Hoppa yfir valmynd
31. mars 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Æskan og hesturinn í Reiðhöllinni í Víðidal 30. mars 2008.

Ávarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einars K. Guðfinnssonar,

á sýningunni Æskan og hesturinn í Reiðhöllinni í Víðidal 30. mars 2008

Ágæta samkoma.

 

„Milli manns og hests og hunds hangir leyniþráður“  segir í góðri vísu, og víst er um það að sérstök tengsl geta myndast milli þessara lífvera við stöðuga samveru og náin kynni.  Ekki síst traust og væntumþykja.

 

Vinur minn einn fyrir norðan sagði mér að þegar hann fór í fyrsta skipti sem smástrákur í göngur hafði hann leitað ráða hjá föður sínum um hvað hann ætti að gera ef kæmi þoka og hann myndi ekki rata til byggða.  „Taktu þá beislið út úr Skugga gamla og legðu það upp á makkann og sestu svo á bak.  Hann ratar heim og skilar þér heilum og höldnum.“  Til þessa kom þó ekki en sagan sýnir að óhætt yrði fyrir barnið að reiða sig á hestinn, og þannig hefur það verið á Íslandi frá því land byggðist.  Heitið þarfasti þjónninn var hestinum ekki gefið að ástæðulausu.  Hann var sá sem notaður var til flestra þeirra verka sem hægt var og hefur það vakið furðu marga þjóða hve eiginleikar íslenska hestsins eru margbreytilegir ekki síst þolið og aflið sem er ótrúlegt miðað við ekki stærri skepnu.

Sívaxandi er sá hópur ungmenna sem hefur hestamennsku að tómstundagamni.  Heilu dagana og heilu vikurnar geta ungmennin fundið gleði í því að annast sinn hest og njóta þess að ríða út, eitt sér eða í góðra vina hópi.  Það er ekki lítil upplifun fyrir borgarbarn eða annan ungling sem ekki er í beinum tengslum við íslenskar sveitir að fá að kynnast þannig dýrunum og íslenskri náttúru.  Njóta kyrrðar, kynnast mismunandi veðráttu, fá að taka til hendinni við að þrífa hesthús og annast hestinn.  Smátt og smátt skynja þeir hvorn annan hesturinn og unglingurinn og milli þeirra tengist leyniþráður sem aðeins þeir tveir vita um, - eitthvað sem ekki er hægt að skýra og þarf ekki að skýra.  Hver og einn sem hefur setið hest, þekkir þá tilfinningu að fara af baki, strjúka hestinum, tala í eyra hans og leyfa honum að nugga höfði í bak sér sem þakklæti fyrir blíðuhótin. 

Í hestamennsku takast bæði börn og fullorðnir á við skapandi starf með erfiðu og agandi viðfangsefni. Það kennir mönnum að takast á við mótlæti með æðruleysi og sigra með stillingu og auðgar bæði andann og lífið. Það sjáum við glöggt á þessari merku sýningu hér ár eftir ár, þar sem gleði og einbeiting skín úr hverjum andlitsdrætti ungmennanna. Við sem höfum annast og umgengist hesta vitum hversu ögrandi og krefjandi hver og einn þeirra er. Reglusemi og virðing fyrir verkefninu er þar forsenda árangurs og hvort tveggja þurfa ungir hestamenn að temja sér. Að því búa menn svo allt sitt líf.

Hestamennskan felur í sér bæði ögrandi æskulýðs- og forvarnarstarf og tæpast er hægt að hugsa sér heilnæmari útivist og líkamsrækt en þetta sport. Hér er líka framtíð greinarinnar fólgin - í ungviðinu. Og það er björt framtíð því við sjáum að kunnáttu og hestakosti fleygir stöðugt fram. Það er alveg óhætt að nefna þessa sýningu hér í sömu andrá og heimsmeistaramót og landsmót. Þótt ekki reyni menn með sér með alveg sama hætti hér þá er þessi sýning góður grunnur fyrir unga og upprennandi hestamenn að byggja á. Hér gefst æsku landsins gott tækifæri til að láta ljós sitt skína svo eftir sé tekið.

Fjölmargir hafa atvinnu af hrossarækt og um allt land eru nú byggðar upp hestamiðstöðvar þar sem aðstaða er til þjálfunar og tamningar hesta.  Þar hefur skapast aðstaða fyrir ungt fólk – æsku þessa lands – að kynnast hestinum, þekkja gangtegundir hans, eiginleika og jafnvel einstök litarafbrigði sem eru svo fjölbreytt.

 

Nú er hesturinn að stærstum hluta notaður til tómstunda þótt nauðsynlegur sé enn í sveitum vegna smalamennsku á haustin. Þá hefur hann á síðari árum fengið nýtt hlutverk sem er að leyfa ferðafólki og þá einkum útlendingum að fara á bak og njóta þannig landsins og hestsins í bland. Fyrir svo fjölmarga er þetta einstæð upplifun og hefur orðið til þess að viðkomandi einstaklingar  hafa tekið ævarandi tryggð við íslenska hestinn.

Ég ætla ekki að þreyta ykkur með löngum ræðuhöldum en vil minna á að hestamennskan er órjúfanlegur þáttur íslenskrar þjóðmenningar og íslensks landbúnaðar. Megi þið njóta hennar sem best í dag í meðförum okkar ungu og efnilegu knapa. Gangi ykkur vel í framtíðinni og njótið samvistanna við þarfasta þjóninn okkar, - Íslenska hestinn.

 

Góða skemmtun.

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum