Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ólafsdalshátíð 10. ágúst 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

flutt á Ólafsdalshátíð 10. ágúst 2008

Oft hefur það verið mér ráðgáta hvernig við Íslendingar fórum hérumbil á heljarstökki inn í samtímann við lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. Aldirnar liðu og atvinnuhættirnir breyttust lítt frá landnámi. Við sátum við árarnar og dorguðum upp við sand, þegar sá guli var utar. Við beittum svipuðum vinnubrögðum við að erja landið og þeim sem við fluttum með okkur frá Noregi á níundu öldinni. Það var því ekki að undra að við upphaf 20. aldarinnar vorum við í hópi fátækustu þjóða Evrópu. Torfbæirnir voru athvarf okkar, þó þjóðir Evrópu og annarra heimsálfa hefðu öldum saman tileinkað sér byggingarmáta úr óforgengilegra efni. Frásagnir forfeðra okkar  sýna að vinnubrögðum svipaði til þess sem við nú nemum úr sjónvarpinu hjá þeim þjóðum sem styst eru komnar á hinni efnahagslegu þróunarbraut.

 

En svo breyttist það allt, nánast sem á svipstundu. 20. öldin er tími þar sem breytingar í íslensku þjóðlífi urðu miklu meiri en á þeim eitt þúsund árum sem þá höfðu liðið frá landnámi. Í samanburði við allt það sem við höfum rætt og skrifað um hina pólitísku þróun sem leiddi til sjálfstæðis okkar, hefur miklu minna verið fjallað um þau risaskref sem við tókum á sviði atvinnumála. Það er þó ljóst að framfarirnar á atvinnusviðinu reistu þær stoðir sem sjálfstætt Ísland byggðist á.

 

Torfi Bjarnason í Ólafsdal var einn þeirra sem án nokkurra tvímæla var helsti gerandinn í framfaramálum landbúnaðarins og þar með í atvinnumálum okkar. Þó menn greini oft á um hvort einstaklingar séu sjálfstæðir áhrifavaldar í framvindu sögunnar, fer ekki á milli mála að frumkvæði hans og framsýni hafði gríðarleg áhrif. Og nú þegar við horfum til baka, er ástæða til þess að letra nafn hans gullnu letri í bækur þjóðarsögunnar.

 

Betur vinnur vit en strit, segir máltækið. Og vitaskuld blasir það við okkur öllum. Það vantaði ekki að forfeður okkur lögðu gríðarlega hart að  sér og vinnudagurinn var oft langur og strangur. Árangurinn af þeirri lífbaráttu varð þó ekki í samræmi við erfiðið, eins og við sjáum. Keppikefli forfeðranna var einfaldlega að lifa af. Tækni og þekking og lögmál markaðarins lyftu okkur hins vegar af því stigi og fleytti okkur til þess veruleika sem við þekkjum í dag.

 

Þegar ég sleit barnsskónum vestur í Bolungarvík á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar voru hinar ágætu Íslandssögubækur Jónasar Jónssonar frá Hriflu viðteknar við uppfræðslu mína og jafnaldra minna líkt og verið hafði um all langt skeið – og raunar síðar líka- eftir því sem ég best veit. Í Íslandssögubókunum sem ég las, ríkti engin feimni við að draga fram afrek einstaklinga á borð við Torfa í Ólafsdal. Með afdráttarlausum  hætti var myndin dregin upp af því afreki sem í því fólst að íslenskir bændur fengu í hendur nýja ljái, skosku ljáina, sem einnig voru kenndir við frumkvöðulinn í Ólafsdal og kallaðir Torfaljáir. Dr. Magnús Jónsson guðfræðidósent skrifar í Sögu Íslendinga að nýju ljáirnir hafi aukið afköst manna við slátt um þriðjung eða jafnvel helming og forðað auk þess skógarleifunum í landinu frá kolagerðinni þar sem nú þurfti ekki lengur að dengja ljáina heita. Það er kannski örðugt að gera sér nú grein fyrir þýðingu þessarar nýju verktækni í bændasamfélagi 19. aldar, en hún var þó geysilega mikil. Torfaljáirnir bitu meira en þeir gömlu og dugðu betur. Þeir voru snar þáttur í heyverkun lengi fram eftir 20. öldinni; sjálfur lærði ég að beita slíku eggvopni í sveit norður í Skagafirði upp úr 1960, þó seint hefði ég talist slyngur á því sviði.  Í dag sjáum við slíka ljái helst á byggðasöfnum.

 

Það er einnig athyglisvert að skoða á hvern veg Íslendingar brugðust við þessu undratæki, Torfaljáunum. Ljáina kom Torfi með sér frá Skotlandi, prófaði þá hér og aðlagaði staðháttum. Sagt er að þeir hafi rutt sér til rúms á þremur árum, 1868-1871.  Þetta er í rauninni svipað og gerðist í annarri atvinnulífsbyltingu, það er þegar vélvæðing íslenska fiskiskipaflotans hófst í árslok árið 1902. Þegar sú útgerð byrjaði svo með vertíðarróðrum frá Bolungarvík árið 1903, ríkti almenn ótrú á þetta ókunna verkfæri, en  örskömmu síðar var nær allur íslenski bátaflotinn orðinn vélvæddur. Þessi dæmi hvorutveggja eru að mínu viti nokkuð lýsandi fyrir þá framfaraþrá sem leyndist með Íslendingum á þessari tíð. Menn kveiktu strax á möguleikunum sem ný tækni og þekking skapaði. Fyrst gerðist sem sé nær ekkert, en síðan tileinkuðu menn sér nýja tækni og möguleika á ljóshraða. Það var eins og alltaf væri veður til að skapa, á þeim tímum sem fóru í hönd, svo ég vitni til orðalags skáldsins Tómasar Guðmundssonar.

 

En víkjum nú aftur að verkum Torfa og áhrifum þeirra. Hér langar mig að vitna í athyglisverða lýsingu Jóns Jónatanssonar búfræðings og jarðyrkjumanns sem hann brá upp í bréfi til Torfa. Í bréfinu segir:

 

“Ég þakka þér kærlega fyrir bréfin bæði og sendinguna á plógnum. Mér þótti sannarlega vænt um að fá að reyna hann og ekki síst þegar sú reynsla varð til að staðfesta það sem ég hef alltaf haldið fram að plógurinn frá þér er hinn lang hentugasti fyrir vorar kringumstæður, - og að við getum aldrei fengið útlendan plóg sem er jafn “alsidig" sem þessi ... Ég er svo innilega ánægður með plóginn, að ég skal gjöra allt sem í mínu valdi stendur til að auka útbreiðslu hans ... Ég dáist að því hvílíkt fyrirtak ristillinn er fyrir seiga jörð og sömuleiðis skerinn ... Veltifjölin er ágæt ... Landhliðin einnig ... Gott þætti mér fyrir mitt leyti að sköftin væru ofurlítið lengri ... Ég skal ekki fjölyrða meira um plóginn. Hann er afbragð.”

 

Afrek Torfa Bjarnasonar var fyrst og fremst í því fólgið að auka þekkingu í íslenskum landbúnaði og kynna nýja möguleika fyrir bændum á Íslandi. Athyglisvert er að hann sótti þekkinguna og hugmyndirnar handan yfir hafið, bæði til Norðurlandanna og til Vesturheims. Sumt af þessari verkþekkingu og tækni var fyrir löngu þekkt utan landsteina okkar, en hafði ekki ratað hingað. Einangrunin hafði orðið okkur sem hinn versti óvinur og hamlaði framförum.

 

Stofnun Búnaðarskóla hér í Ólafsdal árið 1880 var vitaskuld gríðarlegt afrek. Gleymum því ekki að aðstæður voru ekki mjög hagstæðar fyrir svo nýstárlega og djarfa hugmynd, svo ekki sé meira sagt. Héðan stóðu yfir mestu þjóðflutningar sem við höfðum nokkru sinni upplifað. Meira en 16 þúsund manns fluttu héðan frá Íslandi og vestur um haf. Þetta var ekki lítill hluti íslensku þjóðarinnar, þegar það er haft í huga að íbúar landsins voru á stofnári skólans, árið 188o um 72 þúsund. Sem hlutfall af þeirri tölu samsvara þessir þjóðflutningar til ríflega fimmtungs þjóðarinnar. Þessar staðreyndir endurspegla hve tímarnir voru erfiðir og þjóðin fátæk og smá.

 

Gegn þessum straumi sigldi Torfi í Ólafsdal. Sem rifjar kannski upp spurninguna sem ég tæpti á hér fyrr; um þátt einstaklingsins í að móta framvindu sögunnar. Það fer ekkert á milli mála að Torfi Bjarnason var tvímælalaus gerandi. Það voru ekki aðstæðurnar sem gerðu honum viðfangsefnið kleyft. Þvert á móti. Hann skóp aðstæðurnar og mótaði söguna.

 

Uppbygging skólahúsnæðisins hér var líka ævintrýri líkust. Sannarlega naut hann atbeina ýmissa og er of langt mál að telja það allt upp. Hann útvegaði sér mikinn rekavið og norskt timbur og naut fjárstuðnings Vesturamtsins. Þó var hann launalaus við skólastarfið fyrstu þrjú árin sem skólinn var starfræktur. Það var fyrst fimm árum eftir stofnun  skólans að hann var formlega samþykktur sem opinber stofnun og fékk þar með nægjanlegt fjármagn til rekstrarins.

 

Það hefur verið líflegt um að litast hér í Ólafsdal. Ár hvert dvöldust hér 10 til 12 skólasveinar, flestir á aldrinum 18 til 25 ára og voru látnir sitja yfir bókum 48 stundir  á viku, auk verknáms sem tilhlýðilegt var. Og skólastjórinn var ekki aðgerðarlaus. Hann samdi kennslubækur um svo fjölbreytileg efni sem hagfræði, fæðuefni, vatnsveitingu, fóðurjurtir og verkfæri. Og eftir hann liggja 55 greinar í blöðum og tímaritum – heilli öld fyrir daga internets og ritvinnsluforrita. Í Ólafsdal fengu menn innsýn i alveg nýjan heim. Þar voru meðal annars ræktaðar kartöflur, sem ágætur vestfirskur klerkur séra Björn í Sauðlauksdal hafði kynnt fyrir Íslendingum einni öld áður, raunar eftir að hinn sænski Hastfer hrútabarón hafði gert til þess hálf mislukkaða tilraun á Bessastöðum. Og í Ólafsdal fer einnig sögum af ræktun á næpum, gulrófum, höfrum, bortfellskum rótum, fóðursinnepi og byggi. Er ekki að efa að þetta hefur þótt all mikið nýnæmi hér við Gilsfjörðinn!  Í Ólafsdal voru einnig smíðuð verkfæri. Heimildir herma að hér hafi verið smíðuð 800 jarðyrkjuverkfæri og tilheyrandi tæki s.s. plógar, herfi, hesthemlar, aktygi, hestakerrur, hestarekur og hjólbörur. Auk þessa 700 ristuspaðar og gífurlegt magn hestajárna, ljáblaða og heynála. Vitað er að þessi verkfæri dreifðust um allt land og hafa þannig stuðlað að aukinni ræktun og ýtt undir framfarir og verkmenningu í sveitunum.   

 

Í rauninni hefur Ólafsdalur ekki einungis verið mennta og fræðastofnun á sviði landbúnaðar á sinni tíð. Hér hefur í raun farið fram umtalsverð verksmiðjuframleiðsla á landbúnaðartækjum sem seld voru um landsins byggðir. Þannig má segja að hin nýja verktækni hafi borist um landið með tvennum hætti. Annars vegar með því að Ólafsdalssveinar tileinkuðu sér hana og báru með sér heim á búin sín, kannski í heimahögunum. Og hins vegar með því að verkfærin voru seld um landið í hendur bænda.

 

Sá minnisvarði sem óbrotgjarnastur verður um líf og starf Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal er örugglega sá að hann jók þekkingu og ýtti þar með undir framfarir í landbúnaði okkar. Það er því örugglega ekki ofmælt sem sagt hefur verið að áhrifin af frumkvæði Torfa í Ólafsdal  hafi í raun verið hrein straumhvörf. Þannig átti hann sinn ómetanlega þátt í að skapa þann framfarahug sem einkennir landbúnað okkar daga. Allir sem þekkja til vita að gríðarlegar breytingar hafa orðið í sveitum landins.

 

Það er enginn vafi á því að þessi hugsunarháttur framfara hefur fylgt íslenskum bændum æ síðan. Veit ég vel að þar eiga margir hlut að máli, en Torfi í Ólafsdal var ótvíræður frumherji. Gæfa landbúnaðarins og gæfa þjóðarinnar hefur hins vegar falist í því að þessi framfaraglóð hefur ætíð varðveist í landbúnaðinum. Tækjavæðing og sjálfvirkni sú sem nú einkennir íslenskan búskap er til marks um það. Afköst á öllum sviðum hafa aukist. Fjölbreytni landbúnaðarins er margfalt meiri en hún var; hvað þá ef miðað er við tíma Torfa Bjarnasonar. Sveitaheimili voru fjölmenn fyrrmeir eins og við þekkjum. Húsbændur og hjú og barnaskarinn allur.  Í dag afkastar venjulegt íslenskt fjölskyldubú margfalt á við það sem þekktist fyrir aðeins fáeinum áratugum, þó miklu færri hendur vinni þau störf. Þetta köllum við framfarir og þetta eru framfarir. Heyskap er lokið á viku, mjaltir fara fram í hátæknivæddum fjósum, sauðfjárrækt útheimtir allt annars konar vinnu og auðveldari en áður. Og síðan það sem oft gleymist. Landbúnaður er einnig í dag, garðyrkja af margs konar tagi, umsýsla og rekstur frístundabyggða, skógrækt og landgræðsla, ferðaþjónusta af alls konar toga, loðdýrabúskapur, hlunnindanýting, til sjós og lands, í vötnum og ám, alifuglarækt, svínabúskapur, hrossarækt, afþreyingarþjónusta af fjölþættasta tagi og ekki má á þessum orkunýtingartímum gleyma raforkubændunum. Er það þó víðs fjarri að allt sé upp talið sem einkennir íslenskan landbúnað, röskri öld eftir að búnaðarskólastarfsemi stóð hér með mestum blóma.

 

Ég er því viss um að Torfi Bjarnason og hans fólk hefðu litið með stolti til búskparins núna og fundist tækifærin óþrjótandi. Draumarnir hefðu ræst með öflugum og fjölþættum landbúnaði, en ótölulega margt hefði einnig gerst sem jafnvel svo stórhuga bjartsýnismaður sem hann hefði aldrei getað ímyndað sér.

 

Það má kannski segja að vel fari á því nú að skírskota til íslensks máltækis og segja að íslenskur landbúnaður hafi þannig goldið Torfalögin með sóma og sann.

 

Góðir samkomugestir.

 

Mér er það mikill heiður að undirrita viljayfirlýsingu, ásamt forsvarsmönnum Ólafsdalsfélagsins ses.  Er þessi yfirlýsing gerð með skírskotun til þegar gerðrar samþykktar Alþingis. Gert er ráð fyrir að fela félaginu varðveislu jarðarinnar og að gera samning til 50 ára um heimalandið. Markmið félagsins er m.a. að standa fyrir endurbyggingu húsakosts og gera staðnum þann sóma sem honum ber. Ég vil þakka forráðamönnum Ólafsdalsfélagsins af heilum hug þann mikla myndarskap og stórhug sem þeir sýna með ákvörðun sinni. Það er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sem fer með forræði jarðarinnar, sannur heiður að koma að þessu máli með þessum hætti og af þessu tilefni er stefnt að því að leggja fram lítilsháttar heimanmund sem duga mun fyrir leigugreiðslum næstu tíu árin.

 

Í umróti samtímans gerum við aldrei nóg af því að vekja athygli á afrekum fortíðarinnar, sem lagði grundvöllinn að Íslandi samtímans. Það gerum við hins vegar í dag. Hafi forsvarsmenn Ólafsdalsfélagsins ses. heila þökk fyrir framtak sitt og megi ykkur farnast vel í varðveislu og uppbyggingarstarfinu hér á þessum sögufræga stað.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum