Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ávarp ráðherra á 100 ára afmæli skógræktar og landgræðslu á Íslandi 23. nóvember 2007

 

Hátíðarfundur í Salnum í Kópavogi

23. nóvember 2007

100 ára afmæli skógræktar og landgræðslu á Íslandi

Ræða Einars Kristins Guðfinnssonar, landbúnaðarráðherra.

Vormenn Íslands yðar bíða
eyðiflákar, heiðarlönd.
Komið grænum skógi að skríða
skriður berar, sendna strönd.
Huldar landsins verndarvættir
vonarglaðar stíga dans,
eins og mjúkir hrynji hættir
heilsa börnum vorhugans.

Góðir hátíðargestir - til hamingju með daginn.

Hér erum við samankomin til að fagna þeim merka áfanga að 100 ár eru liðin frá því fyrstu lög um skógrækt og landgræðslu á Íslandi voru samþykkt á Alþingi og staðfest með undirritun Danakonungs Friðriks áttunda þann 22. nóvember 1907.

Þótt þessi tímamót séu valin, hlýtur það að vera svo, að ekki er mögulegt að finna einhvern ákveðinn tímapunkt þegar ákveða skal hvenær skógrækt eða hvenær landgræðsla hófst hér á landi. Frumkvæði og ákvörðun stjórnmálamannanna kom ekki af engu af himni ofan! Auðvitað var þetta árangur af upplýsingaöflun, aukinni þekkingu, bættum ytri skilyrðum svo eitthvað sé nefnt; að ógleymdum betri þjóðarhag og almennri þjóðarvakningu Íslendinga, og áttu skáldin - hugsjónamennirnir, - e.t.v. örðum fremur hlut þar að máli.

Ljóðið sem ég fór með í upphafi, orti Guðmundur Guðmundson, skólaskáld.

Í ljóðinu kallar skáldið á vormenn Íslands út til verka. Kallar þá til að rækta landið að nýju, jafnt berar skriður og sendna strönd sem eyðifláka og heiðarlönd. Hvarvetna blasti við þörfin til að græða það land sem hafði fóstrað þjóðina í gegnum myrkar aldir og harðindaár og gert henni kleift að lifa og komast af. Nú var tíminn kominn til að endurgjalda fósturjörðinni lífgjöfina.

Ljóð Guðmundar er aðeins eitt af fjölmörgum ljóðum sama eðlis og má fullyrða að aðeins lítið brot af slíkum hvatningaljóðum hafi verið skráð. Vísurnar og ljóðin voru e.t.v. að einhverju leyti miðlar þessa tíma eins; gegndu sama hlutverki og tölvupóstur og fjölmiðlar í dag. Til að boðin skiluðu sér, þurfti að meitla setningar þeirra og ljóðstafi í form sem ekki yrði haggað. Þannig komust þau óbrengluð áfram til þeirra sem á þurftu að halda og á vildu hlýða - bæ frá bæ, mann fram af manni.

Mér er nær að halda að umræðan um uppgræðslu landsins í upphafi 20. aldar megi líkja við þá umræðu sem nú er allsráðandi um loftslagsmálin í heiminum eða þá umhverfisvakningu sem hér á sér stað í víðasta skilningi. Þjóðin sá og vissi, að margt var að og mörgu yrði úr að bæta. Þjóðin fór að skynja að til voru aðgerðir sem beita mátti og síðast en ekki síst: - þjóðin áttaði sig á því að hún var þess megnug að taka á þeim vanda sem við var að etja og var tilbúin til að greiða sína skuld.

Já - tíminn var kominn og þá þurfti einhvern til að reka smiðshöggið á verkefnið; setja lög á Alþingi sem ekki aðeins viðurkenndi uppgræðslustarfið, heldur og, að ákveðið skipulag yrði að vera á hlutunum, fjármagni yrði að veita til verkefnisins og á því yrði að vera stjórn. Það þarf engan að undra þótt smiðshöggið á þessa lagasetningu hafi öðrum fremur rekið Hannes Hafstein. Hugsjónamaður og skáld; víðlesinn og gáfaður; - stjórnmálamaður og íslenskur ráðherra með tilheyrandi áhrif og völd.

Lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands - eins og þau nefndust, voru ekki löng, aðeins 5 greinar. Það er hins vegar með þau eins og svo mörg önnur að lengdin segir ekki allt. Í raun og veru má segja að þessi lög gætu staðið óbreytt í dag og þrátt fyrir að sett hafi verið sérstök lög um skógrækt og önnur um landgræðslu eru þessi fyrstu lög rauði þráður þeirra beggja.

Mér finnst ástæða til að lesa fyrstu grein laganna:

?Skógrækt skal hefja með því markmiði að friða og bæta skóga þá og skógarleifar, sem enn eru hér á landi, rækta nýjan skóg og leiðbeina landsmönnum í meðferð skógs og gróðursetning. Í sambandi við það skal stund leggja á varnir gegn uppblæstri lands og sandfoki, þar sem því verður við komið. Yfirstjórn skógræktarmála og sandfoksmála hefur stjórnarráðið.?

Allt er þetta í gildi enn í dag, 100 árum síðar. Í dag finnst mér rík ástæða til að staldra aðeins við þá stöðu sem ríkti fyrir einni öld til að skýra enn frekar af hverju lögin voru sett. Er fjarri því að líkja megi þeim við neyðarlög - ég spyr?

Góðir hátíðargestir.

Í lögunum er tiltekið að friða beri skógarleifar. Margir skynjuðu að skógurinn var á miklu undanhaldi en jafnframt var víða hægt að finna merki um að þar hefði hann verið áður. Enn fremur báru einstaka staðir vitni um að nytu skógarleifarnar verndar, - yxi þar skógur að nýju.

Í þessu sambandi langar mig til að rifja upp stutta frásögn um ?Fundarhrísluna? í Þórðarskógi í Fnjóskadal, skrifaða af Jóni Kr. Kristjánssyni frá Víðivöllum í Fnjóskadal. Jón vitnar í Ólaf Pálsson sem fæddur var 1874 en hann segir svo í endurminningum sínum:

?Í Þórðarstaðaskógi var ein afarstór hrísla sem bar af öðrum hríslum og var hún kölluð ?Fundarhríslan?. Oft skemmtu menn sér við hríslu þessa, bæði dalbúar og aðkomufólk.  Alloft kom þangað fólk af Akureyri. Stundum kom það fyrir að hlutaveltur voru haldnar þarna og skemmtisamkomur. Ég man þar eftir ræðuflutningi og kvæðalestri.?

Annar maður, Jón Rögnvaldsson frá Fífilgerði, segir  svo í endurminningum sínum:

?Í Þórðarstaðaskógi, sem blasir við í hlíðinni gegnt Grjótagerði, var stórt rjóður. Þar var stór hrísla, talin stærsta tré skógarins og jafnvel á öllu Íslandi. Hún stóð ein og sér og var ákaflega mikið og fagurt tré. Þar voru haldnar samkomur á sumrin og fórum við þangað stundum með foreldrum okkar.?

Spyrja má; hvernig stóð á því að þessi stóra hrísla var þarna?

Um miðja 19. öldina og fram til 1893 bjó á Þórðarstöðum Jónatan Þorláksson sem ber að minnast sem eins fyrsta og merkasta verndara íslenskra skógarleifa á 19. öld. Ungur hafði hann verið smali föður síns og gerþekkti hinn víðlenda Þórðarstaðaskóg. Honum sveið að sjá hve nyrsti hluti hans, sem lá undir Fjósatungu, var illa farinn. Fjósatunga var þá í eigu eyfirskra presta er þóttu sumir harðdrægir og höfðu látið ryðja hvert skógarsvæðið eftir annað.

Eftir að Jónatan fékk nokkur ráð í hendur og síðar eftir að hann var orðinn bóndi, tók hann til óspilltra mála að bæta þennan skóg. Hann setti fastar reglur um grisjun hans og leið engum þar högg nema undir ströngu eftirliti. Meira að segja var á orði haft hvað hann, sem taldist hófsemdar- og geðprýðismaður, hefði verið strangur við smala sína, ef þeir vildu taka sér hríslu eða gönguprik í hönd.

Árangur þessara verka lét ekki á sér standa og við friðunina dafnaði skógurinn.

Einn náttúrufræðingurinn sem leið átti um skóginn á þessum tíma, Sæmundur Eyjólfsson, tók þannig til orða:

?Þá farið er um Þórðarstaðaskóg má sjá þess glögg merki að hann hefur orðið fyrir betri meðferð um langan tíma og meiri ræktarsemi og umhyggju en venjulegt er um skóga hér á landi. Er það sannast af að segja, að ég hef engan mann hitt fyrr, er með meiri alúð hefur viljað vernda skóginn á bújörð sinni og hlynna að honum en Jóhann á Þórðarstöðum.?

Með tilvitnun í frásagnir þessara  heiðursmanna er ég að benda á að þótt víða hafi verið gengið nærri skógi landsins og honum eytt, mátti finna menn sem mátu gildi skógarins og vildu varðveita hann og auka. Það er ekki síst slíkum mönnum að þakka að lög um skógrækt voru sett á Íslandi.

Eins og fram hefur komið giltu hin nýju skógræktarlög einnig um ?varnir gegn uppblæstri lands?. Síðar voru sett sérlög um sandgræðslu og enn síðar um landgræðslu en allt það starf á einnig lagalega rætur sínar að rekja til hinna nýju laga sem sett voru fyrir 100 árum síðan.

Að baráttu gegn uppblæstri lands hafði ekki síður verið hugað og reynt að finna leiðir til að sporna gegn landeyðingu af völdum sandfoks. Með lögunum komst það starf í fastan farveg. Mörgum Íslendingnum blöskraði hvernig komið var fyrir landinu; - það allt í tötrum eftir langvarandi náttúruharðindi og vægðarlausa nýtingu landsmanna á gæðum þess, með það að markmiði að halda lífi í skepnum svo börn þeirra gætu lifað. Að þreyja þorrann og góuna var fyrsta skrefið í þá veru og það þýddi að hver gróðurnál var beitt og afleiðingin var opin jörð.

Þegar íslenska þjóðin fagnaði konungi sínum á Þingvöllum 1874 kvað Hjálmar Jónsson frá Bólu svo í nafni fjallkonunnar:

Sjá nú, hvað ég er beinaber,
brjóstin visin og fölar kinnar,
eldsteyptu lýsa hraunin hér
hörðum búsifjum ævi minnar.
Kóróna mín er kaldur snjár
klömbrur hafísa mitt aðsetur,
þrautir mínar í þúsund ár
þekkir guð einn og falið getur.

 

 Þegar loks fór að rofa til varð mönnum ljóst að eitthvað yrði að gera til að stöðva sandana.

Í ritgerð sem Guðmundur Árnason í Múla ritar í bókina Sandgræðslan 50 ára tiltekur hann 43 jarðir í Landssveit einni, sem fóru í eyði eða flytja þurfti bæina sökum uppblásturs eða sandfoks. Má öllum vera ljóst hvílík hætta hefur stafað af sandinum á þessum slóðum. Í sama riti skrifar Páll Sveinsson þáverandi sandgræðslustjóri: ?Þó má það ljóst vera, að það, sem réð úrslitum, að hafist var handa um að hefta sandfok og aðra jarðvegseyðingu um og eftir síðustu aldamót, voru hin köldu, þurru og stormasömu ár síðust aldar, þ.e. frá 1880, en vitað er, að aldrei hefur eyðing jarðvegs hér á landi orðið eins stórkostleg og á því tímabili.?

Ágæta samkoma.

Ég hef viljandi dvalið nokkuð við fortíðina með það að markmiði að varpa ljósi á þá stöðu sem hér ríkti varðandi skógareyðingu og uppblástur landsins fyrir einni öld. Þetta ástand landsins fór ekki framhjá sífellt betur upplýstri þjóð og mörgum, þ.á.m. ráðamönnum blöskraði svo, að þeir sáu að við svo búið mátti ekki lengur standa. Á grundvelli þessa var ákveðið að setja lög í landinu sem tækju á þessum málum, - og eins og einhversstaðar segir: Síðan eru liðin mörg ár.

Skógrækt ríkisins og landgræðsla ríkisins hafa unnið mikið starf. Báðar þessar stofnanir hafa verið svo lánssamar að þeim hafa stýrt forystumenn;  - ekki aðeins dugnaðarmenn og hamhleypur til verka heldur og ekki síður einlægir hugsjónamenn sem aldrei hafa litið á líðandi stund sem markmið - heldur stöðugt horft fram til frekari átaka, - frekari ræktunar og uppgræðslu. Hver unnin bardagi er sigur í orrustunni sem vissulega stendur enn.

Hvorki er sanngjarnt né réttmætt að staðnæmast ekki um stund og fagna þeim gífurlega árangri sem náðst hefur í þessum málaflokkum. Hver tími hefur fætt af sér nýjar aðferðir og tækni byggðar á rannsóknum og tilraunum sérmenntaðra einstaklinga og nú, eftir aldar langa baráttu geta Íslendingar sannarlega horft stoltir yfir farinn veg hvað störf landgræðslu og skógræktar varðar.

Á báðum vígstöðum er gott um að litast og björgulegt bú. Skógrækt stunduð um allt land - orðin viðurkennd búgrein og íslenskir skógar skila nú arði í mörgum myndum og fjölbreytt nýting þeirra fer vaxandi. Landgræðslustarfið hefur skilað þeim árangri að loks má fullyrða að landið allt er í framför gróðurfarslega séð og tekist hefur að hefta eyðingu af völdum sandfoks á þeim svæðum þar sem sandurinn hefur verið hvað illvígastur. Ég leyfi mér því að fullyrða að lagasetningin fyrir 100 árum hefur skilað ríkulegum árangri.

Góðir hátíðargestir.

Á þessum tímamótum er skylt að þakka stofnununum vel unnin störf og það geri ég hér með af einlægni. Ófært er að telja upp alla þá sem að verki hafa komið en mér finnst þó rétt að tiltaka þá einstaklinga sem verið hafa í forystuhlutverkinu.

Agnar Kofoed Hansen, Gunnlaug Kristmundsson, Hákon Bjarnason, Runólf Sveinsson, Pál Sveinsson, Sigurð Blöndal og þá heiðursmenn sem nú standa við stjórnvölinn þá Jón Loftsson og Sveinn Runólfsson. Allt saman voru þetta og eru framsýnir og óeigingjarnir dugnaðarforkar sem unnið hafa að þessum málaflokkum af samviskusemi, framsýni og dugnaði. Bændum landsins, áhugafólki og öllu starfsliði stofnananna er sömuleiðis færðar þakkir fyrir allt þeirra framlag. Ég vil óska þess að handtökin öll megi áfram skila sem bestum árangri íslenskri þjóð og landinu okkar Íslandi til hagsbóta.

Ágæta samkoma. 

Ég lýk þessu ávarpi með því að biðja ykkur að sýna þakklæti ykkar til allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóg í skógræktar- og landgræðslustarfi, hvar svo sem þeir eru og hvað svo sem þeir hafa gert Íslenskri fósturjörð til góða.

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum