Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Stöðumat og stefnumótun fyrir þorskeldi, ráðstefna á Grand hóteli Reykjavík 29. nóvember 2007.

Ávarp Einars Kristins Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

við setningu ráðstefnunnar Stöðumat og stefnumótun fyrir þorskeldi.

Grand hóteli Reykjavík 29. nóvember 2007.

Ágætu ráðstefnugestir.

Það er mér mikil ánægja að sjá hversu vel þessi ráðstefna sem nú er að hefjast er sótt og ég sé á fyrirliggjandi dagskrá og ráðstefnugögnum að hér verður mikill fróðleikur fram borinn. Jafnframt vænti ég þess að umræður verði gagnlegar.

 

Nú um nokkurra ára skeið hefur svokallaður AVS-sjóður starfað á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Sjóðurinn hefur að inntaki að auka verðmæti sjávarfangs og af því dregur hann nafn sitt. Meginstarfsemi sjóðsins felst vitaskuld í útdeilingu rannsókna- og þróunarstyrkja og því er slíku tengist en einnig er honum ætlað að efla fagstarf innan greinarinnar með annarri starfsemi og er ráðstefnan sem við erum saman komin á gott dæmi um slíkt.

 

Ráðuneytið hefur auðvitað stutt slíka viðleitni alla tíð svo sem í gegnum stofnanir sínar, nefndastarf ýmiss konar og með aðkomu að styrkveitingum, hvort sem er beint eða óbeint. Umfram annað hefur ráðuneytið og þeir sem þar hafa stýrt för, þ.e. sjávarútvegsráðherrar í gegnum tíðina, reynt að gera sitt til að skapa atvinnugreininni rekstrargrundvöll. Ekki með rekstrarstyrkjum og niðurgreiðslum heldur með því að tryggja heilbrigt rekstrarumhverfi og forðast íþyngjandi reglubyrði. Sú leið er hollust, rekstrarstyrkir og niðurgreiðslur geta fært líkn í bráð en gefa ekkert af sér til lengdar. Þá dugir það eitt að hafa aðstæður til að spjara sig sjálfur og minnast þess að sjálfs er höndin hollust. Þessum framtaksanda vil ég viðhalda í sjávarútveginum og á þessum grunni vil ég að við byggjum fiskeldið upp.

 

Þannig er að það er ekki í fyrsta sinn núna sem menn hafa haft uppi miklar væntingar þegar fiskeldið er annars vegar og eflaust setur hroll að sumum þegar þeir heyra minnst á hið svokallaða fiskeldisævintýri sem reið hér yfir á níunda áratugnum. Hins vegar skulum við ekki líta svona á málin heldur þvert á móti. Reynslan er til að læra af henni og hvar stæðum við í vísindum og þekkingu ef aldrei hefðu verið gerðar tilraunir og sumar kostnaðarsamar. Skal ég nú skýra mál mitt ögn nánar. Þá er fyrst til að taka að grunngerð atvinnuvegarins, sjávarútvegs, er allt önnur í dag en hún var á níunda áratugnum. Fyrirtækjunum hefur vaxið þvílíkt fiskur um hrygg og þeim er nú ætlað að hafa alla forystu um uppbyggingu þessa atvinnuvegar en ekki hinu opinbera eins og þá var í of ríkum mæli. Hið opinbera mun þó ekki láta sitt eftir liggja og þannig kappkostum við í sjávarútvegsráðuneytinu að hafa forystu um að móta meginstefnu og setja atvinnugreininni trausta regluumgjörð í nánu samstarfi við greinina sjálfa. Hitt er ekki síður mikilvægt að hið opinbera stuðli að uppbyggingu þekkingar á þessu sviði. Þar munu styrkir úr AVS-rannsóknasjóðnum reynast mikilvægir, auk þeirrar starfsemi sem fram fer á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, Matís og hjá skólastofnunum landsins , s.s. við Hólaskóla og Háskólann á Akureyri en við báðar þessar stofnanir hefur ráðuneytið átt gott samstarf.

 

Lengi vel var meira afli beint að eldi ferskvatns- en sjávarfisks og mun meiri þekking er þannig til staðar um t.d. laxeldi heldur en þorskeldi. Gildir þetta bæði um erlenda sem innlenda þekkingu. Hvað varðar uppbyggingu þorskeldis getum við þó mikið lært af laxeldinu, bæði hvað snertir yfirfærslu þekkingar og þróun í markaðsmálum. Í laxeldinu er t.d. þekkt hvernig verðið hrundi þegar hinn gríðarlega framleiðsla Chilemanna flæddi inn á Evrópumarkaðinn. Þannig varð dýr lúxusmatur eins og lax allt í einu að tiltölulega ódýrum hversdagsmat. Þetta hefur breytt öllum rekstrarforsendum laxeldis. Auk þess sem þessi mikla magnframleiðsla hefur aukið umhverfisálagið verulega þar sem framleiðslan fer fram. Af þessu verðum við að læra og hafa inntak sjálfbærrar nýtingar að leiðarljósi í fiskeldinu rétt eins og í fiskveiðum okkar. Hvað þorskeldið varðar verðum við að sækja fram. Sú stefna hefur nú verið mótuð að leggja áherslu á að koma upp kynbættum eldisstofni þorsks og stuðla þannig að því að þorskeldið verði sem allra fyrst starfrækt sem aleldi, þ.e. eldisferillinn spanni allt frá hrognastigi til sláturfisks. Fyrstu árin er þó mikilvægt að afla reynslu með hinu svokallaða áframeldi, þar sem smáþorskur er fangaður og alinn í sláturstærð í kvíum.

 

Við þurfum jafnframt að vera þess meðvituð að í þorskeldinu bíður okkar vafalaust hörð samkeppni. Við því er ekkert að gera annað en einfaldlega að gera betur. Mikil reynsla okkar á hvítfiskmörkuðunum erlendis mun reynast ómetanleg. Við erum ekki að fást við sölu með einhvern hverfulan lúxusmat sem fólk getur einn góðan veðurdag fengið leið á heldur erum við að fást við að selja hversdagsmat sem í sjálfu sér er lúxusmatur að hollustu til og gæðum en í eðli sínu þannig að enginn fær leið á honum.

 

Góðir fundarmenn.

Það er einmitt þetta síðastnefnda atriði sem setur þorskinn í nokkra sérstöðu. Hann hefur lengi haft afar sterka stöðu á hvítfiskmörkuðunum og þorskstofninn hér við land hefur verið ein helsta auðlind okkar Íslendinga enda sá fiskstofn sem hefur gefið mest af sér til þjóðarbúsins. Efling þorskeldisins er mjög brýnt verkefni en fyrir liggur að markaðirnir æpa eftir meiri þorski því veiðar á þorski úr Norður-Atlantshafi hafa dregist saman um 3 milljónir tonna á tæpum fjórum áratugum, eða úr 3,9 milljónum tonna árið 1968 í um 840 þúsund tonn árið 2005 af þessu hafa allar fiskveiðiþjóðirnar sem í hlut eiga mátt súpa seiðið.

 

Þarna þarf þorskeldið að koma til auk þess sem við væntum vitaskuld góðs af uppbyggingu fiskstofnanna í hafinu. Þessi árin á sér stað mikil framþróun þorskeldisins, sérstaklega í Noregi. Framleiðsla á eldisþorski í Noregi hefur aukist mikið á síðustu árum eða úr tæpum tvöhundruð tonnum árið 2000 í u.þ.b. ellefuþúsund tonn árið 2006. Framan af kom framleiðslan fyrst og fremst úr áframeldi en þá er villtur fiskur fangaður og fóðraður í kvíum í ákveðinn tíma fyrir slátrun. Nú er aleldi, þ.e.a.s. eldi frá klaki upp í fisk í markaðsstærð, allsráðandi í norsku þorskeldi. Framleiðsla eða magn eldisþorsks sem var slátrað á Íslandi hefur aukist úr um tíu tonnum árið 2000 í um fjórtánhundruð tonn árið 2006. Framan af kom framleiðslan eingöngu úr áframeldi en nú á síðustu árum einnig úr aleldi. Í Bretlandi var slátrað um 550 tonnum árið 2006 en í öðrum löndum er eingöngu um að ræða tilraunaeldi og framleiðslan fram að þessu verið lítil.

 

Við verðum að tryggja að við glötum ekki stöðu okkar á alþjóðamörkuðum fyrir þorsk. Sú hætta kann að skapast ef við drögumst aftur úr öðrum þjóðum á sviði þorskeldis. Gleymum því ekki að þorskurinn er okkar langmikilvægasta nytjategund og við höfum lagt gríðarlegt fjármagn í nýtingu hans. Gildir það ekki síst um störf okkar að markaðssetningu á þorski. Það er ljóst að aðrar þjóðir eru að setja umtalsverða fjármuni og þekkingu í þróun fiskeldis. Ef við sitjum hjá með hendur í skauti kunnum við að lenda í þeirri stöðu að glata því forystuhlutverki sem við höfum náð á mörkuðum erlendis. Við eigum hérna líka ákveðið tækifæri sem ekki er til staðar alls staðar annars staðar. Hér á landi hefur fjárfesting í þorskeldi fyrst og fremst átt sér stað á vegum fyrirtækja og einstaklinga sem starfa í sjávarútvegi. Hjá þessum aðilum er saman komin ómetanleg þekking á veiðum, meðferð, vinnslu og markaðssetningu á þorski og þorskafurðum. Víða erlendis, til dæmis í Noregi fer þessi fjárfesting fyrst og fremst fram hjá fjárfestum sem ekki hafa jafnframt til að dreifa þessari þekkingu. Hér er sem sagt til staðar forskot sem við eigum að nýta, okkur til framdráttar.

 

Við Íslendingar höfum aflað okkur umtalsverðrar færni í þorskeldi með tilraunum með áframeldi og þegar hafa fyrstu skrefin verið stigin hvað aleldið varðar. Í því sambandi liggur fyrir að til þess að þorskeldið geti orðið af einhverri þeirri stærðargráðu sem vegur á móti niðurskurði á veiðum á villtum þorski svo að nokkru nemi þarf að stórauka aleldið Nú eru skipulegar kynbætur á þorski, með það að markmiði að koma upp eldisstofni með bætta arfgerð í mikilvægustu eldiseiginleikunum, komnar vel af stað. Í framhaldi af því verður að stórauka seiðaframleiðslu og um það markmið verður að nást samstaða sem byggist á þekkingu; erlendri og innlendri, og raunhæfum rekstrarviðmiðunum. Í seiðaframleiðslunni verður það markmið að nást hér á landi að kynbætt eldisseiði fáist á samkeppnishæfu verði gagnvart útlöndum en svo að það takist – og eins hitt að þorskeldið verði nægjanlega stórt í sniðum – þarf að koma upp seiðaeldisstöð með umtalsverða framleiðslugetu, a.m.k. 10 milljónir seiða árlega.

 

Ég hef nú skipað nefnd undir forystu Kristins Hugasonar búfjárkynbóta- og stjórnsýslufræðings í sjávarútvegsráðuneytinu. Nefndinni er ætlað að móta tillögur og framkvæmdaáætlun um uppbyggingu þorskeldis á Íslandi með sérstaka áherslu á að kanna möguleika á byggingu og starfrækslu slíkrar seiðaeldisstöðvar sem þjónað gæti allri matfiskframleiðslu í landinu. Nefndin er skipuð fulltrúum atvinnulífs og fræðimanna og hefur því víðtæka þekkingu á viðfangsefninu. Henni er enn fremur ætlað að leita fanga hjá þeim aðilum sem styrkt geta það efnislega starf sem nefndinni er ætlað að vinna. Nefndin mun skila áfangaskýrslu til mín í mars á næsta ári og þá verður tekin ákvörðun um næstu skref í málinu.

 

Ágætu tilheyrendur okkar getur beðið glæsilegt uppbyggingarskeið í þorskeldi hér á landi og að því þurfum við öll að stuðla með ráðum og dáð. En ég minni á orð mín hér fyrr í ræðunni: Frumkvæði og framkvæmdir verða að koma frá atvinnulífinu sjálfu. Það er farsælast í bráð og lengd.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum