Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Samnorræn ráðstefna skógarmálaráðherranna haldin á Selfossi 18. - 19. ágúst 2008

Samnorræn ráðstefna skógarmálaráðherranna

haldin á Selfossi 18. – 19. ágúst 2008

 

Kæru norrænu vinir og samherjar.

Mér er það sönn ánægja að bjóða ykkur til grillveislu á fallegum stað úti í sveit á Íslandi að loknum ströngum ferðadegi um skógræktarsvæði á Suðurlandi.

 

Fyrir rúmu ári síðan var gerð sú breyting á stjórnarráði Íslands að málefni skóga færðust frá landbúnaðarráðuneytinu yfir í umhverfisráðuneytið. Þá var einnig ákveðið að nýskógrækt bænda yrði áfram á vegum landbúnaðarráðherra.  Því er það að í dag hef ég haft þá ánægju að fara með hópnum og sýna honum framkvæmdir á sviði skógræktar sem að mestu fara fram á jörðum bænda og heyra undir mitt ráðuneyti en á morgun mun umhverfisráðherra sitja ráðstefnu skógræktarráðherranna þar sem fjallað verður um skógræktina almennt.

 

Þetta hefur verið nokkuð langur dagur og dagskráin ströng, enda mikið að skoða og sýna.  Þó er það sem við höfum séð aðeins toppurinn á þeim stóra ísjaka sem íslensk bændaskógrækt er.  Segja má að hún hafi hafist fyrir alvöru fyrir tæpum 20 árum síðan, þá í smáum stíl á afmörkuðu landssvæði en árangur af henni síkur að bændur og jarðareigendur um allt land óskuðu eftir að fá að taka þátt og hefja skógrækt á sínum jörðum.  Skógrækt þessi er nær alfarið kostuð af ríkinu en bændur sjá um gróðursetninguna og umhirðu trjánna.  Í fyrstu var markmiðið að hefja á Íslandi timburskógrækt en með tímanum hefur áhersla verið lögð á gildi blandaðra skóga enda fjölþætt notagildi skóganna mun meira en eingöngu timburframleiðsla eins og þið þekkið svo vel.  Enn skal á það minnt að þegar landnám hófst hér fyrir um 11 hundruð árum síðan var landið þakið skógi og kjarri.  Búseta mannsins, eldgos og hörð veðrátta áttu hvað stærstan þátt í að þeir skógar eyddust.  Um aldamótin 1900 var aðeins um 1% landsins skógi vaxið.  Nú er stefnt að því að þekja 5% af landinu skógi á næstu 40 árum eða svo.  Hvort og hvenær það markmið næst skal ósagt látið og nægir að nefna þá staðreynd að veðurfar er að breytast til hins hagstæðara en jafnframt skal á það minnt að náttúruöfl Íslands eru sterk og við þau ráðum við ekki.  Nægir mér að minna á Heklu og umhverfi hennar því til sönnunar sem þið hafið nú farið um í dag.

Skipulag þessarar skógræktar er með þeim hætti að í öllum landshlutum eru starfandi sérstök verkefni sem stýra gróðursetningunni.  Jarðir eru metnar og bændum ráðlagt um val á plöntum og þeir aðstoðaðir af fagmönnum um allar framkvæmdir.  Ísland hefur mikla sérstöðu meðal hinna norðurlandanna hvað skóg varðar.  Varla er hægt að tala um skipulagða nýtingu skógarviðar enn sem komið er en áherslan lögð á gróðursetninguna.  Fyrir okkur hefur því verið ómetanlegt að leita þekkingar til hinna Norðurlandanna sem hafa stutt íslenska skógrækt á margan máta og fyrir þann stuðning þökkum við.  Flestir okkar fagmenn hafa stundað þar nám og þangað höfum við leitað þekkingar á fjölmörgum sviðum.  Við höfum einnig leitað annað og að nokkru leyti má segja að skógræktarátak okkar sé að nokkru sambærilegt við þær skógræktarframkvæmdir sem eiga sér stað á Írlandi og Skotlandi. 

Nú er stunduð skógrækt af tæplega 1000 einstaklingum og sannarlega er von okkar að þeir dagar komi að skógar verði taldir til auðlinda landsins.

 

Kæru vinir.

Í dag hafið þið farið um falleg sveitahéruð Suðurlands.  Hér er hvað þéttast búið enda Suðurlandið gott til búsetu og einnig skýrist sú búseta af nágrenninu við höfuðborgarsvæðið.  Ég vil hins vegar benda á að mjög víða á landinu eru þéttbýlar sveitir og fyrir þá sem ekkert þekkja til hefur það verið markmið okkar Íslendinga að byggja allt landið.  Hafið og landið hafa verið þær auðlindir sem við höfum byggt okkar afkomu á og mun svo áfram verða.  Með nýrri tækni er búskapurinn að verða léttari fyrir þá sem hann stunda og þrátt fyrir að veðurfar sé ekki eins gott til búskapar eins og víða annars staðar, er vandalaust að rækta hér fjölmargar tegundir af nytjaplöntum sem áður var talið að ekki myndi takast.  Kornrækt er í mikilli sókn og hvers konar grænmetisræktun stendur traustum fótum m.a. vegna nýtingar jarðvarmans til þeirra hluta.  Og nú á síðustu árum er skógræktin farin að gera sig gildandi.  Ég hef þá trú að innan fárra ára verði nýting skógarafurða og atvinna við skógrækt orðinn stór þáttur í landbúnaði á Íslandi.

 

Ágætu gestir.

Ég vona að þið hafið notið ferðarinnar í dag og séuð margs fróðari um íslenskan landbúnað og íslenska skógrækt.  Hér erum við í fallegum gömlum skógarlundi og ætlum njóta matar í friðsælu umhverfi.

Verið þið velkomin og gjörið þið svo vel.

 

Ávarpið á dönsku

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum