Hoppa yfir valmynd
04. júlí 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Matís ohf. og Veiðimálastofnun í samstarf og rannsóknir á erfðafræði íslenskra laxfiska, 3. júlí 2008

Ávarp

Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

þann 3. júlí 2008

við kynningu á samstarfi og rannsóknum Matís ohf. og Veiðimálastofnunar

á erfðafræði íslenskra laxfiska (laxa, urriða og á bleikjum)

 Ágæta fjölmiðlafólk, rannsóknafólk og aðrir viðstaddir. 

 

Ég vil þakka ykkur fyrir að koma hér og vera viðstödd þegar tvö af þeim fyrirtækjum og stofnunum, sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, innsigla samstarf sitt með nýjum samstarfssamningi. 

Bæði eru þessi fyrirtæki afar mikilvæg.  Matvælarannsóknir Íslands (Matís) er hlutafélag í eigu ríkisins og hefur það að markmiði að efla og þróa íslenska matvælaframleiðslu og efla alþjóðlega samkeppnishæfni hennar, auk þess að stuðla að hollustu og öryggi matvæla.  Þá styður Matís vísindastarfsemi háskólastofnana, nýsköpun og sprotafyrirtæki og sinnir samfélagslegum skyldum gagnvart einstökum atvinnugreinum.  Líftæknisvið Matís er Prokaria og hefur byggt upp öfluga erfðagreiningadeild.  Prokaria er eina fyrirtækið sem byggt hefur upp víðtæka erfðagreiningaþjónustu á dýrum.  Sú tækni nýtist við stofngreiningar, t.d. fiskistofna, og við kynbótarstarf í fiskeldi.  Prokaria hefur t.d. þróað mörg ný erfðamörk fyrir þorsk og hefur nýlega lagt inn einkaleyfaumsókn á hagnýtingu á 20 þessara erfðamarka. Erfðamörk af þessu tagi geta nýst við rekjanleikarannsóknir, en mikil vakning er í rekjanleikarannsóknum og verður krafa neytandans sífellt háværari um vitneskju um hvort að tiltekinn fiskur sé veiddur úr stofnum sem nýttir eru á sjálfbæran hátt.

Veiðimálastofnun er stofnun sem fer með rannsóknir á lífríki ferskvatns auk rannsókna og ráðgjöf í nýtingu fiskistofna í ferkvatni og í fiskrækt og fiskeldi.  Báðar eru þessar stofnanir mjög mikilvægar íslenskum atvinnuvegum, ekki síst á landsbyggðinni þar sem matvælaframleiðsla, veiðinýting og fiskeldið fer að stórum hluta fram.  Það að þessi fyrirtæki vinni saman er því afar mikilvægt.

Veiðimálastofnun og Matís munu standa að nánu samstarfi um rannsóknir. Þessar rannsóknir spanna grunn- og hagnýtar rannsóknir í náttúru- og erfðafræði. Veiðimálastofnun hefur stundað stofnerfðarannsóknir á ferskvatnsfiskum og Matís stundað rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar og hefur byggt upp mikla þekkingu og færni í erfðagreiningu á alls kyns lífverum úr umhverfinu. Samvinna verður við stofnanir og fyrirtæki hérlendis og erlendis. Aðilar  munu leitast við að sækja sameiginlega um rannsóknastyrki í samkeppnissjóði, og mynda með öðrum innlendum og erlendum stofnunum sterk rannsóknarteymi.

Aðilar eru sammála um að samstarf sé gagnlegt fyrir báða. Það geti m.a. gert Matís kleift að þróa nýjar vörur og þjónustu í erfðagreiningum og að það geti gert Veiðimálastofnun kleift að hraða upplýsingaöflun og auka þjónustu við stjórnvöld og hagsmunaaðila á sviði stofnrannsókna, nýtingar og verndunar íslenskra fersvatnslífvera, sérstaklega þar sem erfðagreiningartækni getur komið að notum.  Þá eru góðir og vaxandi samstarfsfletir í rannsóknum og þróun á fiskeldi.

 

Gott samstarf hefur verið undanfarin ár milli fyrirtækjanna og má þar nefna laxaverkefni sem hefur það markmið að hægt sé að rekja lax til sinnar heimaár/árkerfis. Mikil hnignun hefur átt sér stað í flestum stofnum Norður- Atlantshafslaxins og er hann víða á válista. Mjög lítið er vitað um sjógöngur laxa og hafa rannsóknir byggt á hefðbundnum merkingum og rannsóknum með skipum. Veiðimálastofnun hóf nýlega rannsóknir á farleiðum laxa með rafeindmerkjum og hafa þegar fengist mikilvægar niðurstöður sem marka tímamót í rannsóknum á laxi í sjó.  Íslendingar eru því í fararbroddi í rannsóknum á þessu sviði. Alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna á Atlantshafslaxi er í gangi og er lokamarkmið vísindamanna að geta svarað ýmsum spurningum með því að geta rakið laxa í Atlantshafinu til upprunaár/árkefis sinnar. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið þar sem hvert land þarf að vinna mikla vinnu bæði í sýnasöfnun og erfðagreiningum. Íslendingar virðast komnir einna lengst í því að vinna “heimavinnuna” sína og er nú stefnt að næsta skrefi rannsóknarinnar sem tengist sjógöngulaxinum. Þar er stefnt að samvinnu við fiskveiðiflotann um að safna sýnum úr laxi sem slæðist með í veiðiafla skipanna. Marmiðið er að geta rakið fiskinn til uppruna síns.  Með öflugan arfgerðagagnagrunn er hægt að upprunagreina lax í sjó til sinnar uppeldisstöðva. Þannig má kortleggja dreifingu og farleiðir laxa á mismunandi tímum eftir uppruna.

 

Það er því sönn ánægja að staðfesta samstarfssamninginn og styrkja þannig öflugt starf þessara fyrirtækja sem eru undir styrkri stjórn þeirra Sjafnar og Sigurðar.  Þau munu án efa svara spurningum ykkar ef einhverjar eru.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum