Hoppa yfir valmynd
12. september 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ráðstefna Sjávarútvegsklasans á Vestfjörðum undir kjörorðinu: Er íslenskur sjávarútvegur að glata sérstöðu sinni?, 11. september 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

flutt í Flókalundi 11. september 2008

á ráðstefnu Sjávarútvegsklasans á Vestfjörðum undir kjörorðinu:

“Er íslenskur sjávarútvegur að glata sérstöðu sinni?”

Ágætur útgerðarmaður lagði leið sína fyrir fáeinum árum í Fish&Chips verslun í London og í þann mund sem hann var að fá afgreiðslu spurði hann manninn bak við búðarborðið, hvaðan þessi þorskur væri sem hann væri að fara að kaupa. Sá breski horfði djúpt í augu hins íslenska útgerðarmanns og sagði síðan með miklum sannfæringarkrafti: „Það get ég sagt þér, kæri vinur, hann er úr sjónum.”

Kannski var þetta sú sýn sem menn höfðu almennt. Það væri nægjanlegt að geta þess að fiskurinn kæmi úr sjónum, jafn augljóst og það nú er hygg ég flestum sem málið varðar.  Auðvitað voru tengsl fiskframleiðendanna og markaðarins miklu veikari hér áður fyrr en nú. Þá voru fjarskipti lakari, samgöngur erfiðari og að hluta til töfðu kannski tungumálaörðugleikar samskipti framleiðenda og kaupenda erlendis. Fyrirkomulag sölumála var þannig að þau voru í höndunum á þremur stórum fyrirtækjum í aðalatriðum og hið beina og sterka samband framleiðandans og hins endanlega kaupanda var ekki til staðar í þeim mæli sem við þekkjum núna.

 

Mig rekur minni til þess sem strákur hér fyrir vestan að það voru nokkur tíðindi þegar erlendum kaupendum skolaði á fjörur okkar. Vissulega komu þeir á vettvang; ekki síst þegar verið var að fitja upp á nýrri framleiðslu. Mér eru til dæmis í minni heimsóknir belgískra grálúðukaupmanna þegar línuveiðarnar á grálúðu fyrir Norðurlandi voru að byrja, í kring um 1970, ef ég man rétt. Langsterkustu teiknin um tengsl kaupenda  og seljenda sá maður hinsvegar við framleiðslu á loðnu og loðnuafurðum og síðar í rækjuvinnslunni þegar ég tók sjálfur þátt í útgerð á rækjuskipi með fullvinnslu um borð. Þar voru kröfurnar um sterk tengsl markaðarins og framleiðendanna fyrir hendi. 

 

Nú er þetta mikið breytt, meðal annars af ástæðum sem ég hef tæpt á.

 

Ég hygg að þið sem hér eruð inni og standið fyrir sjávarútvegsrekstri þekkið flestir að tengslin við markaðinn hafa eflst mjög mikið. Beinn útflutningur á óunnum, ísuðum fiski kallaði á sínum tíma á sterkari markaðstengsl kaupanda og seljanda. Síðan hefur það gerst að þróunin síðustu árin hefur af ýmsum ástæðum,  orðið sú að markaðstengslin hafa vaxið mjög. Samhliða þessu hafa áherslurnar líka breyst á margan hátt. Þær spurningar sem kaupendur spyrja hafa breyst í tímans rás og meðvitund fólks um mikilvægi umhverfisins og hvernig staðið er að auðlindanýtingunni hefur aukist mikið. Þetta á  ekki síst við hjá þeim sem mestu ráða, þ.e.a.s. hjá innkaupastjórum stórmarkaða. Þess vegna spyrja þeir  spurninga um nýtingu auðlindanna. Og ástæðan er sú að þeir telja sig þurfa að geta svarað þessum spurningum gagnvart viðskiptavinum sínum. Svarið er ekki lengur nægjanlegt, að fiskurinn komi úr sjónum. Menn þurfa líka að svara af hvaða hafsvæðum og hvernig staðið sé að veiðunum. Er hann er nýttur með ábyrgum, sjálfbærum hætti og svo framvegis.  Það eru svör við þessum áleitnu og vandasömu spurningum sem  seljendur verða að geta veitt þeim sem þeir eiga viðskipti við. 

 

Eftir 17 ára þingmannsreynslu dugir sennilega ekki að segja annað en að það sé alltaf ánægjulegt að vera í framboði, en hitt skal ég þó segja ykkur; það er miklu ánægjulegra að vera í eftirspurn! Og ég hef svo sannarlega fundið fyrir því sem sjávarútvegsráðherra frá árinu 2005, að eftirspurn eftir sjónarmiðum Íslendinga þegar kemur að auðlindanýtingu er mikil á erlendri grund. Að sumu leyti kom þetta mér á óvart. Ég vissi að vísu að íslenskur sjávarútvegur hefur ævinlega notið mikils álits og greinin hefur oft notið góðs af því í hærra verði en keppinautarnir. Þessi mynd hefur hins vegar orðið miklu skýrari á undanförnum árum í mínum huga. Þess vegna leiðist mér að hlusta á niðurdrepandi og neikvæða umræðu um íslenskan sjávarútveg og hvernig að honum er staðið hér innanlands. Það er ekki sú mynd sem kunnáttufólk erlendis, sem getur borið okkar sjávarútveg saman við sjávarútveg annarra þjóða, hefur í huga sér. Því þótt við getum sannarlega gert betur – og það reyna menn stöðugt – þá þurfum við ekki að skammast okkur fyrir samanburð okkar sjávarútvegs við það sem best þekkist í nágrannalöndum okkar. 

 

Mér eru mjög ofarlega í sinni í þessu sambandi orð eins af stærstu kaupendunum á íslenskum fiski á meginlandi Evrópu sem ég hitti á síðastliðnum vetri, þegar ég var kallaður til að flytja fyrirlestur um íslenskan sjávarútveg og auðlindastefnu suður í Þýskalandi. Þessi ágæti maður sagði við mig: „Þið gerið ykkur vonandi grein fyrir því að íslenskur fiskur er í sjálfu sér gæðamerki. Það að við sem þekkjum til getum með sanni sagt að sá fiskur sem við höndlum með sé veiddur innan íslenskrar fiskveiðilögsögu  og unninn eftir íslenskum stöðlum og reglum, er í sjálfu sér nægjanlegt gæðavottorð fyrir okkur.“ Mér þótti ekki einasta vænt um þetta, af því að ég vissi að hér mælti maður sem mark er á takandi. Heldur var þetta auðvitað sönnun þess að við njótum góðs orðspors, sem á að geta gagnast okkur í markaðslegu tilliti.

 

Þess vegna er svar mitt við yfirskrift fundarins: Er íslenskur sjávarútvegur að glata sérstöðu sinni? NEI - íslenskur fiskur hefur og heldur sérstöðu sinni. Íslenskur fiskur hefur gott orðspor. Íslenskur fiskur nýtur þess álits sem honum ber.  Við höfum því á miklu að byggja og tækifærin eru margvísleg.

 

Það breytir því hins vegar ekki því að þróunin hefur verið mjög skýr á undanförnum árum.  Markaðurinn krefst staðfestingar á uppruna vörunnar. Kannski ekki kerlingin eða karlinn sem fer út í búð til að gera helgarinnkaupin sín, en það er mat þeirra sem sjá um innkaupin fyrir hinar stóru verslunarkeðjur, að til þess að þeir geti með góðri samvisku boðið fisk í búðum sínum, þá þurfi þeir einhvers konar staðfestingu á því að fiskurinn sé veiddur úr sjálfbærum stofnum. Að löggjöfin um veiðarnar sé ábyrg, að sjávarútvegurinn lúti reglunum og nálgist auðlindanýtinguna af varúð en ekki kæruleysi.  Þetta hefur ekki farið framhjá neinum sem höndlar með fisk. Við þekkjum að ýmsar verslanakeðjur hafa einfaldlega lýst því yfir að þær muni ekki selja – og þar með þá ekki kaupa fisk – sem ekki sé með viðurkennda umhverfisvottun. Þeir gera mér vitanlega ekki almennt kröfu um tiltekna vottun, en vottun skal það vera. Þessar kröfur hljótum við að taka alvarlega og sannarlega hafa menn gert það. Umræðan hefur hins vegar þurft að þróast og myndin að skýrast.

 

Umræður um íslenskt umhverfismerki og hvernig bregðast á við kröfunum sem ég vísa hér til, hafa staðið allan þann tíma sem ég hef verið sjávarútvegsráðherra og gott betur. Það hefur orðið mjög merkjanleg viðhorfsbreyting á þeim tíma. Ég tel að í dag sé enginn vafi í hugum þeirra sem um véla að nauðsynlegt sé að merkja okkar fisk með vottuðu umhverfis- og upprunamerki, til þess að hann hafi að minnsta kosti sanngjarna samkeppnisstöðu á erlendum mörkuðum. Fjölmargir fundir sem ég hef sótt, þar sem setið hafa fulltrúar úr sjávarútvegi víðs vegar að af landinu og úr þeim hagsmunasamtökum sem láta sig málið varða, hafa verið á eina lund. Sem sé að verði niðurstaðan sú, að við þurfum að merkja okkar fisk sérstaklega, þá beri okkur að stefna að íslensku umhverfismerki þar sem við setjum leikreglurnar. Jafnframt sé tryggt að þetta sé gert með gagnsæjum og trúverðugum hætti sem ekki verði dreginn í efa. Þess vegna þurfi sjálfstæða vottun, sem við síðan lútum og undirgöngumst. 

 

Ein varðan á þessari leið var umhverfisyfirlýsing sú um fiskveiðar sem ég undirritaði þann 7. ágúst í fyrra ásamt forstjóra Hafrannsóknarsofnunarinnar, Fiskistofu og formanns Fiskifélags Íslands. Þetta var stefnumarkandi yfirlýsing, sem unnið hafði verið að á vettvangi Fiskifélagsins og með þátttöklu okkar annarra sem stóðum svo að henni. Hér er byggt á FAO code of conduct, sem er grundvallarplagg þegar kemur að umræðunni um umhverfismerkingar og verður lagt til grundvallar okkar starfs að þeim.  Mér er kunnugt um að ýmsir seljendur á íslenskum sjávarafurðum hafa nýtt sér þessa yfirlýsingu og telja að hún sé til gagns. En þó er öllum ljóst að betur má ef duga skal. Umhverfismerki og þá íslenskt umhverfismerki er sú niðurstaða sem við höfum komist að.

 

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það, hvers vegna við höfum komist að þessari niðurstöðu. Ég tel hins vegar að hún sé skynsamleg, meðal annars út frá sjónarmiði auðlindanýtingar. Það er gríðarlega margt sem þá þarf að hafa í huga. Við setjum að sjálfsögðu leikreglurnar en síðan trygggir sjálfstæður aðili að þeim sé fylgt. Það í sjálfu sér leggur á herðar okkar heilmikla ábyrgð. Það er til dæmis öllum ljóst sem að þessum málum koma að þetta þýðir í raun að við getum ekki tekið ákvarðanir um heildarafla eða nýtingu okkar auðlindar, án hliðsjónar af því sem vísindalegar ráðleggingar kveða á um. Eða dettur einhverjum í hug að umhverfismerki, sem byggðist á því að við veiddum langtum meira heldur en fiskifræðingar leggðu til í þorski, yrði tekið trúanlegt á alþjóðlegum markaði?  Ég veit að ég þarf ekki að svara þessari spurningu, svarið er svo augljóst. Með öðrum orðum – með því að taka upp umhverfismerki, hvort sem það er íslenskt eða erlent, þá öxlum við ákveðna ábyrgð og setjum ákveðnar skorður sem við ætlum að lúta. Við þurfum semsé að vera trúverðugir. Þótt við viljum hafa frelsi til að setja leikreglurnar, þá gerum við okkur líka grein fyrir því að sá rammi sem við undirgöngumst með ákvörðun um að taka upp umhverfismerki, setur okkur líka ákveðin mörk um ýmsa þætti auðlindanýtingarinnar.  Þessu veit ég að menn gera sér grein fyrir.

 

Í raun og veru held ég að okkur sé ekkert að vanbúnaði. Við höfum sterka stöðu. Við höfum umgengist auðlind okkar af mikilli ábyrgð og varúð, alltof mikilli varúð, segja reyndar mjög margir.

 

Við getum því unnið  áfram á þessari braut á leið til íslensks umhverfismerkis. Það eru þó ekki stjórnvöld sem geta í sjálfu sér tekið ákvarðanir í þá veru.  Þar verður atvinnugreinin að vera leiðandi.  Stjórnvöld geta aðstoðað á margvíslegan hátt eins og við höfum reynt að gera, eftir því sem óskað hefur verið eftir. Og ég vil lýsa hér yfir að við erum reiðubúin að leggja ykkur lið okkar í þessari vinnu.

 

 Það fer ekki á milli mála að ég hef verið þess hvetjandi að taka upp íslenskt umhverfismerki. Ég hef hins vegar ekki talið að ég ætti sem fulltrúi stjórnvalda, að reyna að troða þessari skoðun minni niður í kokið á atvinnugreininni, enda myndi það litlum tilgangi þjóna. Þess vegna hefur mér fundist gott að vinna að þessu með uppbyggjandi hætti, eins og gert hefur verið undanfarin ár, með fulltrúum íslensks sjávarútvegs.

 

Þær meginreglur sem núna verða kynntar fyrir okkur, sem Fiskifélag Íslands og starfshópur á þess vegum hefur unnið, setja okkur ýmsar skorður. Og þannig er það líka með leikreglur. Það gera sér allir ljóst. Við lýsum því yfir að stjórnkerfi fiskveiða við Ísland byggist á því að ganga vel um auðlindina, vinna með ábyrgum hætti í samræmi við alþjóðlega og innlenda löggjöf og að leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Þetta hljómar kannski sem sjálfsagður hlutur, en þegar því er breytt í verkefni og ákvarðanir, þá hefur það í för með sér heilmiklar skyldur. Ég vil undirstrika þennan þátt málsins vegna þess að það má ekki líta þannig á að þetta sé létt eða auðvelt, eða geri mönnum kleift að bregðast við hvernig sem er. Það er ekki svo. Hins vegar eru himin hrópandi hagsmunir fólgnir í því að tryggja aðgengi okkar fiskafurða á erlenda markaði og það er til mikils að vinna.

 

Ég átti fyrir skemmstu tal við fulltrúa eins helsta kaupanda á íslenskum fiski sem lagði ríka áherslu á þessa þætti. Hann benti einnig á að ef aðgengi íslenskra afurða væri tryggt í hillur gæðaverslana væri það auðvitað heilmikill vegsauki okkur til handa. Gæðastimpill sem við stæðum undir sem fiskframleiðendur vegna okkar góða orðspors. 

 

Aðalmarkmiðið með því sem nú stendur fyrir dyrum er ósköp einfaldlega þetta:  Búa til ramma, sem sannarlega leggur okkur skyldur á herðar, en er jafnframt til þess fallinn að efla íslenskan sjávarútveg. Þess vegna komum við hér saman til að ræða þessi mál. Ég vil þakka Sjávarútvegsklasanum á Vestfjörðum og þeim öðrum sem standa fyrir þessum fundi, fyrir þeirra frumkvæði og að bjóða mér hingað til að taka þátt í umræðunni.  Ég tel að hér sé til umfjöllunar eitt stærsta viðfangsefni íslensks sjávarútvegs um þessar mundir og þess vegna skipti miklu máli að vandað sé til verka. Það hefur verið gert af þeim sem hafa undirbúið upptöku íslensks vottunarkerfis og umhverfismerkis. Ég vil í því sambandi sérstaklega þakka Kristjáni Þórarinssyni fyrir hans mikla atbeina en sömuleiðis öllum þeim öðrum sem að málinu hafa komið. 

 

Ég veit að ýmsir innan greinarinnar hafa talið að við höfum ekki rekið trippin nægilega hratt.  Of lengi hafi það dregist að ljúka þeirri vinnu sem við fjöllum um hér í dag.  Því er nú til að svara, að í upphafi voru menn alls ekki á eitt sáttir um hvert stefna skyldi. Ýmsir höfðu efasemdir um þýðingu þess yfirhöfuð að vinna inna umhverfismerkis. Svo voru þeir líka til í bransanum sem vildu einfaldlega skella sér í bærðralag með MSC eða öðrum viðlíka um umhverfismerki. Þessi mál þurfti að ræða í þaula og fyrir því er margföld reynsla að slíkar umræður taka sinn tíma.

 

Svo til viðbótar vil ég segja að þetta er ekki áhlaupsverk og við verðum að vanda okkur, því það munu margir fylgjast með og reyna að skjóta okkur niður sé þess nokkur kostur.  Þess vegna held ég að mánuður eða fáeinir mánuðir til eða frá skipti ekki öllu máli. Það er aðalatriðið að við erum komin að ákveðnum þáttaskilum – eftir þrjár vikur verður nýtt merki kynnt og síðan næstu skref í því verkefni. Ég heiti á íslenskan sjávarútveg að standa þétt saman og vinna vel að þessu mikla hagsmunamáli sínu og þjóðarinnar allrar.

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum