Hoppa yfir valmynd
28. mars 2008 MatvælaráðuneytiðBjörgvin G. Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Virkjum fjármagn kvenna

Björgvin G. Sigurðsson

viðskiptaráðherra

Afhending á námstefnunni: Virkjum fjármagn kvenna

Hilton Reykjavík, 28. mars 2008

 Góðir gestir

Það er gaman að sjá hvað margir eru mættir hér í dag á þessa námsstefnu um verkefnið: Virkjum fjármagn kvenna. Ég býð ykkur öll velkomin fyrir hönd aðstandenda námsstefnunnar.

Staðreyndirnar blasa við. Of fáar konur sitja í áhrifastöðum í atvinnulífinu og hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja er of lágt. Þessu verðum við að breyta. Það er ekki lengur hægt að sitja og bíða eftir því að ástandið breytist sjálfkrafa. Konur og karlar verða að taka höndum saman um úrbætur. Námsstefna eins og þessi er einn liður í því að skipuleggja það starf sem fyrir höndum er.

  

                                                                                              II.

Efast má um að allir deili þessu sjónarmið okkar sem hér þingum í dag. Þess vegna er mikilvægt að við höldum á lofti kostum þess að auka hlut kvenna í stjórnum og áhrifastöðum í íslensku viðskiptalífi. Slík umræða er sem dropinn sem holar steininn. Hún er mikilvæg og mun leiða til þess að áhrif kvenna munu aukast.

 

Konur standa oft utan við hefðbundin tengslanet viðskiptalífsins og þær er því síður sýnilegar og kunna því að njóta minna trausts þeirra sem skipa í stjórnir og áhrifastöður. Því er ráðstefna sem þessi mikilvæg. Framtak Félags kvenna í atvinnurekstri fyrr á árinu, sem m.a. viðskiptaráðuneytið styrkti, “Við segjum já” er einnig eftirtektarvert. Fróðlegt verður að sjá hverju það skilar þegar árið 2008 verður gert upp.

 

Kannanir sýna að þau fyrirtæki sem hafa bæði konur og karla í stjórn skila betri árangri en þau sem eingöngu skipa körlum í forystu. Í blönduðum stjórnum nýtist hæfni og þekking sem önnur fyrirtæki fara á mis við. Fyrirtæki hafa ávinning af aukinn víðsýni og fagmennsku sem leiðir af jafnari kynjahlutföllum í stjórnum og stjórnunarstöðum. Ennfremur hefur verið sýnt fram á jákvæð tengsl á milli fjölda kvenna í stjórnum og bættra stjórnarhátta og nýlegar athuganir CreditInfo á Íslandi sýna að fyrirtæki með konur í stjórn lenda síður í alvarlegum vanskilum.

 

III.

Ég hef áður sagt að það sé æskilegast að frumkvæði að breytingum á kynjahlutföllum í stjórnum fyrirtækja komi frá fyrirtækjunum sjálfum. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar geta reynt að hafa áhrif á viðskiptalífið með ýmsum óbeinum hætti.

 

Ef fyrirtækin sýna ekki frumkvæði og skynja ekki að aukin þátttaka kvenna er í þágu þeirra eigin hagsmuna, er ljóst að afskipti löggjafans koma sterklega til greina. Lögfesting á kynjakvóta er þó líklega ekki skynsamleg fyrsta skref, heldur væri rétt að byrja á að lögfesta upplýsingaskyldu fyrirtækja um nöfn, stöðuheiti og ábyrgðarsvið stjórnarmanna og æðstu stjórnenda fyrirtækja, en slík upplýsingaskylda þekkist víða erlendis.

 

Slíkt stuðlar bæði að því að fyrirtæki verði í auknum mæli meðvituð um skipun í stjórnir og ábyrgðarstöður auk þess sem slíkt auðveldar öflun gagna um kynjahlutföll stjórnar og stjórnenda í fyrirtækjum. Ef ljóst þykir að ekkert annað dugar er ekki hægt að útiloka beitingu lögbundins kynjakvóta, líkt og gert hefur verið í Noregi.

 

  

IV.

Góðir námsstefnugestir.

 

Námsstefnunni Virkjum fjármagn kvenna er ætlað að efla umræður og þekkingu um konur, fjármagn og rekstur fyrirtækja.

 Í umræðu þeirri sem fram fer hér í dag er rétt að hafa í huga að baráttan fyrir jafnrétti er alls ekki eingöngu barátta kvenna, heldur er um að ræða sameiginlegt hagsmunamál þjóðfélagsins alls, jafnt karla sem kvenna, að viðskiptalífið fái að njóta starfskrafta karla sem kvenna.

 

Því hefur verið slegið fram sem einni af ástæðum þess að hlutfall kvenna sé mun lægra en hlutfall karla í stjórnum fyrirtækja að konur fari í miklu minna mæli fyrir fjármagni og hafi þar af leiðandi minni völd en karlar þegar kemur að því að skipa í stjórnir.


 Sú staðreynd að konur er í miklum minnihluta við umsýslu fjármuna er í raun dapurleg staðfesting á því hvað við eigum langt í land með að ná viðunnandi kynjajafnrétti. Aðspurðir myndu líklega flestir svara því til að þeir treysta móður sinni fremur en föður fyrir fjármunum sínum. Í hugum flestra eru hugtökin öryggi og ábyrgð á kvenlegum toga. Þó kvenkynsorð séu er hugtökin ávöxtun og áhætta á hin bóginn fremur karllæg. Ég spyr: væri hugsanlega rólegra ástand á fjármálamörkuðum í dag ef áhrif kvenna væru meiri í fjármálaheiminum?

 

Hvort sem það er raunveruleikinn eða ekki vona ég að í dag gefist okkur kostur á að ræða þessi mál og hlýða á ólík sjónarmið um konur og fjármálageirann og konur og rekstur fyrirtækja.

 

 Námsstefnan er sett.

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum