Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

43. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, 29. nóvember 2007

Ávarp Einars Kristins Guðfinnssonar

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á 43. þingi FFSÍ 29. nóvember 2007.

Þingforseti – ágætu þingfulltrúar. Velkomin til þings og til hamingju með 70 ára afmæli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Sagan af brauðinu dýra, er stutt saga eftir nóbelsskáldið okkar Halldór Laxness. Sagan gerist í Mosfellsdal og í stuttu máli segir þar frá hrakningum Guðrúnar nokkurrar Jónsdóttur vinnukonu á Mosfelli, sem send var eftir nýju pottbrauði úr seyðslu í hverasandi hinum megin við ána og þessa leið hafði Guðrún gengið ótal sinnum. Er ekki að segja frá því að Guðrún villist á heimleiðinni og ráfar um nótt og dag, uns hún hnígur niður á þriðja degi, þreytt og hungruð, tilbúin að deyja sínum drottni.  Þegar loks leitarmenn finna hana, og eftir að hún kemst til rænu, er hún spurð af hverju hún hafi aldrei brotið sér mola af þessum pottbrauðshleif sem hún hélt í hendinni á þessu lánga ferðalagi nótt og dag yfir fjöll og firnindi, og svarað þá konan:

„Maður étur nú líklega ekki það sem manni er trúað fyrir barnið gott“.

„Var þér þá sama hvort þú lifðir eða dóst, bara að brauðið kæmist af“, var aftur spurt.

„Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir“, segir þá Guðrún Jónsdóttir vinnukona.

 

Eitthvað viðlíka gæti ég eflaust sagt við ykkur á þessu þingi.  Mér er fullljóst að þið eruð ekki alls kostar sáttir við þá ákvörðun mína að skera niður aflaheimildir í þorski.  Ég hefði getað valið auðveldari leið. Til skamms tíma hefði það verið þægileg leið; kannski létta leiðin ljúfa – og ég efa ekki að ýmsir hefðu talið hana lofsverða. En eitt ætla ég að fullyrða. Það hefði verið skammgóður vermir. Allt það sem við sjáum í spilum hafrannsóknanna segir okkur að fyrir næsta Sjómannadag hefðum við þá staðið frammi fyrir ennþá alvarlegri stöðu. Ákvörðun mín frá því í júlí síðast liðinn tók mið af þessu. Ég taldi einfaldlega að af tveimur erfiðum kostum væri sá miklu lakari að forðast að takast á við verkefnið núna; eða að éta af því dýra brauði sem mér var trúað fyrir.

 

Ég hef á aðalfundum Landssambands íslenskra útvegsmanna,  Landssambands smábátaeigenda og Samtaka fiskvinnslustöðva í haust gert ítarlega grein fyrir og rætt um ákvörðun mína um að minnka þorskkvótann á yfirstandandi fiskveiðiári, hvað lá til grundvallar og hvernig að þessu var staðið. Ég ætla því ekki að fara enn og aftur ofan í þá sauma hér.

 

Mér er það ljóst að þessi harkalega ákvörðun mín hefur afleiðingar í för með sér – alvarlegar afleiðingar – sem mér voru ljósar strax frá upphafi; að minnsta kosti í meginatriðum. Hið sama gilti um ríkisstjórnina í heild sinni. Það var af þeim ástæðum sem ríkisstjórnin kynnti margháttaðar aðgerðir og kostnaðarsamar til þess að bregðast við. Það er nefnilega allsendis rangt sem ýmsir hafa látið í veðri vaka og reyndar sagt hreint út, að ekkert sé gert fyrir greinina og þá sem innan hennar starfa. Það er þvert á móti, eins og ég skal nú drepa á.

 

Fyrst er þar til að taka að í beinhörðum peningum nema þær mótvægisaðgerðir sem beinlínis tengjast sjávarútvegsráðuneytinu og hægt er að meta til fjár á þessari stundu 570 milljónum króna. Þar af eru 250 milljónir vegna niðurfellingar á veiðigjaldi á þorski á þessu fiskveiðiári en ómögulegt er að segja til um hver upphæðin verður á næsta fiskveiðiári þar sem þetta er tengt afkomu greinarinnar. Hundrað og fimmtíu milljónir króna alls á þremur árum eru til að efla togararall Hafrannsóknastofnunarinnar og 120 milljónir króna skiptust jafnt á milli sex rannsóknastofnana og -setra vítt og breitt um landið.

 

Vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að efla samkeppnissjóði, hækka framlög til AVS-sjóðsins í fjárlögum 2008 um 50 milljónir króna. Því til viðbótar var ákveðið að verja öðrum 50 milljónum til AVS og nemur þetta því samtals 100 milljónum króna. Auk þessa ákvað ég að hækka framlag til samkeppnisrannsókna Verkefnasjóðs sjávarútvegsins úr 25 milljónum króna í 50 milljónir króna á ári. Auknu rannsóknafé skal fyrst og fremst beint til þorskrannsókna.

 

Þegar þetta er allt talið saman nemur upphæðin 645 milljónum króna og þar af eru 570 milljónir vegna mótvægisaðgerðanna. Þessi tala á eftir að hækka enn frekar þegar ljóst verður hvert veiðigjald af þorski hefði orðið á næsta fiskveiðiári. Sumir gera lítið úr þessu. Það verður hver og einn að meta fyrir sig en ég ítreka þá það sem ég sagði á sínum tíma: Það kemur ekkert í staðinn fyrir 60 þúsund tonn af þorski.

 

Það ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að segja svo sjálfsagðan hlut – en miðað við sumt úr umræðunni er eins og það veiti ekki af því að ítreka það og því segi ég þetta enn og aftur.

 

Ég vil árétta að nú er verið að auka verulega fjármuni til hafrannsókna. Veit ég vel að menn greinir á um áreiðanleika þeirra eins og sakir standa. En um hitt held ég menn séu þó sammála, að svarið sé ekki að draga úr þessum rannsóknum. Þvert á móti. Svarið er að efla þær á alla lund. Sérstaklega hafa menn fundið að því að forsendur og fyrirkomulag togararallsins sé orðið úrelt þing. Svar okkar er að leggja 150 milljónir aukalega á þriggja ára tímabili til að efla þessar grundvallarrannsóknir vegna stofnstærðarmatsins. Það er að mínu mati engin smáupphæð og enginn getur haldið því fram með rökum að það muni ekki um annað eins.

 

Hafrannsóknastofnunin hefur nú það verkefni að vinna að undirbúningi hins nýja togararalls, með sjómönnum og útvegsmönnum – þ.e. þeim sem gleggst vita um þessi mál. Fara á skipulega yfir framkvæmd og niðurstöður togararalls undangenginna 20 ára með það í huga að betrumbæta verkefnið, gera tillögur þar um og laga að nýjum aðstæðum, m.a. þeim miklu umhverfisbreytingum sem orðið hafa í hafinu undanfarin ár.  Markmiðið er  að samstaða geti skapast um fyrirkomulagið og að okkur takist að vinna sem best úr þessum rannsóknum í þeim tilgangi að auka áreiðanleika þeirra. Nýlega var skipað í faghóp um þetta verkefni. Af hálfu Farmanna og fiskimannasambandsins voru Páll Halldórsson og Birgir Sigurjónsson tilnefndir. Frá LÍÚ eru Guðmundur Kristjánsson og Kristján Vilhelmsson og frá LS er Arthúr Bogason. Þá sitja fjórir fulltrúar Hafrannsóknastofnunarinnar í hópnum, Björn Ævar Steinarsson, Höskuldur Björnsson, Þorsteinn Sigurðsson og Jón Sólmundsson sem leiðir starfið.

 

Enn fremur veit ég að á næstu dögum kemur saman samstarfshópur um þorskrannsóknir sem hefur á að skipa sérfræðingum frá Hafrannsóknastofnuninni og mönnum úr útveginum, þ.m.t. fulltrúum skipstjórnarmanna allt í kringum landið og af mismunandi skipum. Hópurinn hittist árlega á tveggja daga fundi til að ræða gang þorskveiðanna á árinu og horfur. Slíkt samráð er afar vel til þess fallið að auka samhljóm í atvinnugreininni sem nauðsynlegt er að skapa.  

 

Þá vek ég athygli á því að með okkar sértæku aðgerðum verða rannsóknir fjölbreyttari. Verið er að styrkja þau sjávarrannsóknasetur sem komið hefur verið á laggirnar úti um landið sem og útibú Hafrannsóknastofnunarinnar. Sérstakur samkeppnissjóður á sviði hafrannsókna sem ég beitti mér fyrir strax og ég settist í stól sjávarútvegsráðherra haustið 2005, verður nú tvöfaldaður og áherslum sérstaklega beint að þorskrannsóknum. Umsóknarfrestur vegna þessara rannsókna á yfirstandandi ári er liðinn og vænti ég mikils af því starfi. Þetta leiðir af sér tvennt: Í fyrsta lagi eykst fjölbreytni rannsókna og þeim ábendingum er mætt að opna þurfi fleirum leiðir en hingað til að hafrannsóknum hér við land. Í annan stað verður þetta til þess að við löðum fram aukið rannsóknafjármagn, sem á að geta orðið til að auka heildarumfang hafrannsókna við landið.

 

Eðlilega eru skiptar skoðanir um hvernig ráðstafa beri meira en 10 milljörðum króna, sem varið er til margvíslegra mótvægisaðgerða. Fyrir ríkisstjórninni vakti að veita þessu fé til stuðnings þeim byggðarlögum og þeim landsvæðum sem mest þurfa á því að halda vegna þorskaflaskerðingarinnar. Þar er bæði um skammtíma- og lengri tíma aðgerðir að ræða til að stuðla að breytingum sem gera sjávarbyggðirnar betur í stakk búnar til að mæta sveiflum. Kjarni aðgerða ríkisstjórnarinnar er að treysta forsendur atvinnulífsins með átaki til að styrkja innviði samfélaganna á sviði menntunar, samgangna, fjarskipta, rannsókna og vísinda. Þetta felur í sér að komið er til móts við þarfir sjávarútvegsins almennt og þarfir atvinnulífsins á landsbyggðinni sérstaklega. Ef menn gæta fyllstu sanngirni er ekki hægt að halda því fram að ekki muni um 10 milljarða króna aðgerðir sem miða sérstaklega að því að bæta stöðu sjávarbyggða og útvegsins. Og eitt ætla ég að segja fullum fetum og alveg sama hvað hver segir. Fjármagn sem fer til uppbyggingar samgangna, sem leiðir til lægri kostnaðar fyrir heimili og fyrirtæki og skapar nýja viðspyrnu í atvinnulegu tilliti, gagnast fólki í sjávarútvegi, hvort sem er til sjós eða lands. Uppbygging menntunar úti um landið er í þágu landverkafólks og sjómanna, ekki síður en annarra, bætt fjarskipti bæta lífsgæði fólks í sjávarútvegi ekki síður en annarra og styrkja forsendur þeirra byggða þar sem sjávarútvegurinn er undirstaðan. Úrræði sem hafa í för með sér aukin umsvif í öðrum atvinnugreinum á landsbyggðinni, skapa tækifæri fyrir sjómenn og landverkafólk í sjávarútvegi til atvinnuþátttöku í sínum heimbyggðum. Og því ítreka ég það. Þetta skal skipta máli!

 

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr vandanum sem við blasir. Heldur aðeins að undirstrika að fyrir ríkisstjórninni vakti að setja fram tillögur sem væru í þágu íbúa þeirra svæða sem verða fyrir mestum búsifjum vegna minni tekna sem fylgja skertum aflaheimildum í þorski.

 

Árni Bjarnason forseti FFSÍ færði í tal við mig nú síðsumars að unnt sé með tilteknum aðgerðum að milda höggið sem sjómenn verði fyrir vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Hann nefndi sérstaklega tvennt í því sambandi: Annars vegar að breyta reglum og vinnubrögðum um svokölluð reglugerðarhólf og friðuð hólf innan lögsögunnar. Hins vegar að breyta viðmiðunarmörkum í ýsu. Ég brást við með þeim hætti að koma á fundi valinkunnra skipstjóra og fulltrúa Hafrannsóknastofnunarinnar þar sem ég lagði áherslu á að við leituðum leiða til þess að auka aðgengi að ýsu og fleiri tegundum sem ella væri hætt við að ekki væri unnt að nýta vegna minni aflaheimilda í þorski.

 

Í framhaldi af þessum fundarhöldum ritað ég síðan Hafrannsóknastofnuninni bréf  í september sl. þar sem ég óskaði  eftir að því að stofnunin gerði tillögur um hvernig auka mætti veiðimöguleika á ýsu, ufsa og karfa. Óskað var sérstaklega eftir að kannaðir yrðu fimm þættir:

 

?   Í fyrsta lagi að stofnunin skoðaði gaumgæfilega hluta lokaðra hólfa norðanlands þar sem talin er líkleg ýsuslóð.

?   Í öðru lagi lækkun viðmiðunarmarka vegna ýsuveiða.

?   Í þriðja lagi rýmkun á notkun skilja fyrir suðausturlandi og útaf norðvesturlandi m.t.t. nýtingar ýsustofns.

?   Í fjórða lagi núgildandi reglugerðarákvæði um friðun á karfasvæði vestan við landið m.t.t. meiri veiðimöguleika á ýsu, ufsa og karfa.

?   Og í fimmta lagi að flýta rannsóknum á notkun lagskiptrar vörpu við togveiðar til að skilja að ýsu og þorsk.

 

Ykkur er eflaust kunnugt um að sitt hvað er komið til framkvæmda af þessum liðum, sumt að hluta en annað að fullu.

 

–Viðmiðunarmörk við ýsuveiðar hafa t.d. verið lækkuð og eru nú miðuð við að ná fjögurra ára ýsu og eldri. Uppistaðan í veiðinni á yfirstandandi fiskveiðiári verður úr hinum stóra árgangi frá árinu 2003 sem olli stórauknum fjölda skyndilokana á ýsu allt þar til viðmiðunarmörkunum var breytt.

 

–Búið er að opna eitt hólf við utanverðan Húnaflóa og í þessari viku var numin úr gildi reglugerð sem áskildi notkun skilju norður af Horni. 

 

–Rýmri heimildir hafa verið veittar fyrir notkun skilja úti fyrir suðausturlandi og til skoðunar er að gera slíkt hið sama úti fyrir norðvesturlandi.

 

–Komið hefur verið til móts við óskir um að rýmka veiðisvæði vestan við landið með því að heimila veiðar að nóttu í hólfi vestur af Breiðafirði, svokallað næturhólf.

 

–Og að síðustu hefur það sennilega ekki farið fram hjá neinum í ykkar röðum að tilraun var gerð með lagskiptri vörpu í lok síðasta mánaðar og lofa niðurstöðurnar góðu. Jafnframt hefur verið ákveðið að gera frekari tilraunir á þessu og hefjast þær að öllum líkindum í næstu viku. Gaman verður að fylgjast með þróun þessara rannsókna því ef vel tekst til má væntanlega auka valhæfni botnvörpunnar gagnvart mismunandi tegundum og hugsanlega gera notkun skilju þar með óþarfa.

 

Með þessum aðgerðum vildi ég freista þess að koma til móts við vel rökstuddan málflutning forystumanna ykkar og margra skipstjórnarmanna sem ég hef rætt við á umliðnum mánuðum í kjölfar niðurskurðar aflaheimilda. Mér er það ljóst að við verðum að gera allt sem unnt er til að það takist að gera sem mest verðmæti úr því sem veitt er og tryggja aðgengi að þeim fisktegundum sem við viljum ná. Það mun stuðla að bættum kjörum íslenskra sjómanna og útgerða og veitir svo sannarlega ekki af núna, eins og við vitum.

 

Ágætu þingfulltrúar.

Fyrir tæpu ári var mér fært fyrsta eintakið af fyrsta bindi mikils öndvegisrits, Skipstjórnarmanna eftir Þorstein Jónsson. Þetta er fyrsta bindið af sex um íslenska skipstjórnarmenn og sjávarútveg. Það er ekki ofsögum sagt að höfundurinn hafi unnið mikið þrekvirki við þrotlausa söfnun heimilda, skráningu þeirra og við að koma herlegheitunum á prent. Þetta er metnaðarfullt verk með æviskrám um það bil 7.600 skipstjórnarmanna, allt frá því Íslendingar hófu að gera út þilskip og til þeirra er luku skipstjórnarprófi 2006. Hvert bindi verður um 640 blaðsíður með vel á þriðja þúsund mynda og ritverkið allt hátt í 4.000 síður. Þetta er því tæpast bók sem menn glugga í upp í rúmi svona rétt fyrir svefninn. En því betra er að gefa sér gott tóm til að lesa og njóta hins ríkulega innihalds. Ég sagði í formála fyrsta bindis: Augljóst er að ritstjórinn, Þorsteinn Jónsson, hefur haft allar árar úti við þrotlausa vinnu sína undanfarinn áratug. Óneitanlega leitar á hugann að höfundinn hafi ekki órað fyrir hve mikið var færst í fang en afraksturinn er glæsilegur, sannkallað tímamótaverk. Ég held að þetta hafi síst verið ofmælt. Þarna er á ferð ómetanlegt heimildarit sem höfundur og ekki síður þið getið verið ákaflega stolt af.

 

Það er líka ástæða fyrir okkur að vekja athygli á starfi íslenskra sjómanna í gegnum aldirnar. Íslenskir sjómenn eru í fremstu röð og hefur tekist að gera það sem ekki er mjög algengt í hinum tæknivædda heimi. Að nýta sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti og gera úr henni verðmæta vöru sem stendur undir einhverjum bestu lífskjörum í heimi. Eða dettur nokkrum í hug að við Íslendingar hefðum annars náð þeim einstæða árangri að vera komnir í efsta sæti á lista Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um lífskjör. Sannarlega má margt betur fara í sjávarútvegi, en þetta er þó árangur sem enginn skyldi gera lítið úr.

 

Veit ég vel að hljóðið í mörgum sjómönnum er þungt þessa stundina, því ofan í minni aflaheimildir hafa dunið á okkur gengishækkanir sem skert hafa tekjur sjómanna, svo ekki séu nú nefndar haustbrælurnar. Gamall vinur minn, skipstjóri, sagði að vísu við mig einu sinni þegar ég var að kvarta undan tíðarfarinu. Það hefur aldrei komið svo langvinn bræla að ekki hafi lægt um síðir. Og þannig er það og á örugglega við um fleira en brælur hafsins. Við vitum að margt gengur okkur í mót en gleymum því þá ekki að markmið þess sem við erum að gera, er að bæta aðstæður til sjósóknar og sjávarútvegs almennt. Enginn mun því njóta þess jafn vel og sjómenn og aðrir þeir sem starfa í sjávarútvegi. Það ástand sem við glímum við er tímabundið og það er mín sannfæring að framtíðin muni bera í skauti sér aukin tækifæri og bætt kjör, íslenskri sjómannastétt og íslenskum sjávarútvegi til handa.

 

Góðir fundarmenn

Á þessu ári fagnar félag ykkar merkum tímamótum – 70 ára afmæli – sem vissulega telst stórafmæli. Ykkar félagsskapur líkt og fleiri á sér langa sögu sem leiðir hugann aftur í tímann þegar íslensk þjóð var að hefja sitt framfaraskeið. Félög – eitt af öðru – voru stofnuð og flest með það fyrir augum að berjast fyrir rétti síns fólks. Fjöldi þeirra starfar enn þótt verkefnin kunni að hafa breyst. Marga sigrana hafa ykkar hagsmunasamtök unnið en þrátt fyrir það er og verða alltaf verkefni fyrir stafni til að vinna að. Áhrifum fylgir vald, ekki aðeins til varnar heldur og til sóknar og þessu valdi kunni þið að stýra ekki síður en íslenska flotanum.

 

Samstarf okkar hefur verið gott. Vissulega greinir okkur stundum á en það er til marks um hreinskiptin og heiðarleg skoðanaskipti sem ávallt eru fyrir bestu. Það eru óneitanlega forréttindi að geta leitað ráða hjá öflugum samtökum innan greinarinnar þegar á þarf að halda. Um leið og ég þakka árangursríkt og gott samstarf, hvort heldur er við hinn almenna félagsmann eða forystu ykkar, óska ég eftir að það megi verða svo áfram um ókomna tíð.

 

Ég sömuleiðis vona að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands muni um ókomin ár áfram reynast félagsmönnum sínum og öðrum þeim sem við sjávarútveginn vinna, traustur aðili, mikils metinn og vel virtur.

 

Gæfan fylgi öllum störfum þess og ykkar.

 

Ég óska þinginu árangursríkra starfa og ykkur og íslenskum sjávarútvegi hagsældar og góðs gengis.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum