.

 

Ég vek í fyrsta lagi athygli á því að tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar fól í sér 130 þúsund tonna þorskafla. Alþjóðahafrannsóknaráðið talaði um 152 þúsund tonn. Miðað við stærð viðmiðunarstofns, óbreytta aflareglu og óbreytt veiðiálag hefði kvótinn verið 178 þúsund tonn. Með því að nota 30 þúsund tonna sveiflujöfnun, eða þá sveiflujöfnun sem gilt hefur, hefði heildaraflinn verið 162 til 163 þúsund tonn.

 

Til viðbótar við þetta vil ég líka nefna að ef við nýttum núgildandi aflareglu og styddumst við 18% veiðiálag eins og aflareglunefnd hafði lagt til grundvallar sínu starfi þegar um væri að ræða lítinn þorskstofn þá hefði það leitt til 155 þúsund tonna, vegna þeirra sveiflujöfnunar sem byggð er inn í aflaregluna. Ennfremur er nauðsynlegt að hafa í huga að við ráðstöfum 5 til 6 þúsund tonnum árlega til margskonar annarra hluta, t.d. vegna veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar, vegna þorskeldiskvóta og ýmissa annarra þátta sem ekki eru taldir með í heildaraflanum.

 

Þegar við veltum þessum kostum fyrir okkur þá þarf líka að hafa hugfast hver Hafrannsóknastofnunin telur að þróunin verði á næstu árum. Það þurfum við að gera af mörgum ástæðum, m.a. þeim að þær upplýsingar verða lagðar til grundvallar veiðiráðgjöf komandi ára. Veiðistofninn nú er talinn vera um 650 þúsund tonn og á næsta ári er hann áætlaður 570 þúsund tonn eða 80 þúsund tonnum minni en nú. Þess vegna eru því allar líkur á því að við þær aðstæður gerði Hafrannsóknastofnunin tillögur um frekari niðurskurð aflaheimilda á næsta ári. Ég tel að slík staða yrði afar dýrkeypt í íslenskum sjávarútvegi. Það skiptir því miklu máli að afstýra slíku ástandi.

 

Mér er það mætavel ljóst að sá mikli niðurskurður sem við höfum mátt búa við árlega undanfarin ár er mjög farinn að reyna á þolrif íslenskrar útgerðar og þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Frekari niðurskurður og áframhald á þessari þróun myndi því draga mjög úr þreki manna í greininni og gæti stuðlað að mikilli samþjöppun og flótta úr henni. Það var ekki síst þetta atriði sem að ég hafði til hliðsjónar þegar ég var að skoða þessi mál. Að mínu mati komu því tvær leiðir til greina. Annars vegar tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar upp á 130 þúsund tonn og hins vegar tillaga sem byggðist á hugmyndum aflareglunefndar frá árinu 2004. Sú leið  fól  í sér 18% veiðihlutfall vegna stöðu þorskstofnsins, sem með sveiflujöfnun hefði þýtt 155 þúsund tonn.

 

Þegar ég fór í saumana á þessu reyndi ég eftir því sem unnt var að setja mér tiltekin markmið sem ég vildi hafa að leiðarljósi. Í fyrsta lagi vildi ég auðvitað ganga þannig frá málum að hægt væri að segja með sanni að gætt væri ábyrgðar og varúðar. Í annan stað lagði ég áherslu á að ljúka þessu þannig að ekki þyrfti að skerða afla á næsta ári. Þá lagði ég til grundvallar þá forsendu að líklegt væri að kvótinn gæti aukist í framhaldinu.

 

Nú liggur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að Hafrannsóknastofnunin metur veiðistofninn fyrir næsta ár 570 þúsund tonn að óbreyttu. Við vitum þó að þessir hlutir geta breyst. Betri aðstæður í lífríkinu, meira fæðuframboð, og fleira þar fram eftir götunum getur auðvitað stækkað veiðistofninn.

 

Það er alveg ljóst af þeim gögnum sem við lögðum til grundvallar, bæði frá Hafrannsóknastofnuninni og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, að hagkvæmara væri að minnka kvótann í upphafi og byggja þannig upp. Það liggur líka ljóst fyrir að eftir því sem aflamarkið væri sett hærra ykist áhættan gagnvart þorskstofninum og jafnframt að slíkt myndi leiða til þess að við fengjum spíraláhrif, þ.e.a.s. að aflinn á næstu árum myndi líklega fara niður en ekki upp. Það var einkanlega þetta atriði sem réði úrslitum í mínum huga. Samandregið má því segja eftirfarandi:

 

Í raun stillti ég því upp tveimur tölum. 130 þúsund tonna afla og 155 þúsund tonna afla. Hærri talan hefði leitt til þess að afli hefði að öllum líkindum minnkað aftur á fiskveiðiárinu 2008 til 2009 og kannski ennþá lengur. Það taldi ég óviðunandi fyrir íslenskan sjávarútveg og óttaðist að slíkt gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Alvarlegri heldur en þær að fara nú niður í 130 þúsund tonn. Þótt sú ákvörðun hafi ekki verið auðveld, þá varð niðurstaðan því 130 þúsund tonna þorskkvóti. Jafnframt þessu felur ákvörðunin í sér að sett er inn 20% aflaregla á næsta ári með sveiflujöfnun eins og aflareglunefnd hefur unnið útfrá og gólfi sem gildir fyrir það fiskveiðiár. Það þýðir að hvað sem öðru líður þá verður aflakvótinn á fiskveiðiárinu 2008 til 2009 ekki undir 130 þúsund tonnum. – Og þykir víst sannast engum sem hér situr það nokkur ofrausn.

 

Góðir útvegsmenn

 

Ég taldi ástæðu til þess að fara mjög rækilega yfir hvernig niðurstaða mín var fundin nú í sumar. Ég veit að þið gerið ykkur ljóst að þessi ákvörðun var ekki auðveld. Hún er sannarlega umdeild og fyrstur manna skal ég líka viðurkenna - umdeilanleg. Í mínum huga vógu einfaldlega þau rök þyngra að skynsamlegra væri að fara í 130 þúsund tonn en einhverja millileið og hef ég nú gert grein fyrir þeim málsástæðum.

 

Á aðalfundi LÍÚ í fyrra vakti ég athygli á því að það væru miklar efasemdir um að tímabundnar fórnir í niðurskurði þorskveiðiheimilda myndu skila sér í viðreisn þorskstofnsins. Þess vegna hvatti ég til víðtækrar umræðu um fiskveiðiráðgjöfina og forsendur hennar  á komandi ári. Því miður hafa þær umræður og viðræður ekki leitt til neinnar einnar niðurstöðu og kannski ekki við því að búast. Þetta eru svo flókin mál, álitamálin mörg  og miklir hagsmunir í húfi að erfitt er að ímynda sér að menn nái fullkomlega saman.

 

Þó vil ég segja eitt. Íslenskir útvegsmenn og samtök þeirra  nálgast þessi mál af fullkominni ábyrgð og varfærni. Ég tel að Landssamband íslenskra útvegsmanna hafi t.d. sýnt það á undanförnum árum að það sé í fararbroddi bæði hvað snertir þorsknýtingu og nýtingu annarra nytjastofna innan og utan lögsögunnar. Er skemmst að minnast afstöðu samtakanna til nýlegrar ákvörðunar varðandi kolmunnaaflann. Enda stendur það auðvitað engum nær en þeim sem hafa atvinnu sína og alla hagsmuni af því að ganga vel um auðlindina, að hafa einmitt forystu um að nýta hana með ábyrgum hætti. Sjómenn og útvegsmenn eru í þeim hópi. Það eru mismunandi skoðanir á stærð fiskistofnanna, en ég fullyrði að almennt eru í ykkar hópi og meðal sjómanna þau viðhorf uppi að ganga beri vel og af ábyrgð um íslensku sjávarauðlindina. Ég mótmæli því harðlega öllum þeim sem reyna að halda öðru fram.

 

Við höfum nú þegar séð afleiðingar hins mikla aflasamdráttar en þó einungis að nokkru leiti. Mér er það ljóst að sjávarútvegurinn fer nú  skjótar í ýmsar hagræðingaraðgerðir en ella hefði verið. Sumt af því sem menn hafa gert og munu gera hefði örugglega komið til framkvæmda fyrr en síðar. Einfaldlega vegna þess að rekstrarleg rök hníga að því. Minni tekjur nú gera það hins vegar að verkum að gengið er hraðar til verks. Það er því ljóst að framundan er enn meiri hagræðing innan sjávarútvegsins og sem getur orðið sársaukafull en mun líka gera það að verkum að greinin verður öflugri þegar fram í sækir. Þannig þarf íslenskur sjávarútvegur líka að vera. Við vitum að greinin  hefur verið og er í harðri samkeppni erlendis. Það sem er nýtt nú, er að sjávarútvegurinn stendur einnig í harðari samkeppni hér innanlands en nokkru sinni áður. Varðar þetta bæði samkeppni um fólk og fjármagn.

 

Áður og fyrr hafði sjávarútvegurinn mjög mikla samkeppnis yfirburði gagnvart flestum atvinnugreinum í landinu. Jafnvel þótt greinin hafi oft búið við óhagstætt gengi og rekstrarskilyrði sem ekki voru boðleg. Afl greinarinnar var hins vegar slíkt að það skilaði sér í miklum yfirburðum hennar.

 

Hversu oft heyrðum við t.d. ekki talsmenn iðnaðarins kvarta undan því að gengi íslensku krónunnar miðaðist við hagsmuni sjávarútvegsins sem gæti búið við hærra og óhagstæðara gengi en iðnaðurinn og slíkt hefði síðan haft neikvæð áhrif fyrir iðnaðaruppbygginguna hér á landi. Þetta var vel að merkja á sínum tíma meginréttlæting þess að leggja á auðlindagjald, þótt þau falsrök heyrist ekki lengur; sem betur fer.

 

Nú hafa hins vegar skotið og skjóta rótum, atvinnugreinar sem hafa til að bera mikla framleiðni á öllum sviðum og geta þess vegna staðið sjávarútveginum á sporði og kannski rúmlega það. Þess vegna þarf sjávarútvegurinn nú á öllu sínu að halda til þess að bregðast við, ella verður hann undir í samkeppni hér innanlands um fólk og fé.

 

Við verðum, ekki hvað síst við stjórnmálamenn, að sýna þessu máli skilning; og meiri skilning nú en nokkru sinni áður. Því þó að sjávarútvegurinn gegni margþættu hlutverki þá hafa stjórnendurnir auðvitað fyrst og fremst þær skyldur að reka fyrirtæki sín þannig að þau skili viðunandi arði, standist öðrum snúning í samkeppni og geti sem fyrr verið öflugasti bakhjarlinn í framfarasókn þjóðarinnar.

 

Við vitum að sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum gríðarlega mikla hagræðingu sem hann hefur borið kostnaðinn af sjálfur, ólíkt því sem gerst hefur víða í samkeppnislöndum okkar. Sú þróun, að breyta og laga afkastagetu greinarinnar að afrakstursgetu fiskistofnanna, hefur verið kostnaðarsöm og erfið. En hún hefur líka borið þann ávöxt að sjávarútvegurinn er nú samkeppnisfærari en áður. Við höfum borið okkur  saman við annað helsta sjávarútvegslandið við norðanvert Atlantshaf -  Noreg - og stöndumst Norðmönnum algjörlega snúning í samkeppninni.  Það liggur líka fyrir að sjávarútvegurinn getur staðið undir meiri skuldum en áður. Fyrir tuttugu árum var staðan t.d. mjög erfið þrátt fyrir að aflaheimildir væru meiri en nú og skuldirnar minni. Það lýsir betur en mörg orð, þeim rekstrarlega árangri sem hefur náðst.

 

Það segir einnig sína sögu um þær framfarir sem orðið hafa, til að mynda  með betra skipulagi veiðanna, markaðsmála og með örri tækniþróun á öllum sviðum, að sjávarútvegurinn hefur spjarað sig þrátt fyrir minni aflaheimildir. Það liggur líka fyrir að sjávarútvegurinn getur nú staðist sterkari krónu en áður. Þetta segir okkur fyrst og fremst að sú hagræðing sem greinin hefur gengið í gegnum er raunveruleg og hún skilar árangri sem sést m.a. á því að framleiðniaukningin í sjávarútveginum er ekki síðri en í öðrum greinum.

 

Stjórnmálamenn verða rétt eins og aðrir að gera sér grein fyrir því að reka þarf íslenskan sjávarútveg eins og hverja aðra alvöru atvinnugrein og samkvæmt þeim lögmálum sem um slíkt gilda. Hvað sem því líður mun sjávarútvegurinn sem fyrr vera burðarás í atvinnulífinu vítt og breytt um landið á komandi árum. Þess vegna hafa meðal annars verið  lagðar aðrar kvaðir á hann eins og við þekkjum. Þar verðum við hins vegar að kunna okkur hóf.

 

Byggðastefna framtíðarinnar verður að felast í því að breyta samfélagsgerðinni utan höfuðborgarinnar, þannig að unga fólkið okkar sæki þangað fjölbreytta atvinnu, menntun og njóti tækifæranna sem nútímaþjóðfélag býður upp á. Stóraukin framlög okkar til menntunar, fjarskipta, uppbyggingu samgangna, sem menn hafa þó látið sér sæma að úthrópa í tengslum við umræddar mótvægisaðgerðir, eru einmitt tilraun til þess. Tilraun til þess að breikka grundvöll byggðanna og færa sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum á landsbyggðinni nýja möguleika til þess að hagræða og takast á við samkepppni hér innanlands og erlendis.

 

Þegar ég tók við starfi sjávarútvegsráðherra haustið 2005 lýsti ég því strax yfir að ég hygðist ekki auka aflamarkstilfærslur innan greinarinnar frá því sem gert hafði verið. Nú ættu menn að nema staðar og leyfa atvinnuveginum að fá frið fyrir miklum pólitískum afskiptum. Ég hef staðið við þessa yfirlýsingu. Það er rétt sem útgerðarmenn segja að ég hef hvorki lagt af  byggðakvóta né línuívilnun, enda sagði ég það strax í upphafi að það væri ekki ætlunarverk mitt að gera það.

 

Ég hef hins vegar verið að reyna að breyta lagaumhverfi byggðakvótans, gera hann gagnsærri og skilvirkari og ég tel að reynslan sýni að það væri afar óskynsamlegt að bæta í byggðakvótapottinn. Ég hef hins vegar talið að það væri sanngjarnt að meira jafnræði  ríkti með útgerðum sem þurfa að leggja til aflaheimildir í þessar tilfærslur innan sjávarútvegsins. Það verk hefur hins vegar reynst bæði flóknara og torveldara en ég hugði og er því ekki komið lengra en raun ber vitni. Það er hins vegar sanngjarnt að breyta þessu og vonast ég til þess að okkur takist að finna leiðir að því setta marki.

 

Góðir fundarmenn.

Nú vendi ég kvæði mínu í kross og hverf á vit deilistofna. Snemma á þessu ári náðist samkomulag um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, í fyrsta sinn í hálfan áratug. Við þekkjum vel hvernig fer ef þessi mikilvægi fiskistofn er ofveiddur og lögðum því áherslu á að binda enda á þá vaxandi ofveiði sem stunduð var. Með samningnum ætti að vera tryggt að nýting síldarstofnsins sé sjálfbær og sjávarútvegurinn í þeim löndum sem taka þátt í veiðinni getur nú einbeitt sér að því að skapa eins mikil verðmæti og hægt er með veiðunum, frekar en að vera í kapphlaupi um að veiða sem mest.

 

Við gerð svona samninga hugsa menn jafnan að þeir hefðu viljað að hlutur þeirra af heildinni væri stærri. Síldarsamningurinn er þar engin undantekning. Ég stend þó við það sem ég hef áður sagt um að mikilvægt sé að hafa í gildi samkomulag allra viðkomandi landa til að tryggja viðgang stofnsins og að sigurvegarinn í þessu máli hafi því verið heilbrigð skynsemi. Ástand norsk-íslenska síldarstofnsins er mjög gott um þessar mundir, og það hefði verið synd ef óstjórn hefði orsakað hnignun hans.

 

Líkt og varðandi síldina er ekki langt síðan samkomulag náðist um stjórn kolmunnaveiða, meðal allra landanna sem taka þátt í þeim veiðum. Stjórnlaus ofveiði á kolmunna hafði viðgengist í allt of langan tíma og því var mikilvægt að koma böndum á veiðarnar. Í því ljósi sættum við Íslendingar okkur við að leyfilegt heildaraflamagn væri sett hærra en vísindamenn ráðlögðu. Enda væri gert ráð fyrir því að draga úr veiðinni í kjölfar samningsins og tryggja sjálfbærar veiðar til lengri tíma. Í dag stöndum við frammi fyrir því að ástand stofnsins er enn verra en við óttuðumst fyrir ári. Því er mikilvægt að draga mun hraðar úr veiðum en gert hafði verið ráð fyrir í samkomulaginu frá því fyrir tveimur árum. Síðastliðinn þriðjudag var ákveðið á fundi strandríkja að veiðar næsta árs verði 597 þúsund tonnum minni en þær voru í ár, eða minnki um tæplega þriðjung. Þrátt fyrir þennan niðurskurð er ljóst að heildarveiðar verða enn um sinn meiri en ráðlegt er og því líklegt að á næstu árum verði áfram niðurskurður í kolmunnaveiðum. Ljóst er að ástandið við stjórn kolmunnaveiðanna hefur stórbatnað undanfarin ár þótt Ísland hefði viljað flýta því ferli enn frekar að veiðarnar yrðu sjálfbærar.

 

Það er einnig ástæða til að hafa áhyggjur af ástandi karfa á Reykjaneshrygg. Alþjóðleg stjórnun þeirra veiða hefur ekki skilað viðunandi árangri og leggjum við því mikla áherslu á að bæta hana. Vonast er eftir góðu samstarfi við hinar þjóðirnar sem taka þátt í veiðunum, þar sem samhent átak þarf ef vel á að takast til.

 

Í mörg ár hefur Ísland óskað eftir því að verða viðurkennt sem strandríki varðandi makríl, en okkur hefur ekki verið hleypt að samningaborðinu meðal hinna strandríkjanna fram að þessu. Veiðar íslenskra skipa í ár sýna svo ekki verður um villst að það er ekki hægt að ganga framhjá okkur þegar kemur að makrílveiðum og væntum við þess því að hefja viðræður á næstunni um hlut Íslands í þessu sambandi.

 

Góðir útvegsmenn.

Gengi íslensku krónunnar hefur sveiflast talsvert mikið frá því við hittumst hér fyrir ári síðan. Í nóvember 2006 var gengisvísitalan um 118. Hún sveiflaðist upp í 130 í upphafi þessa árs og hélst svo að mestu um og yfir 120 þar til fyrri part sumars að gengi krónunnar styrktist verulega og hélst sterkt fram í ágúst. Þá gaf það eftir en því miður hefur íslenska krónan enn og aftur endurheimt nokkuð af sínum fyrri styrk. Þetta er auðvitað óþolandi staða fyrir sjávarútveginn og útflutningsgreinarnar.

 

Gengissveiflur eru í sjálfu sér ekki nýjar meðal þjóða og þótt íslenska krónan sé lítill gjaldmiðill þá sjáum við að sveiflurnar eru líka til staðar í öðrum gjaldmiðlum. Bandaríkjadalur hefur til dæmis aldeilis ekki verið laus við sveiflurnar.  Sé hann borinn saman við aðrar mynttegundir sjáum við það glöggt. Telst þó myntsvæði dalsins ekki vera neitt smáræði. En þrátt fyrir þessar sveiflur hef ég ekki heyrt þess getið að málsmetandi menn í landi Sáms frænda hvetji til þess að hverfa frá gjaldmiðlinum sínum, eins og nú er svo tíðkanlegt hér á landi.

 

Ef við svo lítum á þróun einstakra mynta gagnvart krónunni okkar þá er eftirfarandi að segja. Bandaríkjadalur  er um 13% veikari gagnvart íslensku krónunni en hann var um síðustu áramót, sterlingspundið tæplega 10% veikara og evran 7% veikari. Gengisvísitalan sjálf sýnir að krónan hefur að meðaltali styrkst um 9% en þó er þess að geta að ýmsir gjaldmiðlar hafa lotið annarri sveiflu.  Kanadadalur hefur t.d. styrkst gagnvart íslenskri krónu á þessu ári og norska krónan aðeins veikst lítilsháttar. Þannig að við sjáum að sveiflurnar geta verið á marga vegu.

 

Almennt talað má segja að íslenska krónan hafi styrkst svo mikið gagnvart öðrum myntum sem raun ber vitni, vegna þess að Seðlabankinn heldur uppi hinum háu vöxtum. Þeir laða að erlent fjármagn sem veðjar á íslensku krónuna. Þetta er auðvitað ansi valt ástand og hefur valdið okkur miklum vanda.

 

Seðlabankinn heldur uppi vöxtum sínum m.a. til þess að berja niður verðbólgu. Það var því athyglisvert þegar sjá mátti fyrr í mánuðinum að verðbólga hér á landi, mæld á samræmdan mælikvarða Evrópusambandsins, er sú sama og gerist og gengur í Evrulandinu, þar sem að vextirnir eru þó miklu lægri, eins og frægt er orðið.

 

Við glímum hins vegar við verðbólgu sem stafar einkanlega  af  hækkun húsnæðisverðs. Þessi hækkun kemur því beint í bak útflutningsgreinanna, veikir stöðu þeirra  og stuðlar m.a. að því að störfum hefur fækkað á því sviði. Þetta er að mínu mati mjög mikið umhugsunarefni og við hljótum að velta því alvarlega fyrir okkur hvort þeir mælikvarðar sem lagðir eru til grundvallar okkar hagstjórn séu að öllu leyti réttir. Athyglisvert er líka að skoðaHHHHvers þær forsendur sem Samtök atvinnulífsins hafa sett fram um þróun ýmissa hagstærða hér innanlands og ekki verður betur séð en að stangist mjög á við þær forsendur sem unnið er eftir á öðrum sviðum.

 

Gengi íslensku krónunnar er allt of sterkt. Krónan er klárlega ofmetin, enda er hún nú 10 til 15% yfir 10 ára meðaltali sínu. Þetta veldur útflutningsgreinum eins og sjávarútveginum miklu tjóni og það er auðvitað ömurlegt að þessi ofursterka króna skuli vera okkur þetta fótakefli einmitt þegar við erum að takast á við mikinn aflasamdrátt sem stafar af neikvæðum aðstæðum í hafinu. Bót er þó í máli að almennt er því spáð að gengi íslensku krónunnar muni veikjast á næsta ári.

 

Einhvern tímann hefði slíkt áfall eins og felst í þriðjungs niðurskurði á þorski leitt til þess að íslenska krónan hefði veikst. Þess vegna var stórfurðulegt að sjá að gjaldmiðillinn okkar styrktist þvert á móti þegar fréttir bárust af ákvörðun minni, sem ríkisstjórnin studdi, um lækkun aflamarksins. Höfðu þó greiningardeildir allra bankanna og Seðlabankinn sjálfur gengið út frá því í sínum forsendum að aflaniðurskurðurinn yrði mun minni og aflaheimildir þessa árs yrðu 150 til 160 þúsund tonn hið minnsta. Þess vegna er það undarleg reynsla að verða vitni að því að sjálfur burðarásinn í efnahagslífi okkar - sjávarútvegurinn, þorskveiðar og þorskvinnsla skuli ekki hafa önnur og meiri áhrif á gengið en raun ber vitni. Við sjáum að þar eru aðrir kraftar að verki; kraftar sem greinilega toga fastar á fjármálamörkuðunum en boðað tekjufall í meginútflutningsgrein okkar.

 

Góðir útvegsmenn.

 

Sannarlega hefði verið ánægjulegra að standa í þessum sporum nú við aðrar aðstæður. En lífið býður ekki alltaf upp á létta og ljúfa leið.

 

Mikilvægast er hins vegar að hafa trú á framtíðinni. Niðurskurður aflaheimilda núna er gerður til þess að mikilvægasti fiskistofn okkar verði stærri og afraksturinn betri. Með öðrum orðum; til þess að framtíð okkar verði bjartari. Þá er líka nauðsynlegt að þeir sem nú taka á sig skerðinguna, njóti ávaxta erfiðis síns. Það er aðalatriði.  Skýr veiðiréttur stuðlar að ábyrgri umgengni um auðlindina og skapar mönnum forsendur til fjárfestinga sem eru til framfara fallnar. Það hefur einmitt verið aðall íslenskrar útgerðar. Þess vegna er það ófrávíkjanlegt að líkt eins og menn axla byrðar minni aflaheimilda á grundvelli aflahlutdeildar sinnar, þá njóti þeir aukningarinnar með sama hætti. Í þeim efnum hef ég talað og vil ég tala mjög skýrt og tel það raunar eina meginforsendu þess að við komumst klakklaust í gegn um andstreymi tekjuminnkunarinnar sem leiðir nú af minni afla - að menn njóti ávaxta erfiði síns.

 

Ég óska íslenskum útvegsmönnum farsældar í verkefnum sínum hér á aðalfundinum og í hinum mikilvægu störfum sínum í framtíðinni.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum