Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins

Talað orð gildir

Ávarp Geirs H. Haarde, forsætisráðherra,

á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 18. apríl 2008

 

Ágætu aðalfundargestir.

 

Ég vil byrja á því að óska Þór Sigfússyni til hamingju með kjörið sem formaður Samtaka atvinnulífsins. Ég efast ekki um að hann mun reynast samtökunum vel. Jafnframt vil ég nota þetta tækifæri og þakka fráfarandi formanni samtakanna, Ingimundi Sigurpálssyni, fyrir samstarfið við núverandi og fyrri ríkisstjórnir í formennskutíð hans. Í störfum sínum hefur hann lagt áherslu á að viðhalda þeim ríka samstarfs- og úrlausnarvilja sem einkennt hefur samskipti vinnuveitenda og launþega á almennum vinnumarkaði í hartnær tvo áratugi og ekki síður samskipti þessara tveggja aðila við stjórnvöld. Ég tel að oft sé vanmetið hversu miklum verðmætum þessi jákvæða afstaða vinnuveitenda og launþega hefur skilað þjóðarbúinu.

 

Umrót í íslensku efnahagslífi - Traustar undirstöður.

Á þessum aðalfundi fer vel á því að reynt sé að skyggnast út úr hinu daglega umróti og inn í framtíðina, eins og segir í fundarboði. Ég efast um að nokkurt okkar hafi grunað þegar fréttir bárust af því sl. sumar að tveir vogunarsjóðir bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns ættu í erfiðleikum, að við stæðum þá á þröskuldi þrenginga sem ættu eftir að skekja fjármálamarkaði um heim allan og færa stærsta hagkerfi heims fram á brún skarprar efnahagslægðar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heimsbúskapinn. Ég efast líka um að nokkurt okkar hafi grunað að innan nokkurra mánaða ætti Ísland eftir að verða svo umtalað í viðskiptafréttum fjölmiðla víða um lönd dag hvern að jaðraði við þráhyggju. Og ég efast um að nokkurt okkar hafi trúað því að Ísland ætti eftir að verða skotspónn spákaupmanna eins og nú virðist hafa orðið raunin – hvað þá að virtur erlendur fræðimaður yrði varaður við mannorðsmissi ef hann héldi áfram að greina opinberlega frá jákvæðu viðhorfi sínu til íslensks efnahagslífs og íslensks bankakerfis.

 

Aðstæður á bandarískum fjármálamarkaði voru þannig að búið var að þróa og pakka inn fjármálalegum afurðum sem voru svo flóknar að fáir sáu í gegnum umbúðirnar. Hægt var að markaðssetja og verðleggja nánast alla greiðslustrauma á hvaða áhættustigi sem var. Þannig var blandað saman miklum áhættulánum og öðrum áhættuminni í svokölluðum skuldabréfavafningum sem fjármálastofnanir versluðu með. En á endanum var gengið of langt og spilaborgin hrundi. Sem betur fer flækt­ust íslenskar fjármálastofnanir ekki nema að óverulegu leyti inn í þetta en þær hafa hins vegar orðið fórnarlömb þessara aðstæðna og verða að horfast af raunsæi í augu við það með því m.a. að auka kostnaðaraðhald, losa um eignir og draga tímabundið úr umsvifum sínum.

 

Ljóst er að íslenska þjóðarbúið hefur orðið fyrir nokkrum búsifjum að undanförnu vegna þeirra hremminga sem orðið hafa á alþjóða­fjár­málamörkuðum. Þær hafa leitt til þess að bankar um allan heim hafa rifað seglin og dregið úr útlánum til að treysta lausafjárstöðu sína. Þetta hefur einnig gerst hér á landi, ekki aðeins hjá stóru viðskiptabönkunum heldur einnig minni bönkum og sparisjóðum. Samkvæmt nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa þessar þreng­ingar dregið úr hagvexti víða um heim og það hefur auðvitað neikvæð áhrif hér á landi. Til viðbótar má nefna að verð á hrávöru, t.d. hráolíu og hveiti svo ein­göngu tvö dæmi séu nefnd, hefur stórhækkað og haft margvísleg áhrif um heim allan. Á sama tíma og ytri aðstæður þjóðarbúsins hafa versnað að þessu leyti sér fyrir endann á ýmsum viðamiklum framkvæmdum hér á landi, bæði í orku­málum og uppbyggingu stóriðju sem og í byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.

 

Að öllu þessu gefnu er óhjákvæmilegt að um hægist í íslensku efnahagslífi á næstunni. Það var ekki síst í ljósi þessa að ákveðið var við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs að auka opinberar framkvæmdir til að vega upp á móti fyrir­sjáan­legum samdrætti í einkageiranum. Ennfremur var reiknað með að gengi íslensku krónunnar myndi láta undan síga þegar um hægðist, enda mat margra hag­fræðinga að gengi hennar hafi verið hærra um nokkurt skeið en efna­hags­legar forsendur gáfu tilefni til. Hins vegar kom á óvart hversu skarpa dýfu gengið hefur tekið á undanförnum vikum og mánuðum en það hefur valdið því að verðbólguhorfur hafa versnað töluvert.

 

Góðir fundarmenn.

 

Mér hefur á stundum fundist að fjallað sé um þessi mál af nokkurri léttúð og jafnvel skilningsleysi hér heima. Þar á ég meðal annars við framgöngu ákveð­inna stjórnmálamanna og fjölmiðla og staðhæfingar um að ekkert sé verið að gera, eins og það heitir. Stundum er talað eins og stjórnvöld ráði yfir töfra­lausn­um sem ekki séu til annars staðar þegar vandinn er aftur á móti sá að alþjóðlegir vindar skekja okkar eigið hagkerfi án þess að við höfum mikið um það að segja. Sann­leikurinn er sá að á vegum ríkisstjórnarinnar, en þó sérstaklega Seðla­bankans, hefur að undanförnu verið unnið baki brotnu að því að greiða úr þeim vanda sem hinar alþjóðlegu aðstæður hafa skapað. Slíkar aðgerðir eru þess eðlis að undirbúningur þeirra tekur langan tíma og ekki er hægt að flytja af þeim fréttir frá degi til dags. Mikil opinber umræða getur verið óheppileg, skapað óraun­hæfar væntingar og þar með jafnvel haft neikvæð áhrif. Stuttar boðleiðir og skjót ákvarðanataka eru óumdeilanlega meðal helstu styrkleika íslensks við­skiptalífs og stjórnsýslu. Þetta getur á hinn bóginn líka verið veikleiki þegar við gerum kröfu um sama hraða í mun stærri kerfum og leyfum okkur að verða óþolin­móð gagnvart lengri boðleiðum og seinvirkari ákvarðanaferlum en við erum vön.

 

Neikvætt umtal víða erlendis um íslenskt efnahagslíf og íslenskt bankakerfi, samdráttur í útlánum banka og sparisjóða, mikil lækkun á gengi íslensku krón­unnar og verðhækkun á margvíslegri vöru og þjónustu hefur valdið óróa hér innanlands. Það er skiljanlegt. Hér á landi hefur vaxið úr grasi heil kynslóð at­hafna­manna sem aldrei hefur þurft að horfast í augu við erfiðleika af þessu tagi. Ég trúi því hins vegar að hér sé um tímabundið ástand að ræða því að fjölmargir þættir í íslenskum þjóðarbúskap eru afar jákvæðir hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma.

 

Ég nefni sem dæmi að í þeirri miklu umræðu sem verið hefur um stöðu íslensku bankanna hefur farið minna fyrir umræðu um aðrar atvinnugreinar sem eru þó ekki síður mikilvægar í íslensku efnahagslífi. Þar má nefna sjávarútveginn sem er orðinn gríðarlega öfl­ug­ur og nútímalegur atvinnuvegur og er sem fyrr afar mikilvægur fyrir þjóðar­búið. Önnur atvinnugrein sem hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum er ferða­þjónustan en hún er nú orðin ein af undirstöðugreinum efnahagslífsins. Loks vil ég nefna þær fjölmörgu hátæknigreinar sem hafa dafnað vel að undan­förnu og teygja anga sína til margra landa, jafnt í Evrópu sem Asíu og víðar. Samanlagt stuðla þessar atvinnugreinar að öflugu og fjölbreyttu efna­hagslífi sem býr yfir mikl­um vaxtarmöguleikum í framtíðinni.

 

Ennfremur vil ég nefna að orkulindir landsins verða sífellt verðmætari eftir því sem þrengir að í orkubúskap heimsins. Svipað gildir um landbúnaðar- og sjávar­afurðir og íslenska vatnið eftir því sem mannkyninu fjölgar og gildi heilbrigðs lífs­stíls og ómengaðrar fæðu eykst. Einnig má nefna að hlutfall langskólamenntaðra hér á landi fer smám saman hækkandi en það er óumdeilt að hagsæld vex með aukinni menntun.

 

Það er líka rétt að halda því til haga að staða lífeyrissjóðanna hér á landi er afar sterk og lífeyrissjóðakerfið í heild sinni sjálfbært. Okkur hættir til að taka þessu sem sjálfsögðum hlut en svo er alls ekki. Samanburður við önnur lönd leiðir í ljós að víðast hvar búa menn við þannig kerfi að lífeyrisgreiðslur á hverju ári eru fjármagnaðar með samtímasköttum en ekki úr sjóðum sem hafa verið byggðir upp um áratugaskeið með reglubundnum innborgunum launafólks og vinnuveitenda. Þegar jafnframt er haft í huga að lífeyrisþegum mun fjölga hratt hlutfallslega á næstu áratugum er ljóst að það mun leiða til aukinna útgjalda hins opinbera víða um lönd. Mér segir svo hugur að margir þeirra erlendu aðila sem hafa fjallað um stöðu okkar efnahagsmála að undanförnu hafi ekki áttað sig á þessari öfundsverðu stöðu sem er nær einsdæmi meðal vestrænna þjóða.

 

Mig langar að nefna annað mikilvægt atriði sem virðist hafa farið framhjá erlendum greiningaraðilum og hefur reyndar verið undarlega lítið í efnahagsumræðunni hér innanlands. Hér á ég við nýjar tölur um erlenda stöðu íslenska þjóðarbúsins sem birtust í grein í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans. Þessar tölur byggjast á annarri uppgjörsaðferð en hingað til hefur verið notuð og benda til að erlend staða þjóðarbúsins sé miklu betri en fyrri tölur hafa sýnt. Samkvæmt þessu nýja uppgjöri nam hrein skuldastaða íslenska þjóðarbúsins 27% af landsframleiðslu í lok þriðja ársfjórðungs 2007 í stað 120% samkvæmt eldra uppgjöri. Munurinn á þessum tveimur uppgjörsaðferðum er sá að fyrra uppgjör miðaðist við bókfært virði fjármunaeigna en nýja uppgjörið miðast við áætlað markaðsvirði fjármunaeigna. Nýja uppgjörið er í fullu samræmi við staðla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en það er vandasamara að meta og hefur því ekki verið birt fyrr. Ég tel mikilvægt að tölur fyrri ára verði endurmetnar í samræmi við nýjar uppgjörsaðferðir eins fljótt og auðið er.

 

Ágætu aðalfundargestir.

 

Áhrif hnattvæðingar.

Í síðustu viku funduðu forsætisráðherrar Norðurlanda um sama umræðuefni og er hér til meðferðar í dag. Þar var sérstaklega fjallað um hvernig löndin geti í sameiningu mótað stefnu til að nýta þau tækifæri sem fylgja hnattvæðingunni. Til fundarins var einnig boðið forystumönnum í stjórnmálum, vísindum, fjöl­miðl­un, atvinnulífi og frjálsu fé­laga­­starfi á Norðurlöndunum.

 

Á fundinum var lögð megináhersla á þrennt: Í fyrsta lagi hvernig gera megi Norð­urlöndin að sameiginlegu markaðssvæði með sterka samkeppnisstöðu. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga því að mörg íslensk fyrirtæki og íslenskir athafnamenn hafa nýtt viðskiptatækifæri annars staðar á Norðurlöndum. Í öðru lagi að þróa frekar norrænt vísinda- og nýsköpunar­sam­starf til að treysta undirstöður rannsókna í löndunum. Í þriðja lagi hvernig megi útvíkka norrænt samstarf til að geta sem best undirbúið og leitt samninga um alþjóðlegan loftslagssáttmála á næsta ári. Þetta miðar að því að skapa sjálfbær samfélög á Norðurlöndum. Næsti fundur af þessu tagi verður hér á landi eftir um það bil eitt ár.

 

Til undirbúnings þessa fundar gaf Norræna ráðherranefndin út mjög áhugaverða skýrslu undir heitinu Nordic Globalisation Barometer eða Norræna hnatt­væðing­ar­­vogin. Þessi vog gefur til kynna að Norðurlöndin hafi staðið sig vel við nýjar aðstæður á miklum breytingatímum. Velmegun þeirra hefur aukist vegna mik­illar samkeppnishæfni og sterkra tengsla við hagkerfi heimsins. Norræna hnatt­væð­ingarvogin gefur hins vegar jafnframt til kynna að Norðurlöndin megi ekki sofna á verðinum. Samkeppni frá öðrum svæðum heimsins hefur minnkað for­skot þeirra.

 

Ágætu aðalfundargestir.

 

Evrópumál.

Ég vil að síðustu víkja að Evrópumálum. Þátttaka okkar Íslendinga í hnatt­væðingunni á liðnum árum og sá andbyr sem íslenskt fjármálalíf og ís­lensk­ur þjóðarbúskapur mætir um þessar mundir beina athyglinni óneitanlega að stöðu landsins í samfélagi þjóðanna. Núverandi sjálfstæð staða okkar og þátt­taka í ýmiss konar samstarfi á Norðurlöndum, innan Evrópu og á al­þjóða­vettvangi hef­ur reynst okkur afar vel. Þar skiptir Evrópska efna­hags­svæðið sköpum að mínum dómi. Í dag er flestum óskiljanlegt að um aðild okkar að þessu mikilvæga sam­starfi skuli hafa skapast mestu pólitísku deilur síðari tíma í íslenskum stjórn­málum. Það er ekki að undra að flestir þeirra sem harðast börðust gegn EES-aðildinni, eða sátu hjá, vilji nú lítt kannast við fyrri afstöðu sína.

 

Þátttakan í EES-samstarfinu ásamt markvissri einkavæðingu og skatta­­lækkunum síðan 1991 hefur leyst úr læðingi krafta sem hafa umbylt íslensku atvinnulífi og skapað ómæld verðmæti. Þótt á móti blási um þessar mundir virðist vera almenn samstaða meðal þeirra sem fylgjast reglulega og náið með íslenskum efnahagsmálum að mikill árangur hafi þegar náðst, að undirstöðurnar séu almennt traustar og horfur ágætar þegar litið er fram á veginn.

 

Þær raddir hafa heyrst að þróun liðinna ára og ekki hvað síst andbyr síðustu mánaða sýni að við Íslendingar ættum að taka einhliða upp evru sem mynt í stað krónunnar. Ég tel að sú umræða hafi verið til lykta leidd með afgerandi hætti á viðskiptaþingi Viðskiptaráðs og í samtölum mínum við nokkra af helstu forsvarsmönnum Evrópusambandsins í febrúar sl. Niðurstaðan er einfaldlega sú að evran verður ekki tekin upp hér á landi án aðildar að Evrópusambandinu. Sumir hafa brugðist við þessu með því að nefna aðrar myntir til sögunnar. Að mínu mati kemur einhliða upptaka erlendrar myntar ekki til greina hér á landi. Við erum ein þróaðasta og ríkasta þjóð í heimi og slíkar þjóðir taka ekki einhliða upp mynt annarrar þjóðar.

 

Í mínum huga snýst málið því um tvo skýra valkosti: Að Íslandi standi utan Evrópu­sambandsins og haldi áfram að nota íslensku krónuna eða gangi í Evrópu­sambandið og taki í kjölfarið upp evruna að því gefnu að landið uppfylli öll skilyrði þar að lútandi. Báðar þessar leiðir hafa kosti og galla í för með sér. Við vitum að sú fyrri, þ.e. að standa utan Evrópusambandsins, hefur reynst afar vel fram að þessu. Að sama skapi er ljóst að breytingar í íslenskum þjóðar­búskap með sívaxandi umsvifum erlendis krefjast ákveðinna úrbóta. Síðari kost­urinn sem felst í aðild að Evrópusambandinu er þó að mínum dómi mun lakari eins og ég hef margoft bent á. Þar nefni ég sem dæmi að við Íslendingar mynd­um missa sjálfsforræði í gerð fríverslunarsamninga, við myndum missa forræði í peningamálastjórn sem myndi þýða stóraukið álag á ríkisfjármálastefnuna og auknar sveiflur í atvinnuleysi og á vinnumarkaði. Byrðin fyrir okkar litlu stjórn­sýslu yrði meiri en margan grunar. Hef ég þá ekki einu sinni minnst á fisk­veiði­stjórnunarmálin en vandkvæðin sem fylgja aðild að Evrópusambandinu í þeim efnum eru vel þekkt. 

 

Ég kom í morgun heim frá Kanada þar sem ég heimsótti meðal annars Nýfundnaland. Þar telja margir að helsta böl þeirra í sambandi við fiskveiðistjórnun sé það að heimamenn hafi ekki haft fullt forræði sjálfir yfir þessum málaflokki. Þorskurinn hvarf af Nýfundnalandsmið­um fyrir meira en 15 árum, fyrst og fremst vegna ofveiði og misheppnaðrar fisk­veiði­stjórnunar. Reynslan þaðan hlýtur að vera okkur mikið umhugsunarefni.

 

Þegar mál af þessu tagi eru rædd og reifuð má ekki láta tímabundið andstreymi í þjóðarbúskapnum eða vonir um stundarhag villa sér sýn. Líta þarf til hagsmuna allra atvinnugreina og vega og meta áhrifin á þjóðfélagið að öðru leyti í nútíð og framtíð. Álitamálið snýst ekki eingöngu um krónur og aura. Tugþúsundir nú­lif­andi Íslendinga upplifðu aðdraganda og fögnuðu sjálfstæði þjóðarinnar 1944. Þó svo að aðild að Evrópu­sambandinu jafngildi ekki sviptingu sjálfstæðis er það eigi að síður svo að forræði yfir fjölda málaflokka flyst til Evrópusambandsins við inngöngu í það.

 

Fyrir nokkru skipaði ég nefnd um þróun Evrópumála í samræmi við stefnu­yfir­lýsingu ríkisstjórnarinnar. Meðal verkefna hennar er að fjalla um hvernig hags­munum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópu­sam­bandinu. Nefndin mun sjálf meta hversu hratt verður unnið og skila skýrslu um stöðuna að minnsta kosti einu sinni á ári. Þetta nefndarstarf kemur í kjölfar skýrslu svokallaðrar Evrópunefndar sem lauk störfum fyrir um það bil ári síðan, en sú skýrsla verður grundvöllur þeirrar vinnu sem framundan er. Það er því frá­leitt að halda því fram að þessi mál séu ekki til umræðu af hálfu ríkis­stjórn­ar­inn­ar eða ekki leyfðar, eins og stundum er haldið fram.

 

Góðir aðalfundargestir.

 

Íslenska þjóðarbúið gengur nú í gegnum tímabundna erfiðleika sem allir þurfa að taka höndum saman um að leysa. Við megum þó ekki einblína um of á vandamálin því að við búum við góð lífskjör, undirstöður samfélagsins eru traustar og orðstír okkar góður. Þessu gera allir sér grein fyrir sem á annað borð setja sig inn í íslensk málefni. Við eigum afar verðmætar auðlindir sem verða sífellt eftirsóknarverðari. Þessar staðreyndir munu í senn hjálpa okkur út úr því umróti sem við erum nú í og búa vel í haginn fyrir framtíðina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum