Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Landbúnaðarsýning í Rangárhöllinni á Gaddstaðaflötum 22. - 24. ágúst 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

á opnunarhátíð landbúnaðarsýningar í Rangárhöllinni á Gaddstaðaflötum

haldin 22.- 24. ágúst 2008

í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands

 

Í raun má segja að starfsemi Búnaðarsambands Suðurlands sé eins konar aldarspegill íslensks landbúnaðar.  Samtök bænda sem starfað hafa í heila öld í öflugustu landbúnaðarhéruðum Íslands eru auðvitað sem opin bók, sem segja okkur sögu landbúnaðarins allt frá byrjun síðustu aldar og fram á okkar daga.

           

Upphaf 20. aldarinnar var mikill framfaratími í sögu landbúnaðarins. Oft hefur það verið mér ráðgáta hvernig við Íslendingar fórum hérumbil á heljarstökki inn í samtímann við lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. Aldirnar liðu og atvinnuhættirnir höfðu lítt breyst frá landnámi.  Síðan hófust risaskrefin. Sannarlega ekki við auðveldar aðstæður. Á sama tíma og framfarahugurinn í landinu fann viðnám fyrir krafta sína, máttum við stríða gegn mestu þjóðflutningum frá landinu, þegar um fimmtungur þjóðarinnar flutti vestur um haf.

 

Stofnun Búnaðarsambands Suðurlands árið 1908 er ein birtingarmynd þeirra framfara sem voru að hefjast í atvinnuháttum okkar. Bændur bundust samtökum til þess að vinna að framfaramálum sínum. Menn sóttu sér ráðin í aukna þekkingu og því er sagt að fyrst um sinn hafi starfsemin aðallega verið í formi námskeiða um breytta og bætta búskaparhætti, einkum í plægingum.

 

Það er þessi framfarahugur sem æ síðan hefur einkennt íslenskan landbúnað. Gæfa landbúnaðarins og gæfa þjóðarinnar hefur falist í því að sá neisti framfara sem kveiktur var fyrir röskri öld hefur orðið sú framfaraglóð sem hefur ætíð varðveist í landbúnaðinum. Tækjavæðing og sjálfvirkni sem nú einkennir íslenskan búskap er til marks um það. Afköst á öllum sviðum hafa aukist. Fjölbreytni landbúnaðarins er margfalt meiri en hún var. Sveitaheimili voru fjölmenn fyrrmeir eins og við þekkjum. Í dag afkastar venjulegt íslenskt fjölskyldubú margfalt á við það sem þekktist fyrir aðeins fáeinum áratugum, þó miklu færri hendur vinni þau störf.

 

Þannig hefur landbúnaðurinn ekki einasta orðið þátttakandi í miklum breytingum sem einkennt hafa samfélag okkar heldur einnig verið leiðandi á því sviði. Landbúnaðurinn er þess vegna ekki leiksoppur þessara breytinga heldur þvert á móti gerandi. Bændur hafa  skynjað tækifærin og nýtt sér þau til hagsbóta fyrir sveitir landsins og þjóðfélagið allt.

 

En jafnframt þessu hefur landbúnaðurinn verið mikilvæg kjölfesta. Hann hefur skipt gífurlega miklu máli í byggðaþróuninni og með fjölbreytni sinni og nýjungum opnað nýjar leiðir og möguleika til búsetu í hinum dreifðari byggðum landsins. Þetta hefur landbúnaðurinn ekki gert með því að varðveita kyrrstöðuna, heldur með því að auðvelda okkur að takast á við framtíðina og breytingarnar og nýta okkur þau tækifæri sem í þeim eru falin. Í því hefur styrkur landbúnaðarins einmitt falist.

 

Og þess vegna er landbúnaðurinn í dag gjörólíkur þeim landbúnaði sem við þekktum fyrir fáeinum árum. Núna er til dæmis heyskap lokið á viku, mjaltir fara fram í hátæknivæddum fjósum, sauðfjárrækt útheimtir allt annars konar vinnu og auðveldari en áður. Og síðan það sem oft gleymist. Landbúnaður er einnig garðyrkja af margs konar tagi, umsýsla og rekstur frístundabyggða, skógrækt og landgræðsla, ferðaþjónusta af alls konar toga, loðdýrabúskapur, hlunnindanýting, til sjós og lands, í vötnum og ám, alifuglarækt, svínabúskapur, hrossarækt, afþreyingarþjónusta af fjölþættasta tagi og ekki má á þessum orkunýtingartímum gleyma raforkubændunum okkar. Er það þó víðs fjarri að allt sé upp talið sem einkennir íslenskan landbúnað í dag og við teljum nú orðið sjálfsagt mál.

 

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við eigum ekki að óttast breytingarnar, né heldur líta á þær sem ógn. Þvert á móti. Hefði landbúnaðurinn ekki tekist á við breytingar í umhverfi sínu værum við einfaldlega ekki með landbúnað eins og við þekkjum hann í dag. Styrkurinn hefur einmitt falist í því að mæta nýjum tímum með framfarahug að vopni og að vera ótrauð í þeirri ætlan okkar að efla stöðu landbúnaðarins í nútíð sem framtíð.

 

Þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru, til dæmis með nýrri matvælalöggjöf, verða gerðar með hagsmuni íslensks landbúnaðar að leiðarljósi. Við munum gera strangar kröfur um heilbrigði matvæla og öll vitum við að slíkt þjónar hagsmunum landbúnaðarins, enda þótt það sé gert í þágu neytenda. Þetta er enn ein sönnun þess að hagsmunir landbúnaðarins og neytenda fara jafnan saman.

 

Ég vil leggja mig fram um að vinna þessi mál í sem mestri sátt við bændur og aðra hagsmunaaðila á sviði landbúnaðar. Sjálfur er  ég sannfærður um að slíkt samstarf getur dugað okkur til þess að ná niðurstöðu sem verður viðunandi landbúnaðinum og færir honum ný tækifæri.

 

Hér á Suðurlandi er stundaður öflugur og fjölþættur landbúnaður. Á grundvelli hans hafa risið kröftugar og landsþekktar afurðastöðvar, sem gegna miklu hlutverki í atvinnusköpun og framleiðslu á landbúnaðarvörum. Þessi fyrirtæki hafa fyrir löngu tileinkað sér þær reglur sem liggja munu til grundvallar nýjum matvælalögum. Þetta skapar þeim forskot. Þeim verður því ekki skotaskuld úr því að mæta nýjum reglum. Ég er því sannfærður um að við getum gengið þannig frá lagaumhverfinu að það skapi þessum fyrirtækjum ný tækifæri, nýja möguleika.

 

Það er ljóst að stjórnvöld hafa svigrúm til að fylgja því eftir að innflutt matvæli standist kröfur okkar um hreinleika og heilbrigði. Það er ætlun mín að nýta það svigrúm til hins ítrasta. Ég ætla líka að fullyrða að fáir vilja ganga þannig frá löggjöfinni að hagsmunir landbúnaðarins og úrvinnslugreinanna verði fyrir borð bornir. Það er í það minnsta ásetningur stjórnvalda að hagsmuna landbúnaðar okkar sé gætt. Og ég lít meðal annars á það sem mitt hlutverk að tryggja það; verkefni sem ég vil axla af ábyrgð. Ég hlakka því til góðs samstarfs við bændur og samtök þeirra um nánari útfærslu þessara mála.

 

Ágætu bændur og aðrir gestir.

Sannarlega hefur ýmislegt verið mótdrægt landbúnaði okkar upp á síðkastið. Hækkanir á aðföngum svo sem á áburði, kjarnfóðri og olíu - en síðast og ekki síst - mun dýrara fjármagn, hefur reynst landbúnaðinum þungt í skauti. Erfitt hefur reynst vegna markaðsaðstæðna að velta þessum byrðum af herðum búvöruframleiðslunnar. Á hinn bóginn er ljóst að hlutfallsleg samkeppnisstaða íslenskra bænda í samanburði við innfluttar matvörur hefur batnað upp á síðkastið. Matvæli hafa hækkað mikið á erlendum mörkuðum, þó eitthvað hafi það gengið til baka. Gengi krónunnar hefur að þessu leyti verið hagstætt samkeppnisgrein eins og landbúnaðinum. Það er því ljóst að þeir sem hæst hafa galað, um hátt verð á íslenskum landbúnaðarvörum, þurfa nú að hugsa sín mál upp á nýtt. Verðsamanburður á landbúnaðarvörum okkar og sambærilegum vörum í nágrannalöndunum er allt annar nú en hann var fyrr á þessu ári, okkar íslenska landbúnaði í vil.

 

Þessi nýja staða skapar okkur tækfæri og styrkir stöðu innlendrar búvöruframleiðslu í þeim þrengingum sem dýrari aðföng kalla yfir okkur. Það er mikilvægt að menn átti sig á þessari stöðu og reyni að skapa sér forskot á sem flestum sviðum.

 

Sem fyrr hef ég því tröllatrú á möguleikum íslensks landbúnaðar. Við vitum að neytendur vilja íslenskar matvörur, umfram þær innfluttu. Við þekkjum að landbúnaðurinn getur nú boðið margfalt fjölþættari vöruflokka en nokkru sinni áður. Það liggur fyrir að íslensk landbúnaðarframleiðsla er af hæsta gæðaflokki og stenst því vel alla þá staðla og kröfur sem þeir gera sem lengst vilja ganga. Á ýmsum sviðum er veruleg aukning framleiðslunnar að eiga sér stað og það jafnvel þvert á spá manna.

 

Landbúnaðurinn okkar á því mikil tækifæri og margþætta möguleika á komandi árum. Þau tækifæri geta bændur gripið. Og stjórnvöld vilja skapa sem best skilyrði til þess að slíkt sé unnt. Ég vil færa sunnlenskum bændum mínar bestu hamingjuóskir í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands og óska þeim til hamingju með stórglæsilega Landbúnaðarsýningu, sem gaman verður að fá að kynna sér frekar hér á eftir.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum