Hoppa yfir valmynd
04. apríl 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Landssambands kúabænda, 4. apríl 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

við setningu aðalfundar Landssambands kúabænda 4. apríl 2008.

 

Ágætu aðalfundarfulltrúar

 

Það er ánægjulegt að vera viðstaddur þessa setningu aðalfundar Landssambands kúabænda og fá um leið tækifæri til að fara nokkrum orðum um fáein mál sem hvað heitast brenna á bændum. Þar er af nógu að taka um þessar mundir.

 

Enginn velkist í vafa um að íslenskur landbúnaður hefur tekið miklum breytingum og stórstígum framförum á undanförnum árum. Þar hafa kúabændur verið í broddi fylkingar. Landbúnaðurinn þarf líka eins og aðrar atvinnugreinar að tileinka sér nýjustu tækni. Allt kostar það sitt með tilheyrandi fjárfestingum og er síður en svo auðvelt, sérstaklega eftir að fjármagn varð dýrt að nýju. Uppbygging undanfarinna ára, fækkun og stækkun búanna felur í sér hagræðingu til framtíðar og mun styrkja íslenska búvöruframleiðslu í sífellt opnara samkeppnisumhverfi, sem bændur og úrvinnslugreinar landbúnaðarins hrærast í.

 

Það er ekki svo, eins og stundum er haldið fram, að bændur starfi í vernduðu umhverfi og þurfi ekki að taka tillit til samkeppni eða aðstæðna að öðru leyti. Þvert á móti er landbúnaðurinn í margs konar samkeppni um fólk og fjármagn og í samkeppni við innfluttar matvörur ýmis konar og þarf þess vegna að beita öllum úrræðum til að hagræða og lækka kostnað. Mikill árangur hefur einmitt náðst í þessa veru, ekki aðeins hjá bændum sjálfum, heldur hefur einnig náðst mikill árangur innan mjólkuriðnaðarins sem hvergi er lokið. Langt hagvaxtarskeið með stöðugri kaupmáttaraukningu hefur fært íslenskum bændum stærri markað en áður.  Í þessu felast heilmikil tækifæri sem tvímælalaust á að reyna að nýta, bæði innanlands og utan.

 

Aukinn kostnaður við aðföng hefur valdið miklum áhyggjum og mun hafa neikvæð áhrif á landbúnaðinn og raunar þjóðarbúið í heild. Þetta hefur verið megin viðfangsefni Verðlagsnefndar búvöru á undanförnum vikum og mánuðum. Nýlega tók nefndin ákvörðun um 14 kr. hækkun á mjólkurlítra til framleiðenda, sem ég tel að hafi verið sanngjörn niðurstaða, og báðir aðilar, bændur og neytendur geti verið þokkalega sáttir við í ljósi aðstæðna. Hækkunin er meiri en við höfum séð í einum áfanga um áratuga skeið, en með henni er brugðist við miklum verðhækkunum á aðföngum til bænda s.s. kjarnfóðri, áburði og að hluta til vaxtaliðar verðlagsgrundvallarins. Þessi verðhækkun var ekki sjálfgefin m.a. með tilliti til þess að kjarasamningar höfðu verið gerðir milli aðila vinnumarkaðarins og því mikil áhersla lögð á það af þeirra hálfu að sporna við hækkunum á almennu verðlagi. Bændur þurftu þessa hækkun, þótt enginn velkist í vafa um að hún nægi ekki til þess að standa undir þeim kostnaðarauka sem búin hafa orðið fyrir síðustu mánuði og misseri.  Hitt er jafnframt alveg ljóst  að stjórnvöld voru í erfiðri stöðu til þess að standa að slíkum verðhækkunum með opinberri aðkomu sinni, á sama tíma og reynt er að halda öllu verðlagi í skefjum. Að öllu þessu virtu er það skoðun mín að hér hafi verið gætt sanngirni, sem einnig sést í því að um hana var býsna gott samkomulag og enginn fulltrúanna í Verðlagsnefnd lagðist gegn henni.

 

Því miður eru engar horfur á, að þær kostnaðarhækkanir sem skollið hafa á landbúnaðinum að undanförnu, s.s. á fóðri, áburði og eldsneyti gangi til baka í bráð. Þvert á móti eru fóðurvörur og áburður enn að hækka og sér ekki fyrir endann á því. Það hefur því sjaldan verið brýnna en nú, að bændur og ráðunautar þeirra velti við hverjum steini til að ná fram sem hagkvæmastri nýtingu allra aðfanga. Sama gildir að sjálfsögðu um fjárfestingar. Þar geta bændur örugglega náð umtalsverðum árangri með því að vega og meta, betur en margir gera, arðsemi hverrar fjárfestingar áður en í hana er ráðist, hvort heldur er í tækjum fasteignum eða öðrum framleiðsluþáttum.

 

Við þær aðstæður, sem nú eru uppi, tel ég ekki einungis rétt heldur óhjákvæmilegt að fella niður það sem eftir stendur af kjarnfóðurtolli, en það eru nú 3,90 kr á kg af blönduðu fóðri. Um þetta hefur margsinnis verið ályktað af kúabændum, Búnaðarþingi og fleirum. Ég hef ákveðið að breyta reglugerð um greiðslur úr fóðursjóði nr. 31/1996 á þann hátt, að frá 1. maí nk. verði allar fóðurblöndur frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins gjaldfrjálsar, en áfram verði innheimt óbreytt gjald af blöndum frá öðrum löndum. Þessi breyting verður tímabundin til næstu áramóta, og framhaldið ræðst af því hvernig samningar um gagnkvæmar tollaívilnanir á landbúnaðarvörum þróast milli okkar og Evrópusambandsins.

 

Í ræðu minni við setningu Búnaðarþings sagði ég eftirfarandi:

 „Það er til dæmis ljóst að margt er að breytast í alþjóðlegu umhverfi og fjarri fer það því að við getum verið ónæm fyrir slíkum breytingum. Árum saman hafa staðið yfir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, umræður sem meðal annars snúa að alþjóðlegum viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Að sönnu hafa menn ekki komist að niðurstöðu og alls óvíst hvort og hvenær það tekst. Engu að síður er athyglisvert að sú stefna sem þessar viðræður hafa tekið er þegar farin að hafa áhrif á mótun landbúnaðarstefnu ýmissa ríkja og ríkjasambanda. Kom þetta til dæmis fram í viðræðum mínum við Marianne Fischer Boel, framkvæmdastjóra landbúnaðarmála Evrópusambandsins nú skömmu eftir áramótin. Þetta þarf að hafa í huga þegar við hyggjum að framtíðinni varðandi búvörusamningana. Við höfum sem betur fer góðan tíma fyrir okkur, en fimm ár eru samt fljót að líða. Því tel ég nauðsynlegt að við hyggjum að þessum málum í tæka tíð og gerum okkur fordómalausa grein fyrir þróuninni í kring um okkur. Við munum nefnilega ekki komast hjá því að taka tillit til hennar á tímum vaxandi alþjóðavæðingar.“

 

Í því sambandi er vert að greina frá því að nú nýverið hafa svissnesk stjórnvöld samþykkt að taka upp viðræður við Evrópusambandið um aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Líklegt má telja að Sviss og Evrópusambandið semji um afnám tolla í viðskiptum sínum á næstu 3-5 árum og verði þannig á undan þeirri aðlögun sem fyrirhuguð er á vettvangi WTO. Þessi staða hefði ekki þótt líkleg fyrir aðeins örfáum árum, enda Svisslendingar kunnir fyrir aðgætni, þegar kemur að lækkun tolla og opnun markaða í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Sviss hefur verið í broddi fylkingar þeirra þjóða sem meðal annarra Íslendingar og Norðmenn skipa og vilja sjá hægfara þróun opnari viðskipta með  landbúnaðarvörur á vettvangi WTO og reyndar eru þeir talsmenn þess hóps, svokallaðs G-10 hóps, sem stendur vörð um hægfara þróun í þessum viðskiptum. Þessi stefnubreyting Svisslendinga gagnvart ESB er því umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga og sterk vísbending um það, að viðskiptaumhverfi okkar geti tekið hraðari breytingum á næstunni en við höfðum reiknað með.

En það er annað að gerast um þessar mundir, sem veldur straumhvörfum í búvöruviðskiptum heimsins og getur haft umtalsverð áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra bænda í nálægri framtíð. Svo lengi sem elstu menn muna hefur raunverð á matvörum farið lækkandi í heiminum og framleiðendum fækkað.  Á árunum 1974-2005 lækkaði verð á matvælum á heimsmarkaði um ¾ að raungildi.  Á allra síðustu misserum hefur eftirspurn eftir búvörum stóraukist og verðlag hefur hækkað hraðar en dæmi eru um af þeim sökum, einkum á korni og mjólkurvörum, og nú er talið að matvælaverð í heiminum sé hærra en nokkru sinni. Eins og ég rakti við setningu Búnaðarþings eru ástæður fyrir þessu margar.  Þær má meðal annars rekja til vaxandi kaupgetu í Austur-Evrópu og Asíu, eldsneytisframleiðslu úr korni, einkum í Bandaríkjunum og S-Ameríku, óhagstæðs veðurfars víða um heim, ekki síst vegna mikilla þurrka í Ástralíu. Þá ber þess að geta að inn hafa komið ný markaðssvæði, sem eru fær um að greiða hærra markaðsverð en áður og hef ég orðað það svo; að segja megi að í Asíu hafi eftirspurn eftir hlutfallslega dýrari matvælum en áður aukist svo nemur neyslu heillrar Evrópu. Auðvitað hefur þetta áhrif á verðlagningu um heim allan. Þetta hefur líka leitt til þess að menn gera sér nú betur grein fyrir mikilvægi landbúnaðarframleiðslunnar og landbúnaðarins sjálfs, og það eitt út af fyrir sig varðar bændur miklu. Menn ræða nú matvælaöryggi af alvöru en ekki í hálfkæringi.

Þótt undarlegt sé að hugsa til þess og það blasi kannski ekki við okkur við fyrstu sýn, þá er það engu að síður svo að margt bendir til þess að þær hræringar sem orðið hafa á alþjóðlegum matvælamarkaði kunni að styrkja hlutfallslega samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Lægra gengi íslensku krónunnar, skapar útflutningsmöguleikum okkar líka nýja viðspyrnu og bætir almennt samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu – þar með talið landbúnaðarframleiðslu. Í þeirri umræðu sem nú fer fram um efnahagsmál og í ljósi vaxandi krafna um aukin alþjóðleg viðskipti, meðal annars með landbúnaðarvörur, er mikilvægt að hafa það í huga. Gleymum því ekki að við erum útflutningsþjóð og þegar við gerum viðskiptasamninga við önnur ríki eða ríkjasambönd þá hljótum við ekki síður að hafa þá hagsmuni í huga, en hagsmuni innflutningsins. Þess vegna hef ég lagt á það ofuráherslu að við semjum ekki  um einhliða tollalækkanir heldur gagnkvæmar, svo að útflutningsgreinar okkar njóti ávinningsins einnig.

 

  

Góðir aðalfundarfulltrúar,

 

Ég tel mikilvægt að íslenskur landbúnaður fái að þróast og dafna á eigin forsendum og á þeim hraða sem okkur hentar. Við vitum öll hvert leiðin liggur hvað varðar alþjóðareglur um viðskipti og stuðning við landbúnað – við eigum ekki að bíða hugsunarlaust eftir því sem verða vill eða láta alþjóðasamninga þvinga okkur óundirbúið til aðgera. Við höfum verk að vinna við að búa okkur undir breytta framtíð. Í þeirri vinnu skulum við byggja á styrkleikum íslensks landbúnaðar og vera vakandi yfir þeim tækifærum sem framtíðin hefur upp á að bjóða.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum