Hoppa yfir valmynd
02. júní 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Sjómannadagurinn 1. júní 2008

Ræða Einars Kristins Guðfinnssonar

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á sjómannadeginum 1. júní 2008

flutt á hátíðardagskrá í Reykjavík

Ágætu sjómenn, fjölskyldur sjómanna og aðrir þeir sem á mál mitt hlýða.

Flest íslensk þéttbýli voru byggð úr þorskbeinum, þau eru stoðirnar undir hvolfþak draumanna. Þannig kemst Jón Kalmann Stefánsson rithöfundur að orði í frábærri bók sinni Himnaríki og helvíti sem út kom nú fyrir jólin. Í þessari meitluðu setningu er sannleikur málsins falinn. Íslenskt þjóðfélag byggðist vegna framfara í sjávarútvegi. Það var sjávarútvegurinn sem færði okkur út úr örbirgðinni til allsnægtanna - þorskbeinin voru og eru sem sagt, stoðirnar undir hvolfþak draumanna.

 

Og þetta gerðist á undraskömmum tíma. Á rífri öld urðum við velsældarþjóðfélag, drifið áfram af krafti sjávarútvegsins. Skynsamleg auðlindanýting, gott skipulag, framtak einstaklinganna, atgervi og dugnaður sjómanna og fiskverkafólks smíðaði þær undirstöður sem þjóðfélag okkar byggir allt sitt á. Þrátt fyrir aukna fjölbreytni atvinnulífsins er sjávarútvegurinn sem fyrr burðarstoðin, sem sjálf þjóðfélagsbyggingin er reist á.

 

En það er alls ekki sjálfgefið að þetta sé svona. Við þekkjum mýmörg dæmi  um lönd sem bjuggu við miklu ríkari auðlindir til lands og sjávar þar sem lífskjörum hefur ekkert fleygt fram. Þau hafa jafnvel versnað. Er það ekki umhugsunarefni fyrir þjóð eins og okkar sem reiðir sig svona mikið á auðlindanýtinguna úr hafinu?

 

Ábyrgð okkar sem nú erum ofar moldu er mikil. Okkur er trúað fyrir auðlind sem getur verið sem fyrr uppspretta góðra lífskjara. Við eigum miklar skyldur við samtímann, en ríkastar eru skyldurnar þó við komandi kynslóðir, sem engu fá um það ráðið hvernig við göngum fram við að búa okkur til verðmæti úr auðlind sem ekki er ótakmörkuð.

 

Þetta er stærsta viðfangsefnið okkar. Við skulum líka viðurkenna að hér er mjög úr vöndu að ráða. Mat á stærð fiskistofna er ekki auðvelt viðureignar. Þrátt fyrir að við höfum aukið hafrannsóknir okkar, kallað eftir fjölbreyttari viðhorfum víða að úr vísindasamfélaginu, aukið samráð og leitað álits manna annars staðar að úr heiminum, er engu að síður mikill ágreiningur um mat á stærð fiskistofna.

 

Það hefur verið kallað eftir því að við tökum meira og betra tillit til fiskifræði sjómannsins. Það er sjálfsagt að virða það viðhorf og það hef ég reynt að gera með samtölum við fjölmarga sjómenn og útvegsmenn víða að af landinu. En jafnvel það gefur ekki eina eða einhlíta niðurstöðu. Sýn manna á hvað skynsamlegast sé að gera er alls ekki alls staðar hin sama. Veturinn í vetur var gott dæmi um það. Á meðan sumir  sjómenn og útvegsmenn hvöttu mig til að auka loðnuveiðar, fékk ég áskoranir frá öðrum um  banna þær með öllu. Hér á það við sem oft hefur verið sagt. Sínum augum lítur hver á silfrið; silfur hafsins, svo ég yfirfæri viðurkennt hugtak yfir á alla fiskistofna.

 

Við slíkar aðstæður gildir það eitt að fylgja meginreglum  og taka þá ákvörðun sem telst skynsamlegust. Í stjórnmálum á hið sama við og þegar skipstjóri stýrir skipi sínu. Í báðum tilvikum verða menn að vita hvert þeir ætla og styðjast við þau bestu siglingatæki og kort sem fáanleg eru. Einungis þannig komast menn heilir í höfn að lokum.

 

Fyrir ári síðan stóð ég sömu sporum hér á Sjómannadegi og hafði nýverið fengið í hendur tillögur vísindamanna okkar um hámarksafla fyrir næsta fiskveiðiár. Þær boðuðu ekki góð tíðindi og sannarlega var úr vöndu að ráða. Eftir miklar viðræður við fjölmarga aðila varð niðurstaðan sú að draga mjög verulega úr veiði á þorski, jafnframt því að gripið var til margvíslegra ráðstafana af hálfu hins opinbera til þess að treysta innviði þeirra samfélaga sem verstan tekjuskellinn fengu vegna minni aflaheimilda í þorski. Enginn skyldi gera lítið úr alvarlegum afleiðingum þess að þorskaflinn var dreginn svo mjög saman. Störfum fækkar og tekjur fólks lækka. Fyrirtæki þurfa að breyta rekstri sínum og takast á við sömu skuldir með minni aflaheimildir til að vinna úr.

 

En enn sem fyrr sýndu stjórnendur og annað starfsfólk í sjávarútvegi þá ótrúlegu útsjónarsemi sem hefur verið aðalsmerki þessarar atvinnugreinar. Menn hafa fundið leiðir til að búa til meiri tekjur úr minni heimildum, m.a. með hjálp þeirrar stórkostlegu tækni, sem einkennir fiskvinnslu og fiskveiðar okkar. Hækkun afurðaverðs í þorski og lækkun gengis íslensku krónunnar hefur vegið á móti þeirri tekjuminnkun sem þorskaflaskerðingin hefur valdið atvinnugreininni og gert mönnum auðveldara en ella, að sigla í gegn um þennan mikla brimskafl. Á erlendum mörkuðum er þessi ákvörðun tekin til marks um að við Íslendingar séum sú ábyrga auðlindanýtingarþjóð sem orð hefur farið af. Enginn vafi er á því að þetta hefur skilað okkur árangri í markaðsstarfi og á sinn þátt í því að tryggja orðstí okkar um komandi ár.

 

Á þessari stundu vitum við ekki hvað framundan er varðandi hámarksafla komandi fiskveiðiárs. Tillögur fiskifræðinga liggja ekki fyrir, -  hvað þá ákvörðun stjórnvalda. Nema að því leiti, að á síðasta ári var ákveðið hvernig nýtingarstefnu næsta fiskveiðiárs yrði háttað, hvað þorskinn áhrærði. Við tókum sem sé ekki bara ákvörðun um þriðjungs lækkun þorskafla þessa fiskveiðiárs, heldur var einnig ákveðið að á komandi árum verði veiðihlutfallið í þorski 20% af viðmiðunarstofni og að á næsta fiskveiðiári yrði aftur tekin upp sú sveiflujöfnun sem hefur verið við ákvörðun heildarafla. Þá var sú ákvörðun jafnframt tekin í fyrra að aflamark í þorski yrði aldrei lægra á næsta fiskveiðiári en 130 þúsund tonn. Þannig var stefnan mörkuð í fyrra til lengri tíma. Það er í samræmi við óskir manna í sjávarútvegi, sem  kallað hafa eftir því að dregið yrði úr óvissu og menn vissu sem mest og best um leikreglurnar sem ynnið yrði eftir á komandi árum.

 

Það er líka sanngjörn krafa. Sjávarútvegurinn okkar hlýtur að eiga heimtingu á því gagnvart stjórnvöldum að leikreglurnar séu sem skýrastar. Óvissan er versta fylgikona hvers atvinnurekstrar. Nægir eru þó óvissuþættirnir í atvinnugrein sem keppir á grimmum alþjóðlegum samkeppnismarkaði  og á líf sitt undir sjávarafla, sem getur verið svipull, eins og máltækið hefur kennt okkur í gegn um aldirnar.

 

Íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu undirbúið svar til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna vegna þeirra sjónarmiða sem nefndin setti fram um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið. Frá upphafi hafa þessi mál verið tekin föstum tökum af okkar hálfu. Kvaddir hafa verið til hinir færustu menn til þess að fara yfir álitið. Það var þýtt á íslensku af stjórnvöldum, kynnt í tímariti lögfræðinga, rætt á Alþingi, farið ofan í saumana á því í viðeigandi þingnefnd og ítarlegt og vel rökstutt svar, sem kynnt var Alþingi á fimmtudag, verður sent nefndinni á tilsettum tíma. Er mér til efs um að finna megi dæmi um af viðlíka tilefni, að stjórnvöld annarra ríkja hafi brugðist svo ákveðið og markvisst við.

 

Þegar þessi mál eru rædd er afar mikilvægt að undirstrika að sjávarútvegur okkar er undirstöðuatvinnugrein sem verður að lúta sömu hagræðingarkröfum og aðrar atvinnugreinar. Ella verður hann einfaldlega undir og laðar ekki til sín það fólk sem hann þarf á að halda. Víða um heim má einmitt sjá dæmi um sjávarútveg sem orðið hefur þeim örlögum að bráð. Sjávarútveg sem ekki hefur verið álitin alvöru atvinnugrein og er því ekki áhugaverður sem vettvangur lífsstarfs.

 

Við þurfum að tryggja að okkar sjávarútvegur verði alltaf eftirsóttur starfsvettvangur, hvort sem er til sjós eða lands. Þar þurfum við á okkar besta fólki að halda. Slíkt mun hins vegar ekki verða, ætli menn að sækja fyrirmyndir að skipulagi hans til landa sem glutrað hafa niður sóknarfærum á þessu sviði. Við eigum eingöngu að horfa til þeirra landa sem hafa náð bestum árangri í leit að fyrirmyndum. Við getum ekki leyft okkur neitt annað en að keppa að því að vera alltaf í fremstu röð.

 

Því miður er alltof oft horft framhjá þessum þætti málsins, þegar málefni sjávarútvegsins eru rædd. Við getum aldrei liðið það að sjávarútvegurinn okkar verði fátæktariðnaður, sem menn hafa ekki áhuga á að stunda. Slík dæmi þekkjum við hins vegar víða um lönd og álfur, þar sem auðlindanýtingin hefur orðið skammtímahugsuninni að bráð eða þar sem sóknin í sjávarfangið hefur ekki lotið almennu skipulagi sem stuðlað hefur að hámarksafrakstri. Það eru víti til að varast.

 

 Ágætu íslenskir sjómenn og fjölskyldur.

 

En handan við kólguna kalda
býr kona, sem fagnar í nótt
og raular við bláeygan, sofandi son,
og systur hans, þaggandi hljótt.

 

Við skulum líka á þessum hátíðisdegi hugsa til fjölskyldna sjómanna. Þetta er ekki síður þeirra dagur. Dagurinn sem í 70 ár hefur sameinað sjómannsfjölskyldurnar í hátíð og gleði, en einnig oft í ljúfsárri minningu um föður eða son, góðan félaga eða vin sem hnigið hefur í vota gröf.  Með markvissu átaki, baráttu sjómanna og útvegsmanna og góðum skilningi hefur sem betur fer tekist að fækka banaslysum til sjós. Því miður hefur það ár sem liðið er frá síðasta sjómannadegi þó ekki verið án slysa  þar með banaslyss, sem tengjast sjómannsstarfinu.  Það segir okkur það eitt að sem fyrr og um alla framtíð verða öryggismál sjómanna að vera forgangsverkefni okkar. Um það er mikil sátt og samhugur í samfélagi okkar.

 

Sjómannadagurinn er einstakur dagur í íslensku samfélagi og er haldinn hátíðlegur víðast hvar við sjávarsíðuna. Nú og í gær hafa tugir þúsunda manna vísast komið saman til þess að taka þátt í hátíðahöldunum. Jafnt til þess að gleðjast með sér og sínum, en einnig til þess að sýna góðan hug íslensku þjóðarinnar til sjómanna og fjölskyldna þeirra og láta þannig í ljósi þakklæti fyrir þau þýðingarmiklu störf sem sjómenn inna af hendi fyrir okkar íslensku þjóð. Saga sjómannadagsins í sjötíu ár sýnir okkur þetta svo ekki verður um villst.

 

Íslenskir sjómenn mega vera stoltir af starfi sínu og íslenska þjóðin er stolt og þakklát fyrir það undirstöðustarf sem sjómenn vinna í þágu þjóðarinnar.

 

Kæru sjómenn og fjölskyldur. Til hamingju með daginn, til hamingju með sjómannadaginn.

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum