Hoppa yfir valmynd
07. apríl 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda 2008.

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda 2008.

Haldinn á Hvolsvelli 4. – 5. apríl.

Setningarávarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Einars Kristins Guðfinnssonar.

Ágætu skógarbændur, aðalfundarfulltrúar og gestir.

 

          Nú kveikir sólin vor í blöðum blóma

          og ber sitt ljós um dal og klettarið,

          og gamla kjarrið grænu laufi skrýðist

          og gleymir sér við nýjan þrastaklið.

 

Mér er það sönn ánægja að fá að ávarpa aðalfund ykkar skógarbænda og fannst til hlýða að velja upphafinu erindi úr fallegu ljóði Matthíasar Johannessen.

Nýlokið er stórri efnismikilli ráðstefnu um skógarmál hér á sama stað og sú ráðstefna og nú ykkar aðalfundur undirstrikar enn frekar í mínum huga það mikla og ört vaxandi hlutverk sem skógrækt skipar á Íslandi.

 

Eins kunnugt er urðu nokkrar breytingar á stjórnarráði Íslands á síðasta ári, sem m.a fólu það í sér að yfirstjórn skógræktarmála fluttist frá landbúnaðarráðuneytinu yfir í umhverfisráðuneytið.  Eflaust má deila um kosti þeirrar ákvörðunar og galla en það verður ekki gert hér.  Hitt vil ég undirstrika að ég lagði á það mikla áherslu að landshlutabundnu skógræktarverkefnin sem taka til meirihluta allrar nýskógræktar í landinu, kæmu í hlut hins nýja ráðuneytis sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, enda slík skógrækt bæði í eðli sínu landbúnaður og auk þessi að stærstum hluta stunduð á bújörðum og af bændum. 

 

Í Íslandssögunni skipar skógræktin hvorki stóran sess né að hún hafi verið virt fram á síðustu öld.  Þá hófst hún í takmörkuðum mæli og þá fyrst af áhugafólki en við fikruðum okkur áfram undir forystu Skógræktarfélaganna og Skógræktar ríkisins sem unnið hefur frábært tilrauna og rannsóknastarf.  Ég ætla mér ekki að rekja þessa sögu enda hún ykkur kunn en bendi þó á þá staðreynd að á grunni þessa áhugastarfs, tilrauna og rannsókna lukust upp augu manna fyrir því að hér á landi væri ef til vill hægt að rækta skóg.

 

Það eru ekki nema tæp 20 ár síðan straumhvörf urðu á þessum vettvangi og leyfi ég mér þá að miða við er Héraðsskógaverkefnið var samþykkt á Alþingi.  Reynslan af því verkefni gaf strax þær vonir að aðrir landshlutar fylgdu á eftir og þessa sögu þekkið þið einnig og betur en flestir aðrir. 

 

Það er í raun gaman að hugleiða og hafa í sinni að það eru einmitt þið sem lifið þá tíma að hefja skógrækt á Íslandi með því markmiði að hér skuli endurgræða landið og skapa nýja auðlind fyrir þjóðina.  Síðar meir mun verða horft til ykkar sem frumkvöðla eins og litið er í dag til þeirra sem fikruðu sig áfram með einstaka sprota undir húsvegg eða við annað skjól fyrir 100 árum.  Ábyrgð ykkar er því mikil og ég efast ekki um að þið eruð bæði á réttri leið og leggið metnað í verk ykkar.

 

Tímarnir breytast og þróunin er ör.  Það á við um skógrækt sem annað.  Eftirtektarvert er að sjá að í gömlu Héraðsskógalögunum, sem þó eru ekki nema rétt á unglingsaldri eða 17 ára gömul, er áherslan lögð á timburskógrækt.  Á örfáum árum hefur áherslan breyst og nú er ekki síður viðurkennt annað og viðurhlutameira hlutverk skóganna en einungis timburframleiðsla. 

 

Þessar breyttu áherslur komu strax fram við stofnun annarra landshlutaverkefna og stendur mér nærri að vitna til eftirfarandi lokaorða í skýrslu sem landbúnaðarráðuneytinu barst þegar rætt var um stofnun Skjólskóga:

Hér er lögð fram stórfelld skóg- og skjólbeltaræktun á einu erfiðasta svæði landsins.  Þetta er í samræmi við nýjar áherslur í skógrækt og umhverfisvernd sem nú svífur yfir vötnum heimsins.  Skógur skýlir mönnum fyrir næðingi, hann er fjölbreytt vistkerfi fjölda lífvera, bindur jarðveg, miðlar vatni og tekur til sín kolefni úr andrúmsloftinu svo eitthvað sé nefnt.  Skógrækt er því nú á tímum talin hafa tilgang í sjálfu sér en ekki aðeins sem framleiðsla trjáviðar. 

 

Já þannig voru þessi orð.

 

Nú er lagt upp úr blönduðum skógi og í því samhengi nefnd kolefnisbinding, yndis- og útivistargildi, skjól og fegurð svo nokkuð sé talið.  Allt safnast þetta saman í allsherjar innistæðu þjóðarinnar og eykur verðgildi landsins, ekki einungis fyrir einstaka jarðareiganda heldur þjóðina í heild. 

 

Ríkidæmi og sjálfstæði hverrar þjóðar byggist ekki síst á auðlindum viðkomandi ríkis. Sumar þeirra eru af náttúrunnar hendi stórar og miklar og þannig auðlindir eigum við og er mér þá nærri skapi að nefna sjóinn með öllum sínum gjöfulleika.  Og þótt við eigum ekki olíuna þá eigum við annars konar orku í iðrum jarðar sem hver þjóð öfundar okkur að.  Svo eigum við líka landið okkar, þessa stóru auðlind, sem þrátt fyrir nokkuð óblíða veðráttu er svo gjöfult ef vel er hlúð að og því sinnt.

 

Íslenskur landbúnaður er fjölbreyttur og ræktun margvíslegri en áður.  Aldrei sem nú höfum við haft viðlíka tækifæri á að láta reyna á hvað hægt er á þeim sviðum.  Þetta á ekki síst við skógræktina.  Við höfum tæknina, þekkinguna, mannaflann og má ég segja fjármagnið, því þótt aldrei verði fullnægt öllum óskum um fjármagn til framkvæmda, er það þó víst að aldrei hefur verið varið meira fjármagni til skógræktar en þessi árin.  Ekki er þar einungis um opinbert fjármagn að ræða heldur er ánægjulegt að vita hversu mörg fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög og einstaklingar hafa lagt fram mikið fjármagn til skógræktarinnar.  Það er ekki allt vegna ánægjunnar einnar því menn gera sér æ betur grein fyrir því að verið er að fjárfesta með skógrækt til langs tíma með arðvænlegum hætti. 

 

Í því sambandi eru þrjú atriði ofarlega í hugum skógræktenda.

 

Í fyrsta lagi langtíma timburskógrækt sem skila mun arði til komandi kynslóða og er þá hugsað í öldum fremur en árum.

 

Í öðru lagi er gróðursett í land með það fyrir augum að gera það hlýlegra og fallegra með tilliti til útivistar og óska fólks um notaleg svæði.  Slík skógrækt getur án efa margfaldað verðgildi lands og nú þegar land er bæði eftirsótt og í háu verði er þetta markmið vel skiljanlegt.

 

Í þriðja lagi vildi ég nefna kolefnisbindinguna sem er tiltölulega nýr verðmætaþáttur í skógrækt og ekki enn séð fyrir endann á hver útkoman verður. 

Þessi þáttur er nú ofarlega á baugi og m.a. minntu þið skógarbændur ítarlega á þennan þátt á fundi ykkar þann 9. október sl. þar sem þið ályktuðuð um eignarétt skógarbænda á bindingu þess kolefnis sem fram fer á ykkar jörðum.

 

Þetta er eins og áður segir tiltölulega nýr flötur á nýtingu skóga og afurðum þeirra og umræðan því öll á byrjunarstigi.  Ég hlýt hins vegar að taka undir ykkar sjónarmið þess efnis að ykkar réttur sé virtur og metinn.

 

Ágætu skógræktarbændur.

 

Landssamtök skógareigenda eru ung að árum og verkefnin næg.

Ykkar forsvarsmenn hafa gengið á fund minn og kynnt mér starfið og markmiðin.  Mér er það ljóst að samtök skógarbænda eiga fullan rétt á sér og meira en það, ykkar félagsskapur er nauðsynlegur þáttur fyrir störf þeirra sem skógrækt stunda sem atvinnugrein.  M.a. fyrir tilstuðlan ykkar samtaka hefur skógræktin öðlast þessa viðurkenningu þ.e. að teljast atvinnugrein. 

 

Nú er höfuðáherslan lögð á ræktunina sjálfa en örskammt framundan eru fleiri þættir sem tengjast atvinnugreininni og þá fyrst og fremst úrvinnsla og nýting skógarafurðanna.  Sem betur fer eigum við Íslendingar í mörg góð hús að venda til að leita ráða og afla upplýsinga, en samt sem áður munum við og viljum hafa okkar sérstöðu á þessu sviði sem öðrum. 

 

Félagsskapur ykkar tryggir samstöðu og þessi vettvangur gefur ykkur tækifæri á að koma saman, kynnast og ræða málin.  “Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur” sagði skáldið Einar Benediktsson og þannig er það svo víða.

 

Góðir fundarmenn.

 

Eins og ég gat um í upphafi lagði ég áherslu á að málefni landshlutaverkefnanna tilheyrðu ráðuneyti landbúnaðarmála.  Í mínum huga er landið okkar eitt og dýrmætt, hvar sem borið er niður.  Vörslumenn þess eru ekki síst bændur og engum treysti ég betur til að græða það skógi eða öðrum foldargróða.  Ykkur er fjöregg falið og ég mun reyna að standa að baki ykkar svo sem mér er kostur.  Við vitum að skógurinn er auðlind sem við ætlum að skapa okkur og afkomendum okkar til góða. 

 

Ég vona að aðalfundurinn gangi vel og óska ykkur öllum giftu í störfum ykkar.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum