Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Afhending Sleipnisbikarsins á landsmóti, 6. júlí 2008.

Afhending Sleipnisbikarsins á landsmóti 2008, sunnudaginn 6. júlí kl. 14:30.

Landsmótsgestir.

 

Sleipnisbikarinn er æðsta viðurkenning sem nokkrum getur hlotnast í hrossaræktinni. Hann hlýtur sá stóðhestur sem efstur stendur í heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi á landsmóti.

 

Sleipnisbikarinn hefur verið veittur samfellt á öllum landsmótum frá upphafi þeirra 1950. Margir hafa verið kallaðir til að hljóta þá viðurkenningu en fáir verið útvaldir.

 

Það þarf margt að koma til svo að slíkur árangur náist að hönd sé fest á Sleipnisbikarnum og honum lyft á sigurstundu. Stóðhesturinn sem í hlut á þarf að vera slíkum afburða eðliseiginleikum gæddur að hann sé sannur kyngæðingur en ekkert má heldur upp á vanta að afkvæmi hans njóti framúrskarandi meðferðar og tamningar en þannig er um allt búfé og ekki síst hrosssin sem ræktuð eru til afkasta og fegurðar.

 

Hróður frá Refsstöðum vinnur Sleipnisbikarinn í ár og vil ég óska eiganda hans Metta Mannseth á Þúfum í Viðvíkursveit og ræktanda hans Jenný Sólborgu Franklínsdóttur sem lengi bjó á Refsstöðum í Hálsasveit innilega til hamingju með árangurinn. Þá vil ég þakka aðstandendum þessa móts fyrir hversu vel það hefur heppnast, þakka hrossaræktendum öllum og keppendum þeirra þátt og ekki síst ykkur áhorfendum og unnendum íslenska hestsins óþrjótandi áhuga.

 

Nú í dag endar þetta glæsilega landsmót, sem er í hugum okkar sem höfum verið hér undanfarna daga, algjörlega ógleymanlegt, bæði sakir góðs undirbúnings en alveg sérstaklega vegna þeirra glæsilegu hesta sem hafa fangað hugi okkar.  Gleymum því ekki að hrossaræktin er eljustarf sem engan endi tekur og undirbúningur næstu landsmóta er löngu hafinn í ranni ræktenda víða um land. Engin veit með vissu hvað framtíðin ber í skauti sér. Við lifum á óvissum tímum eins og oft áður en eitt er þó víst: Íslensk þjóð og íslenski hesturinn munu eiga samleið á framfarabraut.

 

Lifið heil.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum